30.01.1945
Neðri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (3626)

267. mál, raforkulög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. — Það er nú orðið það áliðið þessa þings, að þótt þessu málefni sé nú hreyft hér, þarf ekki að gera ráð fyrir, að það fái fullnaðarafgreiðslu að þessu sinni. Til þess er málið allt of seint fram borið, og það er þess eðlis, að það er ekki nema eðlilegt, að menn vilji kynna sér það vel og betur en með því að lesa það frv., sem fyrir liggur, og það, er því fylgir. Eigi að síður fannst okkur flm. þessa máls, sem unnið höfum að því ásamt hv. 11. landsk., rétt að bera það fram. Er það ekki eingöngu af því, að allmikil hreyfing er nú meðal þjóðarinnar um þetta mál. Vonir manna og þrár standa nú til þess, að lausn fáist á þessum málum. Það er þó ekki fyrir þær sakir einar, að menn óski svo eingöngu þeirra þæginda, sem það hefur í för með sér, ef hægt væri að koma raforkunni sem víðast meðal almennings, heldur og vegna hinnar brýnu nauðsynjar fyrir þjóðina að geta orðið þeirra hlunninda aðnjótandi, sem þessi undrakraftur hefur yfir að ráða, ef hann er tekinn í þjónustu mannanna. Þær till. og óskir, sem komið hafa fram af hálfu manna víðs vegar um landið, staðfesta þetta mjög rækilega, hve miklar vonir menn gera sér um, að hæstv. Alþ. leysi þetta mál og hafi forgöngu um að koma raforkunni út á meðal þjóðarinnar.

Þó að vísu segja megi, að með flutningi þess, eins og nú er ástatt, verði ekki strax úr þessu bætt, vildi ég þó mega vona, að það gæti nokkuð greitt fyrir því, að úrslit fáist. Og eitt er víst, að hæstv. Alþ. getur ekki til lengdar skotizt undan þeirri skyldu að taka ákvörðun um það, hvaða leið það hugsar sér að velja, svo að þjóðin geti sem fyrst og á beztan hátt fengið raforkuna í sína þjónustu.

Það er sannfæring mín, að af þeim málum, sem við nú fáumst við á Alþ., sé ekkert eitt mál, sem er eins þýðingarmikið að leyst verði með alþjóðarheill fyrir augum og raforkumálið. Svo miklir kostir fylgja því, ef hægt er að koma því meðal þjóðarinnar, svo mikill stuðningur og fyrirgreiðsla í störfum fólks, að það er ekkert eitt mál, sem grípur eins inn í alþjóðarhag og þetta, enda er það svo, að mörg önnur framfaramál þjóðarinnar byggjast á því, hvort þessi undrakraftur getur orðið alþjóðareign eða ekki. Og svo mikil þægindi fylgja raforkunni, að á þeim landssvæðum, sem út undan verða og ekki geta á neinn hátt bætt sér þetta, horfir til landauðnar, áður en langt um líður.

Að þetta sé ekki sagt út í loftið, hvað gott sé að fá þetta afl í þjónustu mannanna, má bezt marka, ef litið er til staðreynda í sögu okkar eigin þjóðar, svo að ég ekki tali um, þegar litið er til framfara í sögu annarra þjóða. Þá sannar reynslan, að ég hef hér rétt að mæla, og ég er sannfærður um það, að strax og Íslendingar fá rafmagnið í sína þjónustu, þannig að alþjóð manna getur orðið þess aðnjótandi, munum við á þessu sviði ekki verða neinir eftirbátar annarra þjóða. Því að það má með sanni segja, að þegar Íslendingar hafa snúið sér með dugnaði að einhverjum verkefnum, hafa þeir ekki síður verið duglegir til slíkra framkvæmda en aðrar þjóðir. Og ég vil segja, að þegar litið er á okkar litlu þjóð og þá fátækt, sem hún hefur átt við að stríða, kemur í ljós, að þegar hún fékk nokkurt rúm og frelsi til athafna, hafa orðið meiri framfarir hjá henni en nokkurri þjóð annarri, ef tekið er tillit til fólksfjölda, að ég ekki tali um, ef litið er á efnahaginn.

