02.02.1944
Sameinað þing: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3993)

20. mál, eftirlit með skipum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég tel rétt, að mál þetta sé rækilega rætt þegar við þessa fyrri umr.

Hv. flm., þm. Ísaf., ber hér þungar sakir á skipaeftirlit ríkisins í sambandi við þau slys, sem orðið hafa að undanförnu. Tók hann þar mjög í sama streng og þeir, sem rætt hafa og ritað um þessi mál af minnstri þekkingu og lítilli samúð. Þykir mér rétt að mótmæla nú þegar þessum ásökunum, um leið og ég leyfi mér að benda á, að það gegnir furðu, að alþm. skuli velja sér það hlutverk að veikja á þennan hátt álit og tiltrú á þessari stofnun ríkisins, sem alþjóð manna verður að mega bera fullt traust til. Er ekki séð fyrir endann á því, hve miklu tjóni þetta kann að geta valdið. Hv. flm. er sjálfsagt vel kunnugt um það, að það eru ekki aðeins vinir og vandamenn, sem eiga fyrirvinnu sína, maka, feður, bræður og syni á hafinu, er verða að treysta þessari stofnun að fullu, heldur og vátryggingarfélögin, sem tryggja líf þessara manna, í því trausti, að öryggið sé eins og bezt verður á kosið. Má fara nærri um, hvaða áhrif það hefði, ef þessir aðilar festu trúnað á slíkum ummælum sem þeim, er hv. þm. Ísaf. hefur haft um eftirlitið.

Með því að hv. flm. á ekki sæti í allshn., sem mál þetta fær nú til ath., en ég á þar hins vegar sæti, þykir mér rétt að ræða við hann nokkuð þessi atriði, svo að öðrum hv. þm. megi verða ljóst, hve hv. þm. Ísaf. hefur farið í flestum atriðum með rangt mál.

Ég er sammála hv. flm. og hæstv. atvmrh. um það, að rétt sé að skipa n. og gefa henni það verkefni, sem um er getið í 1. málsl. till., þó að ekki sé til annars en fullvissa Alþ. og þjóðina um það, sem mér er persónulega vel kunnugt um, að ekkert land í heimi hefur jafnróttæk öryggisl. hvað siglingar snertir og Ísland. Væri það eitt nægilegt til að réttlæta kostnaðinn við nefndarskipunina. En ég get ekki fallizt á, að rétt sé að heimila þessari n. að framkvæma nokkra rannsókn á skipaeftirlitið. Og mig undrar satt að segja, að hæstv. ráðh. skuli mæla eins og hann sé þessu samþykkur, því að vitanlega heyrir það undir rn. að fyrirskipa rannsókn á eftirlitið, ef því þykir ástæða til bera, enda starfar stofnunin undir eftirliti rn. og á ábyrgð þess.

Eins og ég tók fram í upphafi, er það mikils vert fyrir þjóðina, að ekki sé hægt að koma inn hjá mönnum þeirri trú, að ekki megi treysta þessari stofnun. Það er því nauðsynlegt, að rn. sjálft láti fara fram nú þegar rannsókn á því, að hve miklu leyti ásakanirnar á hendur þessari stofnun eru á rökum reistar. Það er hvort tveggja í senn óvenjulegt og óþolandi, þegar svo þungar ásakanir eru bornar á ríkisstofnun, að rn. skuli ekki gera gangskör að því að hreinsa stofnunina af þeim, ef svo reynist, að þær séu ekki á rökum reistar, þá að láta viðkomandi aðila sæta ábyrgð fyrir ámælið. Ég get því ekki fallizt á, að þetta atriði till. sé orðað svo sem þar er sagt, en það verður að sjálfsögðu tekið til athugunar í n.

