15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (3427)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Emil Jónsson:

Ég þarf ekki að svara mörgum orðum þessari síðustu aths. hv. þm. V.-Sk., því að hann forðaðist eins og vant er að koma að kjarna málsins, heldur fór utan um það marga hringi. Hann talaði ekkert um það, sem er aðalatriðið í málinu, hvort sé heppilegra, þegar verið er að leita samkomulags um eitthvert atriði, að byrja á að slá málinu einhliða föstu eða, eins og lagt er til með okkar frv., að halda öllum leiðum opnum. Þetta er höfuðmunurinn á frv. og þeirri till., sem hann stendur að.

Hann segir, að þetta sé hnefahögg framan í viðkomandi aðila. Er það hnefahögg framan í bændur, þó að flutt sé till. um að fresta að taka ákvörðun, meðan reynt er að komast að samkomulagi? (SvbH: Það er búið að taka ákvörðun um þetta fyrir löngu). Það er ekki það, sem verið er að tala um hér. (Forseti: Ekki samtal). Hæstv. forseti ætti ekki að vera að snúa sér með það til mín, ég veit ekki betur en að það sé ég, sem hef orðið hér. (Forseti: Hv. þm. má vita, að orð mín voru ekki töluð til ræðumanns, heldur þess, sem fram í greip. Hinu get ég ekki gert að, þótt hljóðið berist einnig til hans). Hæstv. forseti ætti þá að snúa sér til hinnar handarinnar, en ekki til mín.

Það þýðir ekki að ræða mikið um þetta við hv. þm. V.-Sk. Framkoma hans er þannig, að það gegnir furðu. Hann segir, að verið sé að leggjast á smælingjana, sem hafa fengið greitt úr ríkissjóði milli 20 og 30 millj. kr. á árinu. Það eru þessir smælingjar, sem hann segir, að sé verið að fara verst með og eigi að níðast á, þó að talað sé um að hinkra við um stund, meðan verið er að ráðgast um, hvort eigi að bæta 10 millj. kr. við. Er ekki von, þó að hann biðji guð að vernda sig og taki þar á öllu því prestslega, sem hann á til, þegar hann er að tala um, að hér sé verið að níðast á smælingjunum, þegar minnzt er á nokkurra daga frestun á þessum greiðslum, sem nema milljónatugum, meðan verið er að athuga, hvort enn eigi að bæta milljónum við, þegar ríkissjóður hefur sannarlega í mörg horn að líta, þó að einhver stingi fótum við, áður en búið er að eyðileggja greiðslugetu ríkissjóðs af þeirri stefnu, sem þessi hv. þm. berst fyrir.

Hv. þm. segir, að bændur séu búnir að bíða meira en ár. Það getur vel verið, en ég veit þó ekki betur en að uppbætur hafi verið greiddar úr ríkissjóði, eftir því sem samkomulag hefur orðið um milli ríkisstj. og fulltrúa þeirra aðila, sem þetta áttu að fá. Ef dráttur hefur orðið á eða vangreiðsla átt sér stað, þá er sjálfsagt að athuga það mál. Ég vil aðeins halda fram, að það sé illa um þessa hluti búið, a. m. k. að því leyti, að ekki er einu sinni hægt að fá að vita, hverjir hafa fengið þessa peninga. Þetta eru einu ríkissjóðsgreiðslurnar, sem ekki er hægt að kontrollera. Það er ekki hægt að fá frumkvittanir fyrir, hvar þessar 20–30 millj. lenda, heldur kemur bara þessi hv. þm. og segir, að ekki sé greitt nóg. Það kann að vera, og því er þörf að leggja skjölin á borðið, sýna, hvar þetta fé lendir og hvernig það skiptist, og það getur ekki liðið á löngu, þangað til það verður gert, sérstaklega ef framhald á að vera á þessari stefnu, sem hv. þm. berst nú fyrir.