Í nóv. s. l. afhenti mþn. í raforkumálum hæstv. ríkisstj. frv. það, sem hér birtist nú ásamt grg., sem því fylgir. Hæstv. ríkisstj. hefur svo haft það til athugunar. Hv. 11. landsk., sem á sæti í mþn., fór til útlanda í erindum hæstv. ríkisstj., þegar langt var komið störfum, og gat því ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins. Ég færði það í tal við hann, áður en við fluttum þetta frv., hvort hann gæti á það fallizt og verið flm. að því, og kvaðst hann mundu skila séráliti. Má vel vera, að hann hafi einhverja till. um það að gera, sem að einhverju leyti ekki er samhljóða þeirri till., sem við í meiri hl. n. flytjum. Er vitanlega ekkert við því að segja og engan veginn undarlegt, þar sem hann gat ekki tekið þátt í endanlegri afgreiðslu. Þá von vil ég þó láta í ljós til hans, að hann í áliti sínu fari ekki í bága við stefnu meiri hl. n. í höfuðatriðum.

Það er auðvitað svo, að þessi smíði okkar getur staðið mjög til bóta. Mþn. hefði kosið að gera miklu betri grein fyrir þessu máli, og einkum hefðum við kosið að bera það fram miklu fyrr, ekki sízt vegna þess, hve mikill áhugi er meðal þjóðarinnar að fá lausn á þessu máli. Hins vegar höfðum við í mþn. enga möguleika á því að bera málið fram eða taka ákvarðanir um það, fyrr en við hefðum kynnt okkur nokkuð, hvað hér er um stórt fjárhagsmál að ræða, ef raforkan ætti að verða svo að kalla alþjóðareign. Fyrir því urðu að fara fram miklar mælingar mjög víða. Forstöðumaður rafmagnseftirlitsins beitti sér eftir beztu getu og þeim mönnum, sem hann hefur á að skipa, til að fá mælingar gerðar sem víðast um landið, til þess að ná nokkru yfirliti um það, hvað þetta mundi kosta, auðvitað miðað við núverandi tíma. Í grg. er gefin nokkur hugmynd um þann kostnað, en auðvitað getur það tekið breyt., þar sem þetta er meira og minna skyndiáætlun. Auðvitað væntir maður þess, að hagstæðari tímar breyti þessu öllu, þannig að þetta kosti miklu minna, þegar til framkvæmda kemur.

Viðvíkjandi því atriði, að hæstv. samgmrh. hefur ekki séð sér fært að hreyfa þessu máli nú, vil ég segja, að það er ekki nema eðlilegt. Þessi hæstv. ríkisstj. tók við fyrir ekki löngu og hefur haft allt öðrum störfum að gegna, sem nauðsynlega þurfti að vinda bráðan bug að. Þar að auki má vera, að hæstv. ríkisstj. hafi kosið till. frá minni hl. n.

Ég vil aðeins vænta þess, að hæstv. samgmrh. og hæstv. ríkisstj. geri þær einar till. í þessu máli og hafi það eitt sjónarmið, sem alþjóð manna er fyrir beztu, og þetta mál verði ekki afgreitt á þann hátt, að stundarhagsmunir máske nokkurs hluta þjóðarinnar verði þar látnir ráða um, í hvaða búningi það verður.

