26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (3246)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Þessar umr. gerast nú langar, og skal ég ekki lengja þær frekar, en það voru bara örfá orð út af ummælum hæstv. menntmrh., er hann sagði, að ósamræmis gætti hjá mér. Í því sambandi vil ég minna hann á, að hvorugur þeirra ráðh., sem hér hafa átt hlut að máli, nutu trausts míns. En nú er því svo farið, að ég styð þessa stj. og ber traust til hæstv. menntmrh. fram yfir þá, sem áður sátu. Og þegar nú hæstv. ráðh. lýsir því yfir, að ekki komi til mála að veita neinum öðrum en Birni Magnússyni þetta embætti, þá byggist hans yfirlýsing á því, að hann hefur kynnt sér alla málavöxtu og að enginn er til þessa hæfari en Björn Magnússon. Ef hins vegar hann hefði álitið aðra jafnfæra, þá hefði ég viljað láta þá reyna sig. Þetta ósamræmi, sem hann talar um hjá mér, kemur því af þeim orsökum, að ég ber meira traust til hans en fyrirrennara hans. Misskilningur hans orsakast af lítillæti hans, sem er hvers manns prýði, og stækkar hann í mínum augum við það. Hann gerir sér ekki ljóst það traust, sem ég ber til hans.

Annars hef ég ekki ástæðu til að deila við hæstv. ráðh., því að hann hefur borið fram í þessu máli sömu rök og ég notaði í stóra háskólafrv., svo að þau orð hafa ekki lent í svo ófrjóan akur sem vænta mátti og hafa borið ávöxt, þótt síðla sé. Hæstv. ráðh. var bara hlynntur þeirri deild, sem hér um ræðir. En ég tel það gott, að hann fái að læra það á sínum embættisferli, að jafnt verður að gera vinum sínum og óvinum. Nú stendur svo á, að norrænudeildin hefur eftir þetta þing 7 prófessora og dósenta, og ég tók það fram í umr. um stóra háskólafrv., að ekki yrði hjá því komizt að skapa öllum deildum Háskólans svipaða aðstöðu. Þess vegna er það, að hér er um réttmæta leiðréttingu að ræða.

Hv. þm. Barð. hélt því fram, að ég væri að koma á glundroða við Háskólann. Ég hef aldrei verið á móti því að fjölga kennurum við Háskólann, en ég hef bara haldið því fram, að ef slíkt er gert við eina deild, þá verði líka að gera það við aðrar deildir Háskólans, ef eigi á að gæta ósamræmis. Ég skora því á hæstv. ráðh. að gera samanburð á okkar háskóla og háskólum erlendis, og þá vænti ég, að við vöknum við vondan draum. Þjóðfræðadeild okkar háskóla er eins stór og við stærstu háskóla stærstu heimsvelda, á meðan aðrar deildir eiga við þröngan kost að búa. Þetta skapar rangt mat á því, hver fræðin eru mests virði.

Og þótt norræn fræði hafi mikið gildi, þá hafa kristin fræði það líka. Annars er það rétt, að ég hefði ekki verið þessu fylgjandi, ef stóra háskólafrv. hefði ekki fengið þá afgreiðslu, sem það fékk.