09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

27. mál, skipun læknishéraða

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Ég hef nú verið nokkuð undrandi yfir sumum þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar í kvöld út af þessu máli. Mér virðist þetta frv., eins og það nú er orðið, stefna ákveðið í þá átt að auðvelda því fólki að fá læknishjálp, sem í strjálbýlinu er og örðugast á með að ná til læknis. Og þá rísa menn upp hér, hver á fætur öðrum, sem þó vilja láta kalla sig fulltrúa sveitanna, og vilja nú koma þessu máli fyrir kattarnef. Það hefur verið stefnan hjá okkur, að embættum hefur verið fjölgað sí og æ og opinberum starfsmönnum í þéttbýlinu, bæði í Reykjavík og annars staðar, en fækkað sem allra mest úti á landsbyggðinni. Þetta hefur jafnan gengið í þá átt að gera þeim örðugra fyrir um að geta notið sín, sem úti á landsbyggðinni starfa. Og þeir hafa yfirleitt verið launaðir verr en hinir, sem starfa í þéttbýlinu.

Þetta frv., sem hér um ræðir, er flutt af hæstv. ríkisstj., að vísu í annarri mynd en það er nú. Það er búið að ganga á Alþ. gegnum sex umr. og taka mjög mikinn tíma. Ég tel það þess vegna vera undarleg vinnubrögð, — þrátt fyrir það að ekki hafi verið til þess ætlazt að afgreiða mörg önnur mál en þau, sem voru tilefni þess, að þing var nú kallað saman, — að fara að vísa þessu máli frá til þess að taka upp aftur á framhaldsþinginu í haust alla þá deilu, sem búin er nú að vera um málið í báðum d. þingsins.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. S.-M. var að tala um, að frv. hefði verið flutt eingöngu vegna héraðs á Austurlandi af hæstv. ríkisstj., er það að segja, að í því er annað ákvæði frá hendi stj., sem sé um að færa til læknissetur í fjölmennu héraði í Árnessýslu. Og mér þykir ekkert undarlegt, þó að íbúarnir þar í tveimur fjölmennum kauptúnum óski eftir að fá að halda lækni sínum, en lagt sé til að bæta öðrum við, sem þá starfaði fyrir sjö hreppa.

Varðandi breyt., sem hv. þm. Snæf. hefur barizt fyrir, er það að segja, að hún er ekki ný, heldur hefur verið flutt áður á hæstv. Alþ. Þar á Snæfellsnesi sunnanverðu er um örðugar samgöngur að . ræða, og þarf því engan að undra, þó að hv. þm. Snæf. sæki fast að fá þá brtt. samþ., úr því að hér er frv. á Alþ. um breyt. á læknaskipun landsins að ýmsu leyti.

Síðasta till., sem sett hefur verið fram við þetta frv., um sérstakt læknishérað á Borðeyri, er sjálfsagt vafasömust af þeim till., sem hér er um að ræða. Það kann að vera, að þær brtt., sem hér liggja fyrir við frv., eigi nokkurn rétt á sér. En ég fyrir mitt leyti tel varhugavert að samþ. á síðustu stundu nýjar brtt. við þetta frv. og senda frv. til hv. Ed., en réttara, að þær till. séu látnar bíða. En hér kemur fram eins og oft áður þessi mikla trú margra hv. þm. á nefndaskipun, svo að þeir vilja nú fara að setja nýja n. til þess að gera ákvarðanir og till. og leggja svo fyrir Alþ. um þetta deilumál. Og svo skilst mér, að taka eigi alla deiluna upp um þetta mál aftur á þingsetutímanum í haust, ekki aðeins um þau héruð, sem hér er um að ræða, heldur og önnur héruð, þar eð um hefur verið rætt og deilt, að þörf sé á fleiri læknum sums staðar annars staðar á landinu, ef miða ætti við þá reglu, sem hér er farið eftir. En það er þá til athugunar fyrir þau héruð og fulltrúa þeirra, sem hlut eiga að máli. Ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að ganga frá þessu máli eins og það liggur nú hér fyrir.

Þá er það eitt atriði, sem orðið hefur til ásteytingar hv. 1. þm. Rang. (HelgJ), sú ádeila, sem hv. þm. Snæf. gerði á skoðanir og framkomu hans. Þykir mér mjög undarlegt, að hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. þm. Rang. skuli hafa snúið þeim ádeilum svo mjög öfugt sem þeir hafa gert, því að það er fullkomlega rangt, að hv. þm. Snæf. hafi á nokkurn hátt verið hér að finna að störfum hv. 1. þm. Rang. sem læknis í héraði. Ég hef ekki heyrt hv. þm. Snæf. finna að störfum hv. 1. þm. Rang. á því sviði. Starfssaga hans á því sviði er sjálfsagt mjög merkileg og góð eins og margra annarra héraðslækna þessa lands. Hitt er annað mál, hvort þær skoðanir, sem hv. 1. þm. Rang. hefur á skipun læknishéraða og læknaskipun að öðru leyti, eru heilbrigðar. Og um það voru ádeilur eða athugasemdir hv. þm. Snæf. í garð þessa hv. þm., en ekki um starf hans sem læknis í héraði sínu.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál. Það er búið að ræða þetta frv. mikið og breyta því nokkuð, að nokkru leyti í hv. Ed. og að nokkru leyti hér í hv. d. En mér þykir það undarleg aðferð hér á hæstv. Alþ., ef eftir allar þessar deilur á nú að vísa frv. frá á síðustu stundu.