Eitt verkefni þessarar n. var að gera till. um tekjuöflun. Ég veit, að hv. þdm. geta séð, að ógerningur var fyrir n. að gera nokkrar till. í þá átt, sem neitt um munaði, nema hún kynnti sér fyrst, hvað slíkar framkvæmdir mundu kosta mikla fjármuni. Nú hefur n. ekki nema að takmörkuðu leyti gert till. um þetta, þrátt fyrir það, að víðtæk bráðabirgðaáætlun hefur verið gerð, og stafar það af því, að enn er óleyst það, sem höfuðmáli skiptir, hvaða leið verður valin til að leysa þetta mál. Á ríkið að annast aðalforgönguna að öllu leyti, eða er ætlazt til, að sveitarfélög, einstök félög eða einstaklingar annist þessar framkvæmdir? Eins og að líkum lætur, skiptir það mjög miklu máli, hvað ofan á verður í þessum efnum, hvað ríkið sjálft þarf að færast í fang í þessu skyni. Enn sem komið er, hefur raunar ekkert að kalla verið gert í þessu máli, án þess að ríkið hafi staðið á bak við, ekki þannig, að það hafi beint lagt fram fjármuni, heldur gengið í ábyrgð fyrir því nær öllum framkvæmdum, sem verulega hefur kveðið að.

Ef litið er nú til þeirra aðstæðna, sem við höfum til þessara framkvæmda, og litið er enn fremur á till., sem hafa verið um þessar framkvæmdir meðal annarra minni þjóða, þá ætti tæpast að geta komið til greina nema ein aðferð hjá okkur, þ. e. að ríkið annist eitt framkvæmdir, þannig að það hafi alveg forgönguna. Auðvitað er æskilegt og gott eitt um það að segja, að bæði einstaklingar og félög, hvort heldur eru sveitarfélög eða önnur félög, taki höndum saman um fyrirgreiðslu málsins. En ríkið sjálft á að annast framkvæmdirnar. Ég er ekki í vafa um, að það hentar bezt hjá okkur.

Ég rökstyð það með því fyrst og fremst, að ef samræmi og eðlileg stjórn á að vera í þessu máli, verður það að vera ein stjórn. Hún verður áreiðanlega bezt og ódýrust, og með því móti einu er það tryggt, að ætíð verði haft í huga, hvað hentar bezt hverjum framkvæmdum á hverjum stað, og þá þarf ekki að óttast, að aðrir grípi inn í og hafi pólitísk áhrif á þær.

Fjár, sem þarf til þessara framkvæmda, verður bezt aflað og á ódýrastan hátt með forgöngu ríkisins.

Það er auðveldara að fá lán til langs tíma með því, að ríkið standi að baki þeim en einstaklingar eða félög, sem mundu alls ekki fá þessa fjármuni, nema ríkið stæði á bak við þá. Frá þessu sjónarmiði er því áreiðanlega heppilegast og bezt, að ríkið hafi þessar framkvæmdir.

Þá er annað, sem er ekki lítið atriði við framkvæmd málsins, en það er tilhögunin, sem höfð mundi við hinar ýmsu virkjanir um landið. Ef ríkið á að annast þessar virkjanir, þá getur það ekki haft þar annað í huga en að þær komi sem fyrst að notum, verði gerðar á sem hagkvæmastan hátt og með það fyrir augum að geta komið sem fyrst að gagni og sem mestu gagni, og geta þá engir einstaklingar eða félög haft truflandi áhrif á, hvernig það er leyst af hendi. Það verður aldrei öryggi um slíkt, nema ríkið sé húsbóndi þar yfir. Þetta er stórkostlegt atriði. Þurfum við í því efni ekki annað en að skírskota til reynslu okkar. Ef einstök sveitarfélög eða félög einstakra manna eiga að annast þetta, getur það aldrei orðið með annað fyrir augum en að það verði á sem hagkvæmastan hátt fyrir þá fáu menn, sem framkvæmdanna eiga að njóta, sem eru þá á mjög afmörkuðu svæði. Það er hvorki hægt að gera ráð fyrir, að þeir hafi fjárráð til þess né heldur hvöt til þess að leysa verkið af hendi með annað sjónarmið, m. a. vegna þess, að þeir vita ekki, nema aðrir kynnu að grípa þar inn í og í nálægum héruðum komi einhverjar framkvæmdir, sem gætu haft áhrif á þeirra virkjun, sem gæti orðið þeim til tjóns. Er þar nokkuð hægt að skírskota til þess, sem hefur gerzt. Þær virkjanir, sem gerðar hafa verið á Suðurlandi, hafa verið gerðar með þetta fyrir augum, og þarf engan að undra. Sama er að segja um það, sem gerzt hefur norðan lands og yfirleitt annars staðar á landinu. Öðru máli væri að gegna, ef ríkið annaðist þessar framkvæmdir eitt, því að það getur haft þegar í byrjun heildarskipunina í huga, og er þá vitanlega haft það sjónarmið, þegar framkvæmdirnar eru gerðar, að þær séu, þegar á allt er litið, hagkvæmastar, og mundi þar vera sameinað öryggi í framkvæmd og einfaldleiki, sem hefði það í för með sér, að virkjanirnar yrðu bæði ódýrari og á allan hátt öruggari fyrir þá, sem þeirra eiga að njóta og jafnframt gert fyrir framtíðinni um leið, sem auðvitað er ákaflega þýðingarmikið.

