31.01.1945
Neðri deild: 117. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (3630)

267. mál, raforkulög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

— Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð út af því, sem fram kom í ræðu hv. 11. landsk. þm. Ég vék að því í lok ræðu minnar, að ég vonaðist eftir, að þótt hann hefði ekki séð sér fært að gerast flm. að frv. þessu, sakir þess, að hann var ekki við endanlega afgreiðslu þess, þá bæri okkur ekki svo mjög á milli um höfuðatriði málsins, að það mætti frekar gera ráð fyrir stuðningi við málið frá honum heldur en hinu gagnstæða. Nú lét hann í ljós, að hann væri að vísu samþykkur meiri hl. n. um höfuðstefnu málsins, hvað „princip“ áhrærir, en sagði þó nokkru síðar, að enda þótt hann viðurkenndi, að ríkið hlyti að verða að hafa aðalforgöngu um slíkt mál, ef það ætti að komast þannig til framkvæmda, að meginhluti þjóðarinnar mætti vænta þess eins fljótt og ástæður leyfðu, þegar litið er á þjóðarhag og getu til þess að koma slíku verki í framkvæmd, þá vildi hann, samt sem áður, að hinir einstöku bæir eða sveitarfélög, og jafnvel kannske annar félagsskapur, — það kom ekki svo greinilega í ljós hjá honum — ættu að hafa þessar framkvæmdir með höndum nú fyrst um sinn og jafnvel enn lengur, eftir því sem geta þeirra og möguleikar leyfðu, þegar þörf væri mikil hjá bæjar- og sveitarfélögum um að koma raforkuframkvæmdum á hjá sér. En þegar svo þessir aðilar gætu ekki framkvæmt raforkufyrirtækin hjá sér, vildi þessi hv. þm., að hið opinbera kæmi til.

Með þessum ummælum fannst mér hv. 11. landsk. þm. vera búinn að taka nokkurn veginn eins rækilega aftur eins og verða má aðalstefnu meiri hl. n. í þessu máli. Því að ég er ákaflega hræddur um það, að ef framkvæmdir þessa máls eiga að fara eftir þessum leiðum, þá verði það nokkuð seint, sem hið opinbera, ríkissjóður, hefur aðstöðu til þess að geta verulega látið til sín taka um þessar framkvæmdir. Og svo mikið er víst, að ef farin er þessi leið í þessu máli, þá verða framkvæmdirnar, þegar hið opinbera kemur til með að annast þær, miklu óhagkvæmari heldur en ef það opinbera hefði frá upphafi haft þær með höndum. Það verður þá margfalt erfiðara fyrir ríkið að grípa þar inn í. - M. ö. o., ef ég má skilja orð hv. 11. landsk. þm. eins og hann setti þau fram, — og það finnst mér, að ég hafi leyfi til að gera, eins og hann gerir strangar kröfur til annarra um að setja sitt mál skýrt fram í skrifuðu og prentuðu máli — þá vil ég hafa leyfi til að skilja hans orð eins og þau eru fram sett og ómögulegt er að skilja þau öðruvísi.

