07.02.1945
Efri deild: 120. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (3681)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Ég minntist á þetta örlítið. þegar rætt var um þetta frv. hér í hv. d., og taldi, að þetta frv. væri í raun og veru alveg einstakt í sinni röð, þar sem ákveðnum stéttarsamtökum er gefin heimild til þess að leggja skatt á eina stétt og ráðstafa síðan þessum skatti eins og forráðamönnum þessara stéttarsamtaka býður við að horfa.

Þetta er alveg einstakt og alveg sambærilegt við það, ef Alþýðusambandi Íslands væri heimilað með l. að leggja 1/2% skatt á öll vinnulaun í landinu og fá í sinn sjóð allmikið fé, sem gæti kannske skipt millj. kr. (HermJ: Leggja þeir ekki meira á?) Mér er ekki kunnugt um það, — eða heldur hv. þm. það? Mér er kunnugt um, að fámenn iðnfélög leggja nokkurt gjald á meðlimi sína. En hvað snertir Alþýðusambandið, þá er ekki um slíkt gjald að ræða, sem er hliðstætt því, sem er í frv. Ef slíkt frv. væri flutt hér á þingi, mundu óðar koma háværar raddir um það, að slíkt hefði aldrei heyrzt fyrr, og enn fremur færi frv. fram á það. að Alþýðusambandinu væri heimilað að ráðstafa þessu fé. Þetta er algerlega hliðstætt og viðurkennt af hv. þm. En hvað ætli væri sagt, ef svipuð till. kæmi frá verkalýðsfélögunum, en það gert að skilyrði um úthlutun þessa skatts, að viðkomandi ráðh. yrði að vera henni samþykkur, m.ö.o., rétt til þess að stöðva, að þetta fé yrði beinlínis misnotað, og hvernig ætli því yrði tekið, ef staðið væri upp og sagt, eins og hv. þm. sagði áðan, að hér með væri verið að gera þessa stétt, sem nú væri verkamannastéttin, ómynduga?

Úr því hv. þm. Str. fór að gera samanburð á þessum tveimur stéttum, þá er bezt að halda því áfram og gera samanburð á því. sem er algerlega hliðstætt. Hv. þm. vildi, eins og hér er farið fram á, að Búnaðarfélagið fái með l. heimild til að leggja þennan skatt á bændur; hv. þm. sagði, að bændur væru í mótsetningu við verkamenn, þeir væru svo dreifðir út um strjálbýlið og ættu svo erfitt um samtök, að þeir gætu ekki lagt sín gjöld á eins og verkamenn. Nú er því fyrst og fremst að svara, að þetta gjald, sem hér er um að ræða, er svo miklu hærra gjald heldur en verkamenn leggja á sína meðlimi yfirleitt, svo að þar kemur enginn samanburður til greina. Í öðru lagi. að því er jafnvel haldið fram, að yfirleitt væru bændur skipulagsbundnir í búnaðarfélögum, og þar sem þetta kemur frá Búnaðarfélagi Íslands, kemur þetta frá bændum sjálfum. Og ef það er rétt, að bændur séu yfirleitt svo félagsbundnir í búnaðarfélögum eins og hv. þm. hélt fram, þá virðist mega ætla, að auðvelt sé að innheimta þetta gjald án aðstoðar löggjafans, við skulum segja af mjólkurbúum, kaupfélögum og sláturfélögum. Ef þetta er í rauninni svo, að bændur séu yfirleitt sameinaðir um það að leggja þennan. skatt á og þeir almennt skipulagðir í búnaðarfélögum. þá þarf enga aðstoð löggjafarvaldsins, og þá þurfa þeir ekki heldur að óttast, að ráðin verði. tekin af þeim yfir þessu fé.

Ég tel þess vegna miklu einfaldara fyrir hv. þm., og aðra, sem berjast fyrir því að fá slík l. samþ. á Alþ., að ná þessu gjaldi inn á frjálsan hátt, eins. og önnur stéttasamtök í landinu. Ég álít það algerlega ófært fyrir Alþ. samþ. þetta frv. þannig, að það sé útilokað, að viðkomandi ráðh. geti gripið fram í með framkvæmdir fjárins, vegna þess að það er á engan hátt trygging fyrir því, að féð verði ekki misnotað. Og eftir þær umr., sem hér hafa farið fram, óttast ég það enn þá meir, að slíkt geti átt sér stað, enda höfum við ljós dæmin um misnotkun fjár, sem sams konar menn hafa ráðið yfir og vilja nú fá yfirráðin fyrir þessu fé, og nægir að nefna þar t.d. S.Í.S. Það fé, sem S.Í.S. ræður yfir, sem er sumpart fengið af opinberu fé, er svo herfilega og freklega misnotað, að það mundi verða algerlega óviðunandi,, að slíkt gæti átt sér stað með þetta fé eins og S.Í.S. hefur gert, og menn gætu fengið yfir slíku. fjármagni að ráða fyrir aðstoð löggjafans, eins og hér er farið fram á. Misnotkun sú, sem S.Í.S., hefur framið á því fjármagni, sem það hefur haft yfir að ráða, hefur komið greinilega í ljós hvað snertir skólahald og blaðaútgáfu, sem það hefur haft með höndum. Blaðaútgáfan er notuð til pólitísks áróðurs, sem er kannske enn þá hatrammari og enn þá ósvífnari en þekkzt hefur í nokkru öðru málgagni hér á landi. Samvinnuskólinn er líka notaður sem áróðursstofnun, og ég gæti nefnt margt dæmið, ef í það færi, sem ég get lagt sönnunargögn fyrir.

Ég ætla svo ekki að fara lengra út í þetta, og vitaskuld er ekkert hægt um það að fullyrða, hvernig þetta fjármagn yrði notað, en hitt er víst, að sú reynsla, sem þegar er fengin um notkun slíks fjár, ætti að verða til varnaðar, þannig að slíkt frv. sem þetta verði ekki samþ. nema því aðeins, að það feli í sér ákvæði um það, að viðkomandi ráðh. geti stöðvað notkun þessa fjármagns, ef um misnotkun verður þar að ræða, og sú brtt., sem samþ. hefur verið í Nd., er í raun og veru ekki um annað en þetta, sem þeir hv. þm. Str. og hv. þm. Dal. vilja láta niður falla.