Við höfum að vísu ekki mikla reynslu að byggja á í þessu efni. Þó má hér minna á aðrar framkvæmdir, sem eru ekki ósvipaðar, en það eru símalagningarnar. Ég held, að það detti engum í hug af þeim, sem til þekkja, að efast um, að það hafi verið vel ráðið, að ríkið sjálft skyldi taka að sér að annast þær framkvæmdir, og ég held, að enginn muni leyfa sér að segja nú, að það hafi verið miður ráðið, að ríkið gerði það heldur en einstaklingar eða sveitar- og bæjarfélög. Það er alveg víst, að nú er síminn kominn svo vítt um sveitir landsins sem hann er, vegna þess að það er ríkið, sem hefur annazt þær framkvæmdir. Þegar sú löggjöf var sett, voru uppi skoðanir um það, að einstaklingar og félög ættu að fá leyfi til að annast þessar framkvæmdir. Því var mjög móltmælt með veigamiklum og sterkum rökum og sýnt fram á, hversu það væri á allan hátt öruggara, að ríkið sæi um þessar framkvæmdir, eins og reynslan hefur nú staðfest. En fyrst reynslan varð þessi um símann, hversu miklu meiri ástæða mundi þá ekki vera til þess, að ríkið hefði á hendi jafnstórkostlegar framkvæmdir og þær, sem hér er um að ræða, það held ég þurfi ekki að deila um.

Þess er líka að gæta, að því meira, sem kemur af þessum fyrirtækjum hjá bæjar- og sveitarfélögum og öðrum félagsskap, því torveldara verður fyrir ríkið, þegar það að lokum mundi telja sig knúið til að taka málin í sínar hendur, því að það er enginn vafi, að það getur ekki liðið á löngu, þangað til það verður gert. Það verður kannske hægt nokkra stund, en þegar til lengdar lætur, mun mönnum ekki haldast það uppi. Mér dettur ekki í hug að halda, að þeir, sem staðið hafa fyrir þeim virkjunum, hefðu ekki viljað, að fleiri hefðu orðið raforkunnar aðnjótandi en enn hefur orðið, en ekki finnst mér fýsilegt fyrir landsmenn, ef ætti að haga tilvonandi rafvirkjunum á svipaðan hátt og gert hefur verið fram að þessu. Inni í miðri Árnessýslu, við Sogið, er virkjun, sem gerð var fyrir 10–11 árum. Oft hefur verið freistað að fá raforku leidda til kauptúnanna í sýslunni, sem eru í nokkurra kílómetra fjarlægð, en engu fengizt áorkað. Íbúar héraðsins, sem sjá til Sogsins, fá að horfa á ljósadýrðina á þessum stað, við orkuverið, en einn bær hefur fengið raforku, sá, sem stendur rétt við stöðina. Þó er liðið þetta langt, síðan rafveitan var gerð. Mér dettur ekki í hug að segja, að Reykvíkingar vildu ekki gjarnan greiða fyrir því, að íbúar þessa héraðs fengju raforku, en hver sig sjálfan metur mest. Þeir hafa öðrum hnöppum að hneppa og meira en nóg með sig. Hér í Reykjavík er stórkostlegur skortur á raforku. Þegar viðbótin var gerð, þá var meira en nóg við hana að gera hér í Reykjavík. Það fylgir þessum undrakrafti, að undir eins og farið er að nota hann, vex notkunin stórkostlega og miklu meira en nokkurn mann hefði dreymt um, að mundi verða.