Það verður hver að hafa leyfi til að hafa sína skoðun í þessu efni eins og öðrum. En ég vil segja, að annars hefði ég viljað mega vænta af þessum unga manni með verkfræðimenntun en þess, sem komið hefur fram hjá honum um þetta efni. Því að þar er nú ekki því til að dreifa, að menn hafi ekki vit á hlutunum, þar sem hann er, og kom það líka fram á öðrum stað í ræðu hans, þó að ég fari ekki langt út í þær sakir í þetta sinn. En má þó vera, að ég komi einhvern tíma síðar að því. — En hann fer þá þarna í þessari skoðun sinni, eins og hann setti hana fram, nákvæmlega þá leið, sem einstöku menn hafa lagt til áður um slík framfaramál, sem eru þess eðlis, að langsamlega bezt fer á því, að þjóðfélagið hafi ekki aðeins yfirstjórn þeirra í sínum höndum, heldur og alla framkvæmd. En meira og minna, á öllum tímum, bæði hér hjá okkur og annars staðar, hefur, þegar um slík stórmál hefur verið að ræða, komið fram, að einhverjar raddir hafa heyrzt um það, að einstaklingar ættu eitthvað að fást við þau fyrst. Og hefur það þá verið gert í þeirri trú, að það kæmi einhverjum mönnum eitthvað betur, — e. t. v. væru það hagsmunamál þeirra í augnablikinu. Og þá hefur verið litið yfir það, hvað alþjóð manna, ekki aðeins í augnablikinu, heldur þegar lengra væri litið, kæmi bezt. Ég ætla að minna á eitt mál, sem er stórmál og mikið menningarmál, er nú er komið í framkvæmd, en byrjaði með þeim hætti, sem ég býst við, að hefði ekki verið fjarri skapi hv. 11. landsk. þm., að farið hefði verið eftir þeirri leið, eftir því, sem fram hefur komið í þessu máli, sem hér liggur fyrir. Þetta var útvarpið. Það var sérstakur félagsskapur, sem byrjaði með þá starfsemi. Og ég er á engan hátt að deila á þá menn, sem að því stóðu, þó að það gæti þá ekki orðið nema heldur ófullkomið og þá náttúrlega alls ekki nein alþjóðleg uppbygging að því, á meðan það var í því horfi. En svo var breytt til. Bæði þjóðin og þingið sáu, að ef útvarpið ætti að komast í verulega framkvæmd, svo að alþjóð manna gæti haft gagn og menningu af því, þá yrði þjóðin að hafa starfsemi útvarpsins með höndum á vegum ríkisins. Og þetta er gert. Ef þessi leið hefði ekki verið farin, væri útvarpið náttúrlega mjög ófullkomið enn og vitanlega langtum dýrara einstaklingum heldur en það er þó nú, þegar ríkið sjálft annast framkvæmd þess.

Annars er um þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., eins og önnur stórfelld framfaramál, sem eru erfið í framkvæmd og fjárfrek, að það reynir fyrst og fremst á félagsþroska manna, hverjum augum þeir líta á þjóðfélagsþegnana, hvort aðeins nokkrir útvaldir af þeim eiga að verða gæðanna aðnjótandi, eða hvort á að taka fleiri með. En þó að ég vilji, að sem flestir landsmenn gætu orðið raforkunnar aðnjótandi, get ég ekki orðið svo bjartsýnn, að ég álíti, að ekki verði mörg býli og einstaklingar landsins að bíða langa stund, þar til þeir verða raforkunnar aðnjótandi. En til þess að koma því sem fyrst í framkvæmd, að þeir geti orðið hennar aðnjótandi á sem beztan og ódýrastan hátt, verður það að koma þannig, að þjóðin beiti sér fyrir því. Allur útúrboruháttur, að einstök bæjarfélög eða einstaklingar megi út af fyrir sig auka þessar framkvæmdir frá því, sem nú er, verður til þess, að framkvæmdirnar verða dýrari síðar, sem þarf að gera í þessum málum, og til þess að torvelda, að þjóðin geti komið raforkumálunum sem fyrst í farsællega höfn, eftir því sem við höfum annars tök á. Og ég veit líka, að hv. 11. landsk. þm. er ekki svo skyni skroppinn, að hann vilji ekki viðurkenna þetta. Og hann sjálfur lifir eftir þessu lögmáli, sem ég hef haldið fram, að þurfi að hafa í raforkumálunum. — Ja, kannske segi ég hér meira en ég get sannað. Ég get reyndar ekki sannað þessi ummæli mín öðruvísi en svo, að það hefur ekki komið neitt fram á móti þessari stefnu minni á þeim stað, sem búið er að leiða raforkuna til, hér í Reykjavík. Ef hann tekur Reykjavík og lítur á, hvernig hún hefur framkvæmt þessi mál fyrir sig, þá gerir bærinn það á þann hátt, sem þjóðin ætti að gera það fyrir sína þegna. Reykjávík lætur sér ekki nægja, þó að það væri ódýrast, að leiða raforkuna aðeins um bæinn þar, sem mest er þéttbýlið í bænum, heldur tekur úthverfin með. Og það kostar enga aukapeninga fyrir fólkið í úthverfunum að nota rafmagnið fram yfir það, sem Reykvíkingar í hinum þéttbýlli hlutum bæjarins þurfa að borga. En hv. 11. landsk. þm. vill samt hafa þessa tilhögun á raforkumálunum hér í Reykjavík, af því að honum finnst, að hið opinbera geti ekki annað og geti ekki lagt aukaskatt á þá, sem í úthverfum bæjarins búa, sem uppfylla allar skyldur, þótt auðvitað sé dýrara fyrir bæinn að leiða rafmagnið til þeirra en hinna, sem búa í þéttbýlli hlutum bæjarins.