Þá vil ég minnast á það, sem hæstv. atvmrh. gat um, að verði orðinu skipaverkfræðingur haldið í till., þá verður að leita út fyrir Ísland, því að enginn skipaverkfræðingur er til á Íslandi. Það eru að vísu til tveir menn, Bárður Tómasson á Ísafirði og Hafliði Hafliðason í Reykjavík, sem báðir hafa þekkingu á smíði tréskipa, en ég er viss um, að hvorugur þeirra er fær um að inna þetta verk af hendi. Hins vegar er Benedikt Gröndal sá maður hér, sem næst stendur skipaverkfræðingum að þekkingu, því að allt hans nám gekk út á vélaverkfræði, en þeir nemendur fylgjast að mestallan námstímann. Sama má og segja um Gísla Halldórsson verkfræðing. Ég veit, að þessir menn hafa mikla þekkingu á því, sem lýtur að hinum stærri skipum, en minni á hinum smærri, sem smíðuð eru úr tré. Hins vegar eru hér menn, sem hafa haft þessi störf með höndum, en ekki eru verkfræðingar. Er ég viss um, að þeir hafa meiri þekkingu á þessum málum vegna margra ára reynslu en þeir menn, sem af einhverjum eru kallaðir skipaverkfræðingar. Þá vil ég og benda á, að ég skil ekki, hvers vegna Fiskifélag Íslands á að skipa mann í þessa n. Ég teldi eðlilegra að láta Slysavarnafélagið gera það eða enn heldur Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda eða jafnvel Slysatryggingafélag ísl. skipshafna.

Þá vil ég minnast á þau rök, sem færð voru fram í þessu máli í gær. Ég tel, að það varði ekki litlu, að rök, sem borin eru fram í jafnmikilsverðu máli, séu ekki alveg út í bláinn. Því undrar mig, að hv. þm. Ísaf., sem ég veit, að ætlast til, að ummæli sín séu tekin alvarlega, skuli flytja hér innan Alþ. jafnvillandi forsendur fyrir máli sínu og hann gerði í gær, þar sem hann sagði, að ofhleðsla togaranna næmi allt að 135% miðað við það, sem var fyrir stríð. Til stuðnings máli sínu las hann upp úr skýrslu Fiskifélags Íslands. Hann gat þess meðal annars, að Arinbjörn hersir hefði tekið hér um bil 94 tonn í ferð 1939, en rúml. 205 tonn 1943. En ég vil nú leyfa mér að lesa upp tölur um hleðslu Arinbjarnar hersis 1938 bæði frá Íslandi og til landsins:

Á útleið:

94 tonn af fiski

40 tonn af ís

5 tonn af vatni

80 tonn af kolum

15 tonn af veiðarfærum

1 tonn af vistum

Á heimleið:

330 tonn af kolum

5 tonn af vatni

15 tonn af veiðarfærum

5 tonn af vistum

235 tonn hafði þetta skip í sér að jafnaði á útleið, en 355 á heimleið. Þó að skipið hafi aðeins flutt þessi 94 tonn af fiski árið 1938, þá má ekki skilja það svo, að það hafi ekki haft meira burðarmagn en þetta, heldur var ástæðan hin, að það var þá ekki unnt á 10–14 dögum að fylla skip við Ísland sama fiskmagni og nú, vegna þess hve mikil mergð skipa var þá á miðunum, enda þá ekki hægt að selja í Englandi hinar auðfengnu fisktegundir, svo sem karfa og ufsa, eins og nú er gert, auk þess sem flestum skipum okkar var þá úthlutað fiskmagni í hverri ferð, svo að farmur skipsins takmarkaðist af þeirri úthlutun, en ekki af því, sem skipin gátu borið. Einkum átti þetta sér stað um þau skip, sem sigldu til Þýzkalands og seldu afla sinn þar, en þau skip, sem sigldu til Þýzkalands árið 1938, voru miklu fleiri en hin, sem sigldu til Englands, vegna of mikils framboðs á fiski bæði í Þýzkalandi og í Englandi. Þess vegna varð að víkja frá gamla laginu, að sanka miklu af fiskinum í lestarrúmin hillulítið, og taka upp þá aðferð að setja allt að 5 til 7 hillur í lestarnar, svo að fiskurinn geymdist betur. Það leiddi svo aftur til hins, að skipin gátu ekki rúmað sama fiskmagn og áður, þó að þeim hefði verið leyft að sigla með fullan farm. Burðarmagn skipanna 1938 miðaðist því ekki við fiskmagnið, sem út var flutt, heldur við hitt, hversu mikið skipið flutti heim, eins og ég tók fram áður.

Nú ætla ég til samanburðar að skýra hér frá því, hvað þetta sama skip flytur alls mikinn þunga nú bæði út og upp.

