31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Frsm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Eftir ósk, sem kom fram hér við umr. málsins fyrir nokkrum dögum, hefur menntmn. þessarar hv. d. sent háskólaráði þetta frv. til umsagnar. Það hafði verið fundið að því hér, að ekki væri leitað umsagnar háskólaráðs um frv. Það barst svar frá háskólaráði strax daginn eftir að við sendum frv. til umsagnar, og er svarið dagsett 29. jan. 1945 og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Til svars bréfi hv. menntmn. dagsettu í gær um frv. til laga um prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals, leyfi ég mér að skýra frá því, að háskólaráð hefur á fundi í dag samþ. einróma að mæla með því, að þetta frv. nái fram að ganga óbreytt. Virðingarfyllst, Jón Hj. Sigurðsson. Til menntamálanefndar Ed. Alþingis.“

Menntmn. hefur, síðan frv. var síðast á dagskrá, athugað það nánar, og ég hef sérstaklega kynnt mér, hvernig frv. er fram komið í Nd. Það er flutt af 4 þm., einum frá hverjum flokki, og 3 af þeim eru í menntmn. Nd., sem flutt hefur fleiri frv. um breyt. á Háskólanum. Frv. er því flutt að frumkvæði þaðan, og ég hygg, að það hafi sérstaklega verið hv. þm. Snæf., og eins og ég taldi víst, að það mundi hafa verið í samráði við dr. Sigurð Nordal. Eins og hv. þm. er kunnugt, er aðalefni þessa frv. að veita dr. Sigurði Nordal undanþágu frá kennsluskyldum og láta hann halda fullum launum, en gefa honum samt kost á því að vera tengdur Háskólanum og halda því prófessorsréttindum sínum áfram. Við síðustu umr. var sérstaklega fundið að því atriði, að hann skyldi fá lausn frá kennsluskyldum, en halda samt fullum réttindum við Háskólann. Ég hef rætt þetta við form. menntmn. Nd. og einnig við einn af flm., hv. þm. Snæf., og þeir segja, að frv. sé á þennan hátt til orðið vegna þess, að þeir óskuðu eftir því, að þótt dr. Sigurður Nordal fengi undanþágu frá kennsluskyldum, þá fengi Háskólinn að njóta kennslukrafta hans áfram, og einnig hefði hann sjálfur óskað að fá að vera tengdur við Háskólann, nemendur sína og deild, sem hann hefur starfað fyrir með mjög góðum orðstír svo mörg ár. Og þeir töldu einnig, að Háskólanum væri mjög mikill stuðningur að því, að maður eins og dr. Sigurður Nordal væri tengdur Háskólanum. Það, sem sérstaklega var fundið að þessu við umr. hér, var það, að með þessu væri skapað fordæmi, sem ekki væri heppilegt, að prófessor gæti verið leystur frá kennsluskyldum, en njóti samt allra réttinda. Þetta er ekkert einsdæmi, þess eru mörg dæmi við erlenda háskóla, að prófessorum og vísindamönnum séu veittar undanþágur sem þessi og haldi fullum réttindum við Háskólann, þó að þeir sinni ekki kennsluskyldum. Ég skal aðeins nefna eitt dæmi. Prófessor Georg Brandes hafði um mörg ár réttindi við Kaupmannahafnarháskóla, eftir að hann lét af prófessorsembætti. Ef ekki hefði verið um annað að ræða en dr. Sigurður Nordal fengi undanþágu frá kennsluskyldum, en hefði framvegis full laun, þá hefði verið óþarft að semja um þetta sérstakt frv., þá hefði nægt að setja þetta inn á fjárl. eins og hefur verið gert með tvo aðra prófessora. Frv. er einmitt komið fram og orðað á þennan hátt, vegna þess að flm. töldu það stuðning fyrir Háskólann, að dr. Sigurður Nordal yrði framvegis tengdur honum. Og jafnframt hafði hann óskað eftir því að halda áfram sambandi sínu við nemendur sína og deild. Hins vegar hefur það verið rætt við dr. Sigurð Nordal, hver afstaða hans væri til þess að eiga áfram afskipti um mál og stjórn Háskólans, og hv. þm. Snæf. hefur sagt mér eftir honum, að hann hefði alls ekki hug á því, þegar búið er að leysa hann frá kennslustörfum, að hafa neina íhlutun um stjórn Háskólans.