Ég get búizt við því, að hv. 11. landsk. þm. segi, að um þetta sé öðru máli að gegna en viðkomandí landsmönnum í heild, því að þetta séu þegnar eins bæjarfélags, og úr því að bæjarfélagið standi að þessu, eigi þeir, sem í því eru, kröfu á því að fá raforkuna. Og ég get tekið undir það með honum, að þeir eigi kröfu á því. Það er alveg eðlilegt. En, samt sem áður, ef litið er á þetta frá þrengsta sjónarmiði, þá veldur þessi jöfnuður á verðinu fyrir raforkuna í Reykjavík kostnaðarauka fyrir suma þegna þess bæjarfélags, þannig að fyrir það fá þeir raforkuna nokkru dýrari. En það mun mega réttlæta það með því, að hinir, sem í úthverfunum búa, séu líka þegnar bæjarfélagsins.

En ef lengra er litið og út fyrir Reykjavíkurbæ, hvernig horfir þá málið við? Reykvíkingar eru þó þegnar þessa þjóðfélags. Og ég vil mega skoða það svo, og þar veit ég, að ég mæli fyrir þeirra munn, Reykvíkinga, að ef litið er á þjóðfélagið sem heild, þá hefur maður engin héraðsmörk í huga, heldur tekur maður landið í heild. Og fer þá ekki, ef það sjónarmið er við haft, að verða þar ekki svo mjög mikill munur á, hvort menn tilheyra bæjarfélaginu eða ekki? — Ég get búizt við, að hv. 11. landsk. þm. svari mér því til, að þar sé þó nokkuð ólíku máli að gegna, vegna þess að þarna komi enn meiri munur fram viðkomandi rafmagnsframkvæmdum heldur en innan bæjarfélagsins út af fyrir sig, sérstaklega ef fara eigi að leiða raforkuna út um allar jarðir. Og það kann vel að vera. Því vil ég ekki mæla á móti. En samt sem áður breytir það í engu eðli málsins. Og það er ekki verið að tala um, að þetta eigi allt að gerast á næsta degi. Þar verður aðstaða að ráða allmiklu um. Og það er algerlega satt hjá honum, — án þess að hann geti fært fram fyrir því nokkur rök — að ef framkvæmd þessara mála verður einungis með þeim hætti, að kostnaður verður tekinn með hækkuðum gjöldum fyrir not rafmagns, þá verður þetta margra milljóna skattur á þéttbýlið. En hann getur með þessari fullyrðingu sinni ekki fundið nein ummæli í frv., sem bendi til þess, að þannig eigi að taka þetta. Það stendur hvergi í þessu frv., að raforkan skuli verða seld það dýru verði, að með því móti einu skuli sá kostnaður fást upp borinn, sem leiðir af framkvæmd raforkumálanna fyrir landið í heild. Það eru fleiri leiðir til þess að hafa upp þann kostnað. Og ég get sagt hv. 11. landsk. þm., að það er vissulega meining n., að við framkvæmd þessa máls verði raforkan alls ekki seld svo háu verði, að með því móti einu verði séð fyrir framkvæmdum á málinu og rekstri og viðhaldi vatnsvirkjana og þess konar.

Annars er mér ekki tamt að fara út í svona lagaðan samanburð, hvort heldur sem er milli bæja innbyrðis eða bæja og sveitahéraða. Og ég tel það illa farið, hvar sem slíkt skýtur upp höfðinu. Og ég álít, að við hér á hæstv. Alþ. eigum ekki að gera nema sem allra minnst að þess konar samanburði og metingi. Við eigum að líta á málefni, sem snerta alþjóð manna, frá víðara og betra sjónarmiði heldur en að vera með þess konar uppgjör. Það græðist líka oftast lítið á því, svo að það er ekki skaði skeður, þó að lítið sé að því gert. En af því nú, að hv. 11. landsk. þm. lagði svo mikla áherzlu á þetta atriði, vil ég minna hann á, að það vill nú svo til, að þar, sem þéttbýlið er mest, og þar sem andveldast er að koma raforkumálunum í framkvæmd, og þar, sem það er búið sums staðar, þar eru teknir fjármunir af sameiginlegum sjóði landsmanna, á beinan og óbeinan hátt, til framkvæmdanna. — Og ég tala nú ekki um þá möguleika, sem fyrirtæki byggja á um þessa starfsemi sína. Og af því að hv. 11. landsk. þm. fór út í þetta, vil ég beina til hans þessari spurningu: Hefur hann ekki gert sér þess grein, hver styrkur þessu bæjarfélagi, Reykjavík, er að öllum þeim embættismönnum ríkisins og ríkisstofnunum, sem eru í Reykjavík, og hvort þetta muni vera einskisvert fyrir raforkuframkvæmdir bæjarins og rekstur raforkufyrirtækja? Bærinn á vitaskuld sinn mikla þátt í þeim. En það er þjóðin öll í heild, sem stendur að starfsmönnum ríkisins og ríkisstofnunum, og þar með þeim styrk, sem raforkufyrirtækjum Reykjavíkurbæjar er að því, að embættismenn ríkisins margir og ríkisstofnanir eru sett í Reykjavík.