Út flytur það sem hér segir: Af fiski 205 tonn, af ís 25 tonn, af vatni 5 tonn og 60 tonn af kolum. Áður hafði það jafnan 80 tonn af kolum á útleið, en nú eru 60 smál. látnar nægja, eða það eitt, sem nægir til þess að öruggt sé að ná til hafnar í Skotlandi, en þar vilja menn heldur fara inn til að bæta við sig kolum en að draga úr farminum og flytja kol að heiman alla leið til Englandshafnar. Auk þessa flytur skipið 5 tonn af veiðarfærum og 1 tonn af vistum, en þetta gerir alls 301 tonn eða 54 tonnum minna en skipið flutti heim árið 1938 í hverri ferð. — Svo er því haldið fram og það hér á Alþ., að nú sé skipið 135% hlaðnara en árið 1938, og það af manni, sem ég veit, að betur þekkir til þessara mála en fram kom í ræðu hans.

Mér þykir rétt að taka annað dæmi af skipinu Baldri. Hv. þm. lýsti yfir því, að árið 1938 hefði það skip ekki flutt út nema 86 tonn. En hið sanna er, að það flutti þá út 110 tonn af fiski, 40 tonn af ís, 30 tonn af vatni, 80 tonn af kolum, 15 tonn af veiðarfærum og eitt tonn af vistum, sem verður alls 376 smálestir. En þetta sama skip kom þá heim með 308 smálestir af kolum o. fl. Hvernig er svo þetta skip hlaðið nú á útleið? Núna fer það með 291 smálest til Englands, sem skiptist þannig: fiskur 200 smálestir, ís 30 smálestir, vatn 5 smálestir, veiðarfæri 5 smálestir, vistir ein smálest og kol 50 smálestir, og skal ég skýra nánar, hvers vegna það kemst af með svo lítinn kolafarm. Skip þetta notar ekki nema 8 tonn af kolum á dag. Það þarf ekki nema 32 tonn á leiðinni til Shetlandseyja og síðan 12 tonn þaðan til Humber. Þetta skip er í dag hlaðið 291 tonni til Englands, en 1938 var það hlaðið 308 tonnum heim frá Englandi. Á þetta skip eins og öll önnur fiskiskip, sem sigla yfir hafið, hefur nú verið sett hleðslumerki, sem gerir það að verkum, að ekki er leyft að setja meira í skipið. Þótt skipið fari nú með meiri fisk út, þá hefur sú hleðsla ekki önnur áhrif en þau að jafna meira farm skipsins, því að þessi viðbótarþungi, miðað við það, sem áður var sett aftur í skipið, gerir það betra sjóskip, þvert ofan í það, sem haldið er fram bæði af hv. þm. og öðrum, sem um þetta ræða. Þegar menn nú nota þá aðferð í jafnmiklu alvörumáli og þessu að kasta fram órökstuddum og ósönnum tölum og bera síðan fyrir þeim stofnun eins og Fiskifélag Íslands, í því trausti, að það verði hægt að blekkja almenning á þann hátt, svo sem hv. þm. Ísaf. hefur gert, þá er alveg tilgangslaust að vera að ræða við þá menn um öryggismál þjóðarinnar, því að það er hverjum manni augljóst, að eitthvað allt annað en umbætur á öryggismálunum vakir því fyrir þessum mönnum.

Þá vil ég minnast hér nokkuð á botnvörpunginn Þórólf. Það skip flytur nú út 353 tonn, en árið 1938 flutti það heim 390 tonn, eða með öðrum orðum flytur skipið nú út nærri 40 tonnum minna magn en það flutti heim árið 1938. — Útkoman verður alls staðar sú sama, að skipin hafa verið þyngri frá útlöndum en til útlanda. Hitt er annað mál, og um það má deila, hvort skipin hafi þá ekki verið ofhlaðin frá útlöndum. En því er þar til að svara, að skipin voru jafnan hlaðin samkvæmt alþjóðareglum og aldrei yfir þau hleðslumerki, sem á þeim eru; því að hvað sem líður skipaeftirlitinu íslenzka, þá get ég fullvissað hv. þm. Ísaf. um það, að ekkert skip fær leyfi til að fara úr erlendri höfn, ef það er hlaðið yfir hleðslumerki, hvaða aðilar sem í hlut eiga. Hitt er rétt, að komið hefur fyrir, að á veiðum hafi þessi skip verið hlaðnari. Ég held, að það sé ekki hægt, hvernig sem lög og reglur eru, að girða fyrir slíkt. Það verður að treysta að fullu skipstjóra og skipshöfn í því efni.

