05.10.1944
Neðri deild: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (3504)

150. mál, ríkisstuðningur við bæjar- og sveitarfélög til framleiðsluaukningar

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Að undanförnu hefur allmikið verið rætt um þá þörf, sem á því er, að framleiðslutæki landsmanna verði aukin og endurnýjuð. Í því sambandi hefur verið bent allýtarlega á möguleika þjóðarinnar til framleiðsluaukningar, ef nægileg framleiðslutæki væru fyrir hendi og þeim beitt að því, sem þjóðin er bezt fallin til að framleiða. Í þessu sambandi hefur sérstaklega verið bent á að endurnýja fiskveiðaflota landsmanna. Öllum er kunnugt um það, hversu gífurlegt verkefni er þar fyrir höndum, svo úreltur sem flotinn er orðinn og ónógur. Hið sama er að segja um byggingu fiskvinnsluverksmiðja; þar er einnig um geysifjárfrekar ráðstafanir að ræða, en þörfin hins vegar brýn að ráðast í slíkar framkvæmdir.

Nú er það alveg sýnilegt mál, að ef endurnýjun fiskveiðaflotans á að geta farið fram svo fljótt sem æskilegt væri og bygging nægilega margra fiskvinnsluverksmiðja, þá er þörf á því, að hið opinbera aðstoði við þessar framkvæmdir. Reynslan hefur sýnt, að einstaklingar og félög eiga oft erfitt með að ráðast í slíkar framkvæmdir eins og nýsköpun framleiðslunnar svipað því, sem talað hefur verið um undanfarið, að nauðsynlegt væri, að á kæmist.

Ég býst við því, að það þurfi ekki að eyða mörgum orðum að nauðsyn þess, að fiskveiðaflotinn verði efldur og margar fiskvinnslustöðvar byggðar; hins vegar er það ekki jafnvíst, að menn séu sammála um það, hvaða leiðir eigi að fara til þess að styðja að því, að fiskveiðaflotinn verði endurnýjaður og verksmiðjur byggðar.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að farin sé sú leið, að ríkið veiti bæjar- og sveitarfélögum ríkisábyrgð fyrir lánum, sem tekin eru í þessu augnamiði. Svipaðar leiðir hafa verið farnar hér áður í ýmsum efnum og eru farnar enn í dag. Þar mætti nefna ábyrgð ríkisins fyrir lánum sveitarfélaga við að koma upp rafmagnsvirkjunum. Þar hefur ríkið talið nauðsynlegt að ganga í ábyrgð fyrir sveitarfélögin, til þess að hrinda í framkvæmd þessum mannvirkjum. Eins og það var nauðsynlegt í þeim efnum að veita ríkisábyrgð til framkvæmda, hygg ég að nauðsynlegt sé, að ríkið veiti ábyrgð fyrir lánum, sem sveitarfélögin kunna að taka til þess að endurnýja framleiðslutæki sín og til þess að breyta þeim í fullkomnara horf en þau eru nú í, því að þar er ekki síður um kostnað að ræða en við byggingu raforkuvera. Í grg. frv. er skýrt með nokkrum orðum, hvernig við flm. þessa frv. höfum hugsað okkur, að framkvæmdir yrðu í þessum efnum. Við höfðum hugsað okkur, að samþ. væri í einu lagi heimild handa ríkisstj. til að veita ábyrgð sveitar- og bæjarfélögum, sem vildu ráðast í framkvæmdir til eflingar framleiðslutækja hjá sér. En þetta er þó bundið við það, að sama sveitarfélaginu sé ekki veitt ábyrgð fyrir hærri upphæð en 5 millj. kr.

Eins og ég gat um, þá kann að vera, að menn greini nokkuð á um, hvaða leiðir ætti að fara til stuðnings við þessi mál, en það er alveg víst, að það er kominn tími til að benda á þær leiðir, sem telja má heppilegastar til þess að örva framkvæmdir einstaklinga og sveitarfélaga í þessum efnum. Ég hygg líka, að þessi leið, sem hér er bent á, sé að ýmsu leyti hentug til að koma í veg fyrir það, að aukning framleiðslutækjanna og framleiðslunnar sé að meira eða minna leyti unnin fyrir gýg, þannig að menn kaupi ónýt eða slæm tæki til framleiðslunnar.

Í frv. er gert ráð fyrir því að skipa fimm manna n., sem ætti að hafa eftirlit með ríkisábyrgðunum og sjá um, að féð yrði veitt til þeirra staða, sem vel eru fallnir til framleiðslu. Vitanlega getur það verið nauðsynlegt, að ríkið hafi hönd í bagga um það, hvaða framleiðslutæki verða keypt og hvar verksmiðjur verða byggðar. Ég fyrir mitt leyti er þess fullviss, að ef frv. nær samþykki, þá mun það verka á þann veg, að mörg bæjar- og sveitarfélög munu sækja um lán til þess að auka framleiðslu sína. Mörgum sveitarfélögum er það ljóst, að t. d. þau útgerðartæki, sem rekin eru þar stöðugt, eru úrelt til framleiðslu, þannig er það t. d. í fiskiþorpum úti á landi, þar sem mikill meiri hluti manna verður að stunda útgerð á opnum bátum. Þar hafa sveitarstjórnir skilið þörfina á því að nota sem bezt veiðitæki, en rekið sig á, að þau eru ekki fær um að eignast nýja stóra báta án aðstoðar frá ríkinu til þessara framkvæmda.

Ég sé ekki þörf á því að hafa fleiri orð um frv., en vildi óska þess, að sú n., sem fær málið til meðferðar, vildi greiða fyrir því eftir getu, því að hér er full þörf á að gera samþykkt um stuðning ríkisins hið allra fyrsta. — Ég óska þess svo, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.