15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (3423)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Emil Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki draga í efa, að þessi aths. hv. þm. V.-Sk. hafi sprottið af tómri samkomulagsviðleitni eða áhuga fyrir því að ná endum saman. Sjálfsagt er það svo frá hans sjónarmiði, enda þótt ég eigi bágt með að skilja það, í því formi sem hans samkomulagsviðleitni kemur fram nú. Hann fór að bera saman svo ólíka hluti, að ég skil ekki, hvernig honum gat dottið í hug að bera slíkt fram. Hann sagði: Ég er reiðubúinn að ræða þetta frv., ef um leið er frestað greiðslu á verðlagsuppbót á laun verkamanna og starfsmanna að sama hluta og talað er um að fresta greiðslum til bænda. — Finnst honum hér vera líku saman að jafna? Mér finnst það ekki. Þetta er svo furðulega ólíkt, að ég get ekki skilið, hvernig hv. þm. hugsar sér að bera það saman. Verkamenn fá laun sín greidd vikulega, þ. e. a. s. þau laun, sem þeir þurfa að berjast fyrir með verkföllum og standa kauplausir fyrir það í mánuði, en bændur fá lögboðið fyrirhafnarlaust verðlag fyrir sínar afurðir og þurfa ekki að standa kauplausir í verkföllum til að fá það fram. Þessar verðuppbætur til bænda eru ekki greiddar á ákveðnum tíma, það geta liðið vikur og mánuðir þangað til þær koma í hendur mannanna sjálfra, og þá fara þær ýmsar krókaleiðir, sem ríkissjóður getur ekki kontrollerað, og ríkissjóður fær engar kvittanir fyrir, hvar þær lenda. Það er því ekki um að ræða neina riftingu á því, sem fyrir er, hvort greiðslan kemur mánuði fyrr eða seinna. Hitt væri veruleg systemrifting, ef ætti að fara að taka af verkamönnum hluta af þeirra verðlagsuppbót, enda veit ég, að hv. þm. ber þetta fram gegn betri vitund, af því að hann skortir önnur rök til að koma fram með í málinu.

Ég get ekki skilið þessa andúð gegn frv. eftir þá yfirlýsingu, sem hv. 1. flm. þessa frv. gaf í gær. Þótt það væri ekki í þessari d., þá breytir það engu, yfirlýsing hans var jafnskýr fyrir það, að engin endanleg ákvörðun verði tekin um greiðslu þessara uppbóta, þangað til séð er, hvernig þessum málum reiðir af. Hv. 4. þm. Reykv. hefur nú endurtekið þessa skoðun, svo að ekki verður um villzt. Öll önnur lýsing á frv. er bein hártogun, því að ef einhver vafi leikur á um frv., þá er yfirlýst, að flm. eru reiðubúnir til að færa það í það horf, að ekki verði um villzt.

Ef á að bera saman þær tvær aðferðir, sem hér liggja fyrir um greiðslumáta uppbóta til bænda, annars vegar till. Framsfl., sem samþ. var í gær með breyt. sjálfstæðismanna, og hins vegar það frv., sem hér liggur fyrir, þá er á þessu tvennu sá eðlismunur, að þegar búið er að ákveða þetta fyrir það tímabil, sem um er að ræða, þá er það óafturkræft og búið að slá því föstu, enda er það það, sem framsóknarmenn vilja, að málinu sé á þessu stigi slegið föstu og enginn frestur á því hafður. En hins vegar, ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ., þá eru báðar leiðirnar opnar til beggja handa, eftir því sem samningum kann að verða skipað. Þetta er sá höfuðmunur, sem á þessum stefnum er. En það er einmitt þetta, sem framsóknarmenn vilja ekki, að báðar leiðirnar séu opnar, heldur að málinu sé einhliða slegið föstu í upphafi, áður en til samninga er gengið.