16.01.1945
Efri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (3610)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Hæstv. menntmrh. gat um það í ræðu sinni, að hér væri verið að lögskylda menn til þess að greiða fé til samtaka, og byggði afstöðu sína til málsins aðallega á því og taldi sér ekki fært að samþ. frv. þess vegna. En hér er ekki í raun og veru verið að lögskylda menn til þess, vegna þess að það er búið að leitast fyrir um þetta og greiða atkv. m.a. á sambandsfundum bænda, og eftir þeim till., sem þeir samþykktu þar, má segja, að það hefur svo að segja mótmælalaust verið greitt jákvæði með þessari greiðslu, enda er þetta frv. borið fram af mþnm. búnaðarþings og stj. Búnaðarfélags Íslands. Og þeir menn munu allir hafa kynnt sér, að óskir frá bændum lágu fyrir um þetta. Þetta svarar að vissu leyti til útflutningsgjalds, eins og er greitt af sumum vörum, en þetta gjald er tekið af vörum, sem seldar eru innanlands, en hitt rennur oftast í ríkissjóð.

Nú minnir mig, að útgerðarmenn séu skyldaðir til þess að greiða til fiskimálan., en sá skattur á að vera þeim til framdráttar, og mér virðist sú greiðsla ekki vera óskyld þeirri greiðslu, sem farið er fram á í þessu frv.

En hvað viðvíkur fyrirspurn hv. þm. Barð., þá vil ég taka það fram, að þetta gjald leggst auðvitað á seljendur eða réttara sagt framleiðendur, því að meginhluti af þessum vörum er seldur eins og t.d. mjólkin, á stöðvum, sem bændurnir hafa sjálfir, að vissu leyti í umboðssölu. Ég álít, að hér þurfi ekki að setja sérstakt ákvæði, að skattur verði tekinn af framleiðendum, en ef mönnum finnst það vera eitthvað vafasamt, sem ég ekki tel, að þeim beri að greiða það, þá er hægt að bæta úr því með brtt. áður en frv. fer til n., því að þar sem þegar er komin fram brtt. við frv., þá verður það ekki til að tefja málið, þó að komi ný brtt. og verði samþ. til skýringar, ef það þykir nauðsynlegt.