Og ég vil minna hv. 11. landsk. þm. á annað fyrirtæki, sem er í uppsiglingu, sem hann a. m. k. hefur léð lið sitt til, að kæmist á í þeim búningi, sem það er í og verður, og það var ekki af skilningsleysi á hlutunum; enda var á það bent, þegar það mál lá hér fyrir hv. d., að grundvöllur þess fyrirtækis væri ekki sem traustastur. Framgangi þess fyrirtækis var ekki mótmælt af hálfu þeirra manna, sem höfðu yfir sérþekkingu að ráða, og var þó meira upp úr sérfræði að leggja í sambandi við það fyrirtæki, þar sem það var byggt á ýtarlegri og nákvæmri athugun. En reynslan er ónotaleg af þeirri framkvæmd, — ef hv. þm. yfirleitt fá nokkur ónot af því, sem þeir gera, þegar þeir láta þykkjur sínar í ljós gegn einhverju. Þetta fyrirtæki er á Siglufirði. Rekstur þess fyrirtækis byggist á því að verulegu leyti, að ríkisfyrirtæki eitt, sem stendur þar, skipti mikið við það, þ. e. a. s. það er ætlazt til þess, að það leggi af mörkum 250 þús. kr. styrk af sínu starfi til rekstrar þessa fyrirtækis. Ef litið er á Siglfirðinga, eiga þeir minnstan hlut í þessu ríkisfyrirtæki beinlínis. Það er þjóðfélagið í heild, sem hefur komið því upp, þó að þarna séu menn í hnapp, rúmar þrjár þús., sem hafa fyrir þetta ríkisfyrirtæki aðstöðu til að koma rafstöð upp og reka hana. Og það er því hægt að segja, að þjóðfélagið, og þá að mestu leyti aðrir en Siglfirðingar sjálfir, — þar á meðal margir, sem enn eru raforkulausir — eigi síldarverksmiðjurnar. Nú dettur mér ekki í hug að telja það eftir, þó að Siglufjörður hafi tekjur fyrir sína rafveitu af þessu ríkisfyrirtæki. En hvernig er réttlætiskennd þeirra, sem vilja ekki, að allir þjóðfélagsþegnarnir hafi sömu aðstöðu í þessu efni, svo fljótt sem hægt er að koma því við? — Það er betra að hafa minni prófstimpil, álít ég, til þess að flagga með og vera þá laus við, að menn hefðu ástæðu til að geta sér til, að réttlætiskennd þess hins sama manns gripi ekki svo mjög til þess, að allir nytu sama réttar í þjóðfélaginu.

Einu vil ég víkja að, sem kom fram í ræðu hv. 11. landsk. þm., að hann virtist hafa trú á því, að þetta, — þ. e. a. s. að bæjarfélög mættu virkja sér fyrir sig án tillits til annarra raforkuframkvæmda síðar —, þyrfti ekki að verða til hindrunar jafnvel fyrir þau sveitarfélög, sem vilja ganga fram á sömu braut og verið hefur í þessu efni. — Ekki styðst hann þar við þá stuttu reynslu, sem við þó höfum. Því að það hefur verið hinn mesti skortur í raforkunni, þar sem slíkar framkvæmdir eru komnar, sakir erfiðleika á að koma þessum verkum í framkvæmd. Ég ætla, að Akureyringar hafi um s. l. jól setið í kulda og myrkri, — ekki af því, að ekki væri nóg vatnsafl í Laxá, sem búið er að virkja, heldur af því, að þarna vantar stíflu til þess að passa upp á rennslisjöfnuðinn, ef þurrkatíð er mikil.