Það er því víst, að sú reynsla, sem við höfum fengið, bendir ákveðið í eina átt. En eins og ég áður sagði, höfum við ekki sjálfir mikla reynslu í þessum málum. Það væri því ekki úr vegi að líta til annarra þjóða, hvernig farið hefur með þessi mál þar, og reyna að nota okkur það, sem þar hefur reynzt bezt og bezt á við hjá okkur, en sleppa hinu, sem miður fer. Ef litið er til Norðmanna, þá er það svo, að einstök félög höfðu þar framkvæmdir um virkjanirnar. En eftir því, sem stundir liðu, kom í ljós, að þetta var gersamlega ófullnægjandi fyrir þjóðina, enda fór það svo, að í seinni tíð var ríkið farið að láta þessi mál sig mjög miklu varða. Um Danmörku er það að segja, að þar annast ríkið framkvæmdirnar á vissan hátt og hefur þar mikil afskipti. Í Bretlandi hefur ríkið ekki annazt virkjanirnar, heldur félög og einstaklingar, en í seinni tíð hefur það sýnt sig, að þjóðin hefur ekki sætt sig við þá löggjöf, sem gilt hefur í þessum málum. Ég hef fyrir satt, að nú séu um það bil að komast í framkvæmd stórfelldar framkvæmdir, sem ríkið stendur að sjálft og ætlar með því móti að koma raforkunni út meðal almennings. Ríkisvaldið í Bretlandi er nú þegar búið að taka í sínar hendur svo mikil ráð í þessum málum, að það ræður ekki aðeins, hvar orkuverin eru byggð, heldur hvernig þau eru byggð. Það getur fyrirskipað, að gamlar orkustöðvar, sem fyrir eru, verði lagðar niður og þeirri starfsemi hætt, ef það kemur sér betur fyrir nýja orkuverið, og í seinni tíð hafa Bretar lagt stórkostlega fjármuni fram til að auka raforkuna í landinu og koma henni út meðal þjóðarinnar. Þá vita menn nokkur deili á, hvað gerzt hefur í Ameríku í þessum efnum, sérstaklega í seinni tíð, hvað ríkið hefur látið til sín taka bæði að auka orkuna og koma henni út meðal fólksins. Þá vita menn, hvað Rússar hafa gert, síðan sovétstjórnin komst þar til valda. Þar hefur líklega verið reist í seinni tíð langstærsta orkuver heimsins og dreift orku til fólks sennilega meira og á skemmri tíma en nokkurs staðar annars staðar, a. m. k. þangað til fram á síðari ár, ég skal ekki segja, að það sé miðað við það, sem gerzt hefur á síðari árum í Ameríku, en til síðari ára hefur engin þjóð í heimi gert eins mikið í þessu efni og Rússar. Í Þýzkalandi er það svo, að þar eru fyrirtækin eign bæjar- og sveitarfélaga og félaga einstakra manna, en ríkisvaldið hefur nokkuð mikinn rétt, það getur fyrirskipað þar um öll mál og gert sig gildandi um það, sem það vill, og þar eru ákvæðin svo afleiðingarík, að ef þessi fyrirtæki einstaklinganna verða ekki við óskum ríkisvaldsins, getur það tekið fyrirtækin af þeim og afhent þau öðrum, sem vill fullnægja þeim óskum, sem ríkisvaldið setur fram. Ég veit ekki, hvort okkur Íslendingum væri æskilegt að fara þannig að, a. m. k. hafa Íslendingar ekki talið slíka stjórnarháttu sérstaklega æskilega, svo að ég geri ráð fyrir, að okkur mundu ekki henta svo rammar skorður. Þykkjur okkar fara eftir öðrum leiðum, og tel ég það farsælla og heppilegra. Þá vita menn um eina þjóð, frændþjóð okkar, sem okkur er á margan hátt skyldust og kannske er einna mest af að læra í þessu efni, en það eru Svíar. Einstök bæjar- og sveitarfélög höfðu annazt þessar framkvæmdir, og félög einstakra manna að nokkru leyti. Það kom þar í ljós sem annars staðar, að þjóðin var mjög óánægð með það fyrirkomulag og þótti seinagangur á hlutunum. Ríkið hefur frá fyrstu tíð látið þessi mál sig miklu skipta. Þó hefur í seinni tíð verið sérstaklega mikið að því unnið, að ríkið hafi sem allra mest yfirráð um þessar framkvæmdir, og Svíar hafa gert meira en aðrar nágrannaþjóðir okkar, eftir því sem ég bezt veit, til að tryggja, að ríkið eitt hafi þessar framkvæmdir, og í seinni tíð hefur sænska ríkið gert gangskör að því að kaupa vatnsafl til að tryggja, að ríkið hafi möguleika til vatnsvirkjunar, gert sérstakar ráðstafanir og lagt af mörkum mikið fé til að framleiða raforku og leiða hana út meðal þjóðarinnar, en eins og hv. þm. þekkja ekki síður en ég, þá eru Svíar um margt hin merkasta menningarþjóð, atorkusöm og ráðdeildarsöm og hyggin í framkvæmdum sínum, og ég held, að það væri ekki úrhættis fyrir okkur Íslendinga að taka þá okkur til fyrirmyndar um margt, og þá ekki sízt í þessum málum, af því líka, að það stendur svipað á um þessar framkvæmdir, og eftir minni meiningu geta þær ekki annað en farið verr úr hendi og ekki komizt hjá meiri og minni mistökum, ef ríkið hefur þar ekki algerlega forystuna. Og það verður áreiðanlega langfyrst, sem raforkan getur orðið almenningseign, ef ríkið annast framkvæmdirnar, og með því móti verða þær ódýrastar og haganlegast gerðar.