Til viðbótar þessu vil ég drepa á það, að því var haldið fram hér, að norrænudeildin væri eftir fjölgunina síðustu svo fjölmenn, að hún gæti á þann hátt ráðið tiltölulega meiru en henni bæri í málefnum Háskólans. En í rauninni er það háskólaráð, sem fer með stjórn Háskólans, og það er á fundum háskólaráðs, er öll málefni, sem Háskólann varða, eru tekin til athugunar, en í háskólaráði hefur hver deild, hvort sem hún er stór eða smá, einn mann. Að þessu leyti skiptir það því engu. Sigurður Nordal mun hafa boðizt til þess að gefa yfirlýsingu um þetta atriði, að þrátt fyrir það að hann héldi fullum rétti, eins og greinir í frv., þá mundi hann alls ekki að neinu leyti óska eftir að taka þátt í stjórn Háskólans. Ég ætla því, að með þeirri yfirlýsingu, sem yrði lesin hér upp og prentuð í þingtíðindunum, ætti að vera tryggilega fyrir þessu séð gagnvart þeim mönnum, sem óttast, að afskipti hans af Háskólanum væru ekki vel séð af öðrum deildum Háskólans. Ég held, að menntmnm. allir hér í d. séu sammála flm. um það, að Háskólanum sé mikill stuðningur og vegur að því, að Sigurður Nordal sé framvegis við Háskólann, þó að hann sé undanþeginn kennsluskyldu, á þann hátt, að hann geti haft samband við norrænustúdentana o.s.frv. og verið í ráðum með kennurum að einhverju leyti í sinni deild. Þó að við getum í rauninni vel skilið, að hv. alþm. geti, þegar þeir líta lauslega yfir frv., fundizt, að þarna væri einstökum prófessor veitt allmikil réttindi, þá býst ég við, ef þeir athuga málið, þá geti þeir fallizt á, að hér sé ekki um neitt hættulegt fordæmi að ræða, og ég segi fyrir mig, og ég held, að ég tali þar fyrir hönd allra nm., að ég held, að við óskum allir eftir, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir. Mér fyndist það mjög óviðkunnanlegt, ef hv. d. færi að gera brtt. við þetta frv. og reka það aftur til Nd. fyrir smávægileg atriði, sem hér um ræðir, og ekki sízt, ef hæstv. menntmrh. læsi upp, eins og ég býst við, að hann geri, yfirlýsingu frá Sigurði Nordal um það, að hann mundi ekki ætla sér að hafa afskipti af stjórn Háskólans, og fæst þá með frv. það, sem fyrir flm. vakti, að gefa Sigurði Nordal kost á að vera í tengslum við Háskólann áfram og gefa skólanum kost á því að njóta kennslukrafta hans, ef svo stæði á, að hann hefði tíma til þess að sinna þar kennslustarfi og halda fyrirlestra við Háskólann. Viðvíkjandi brtt., sem fram er komin á þskj. 966 frá hv. þm. Barð., um það, að ef Sigurður Nordal lætur af kennslu við heimspekideild Háskólans, þá skuli leggja niður dósentsembætti, sem stofnað var við norrænudeildina með l. nr. 66 1944, trúi ég því varla, að þessi till. sé flutt í alvöru hér á Alþ., það er alveg nýbúið að samþ. að fjölga dósentsembættum við heimspekideild, og það er broslegt að fara að ætlast til þess, að sama þing afnemi embætti, sem það var að enda við að stofna. Auk þess er till. mjög óskýr, því að það var ekki stofnað eitt dósentsembætti við norrænudeildina, heldur tvö, og það verður ekki ráðið af till. hvort dósentsembættanna eigi þá að falla niður, og það er ekkert um það, hver eigi úr því að skera. Ég þykist þess fullviss, að það sé enginn maður hér í hv. d., sem færi að ljá þessari till. atkv. sitt, svo að ég tel ekki ástæðu til að ræða um hana frekar, en vildi þó óska þess, að hv. d. fari ekki að hrófla við frv., heldur sjái sóma sinn í því að samþ. það óbreytt eins og það er flutt og hefur verið afgr. frá hv. Nd.