Af öllu því, sem ég hef heyrt talað og séð skrifað um þessi mál, tel ég beztar og viturlegastar þær till., sem komu frá aðalfundi Sjómannafélags Reykjavíkur. Er sýnt, að þeir menn skilja þessi mál. Þar var lögð áherzla á, að þeir gæti þess sjálfir, að skipin séu ekki hlaðin fram yfir þau merki, sem sett eru á þau til öryggis skipunum og skipshöfnunum. Ég vildi sjá þann útgerðarmann eða skipstjóra, sem leyfði sér að reka þann skipverja í land, sem kvartaði yfir því við rétta aðila, að verið væri að fremja ólöglegt athæfi gagnvart honum, aðstandendum hans og öllum almenningi með ofhleðslu skipsins. Hann væri með því einungis að gera skyldu sína og ekkert annað.

Þá vil ég með nokkrum orðum víkja að skipaskoðun ríkisins og þeim ásökunum, sem bornar hafa verið á hana. Að vísu ætti hæstv. atvmrh. að bera af henni blak, en með því að ég er mjög kunnugur þeim málum eftir tuttugu ára reynslu og margvíslega samvinnu við þá stofnun, get ég ekki leyft, að hún sé borin hér á Alþ. þungum sökum að ástæðulausu, án þess að hreyfa mótmælum.

Hv. þm. Ísaf. gat þess í gær, að ekki væri farið að gefa enn út reglugerð þá, sem til er vísað í 2. gr. l. frá 1938. Í ráðherratíð Haralds Guðmundssonar var skipuð n. til þess að athuga l. og tilskipanir um öryggismál. Þessi n. gerði uppkast að

þeim l., sem samþ. voru 1938 og hv. þm. vísaði til. Í n. þessari áttu sæti menn frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, og þess utan var formaður n. Ólafur Sveinsson skipaskoðunarstjóri. Þessi n. starfaði frá því snemma á árinu 1938 og allt fram á árið 1939, og eftir hana liggja ýmsar endurbætur á löggjöfinni og reglugerðum í sambandi við l., m. a. er lokið að fullu reglugerð um eimvélar og mótora og einnig um rafmagn og allt það, er lýtur að því. Þá er og stórum kafla lokið um farþegaskip. N. hefur síðan 1939 látið gefa út ekki færri en sex til sjö reglugerðir, sem allar hafa verið birtar og farið eftir, en hún hefur ekki látið gefa út neina samfellda heildarreglugerð. Kemur það til af því, að þegar stríðið skall á, þótti ekki rétt að kosta upp á að gefa út allt þetta mikla verk, sem yrði ein stór bók, vitandi það, að það hlytu að koma breytingar á ýmis mikilsverð atriði, á meðan stríðið stæði yfir, svo sem á björgunartækjum o.fl. Það er þess vegna, að skipaeftirlitið hefur talið réttara að gefa út smáreglugerðir í stað þess að birta þetta allt í einni heild. Þetta gat hv. þm. Ísaf. fengið að vita, ef hann hefði viljað, en hv. þm. Ísaf. er nú svo lítið gefinn fyrir að vita hið rétta í þessum málum. Ég sé því ekki ástæðu til að ásaka hvorki skipaeftirlitið né hæstv. atvmrh., því að hér hefur verið gert það eitt, sem rétt var og skynsamlegt, eins og á stóð.

Hvað snertir dæmi það, sem hv. þm. Ísaf. nefndi, um skipið, sem keypt var frá útlöndum og var þannig, að böndin voru borin úr því í land í pokum, þá er það alveg rétt. En ég vil minna hv. þm. Ísaf. á, að þetta er langmesta sönnunin fyrir því, sem ég hef haldið fram, að eftirlitið íslenzka sé meira en hjá nokkurri annarri þjóð, því að þetta sama skip kom frá Bandaríkjunum og var með alveg nýútgefið haffærisskírteini, undirritað og stimplað af Bandaríkjaskipaeftirlitinu. Hitt er svo annað mál, hvort rétt hafi verið af skipaskoðuninni hér að leyfa þessu skipi að fara út úr íslenzkri höfn, fyrr en búið var að láta fara fram á því aðalskoðun. En það hefur verið regla, að eftirlitið hér hefur leyft undanþágu frá aðalskoðun, ef skipið hefur komið hingað til lands á annatíma eða vertíðartíma og hefur haft haffærisskírteini frá öðrum löndum. En þetta skip hafði einmitt slíkt skírteini frá Ameríku, eins og ég gat um áðan, sem gilti í tólf mánuði. Og sannar þetta bezt, að við Íslendingar gerum miklu meiri kröfur í þessu efni en nokkur önnur þjóð.