Það hefur aðeins bryddað á þeirri skoðun í seinni tíð, að Íslendingar ættu að byggja framtíð sína fyrst og fremst á sjávarútvegi, en það mundi minna máli skipta, hvað liði annarri starfsemi í landinu. Við getum tæplega gert ráð fyrir, a. m. k. kem ég ekki auga á það, að við verðum mikil iðnaðarþjóð. Ber margt til þess, ekki sízt hvernig lega landsins er, þó að fjarlægðirnar séu alltaf að styttast með aukinni tækni. En við erum líka það smáir bæði að fjárhagsgetu og mannfjölda, að við getum tæplega búizt við, að við getum látið þar mikið til okkar taka á heimsmarkaðinum, þegar við þurfum að keppa við milljónaþjóðir. Ég held, að við eigum að byggja á þeim höfuðatvinnugreinum, sem við höfum stundað, síðan landið byggðist, sjávarútvegi og landbúnaði. Það er fjarri mér að gera lítið úr þýðingu sjávarútvegsins, til þess er of augljóst, hvað hann hefur lagt mikið af mörkum til þjóðarbúsins. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að ekki ættum við að haga okkar þjóðarháttum þannig, að fólkið flyttist sem mest að sjónum og landbúnaður væri aðeins stundaður með það fyrir augum að fá allra brýnustu nauðsynjar til innanlandsneyzlu. Ég teldi það í mesta máta óskynsamlegt. Ég held, að þeir, sem vilja stuðla að því, að slík breyting komist á, geri sér ekki nægilega ljósa grein fyrir því, hvað það gæti orðið örlagaríkt fyrir íslenzku þjóðina. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið það frá því, að ég fór að gefa gætur að þjóðmálum og afkomu þjóðarinnar, að svo bezt vegni okkur í þessu landi og öryggi þjóðarinnar sé bezt borgið, að þessir tveir atvinnuvegir séu báðir sem sterkastir, landbúnaður og sjávarútvegur. Fiskimiðin við Ísland eru góð og mikil gullnáma, en allt eyðist, sem af er tekið, segir íslenzkur málsháttur. Reynslan er búin að staðfesta, að þannig er líka ástatt um fiskimið okkar, þótt góð séu og auðug. Fyrir fyrri heimsstyrjöldina var svo komið, að upp voru urin fiskimiðin hér við land. Í byrjun núverandi styrjaldar var sama að koma í ljós. Mér segja menn, sem hafa stundað fiskiveiðar hér við land á togurum, að á sum mið komi alls ekki eins mikill fiskur og var hér áður og sum séu með öllu upp urin. Þetta bendir til þess, að veiðiaðferðirnar eyði gersamlega fiskimiðin. Við getum líka gert ráð fyrir, að að lokinni þessari styrjöld verðum við ekki einir um fiskimið okkar. Útlendingar, sem hér voru áður, munu leita hingað aftur og hefja veiðar á ný. Þeir