Svo vék hv. 11. landsk. þm. að einstökum gr., og var ekkert út á það að setja, hefði það getað orðið til leiðbeiningar fyrir þá n., sem á að fjalla um málið. En af því að hann taldi nú, að málið í heild væri flausturslega úr garði gert og illa samið frv. og það bæri það með sér, að það væri ekki af þekkingu gert, — hann var nú svo lítillátur að minnast á það í þeim dúr —, þá hefði nú mátt vænta þess af manni, sem býr yfir mikilli þekkingu og vísdómi og getur að sjálfsögðu komið sínu máli rétt fram, að hann hefði þá bent á, hvernig betur hefði mátt fara í ákvæðum frv. í þeim gr., sem honum fannst á skorta, að væru vel samdar. Hann færði að vísu fram ýmis atriði, sem hann væri ósamþykkur hvað stefnu við kemur. En það er bara allt annað mál. Hann vék ekki að því að setja skýrt fram það, sem hann vildi vera láta, heldur að hann væri ósamþykkur ákvæðum frv. Hann drap á, að það væri fjarri öllu lagi að selja raforkuna til mismunandi nota með sama verði. Og hann sagði, að það væri fjarri lagi að selja alls staðar á landinu rafmagn til sömu nota jafnháu verði, t. d. alls staðar jafndýrt til ljósa, jafndýrt til hita og jafndýrt til suðu alls staðar á landinu. Þetta fannst honum óheyrilegt, og hann fann það til, að það mundi standa svo mismunandi á um orkuframleiðsluna á ýmsum stöðum. Og þannig mun það verða í byrjun. En þegar búið er að koma á heildarskipun í þessum málum og raforkan er orðin nóg, hygg ég, að þessi mismunur geti horfið. Að vísu veit maður, að þetta getur ekki orðið á mjög nálægum tíma. En síðar meir ætti það að geta orðið. Og þó að það gæti ekki orðið í okkar tíð, þótt við lifðum lengi, finnst mér, að þetta ætti að vera stefnumiðið, sem við í þessu máli keppum að. Og það munu þeir gera, sem ekki líta fyrst og fremst á nokkurn hóp manna og hagsmuni hans.

Hv. 11. landsk. þm. heldur því fram, að það sé gert í áróðursskyni að flytja þetta mál, sem yrði fyrir landsmenn í heild. En ef það á að vera ein aðalmótbáran gegn þjóðþrifamálum, ef þau eru þannig, að margir hafa gagn af framkvæmd þeirra og því séu þau flutt sem áróður, þá fer að verða vandi fyrir þá menn að flytja mál á þingi, sem vilja koma einhverju góðu og miklu til vegar. Ég hélt, að aðalatriðið væri það um mál, hvort þau væru þess virði, að þau væru framkvæmd. Mér hefur skilizt, að hv. 11. landsk. væri ekki á móti því, — og það hef ég séð á atkv. hans —, að rafmagnsframleiðsla væri aukin fyrir þéttbýlið. En mér dettur ekki í hug, að hann geri þetta í áróðursskyni. En hvað er hann þá að gera öðrum getsakir í þessu efni? Því að ekki verður það misskilið, eins og hann setur mál sitt fram gagnvart okkur, sem flytjum þetta frv., að hann telur það flutt í áróðursskyni.

