07.02.1945
Efri deild: 120. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. — Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið endursent frá Nd., og hafa þar verið gerðar á því tvær breytingar, og er önnur þeirra nokkur efnisbreyting. Ég tel óþarft að ræða þetta mikið, því að öll þessi deild var sammála um það, og var það afgr. héðan með 10 shlj. atkv. Má það því teljast sennilegt, að deildarmenn hafi ekki skipt um skoðun síðan.

Gjald það, sem hér um ræðir, er greitt af framleiðendum landbúnaðarins sjálfum, og hafa þeir á búnaðarsambandsfundum talið sig fúsa til þess að leggja þetta af mörkum til sjóðs til eflingar bændastéttinni, og skal búnaðarþingi falið síðan að veita úr sjóðnum. Nú kom fram till. í Nd. um, að varasamt sé að láta búnaðarþing annast greiðslur úr sjóðnum, heldur á að fela hæstv. landbúnaðarráðh. það. — Því fer fjarri, að ég vantreysti hæstv. landbrh., en við vitum ekki, hvað lengi hann situr, og því allur varinn góður, og hygg ég, að bændur óski ekki eftir neinum fjárhaldsmanni á þessu sviði. Það er mælt af sumum, að bændur séu tregir til þess að láta fé af hendi, en þessi sjóður ætti að verða ríkissjóði til mikils léttis. Og það er illt, þegar bændur ætla að láta þetta fé af hendi, þá séu þeir ekki taldir fullkomlega fjár sins ráðandi.

Við höfum því. hv. 1. þm. N.-M. og ég, leyft okkur að bera fram skriflega brtt. við 1. gr. frv., og er hún svo hljóðandi:

Við 1. gr. Orðin „enda komi samþykki landbúnaðarráðherra til“ falli burt.