09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Ég þarf sjálfsagt ekki að fara að kenna hæstv. atvmrh. almenna viðskiptafræði, manni, sem setið hefur í mörg ár sem forstjóri fyrir stóru verzlunarfyrirtæki og bankastjóri fyrir þjóðbankanum, en þó vil ég benda honum á, að ef ríkissjóður getur selt aftur þessi skip og tryggt sér á annan hátt, að kaupendur leggi fé á borðið, eins og hæstv. ráðh. lýsti yfir hér í d. í dag, að hann mundi krefjast, þá er auðvitað hægt að kaupa miklu fleiri en 10–15 skip með þeirri aðstoð, sem ríkissjóður veitir samkv. frv. Það er engum meiri erfiðleikum bundið fyrir ráðh. að selja skipin, jafnóðum og þau eru smíðuð, heldur en fá menn til þess að kaupa þau, óðar en þau eru pöntuð, og setja alla tryggingu á borðið, eins og hæstv. atvmrh. lýsti yfir í dag. Ég er þess fullviss, að lítið verður úr þessum framkvæmdum, ef því verður þannig háttað, sem hæstv. atvmrh. hefur nú lýst, vegna þess að sárfáir aðilar munu treysta sér til þess að leggja allt fé fram á borðið við samningagerð eða fá viðkomandi lánsstofnanir til þess að ganga í ábyrgð fyrir því, að féð verði allt til staðar, þegar skipin kynnu að koma heim að stríðinu loknu.

Hæstv. atvmrh. hefur hótað d. því, að hann muni ekki gera neitt til að greiða úr þessu máli, ef nokkur breyt. verður gerð á l., og er gott að fá að vita, að hann ætlar sér að knýja fram mjög vanhugsuð lagaákvæði á þennan hátt, þótt það hins vegar megi teljast mjög óviðeigandi og á engan hátt viturlegt. Hann hefur ekki fært nein rök fyrir því, að þessi ákvæði séu nauðsynleg í frv., enda eru sum þeirra þannig, að engan veginn er hægt að samþ. frv. eins og það er, og sum þeirra beinlínis hindra, að nokkur maður vilji eða geti notfært sér þennan styrk á þann hátt, sem ætlazt var til.

Ég vil leyfa mér að benda hæstv. atvmrh. á, að ákvæði 12. gr. er sjálfsagt atriði, sem lengi má deila um, hvort heyri ekki alveg eins undir áhættulán í l. nr. 34 frá árinu 1943, því að 85% lán er sannarlega ekki svo lítill styrkur, einkum þegar það er vaxtalaust í 10–15 ár og afborgunarlaust í 5 ár. Það er því ekki alveg ljóst af gr., að hér sé eingöngu átt við það fé, sem er óafturkræft, og ef svo er, þá er nauðsynlegt að breyta þeirri gr. og bæta við: samkvæmt b-lið 6. gr. þessara l., — því að sá liður ákveður nákvæmlega um það, hvort styrkur eða lán er óafturkræft. Þess vegna er nauðsynlegt að gera breyt. á 12. gr.; ef ekki á að fella hana alveg í burtu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar við hæstv. atvmrh. Við höfum báðir skýrt málið hvor frá sínu sjónarmiði, og læt ég svo d. um það, hvernig hún greiðir atkv. um málið.

Ég mun nú snúa mér að hv. 1. þm. S.-M. Mér þykir gott að ræða við hann um sjávarútvegsmál, því að hann er sá maður, sem hefur gott vit á þeim málum og getur fallizt á rök, þegar við hann er rætt og hægt er að draga hann út úr flokksbyrginu. — Fyrst og fremst vil ég benda honum á, að það er einmitt þessi þríklofna n., sem hann sagði, að ég hefði verið að tala um í dag, sem er undirstaðan undir þessari löggjöf og hæstv. atvmrh. hefur soðið þetta frv. upp úr. Mér finnst það því rökrétt áframhald, að þessi mþn. veiti þennan styrk. Ég hefði óskað, að þessi 5 manna n. hefði komið óklofin til hæstv. atvmrh. með till. sínar og geymt að skila þeim, þar til hún sameiginlega hefði fundið einhverja skynsamlega leið, og það hefði að sjálfsögðu verið auðvelt, ef ekki hefði komizt inn sú tilhneiging að efla vald atvmrh. með þessu fé. En til þess var ekki ætlazt af Alþ., þegar fjárveitingin var ákveðin. Hv. 1. þm. S.-M. áleit, að ég vildi koma ábyrgðinni hér á sérstakan aðila, sem ekki er viðurkenndur. En þessi aðili hefur verið viðurkenndur af atvmrh. Þegar ríkisstj. hefur keypt skipin, verður það n. að ákveða, hverjir skuli fá styrk og hverjir lán. Hún mun geta komið sér saman um það eftir þeim upplýsingum, sem hún fær, hvort verða muni heppilegra að fara styrkjaleiðina eða lánaleiðina.

Hv. 1. þm. S.-M. gat um það, að hann vildi styðja gott málefni og mundi hann því greiða atkv. með l. eins og þau eru. Hann hafði aðstöðu í sjútvn. til þess að styðja gott málefni og koma þessu undir þá sömu stofnun, sem hann áður barðist fyrir og gegnir nú sama hlutverki og þessum sjóði er ætlað. En meiningin virðist hafa verið að styðja annað gott málefni, það að gefa ákveðnum ráðh. á hverjum tíma miklu meira vald til þess að valsa og galsa með þetta fé. Þetta tel ég ekki gott málefni. Ég tel hitt betra málefni, að veita þessu fé í þá stofnun, sem sett hefur verið á stofn fyrir sjávarútveginn, Fiskveiðasjóðinn, og ég veit, að hv. 1. þm. S.-M. hefur miklar mætur á. Ég á þess vegna ómögulegt með að skilja, hvers vegna hann bregzt því málefni að láta þetta fé fara þangað, sem það getur orðið útgerðinni til margvíslegrar blessunar í framtíðinni.