Svo minntist hv. 11. landsk. þm. á það, að það væri fjarri öllu lagi að ætla að hafa þetta fyrirkomulag, sem í frv. er gert ráð fyrir, því að raforkan væri sérstökum lögum háð og öðruvísi þyrfti að flytja hana heldur en mjólk o. þ. h. Jú, ég veit vel, að þótt raforkan sé mæld, þar sem hún er notuð, þá er hún ekki mæld í mælikeri og ekki heldur eftir lengdarmáli. En jafnfróður maður og hv. 11. landsk. þm. er um þessa hluti, þá hélt ég, að hann sæi möguleika til að yfirstíga þann erfiðleika, sem á er um sölu orkunnar, þótt sami aðili annist hvort tveggja, heildsölu og dreifingu. A. m. k. verður það ekki svo óskaplega mikill vandi, þegar þannig er komið, að mjög mikill hluti landsmanna getur orðið orkunnar aðnjótandi til nauðsynlegra hluta, sem maður gerir ráð fyrir, að raforkan verði fyrst og fremst notuð til. En meðan raforkan er ekki svo mikil, er ákaflega einfalt mál að hafa vissar reglur um hverja tegund orkunnar í þessu sambandi. Og mér fannst þessi mótbára segja býsna lítið hjá hv. þm. Ég hef séð um þetta ritað í Reykjavíkurblöðunum. Og þar kemur fram, að menn hafa nokkuð ólíkar skoðanir bæði á sölu mjólkur og raforku. Það er t. d. gerð krafa um það, að til sé ávallt nóg og góð mjólk til sölu í bænum og hún sé seld við sem vægustu verði. Og þetta er eðlilegt. Þetta er nauðsynleg og þýðingarmikil vara, og von er, að menn vilji gjarnan hafa þetta svo. En ég hef ekki séð það lagt til af hálfu þeirra manna, sem brýna fyrir mönnum sparnað á vatni og rafmagni stundum, að þeir vilji gera ráðstafanir til þess, að mjólk sé spöruð á þeim tíma, þegar minnst er til af henni, og mönnum bannað að nota hana, nema til vissra hluta, t. d. handa börnum og gamalmennum, og lögð verði refsing við, ef út af er brugðið. En t. d. ef menn setja ofn í samband þar, sem kalt er í herbergi, þá hef ég séð tilkynningar um það stundum, að það gæti leitt til þess, að menn yrðu fyrir það sviptir raforkunni, ekki aðeins til þeirra hluta, heldur og til annarra. Svo að það eru uppi skoðanir um það, að sala á raforku sé nokkuð öðrum lögum háð heldur en sala á mjólk. Ég hef ekki séð af hálfu þessara manna, sem slíkar tilkynningar birta, eða vitað talað um, að menn ættu aðeins að nota mjólkina á vissan hátt, t. d. handa börnum og gamalmennum. En það hefur verið bent á þessi ráð. En mjólk hefur ekki vantað svo mjög, að þurft hafi að gera svo róttækar ráðstafanir í þessum efnum.

Nú er það á allan hátt ekki nema eðlilegt, að orka til mismunandi notkunar sé seld misjöfnu verði, og það er alveg rétt, að notkunin til vissrar starfsemi gæti því aðeins átt sér stað, að orkan yrði ekki seld of dýru verði. Áætlanir liggja fyrir um það, hvað orka megi kosta til verksmiðjuiðnaðar. En svo liggja líka fyrir allt aðrar áætlanir, gerðar af mönnum með hliðstæða þekkingu, þar sem verðið er áætlað margfalt hærra.

Nú er ég ekkert að tala um það, þótt hv. þm. hafi aðra skoðun á þessu hvað framkvæmdir snertir. Það var vitaskuld honum frjálst, en ég hefði bara kunnað betur við, að hann hefði talað um málið út frá því sjónarmiði, en ekki á þann hátt, sem hann gerði, en ég viðurkenni engan veginn, samt sem áður, að það hafi verið með fullum rökum. Hann sagðist gjarnan vilja, að ríkið byggði raforkuverin og legði línurnar, en sveitarfélögin eða annar félagsskapur annaðist svo dreifingu orkunnar. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig, og ég er ekkert að deila á hann, þótt hann hafi það, en ég veit, að hann er mér eigi að síður sammála um, að þetta geti torveldað framkvæmdir af hendi ríkisins, vegna þess að aðstaðan hér á landi er þannig, náttúrlega ekki sízt út um hinar dreifðu byggðir, að ríkið hlyti að verða að sjá um, hvernig framkvæmdirnar verða, og það verður að hafa sína kunnáttumenn, ekki eingöngu við það að leggja línurnar, heldur og til eftirlits og viðhalds. Það verður áreiðanlega langöruggast með því, að ríkið hafi þetta hvort tveggja og annist allt saman. Það þarf á þessum mönnum að halda hvort sem er og launa þá, og er þá langbezt, að þeir hafi þetta allt með höndum. Það yrði ódýrast með þeim hætti, bæði hvað viðhald snertir og svo minni hætta á óhöppum.