munu beita nýjum skipum eins og þeir telja sér bezt henta og telja sér mesta hagnaðarvon að án tillits til okkar ástæðna. Þegar þeir koma hingað með sín stóru, mörgu og nýju vélskip, sem þeir hafa byggt í þessari styrjöld og eru tilbúin til veiða hvenær sem færi gefur og hvenær sem styrjöldin leyfir þeim að gera það, þá er hætt við, að sæki í sama horfið um fiskigengd hér við land. Þetta verðum við að horfast í augu við, og svo er annað, sem við verðum líka að hafa í huga, en það er það, að enginn veit fyrir fram, hvernig markaðsmöguleikarnir verða, þegar frá líður, fyrir þessar vörur. Eitt er enn ótalið, sem ætíð getur verið yfirvofandi og enginn veit fyrr en á dynur, en það eru ísaárin. Og þótt að vísu öll tækni sé nú svo miklu meiri, svo að gera megi sér von um, að menn geti í framtíðinni oftast sótt sjó og aflað, þá geta ísaárin samt orðið til þess, að afli minnki stórkostlega. Ég held því, að allir ættu að vera sammála um, að hyggilegast sé fyrir okkur að haga svo störfum þjóðarinnar, að við stundum bæði landbúnað og fiskveiðar. Það er því áreiðanlegt, að þetta mál, sem hér er um að ræða, hefur ekki eingöngu þýðingu fyrir sjávarútveginn og það, sem af honum leiðir beint og óbeint, heldur hefur það líka þá þýðingu, að starfsemi öll í sveitunum verður auðveldari og tryggir afkomu þess fólks, sem þar starfar. Það er því allra hluta vegna ófært annað en afgreiða þetta mál með hag alþjóðar fyrir augum. En þó að ég setji þetta fram, þá dettur mér ekki í hug, að menn vilji haga undirbúningi og framkvæmd málsins með neitt annað fyrir augum en alþjóðarhag, en þó þarf allrar varfærni að gæta í slíku máli sem þessu.

Þegar ákvarðanir hafa verið teknar um, á hvern veg þetta mál skuli verða leyst, þá kemur næst til að sjá fyrir fjármunum til framkvæmdanna. Þá er það vitaskuld, að það verður þessi ákvörðun, hvort ríkið skuli sjá um það eða öðruvísi farið að, sem mest hefur að segja. Við, sem starfað höfum í mþn. um þetta mál, munum á sínum tíma, þegar við sjáum, hvað ofan á verður á Alþingi um stefnu þessa máls, leggja fram frekari till. um fjáröflun og fyrirgreiðslu í því efni.

Ég vil svo láta máli mínu lokið, því að ég sé ekki ástæðu til að rekja grg. frv., því að ég veit, að hv. þm. hafa kynnt sér hana. Vil ég að lokum láta í ljós þá ósk af hálfu okkar flm., að stj. og þing megi bera gæfu til að afgr. þetta mál á þann hátt, að þjóðin megi í bráð og lengd njóta sem mests góðs af.