08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (3700)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Ég hef borið hér fram smábrtt. við þetta frv. á þá leið, að lögin komi til framkvæmda 1. marz, í stað þess, sem í frv. stendur, að þau skuli koma til framkvæmda 1. febr. 1945. Það getur tæplega staðizt, þar sem 1. febr. er liðinn, en gert var ráð fyrir, að l. mundu öðlast gildi, þegar er frv. hefði verið samþ. Ég tel því, að ekki verði hjá því komizt að gera þessa breyt. á frv., þó að e.t.v. megi segja, að l. komi ekki til framkvæmda 1. febr. Það er auðvitað engin bót og mjög óvenjulegt, að sá háttur sé á hafður, enda alls ekki til þess ætlazt í þessu tilfelli.

Hv. þm. Str. sagði um þetta atriði. að það væri flutt í þeim tilgangi að bregða fæti fyrir frv., en röksemdir hans fyrir því þóttu mér næsta lítils virði.

Ég þarf svo ekki að segja mikið um þetta mál almennt. Það er búið að taka það fram af rökum bæði með og móti þeirri brtt., sem fram er komin frá hv. þm. Dal., sem þörf er á. Ég vil þó aðeins segja það viðvíkjandi röksemdafærslu hv. 1. þm. N.-M.. þar sem hann heldur því fram, að mjög mikill munur sé á Búnaðarfélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, vegna þess að Búnaðarfélagið hafi ýmsar verklegar framkvæmdir með höndum og umsjón með ýmsum verklegum framkvæmdum, sem því sé beinlínis falið af ríkisvaldinu, þá er það alveg rétt hjá honum, að þessi munur er „a þessum tveimur samböndum, en hins vegar fær Búnaðarfélag Íslands mjög mikinn styrk af opinberu fé til þessara framkvæmda og þessara umsjónarstarfa og hefur launaða starfsmenn frá ríkinu til þess, og vitaskuld verður greiddur úr ríkissjóði kostnaður við þau verk, sem Búnaðarfélaginu eru falin; hjá því verður ekki komizt. En ef nú Alþýðusambandið fengi til umráða tvær milljónir króna auk þeirra frjálsu iðgjalda, sem það fær frá félögum sinum, og á þann hátt með löggjöf frá Alþingi lagður skattur 1/2% á öll vinnulaun. sem greidd væru meðlimum í Alþýðusambandinu, þá geri ég ráð fyrir, að ekki kæmi annað til mála en að Alþýðusambandið innti af hendi einhver þjóðfélagsleg verkefni fyrir þetta fé, og þá mundu koma til greina verklegar framkvæmdir, sem sambandið hefði með höndum, og þá mundi ekki annað koma til greina en að viðkomandi ráðh. gæti haft eftirlit með því, hvernig þessu fé yrði varið. Sá munur, sem hv. þm. var þar með á Búnaðarfélaginu og Alþýðusambandinu, kemur í þessu tilfelli ekki málinu við. Það, sem hér er sambærilegt er það, að Búnaðarfélagið fær til umráða fé, sem fæst með skatti, sem lagður er á bændur með löggjöf, og eins og frv. var upprunalega, þá var ætlazt til, að Búnaðarfélagið gæti ráðstafað því eins og því sýndist, alveg eins og Alþýðusambandið getur ráðstafað frjálsum iðgjöldum meðlima sinna. Það er þetta, sem mér virðist ekki geta komið til greina og enginn þessara hv. þm. mundi telja geta komið til greina, ef Alþýðusambandið ætti í hlut.

Um það hefur verið rætt, að til greina gæti komið, að viðkomandi ráðh. misbeitti sínu valdi. þannig að hann leyfði ekki, að þetta fé væri notað til þeirra hluta, sem landbúnaðinum væru nauðsynlegir og bændur almennt vildu verja fénu til og teldu nauðsynlegt fyrir sína stétt. Slíka tryggingu er aldrei hægt að gefa, en það liggur í hlutarins eðli, að þetta vald getur ekki verið annars staðar en hjá ráðh., vegna þess að þessi skattur er lagður á með l. frá Alþingi á bændastéttina. án þess að nein trygging sé fyrir því, að bændur greiði þennan skatt til sinna samtaka af frjálsum vilja. Það er óviðunandi fyrir löggjafarvaldið, að þessi samtök ráði algerlega yfir þessu fé, þegar þessi skattur er lagður á með lögum og engin trygging fyrir því, að bændur leggi hann á sig af frjálsum vilja. Þetta er eins og hver annar skattur, og auðvitað geta þeir alltaf misbeitt þessu valdi. Það er t.d. ekki óhugsandi, að þetta fé yrði notað til að gefa út blöð fyrir Búnaðarfélagið, og hver segir, að það yrði ekki ritað eins og Samvinnan eða Bóndinn. sem starfsmenn í Búnaðárfélaginu stóðu á bak við og rituðu mest í. Þetta hlýtur hverjum manni að vera skiljanlegt, vegna þess að það er svo einfaldur hlutur.

Hv. þm. Str. talaði um skoðanamun milli mín og hæstv. fjmrh. að því leyti, að hæstv. fjmrh. taldi þetta hégómamál. (Fjmrh.: Ég sagði, að þetta væri fremur formsatriði en efnisatriði.) Ég sé ekki, að hér sé um eins mikinn skoðanamun að ræða og hv. þm. vildi vera láta. Það, sem hæstv. fjmrh. á við, er þetta, að hann er þeirrar skoðunar, að ekki muni til þess koma, að ráðh. þurfi að grípa fram í, búnaðarþing muni vilja verja fénu þannig, að engin ástæða sé til fyrir ráðh. að grípa þar fram í. Það geta verið um það skiptar skoðanir. hve miklar líkur séu fyrir því, að ástæða sé fyrir ráðh. að nota þetta vald. En ástæðan fyrir því, að ég og hæstv. fjmrh. og aðrir, sem vilja hafa þetta ákvæði í frv., erum fylgjandi því, að ráðh. hafi þetta vald. er sú, að fénu sé ráðstafað á þann hátt, sem ríkisvaldið telur heppilegast.