02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (3185)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég vil geta þess, að fjhn. hefur ekki tekið neina ákvörðun um brtt., sem fyrir liggja. Það er orðið þannig síðan 2. umr., þar sem ég hafði framsögu f. h. n., að þá kom ein af þessum till. mjög til umr. Það er 2. brtt. á þskj. 1247. Virtust menn sammála um, að rétt væri að breyta l. í þá átt, sem sú till. gengur, svo að ég hygg, að ég megi fullyrða, að n. mundi mæla með þeirri till., ef hún væri undir hana borin.

Að því er snertir 1. brtt. á sama þskj., þá skal ég taka fram, að hvað mig snertir, en ég hef þar ekkert umboð að tala f. h. n., þá finnst mér hún sanngjörn í alla staði, og er ég því reiðubúinn að greiða henni atkv.

Hvað snertir brtt. hv. þm. Seyðf., þá er það að segja, að mér finnst þau rök, sem hann hefur fært fram, vera réttmæt. Ég mun því eftir fljótlega íhugun ekki mæla móti þessari till. En þess er að gæta, að hér er um að ræða stórt framkvæmdaratriði í skattal., og ég vil vekja athygli á því, að það er dálítil áhætta að samþ. þessa till. nú, sem er komin fram á elleftu stundu, án þess að þingnefnd hafi um hana fjallað neitt að ráði. Ég skal játa, að þetta kom aðeins til umr. í n. fyrir nokkrum dögum, en þó lauslega, svo að það er sama og ekki. Ég hygg, að þau skattayfirvöld, sem hlut eiga að máli, hafi t. d. ekki verið til kvödd að segja álit sitt um það, hvernig þetta mundi verða í framkvæmdinni, ef lögtekið yrði. Ég veit ekki, hvenær þingi lýkur, en mér sýnist á öllu, að það muni verða á morgun. Er þá auðvitað ekki góðra kosta völ að því er þetta snertir, því að þá er tilgangslaust að fresta málinu og taka það af dagskrá nú til þess að n. athugi það. En þó að þessi till. sé einföld og hún kunni að vera réttmæt og mér þyki ekki ólíklegt, að ég gæti á hana fallizt, þá finnst mér, að réttara hefði verið, að svona atriði væri athugað nánar, áður en það væri lögtekið, og þessu getur ekki legið svo mikið á, að það mætti ekki bíða næsta þings, og þess vegna hefði mér fundizt réttara af hv. þm. að taka till. aftur nú. Ég hugsa, að hann hafi öll skilyrði til að geta komið þessari brtt. fram og það þegar næsta haust. Þetta er aðeins mælt í varúðarskyni, en ekki af því, að ég hafi tekið ákvörðun um að vera á móti brtt. En eins og ástatt er, sé ég ekki ástæðu til að greiða henni atkv., þó að ég muni ekki leggja á móti henni. Og brtt. er, eins og ég hef tekið fram, alveg óathuguð af n. og, eftir því sem ég bezt veit, af hæstv. fjmrh. einnig.