09.03.1944
Neðri deild: 30. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég ætla ekki að ræða úrskurð hæstv. forseta í þessu máli, þar sem það mun ekki vera venja að ræða forsetaúrskurði hér á Alþ. En það á kannske að koma hér fyrir ein óvenjan enn, áður en þessu þingi slítur.

Eins og ég tók fram áðan, var fullkominn vilji meiri hl. dm. fyrir breyt. í þá átt á frv., sem við fjórir þm. lögðum hér fram í upphafi þessarar umr. En þá tóku nokkrir þm. sig til og neyttu bolmagns til þess á síðustu stundu að reyna að fremja það ofbeldi að koma í veg fyrir, að þessi till. kæmi til umr., Það kemur í sjálfu sér ekki þessu máli svo mikið við, hvernig þessar till. eru, þegar verið er að veita undanþágu frá þingsköpum, því að það mun vera óvenjulegt, að minni hl. d. reyni að koma í veg fyrir, að mál séu rædd á Alþ. frá öllum hliðum. En það er ef til vill eitt í þeim nýja undirbúningi, sem þessir hv. þm. vilja láta verða að því lýðræðisskipulagi, sem á að ríkja í því nýja lýðveldi, sem væntanlega verður stofnað á Íslandi, að minni hl. reyni að kúga meiri hl. til hlýðni við sig.

Við, sem fluttum þessa brtt., áður en hæstv. atvmrh. tók hana að sér, lítum svo á, að það sé með öllu óverjandi, hver svo sem situr í ríkisstj. á Íslandi, að taka ríkisvaldið úr höndum stj. og setja það í hendur mþn., sem þó á að starfa aðeins stutta stund. Ég hygg, að ég mæli þetta fyrir hönd meiri hl. þeirrar mþn., sem hér á hlut að máli. Það var ætlazt til, að þessi mþn. hefði lokið störfum, áður en það þing kæmi saman, sem nú situr, og það er ætlazt til þess enn, að þessi n. verði sem mest búin að ljúka störfum innan eins mánaðar. En þrátt fyrir það kemur það undarlega fyrir, að hv. Ed. Alþ. tekur sig til og gerir samþykkt um það, að þessi mþn. eigi að taka við störfum, sem annars eiga að vera algerlega í höndum ríkisstj. Nú er það ekki svo, að ríkisstj. sé sett sjálfdæmi um úthlutun þessa fjár, eins og var í frv., þegar það fór úr Nd., heldur var ætlazt til þess og það ákveðið í frv., að ríkisstj. skyldi leita till. stj. Fiskifélags Íslands í því efni. Þó að það sé að vísu eigi ákveðið, að farið skuli eftir till. stj. Fiskifélagsins um úthlutun þessa fjár, er þó gert ráð fyrir, að n. muni fara eftir slíkum tillögum.

Ég fyrir mitt leyti tel, að með þeirri breyt., sem hv. Ed. hefur gert á þessu frv., sé farið inn á svo óvenjulega leið, að í rauninni sé öllu stjórnarfari á Íslandi stefnt í voða, ef taka ætti upp þessa leið og Alþ. gæti, þegar því bíður svo við að horfa, falið einhverri n., sem á að starfa í þingmálum, að fara með framkvæmdavald, sem annars er eðlilegt og sjálfsagt, að sé í höndum ríkisstj. Ég er ekki með þessu að bera neinar brigður á hæfni mþn. til þess að vinna þessi störf, en ég tel, að í þessu felist svo mikið brot á öllum stjórnarfarslegum leiðum, að slíkt megi ekki svo til ganga.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Mér er vel kunnugt um það, að fyrir þeim till., sem hér eru lagðar fram af hæstv. atvmrh., var meiri hl. í þessari hv. d., þegar þær fóru til hv. Ed., og ég hygg, að svo sé enn. Þessar brtt., sem hér hafa verið lagðar fram, miða báðar að því sama, að færa frv. í það horf, sem það var í, þegar það fór frá hv. Nd., það form, sem hingað til hefur verið álitið bezt í samræmi við það stjórnarfar og þær reglur, sem gilt hafa um stjórnarathafnir á Íslandi.