Hv. 11. landsk. þm. fannst ákvæði 7. gr. alveg fráleitt, og það skildist mér hann byggja bæði á því, að ekki væri fullgengið frá áætluninni, þannig að ekki væri hægt nú að segja um, hvar orkustöðvarnar yrðu reistar og alls ekki hve margar og fyrir fram ekki auðsætt, hvar háspennulínurnar kynnu að liggja. Ég get nú ekki verið honum sammála um það, að þetta þurfi að vera ágalli. Markmiðið, sem stefnt er að, eða markið öllu heldur, sem stefnt er að með frv., segir til sín með ákvæðum sömu gr. Og ég hélt satt að segja, að hann mundi ekki finna að því, þótt ekkert yrði fastráðið um þetta fyrir fram, fyrr en fullnaðarrannsókn hefur farið fram, því að það hefur verið, fyrir allra hluta sakir, óráðlegt, meðan ýtarlegri rannsókn um þetta efni er ekki að fullu lokið. Ákvæði 7. gr. eru því ekkert annað en bending um það, hvernig hugsað er að haga þessum framkvæmdum, og ef litið er til okkar eigin löggjafar, svo að menn fari nú ekki lengra, með önnur framkvæmdamál, þá er það með líku sniði, hvað þetta áhrærir. Það þarf ekki annað en minna á símal., vegal., brúarl. Þó að bent hafi verið á höfuðlínuna, t. d. höfuðveg og höfuðlínu, þá er engan veginn svo að skilja, að löggjafinn hafi talið sig, við nánari athugun á málinu, þannig bundinn, að það skyldi verða endanlegt, sem upphaflega var hugsað. Þ. hefur það á hverjum tíma í hendi sér að breyta til eftir hentugleikum, og eins býst ég við, að svo sé um þetta mál, en það hefur á engan hátt minna gildi nú, að á það sé bent, hvernig framkvæmdir séu hugsaðar. Frv. ber það líka með sér, að ætlazt er til þess við hverja einstaka framkvæmd, að þ. á hverjum tíma, um leið og í þetta er ráðizt, taki ákvörðun sína.

Þetta hélt ég, að hv. 11. landsk. þm. mundi verða mér sammála um og telja þetta bót í máli. Hann hafði nú stór orð um þetta, en ég gef nú ekkert um að fara nánar út í það. Ég er bara að benda honum á það, sem gerzt hefur í okkar framfaramálum, sem alþjóð hefur staðið að, hvernig fyrri tíma menn, sem bezta og gleggsta yfirsýn höfðu, litu á þau.

Þá vék hv. þm. að ákvæðum 8. gr. Ég ætla ekki að fara langt út í það, ég tel þess ekki þörf. Honum fannst, að hætta kynni að vera á því, að sú heimild, sem veitt er í gr. til þess að nota raforkusjóð til framkvæmda, kynni að verða misnotuð. Það er náttúrlega aldrei hægt að staðhæfa um það fyrir fram, hvernig kann að verða farið með fjármuni, sem heimilað er að nota, en eftir því fyrirkomulagi, sem hugsað er, að verði á þessum framkvæmdum, þá ætla ég, að Alþ. verði á hverjum tíma að samþ. þá meðferð, er hafa skal á fénu, áður en til framkvæmdanna kemur, og mundi þá segja til, hvort því sýndist, að sú till., sem fram kæmi um að nota eitthvað af sjóðnum, væri forsvaranleg eða ekki, og mundi það þá verða undir samþykkt þess komið. Veit ég ekki, hvort menn geta fyrir fram öllu tryggilegar búið um þetta atriði. Það er fjarri því, að ég hafi á móti því, að það yrði gert, ef menn koma auga á það, hvernig það færi betur og væri tryggilegar um búið. En gæta verða menn þó þess, að það kæmi ekki í bága við framkvæmdirnar, ef rammar skorður verða reistar um notkun fjárins fyrir fram. Ef sett yrði það ákvæði í gr. t. d., að aðeins vissan hluta mætti nota af sjóðnum, væri þá alveg víst, að það yrði ekki misnotað? Gætu framkvæmdirnar ekki verið þannig, að það væri misnotkun samt? Ég á við, að um svona lagað atriði er ákaflega mikill vandi að hafa ákvæðið þannig, ef menn ekki eru ráðvandir og blátt áfram vita glögg deili á því, hvað gera verður, að fyrirbyggt sé, að misnotkun eða mistök geti að einhverju leyti átt sér stað. En það er fjarri því, að ég átelji það hjá, hv. þm., ef hann teldi á einhvern annan hátt betur hægt að ganga frá þessu atriði.

Þá minntist hann nokkrum orðum á stjórn raforkumála, og er ég í sjálfu sér ekki alveg á sömu skoðun og hann, en það er allt annars eðlis. Við getum sagt, að um skoðanamun sé að ræða, og mér dettur ekki í hug að staðhæfa, að hann kunni ekki að hafa nokkuð til síns máls um það atriði, en ég vil nú benda honum á, að þótt farið sé að eins og hann lagði til, er engan veginn víst að betur sé frá þessu gengið. Ég vil ekki staðhæfa, að það kynni ekki að vera, en það er engan veginn tryggt.

Þá minntist hv. þm. á skýringarnar við hinar einstöku gr., og það skiptir náttúrlega ekki miklu máli um það, því að það er allt annað, sem máli skiptir, svo að menn geta látið sér það í léttu rúmi liggja.

Hv. þm. sagði, að skýringarnar á einstökum gr. væru í raun og veru ekki annað en uppprentun á gr., en orðunum bara vikið við. Þetta var eitt dæmi um það, hvað honum fannst áfátt um þessi vinnubrögð. Ég man nú ekki eftir, að af hálfu þessa hv. þm. hafi komið fram stórvægileg þingmál, þar sem reynt hafi á kosti hans til þess bæði að semja l. og skýra, en þetta er í engan stað heldur neitt óeðlilegt. Hann er ekki búinn að eiga hér langa setu, svo að það er á engan hátt neitt sérstakt við það, en hálf finnst mér, að hv. þm. geri sér skrýtna hugmynd um skýringar á l., ef hann býst ekki við, að efni gr. sé rakið í skýringunum. Til hvers eru skýringar á lagagr.? Þær eru til þess að gera efni gr. ljósara og hvað fyrir þeim vakir, sem að lagasetningunni standa, skýra það nánar en gert er í gr. Skýring verður því aldrei annað en uppprentun á lagagr., með öðru orðalagi auðvitað. Þetta veit ég nú, að hv. þm. finnur ofur vel, þegar hann fer að hugsa um það. Ég held reyndar, að hann hafi sagt þetta, eins og sumt annað í ræðu sinni, þannig að hann hafi ekki nákvæmlega yfirvegað, hvað hann var að segja. Svo er annað mál, ef skortur er á, að skýring sé gefin við óljósa lagagr., svo að ekki er greinilegt, hvað fyrir flm. vakir. Það er annað mál. En yfir því kvartaði hv. þm. ekki svo mjög. Það kann að vera eitthvað þess háttar, samt sem áður, sem hefur vakað fyrir honum með þessum ummælum. En ég vil nú vona, samt sem áður, þótt eitthvað kunni á að skorta í þessu efni, þá sé í höfuðatriðum bæði efni gr. ljóst og skýringar þar, sem þeirra er þörf, og segi til, hvað fyrir flm. vakir. Hv. þm. benti á ákvæði einnar gr., sem ekki væru fullkomlega ljós, í gr. um heildsölu og smásölu. Ég hef vikið að því, hvernig það er hugsað, sem honum þótti ekki koma nógu skýrt fram, en þeir, sem þekkingu hafa á þessum málum og lesa gr. nákvæmlega, vita algerlega, hvað hún felur í sér. Ég ætla svo ekki að þessu sinni að fjölyrða frekar um þetta.

Ég gat ekki annað en andmælt ræðu hv. þm., ekki fyrir það, að það í sjálfu sér skipti miklu máli, hvort það væri gert eða ekki gert. Mér þykir leiðinlegt, að jafnvel þótt fyrir honum vaki að gera vel í þessu máli, þá finnst mér, ef hann heldur því fram, sem virtist helzt vera í ræðu hans, það gæti orðið til hindrunar og tafar í málinu. Mér þykir leiðinlegt hans vegna, ef seinni tíminn þyrfti um þau vinnubrögð okkar að dæma, að þá væri hann heldur meinsmaður málsins en hitt.

Lífið heldur áfram.

Ég er nú kominn það við aldur, að ég lef kannske litla von um að sjá yl og ljós koma frá þessu út um byggðir landsins, þótt farið sé eftir beztu og heppilegustu leiðum.

Þessi maður, sem er miklu yngri en ég, á vafalaust eftir að starfa mikið og til gagns sínu þjóðfélagi. Vonandi verður það hans hlutskipti, að hann geti litið til fortíðarinnar á þann hátt, að það, sem hann lagði til þessa máls, sé það bezta og gagnlegasta og reynslan eigi eftir að sýna það. En eftir nokkrum ummælum og atriðum, sem fram komu í ræðu hans, og ætli hann að halda fast við það, sem eftir því, sem mér virtist, — ég vildi helzt mega skoða það sem ég hafi misskilið hann, og þá bið ég afsökunar, — á ræðu hans, þá er ég í nokkuð miklum vafa um, hvort hann geti þá litið þannig til þeirra tíma, sem í hönd fara, með þeirri vissu, að stefna hans hafi ekki verið til hindrunar og hins verra. En ég, sem sagt, óska, að slíkt komi ekki fyrir.