Það hefur líka jafnan verið svo, þegar skip hafa komið til Íslands, frá hvaða landi sem er, þótt þau hafi haft ný haffærisskírteini frá því landi, að orðið hefur að gera á þeim stórkostlegar breytingar til að uppfylla þær kröfur, sem gerðar eru til öryggis skipa hér. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég sé að kvarta undan þeim kröfum, sem hér eru gerðar um öryggi, heldur til hins, að sýna fram á, hve framarlega þjóð vor er í þessum málum. Og ég er miklu frekar stoltur af því, að við, þessi litla þjóð, skulum gera svona miklar kröfur til öryggis sjómannastéttinni. Þess vegna finnst okkur, sem þekkjum þessi mál, það vera nokkuð hart, þegar aðrir koma hér fram og fullyrða allt annað en það, sem rétt er í málinu, ekki af því, að þeir viti ekki betur, heldur af hinu, að þeir vilja ekki vita betur.

Ég vil nú leyfa mér að benda hv. þm. á 3. gr. samningsins milli Norðurlanda frá 1925, er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hvert það skip, er hefur meðferðis góð og gild heimalandsskírteini eða jafngild sönnunargögn, svo sem um getur í 1. gr., skal, að því er snertir það, sem gögn þessi fjalla um, einungis sæta því eftirliti af hálfu opinberra yfirvalda í höfnum hinna samningsríkjanna, sem nauðsynlegt er, til að þau geti fullvissað sig um, að skipin hafi meðferðis skírteini þau eða sönnunargögn, sem vera ber.“

Þessi samningur gerði það að verkum, að það þótti aldrei nauðsynlegt hér á Íslandi að rengja í fyrstu þau skírteini, sem komu frá landi, sem hafði undirritað samning þennan. Hér var gagnkvæm tiltrú á báða bóga, og það er ekki hægt að ásaka skipaeftirlitið, þótt það treysti öðrum þjóðum á þessu sviði. Hitt er annað mál, að við höfum, því miður, séð skipin hverfa. Okkur er óljóst, af hvaða ástæðu, og ég tel mjög vafasamt, hvort rétt sé að eyða tíma í að tala mikið um það, af hvaða ástæðu skipin hafa farizt, meðan vátryggjendur eru að velta því fyrir sér, hvort þeir muni þurfa að bæta líf skipverja stríðsslysabótum, ef sanna mætti, að aðrar ástæður væru fyrir hendi, sem gæfi þeim rétt til lægri bótagreiðslu til handa aðstandendum. Ég hygg það vafasaman greiða. Og mig undrar það satt að segja, að blöðin, eins og t. d. Vísir, skuli leyfa sér að staðhæfa, af hvaða ástæðu mótorbáturinn Hilmir hafi farizt. Ætti ráðuneytið að hlutast til um að stöðva slík skaðleg ummæli, ef kostur er á, því að almenningur veit vel, að þessar persónur, sem svo tala, hafa ekkert máli sínu til stuðnings, ef þær væru dregnar fyrir lög og dóm og ættu þar að svara til gerða sinna. Þær hafa enga hugmynd um frekar en aðrir, af hvaða ástæðum þetta skip fórst, þótt hitt sé ljóst, að skipið fórst ekki fyrir ofhleðslu. Þetta er orðið svo mikið alvörumál, að rétt væri að taka það föstum tökum, áður en verra hlýzt af. Það þarf allt önnur vinnubrögð til þess að bæta úr því, sem aflaga fer, en þau, sem hér hafa verið viðhöfð, ef nokkur viðeigandi lausn á að fást á þessum málum.

Ég vil þá víkja að því atríði, sem bæði hv. þm. Ísaf. og hæstv. ráðh. ræddu um, hvort rétt væri, að skipaskoðunarstjóri hefði einkaeftirlit. Ég vil svara því til, að ég tel, að það eigi að launa þann mann svo, að hann þurfi ekki að sinna aukastörfum. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að upplýsa, að það er engan veginn rétt, sem hæstv. ráðh. hélt fram, að störf hans við Eimskipafélag Íslands séu minni nú en áður. Fyrir stríðið var aðaleftirlit þessara skipa í Kaupmannahöfn. Nú er það flutt hingað heim. Og það er vitað, að þegar sum af þessum skipum hafa fengið viðgerð, sem nemur tugum hundraða eða jafnvel milljónum króna, þá hlýtur eftirlitið að vera meira en áður, en ekki minna. Ég vil einnig benda hv. þm. Ísaf. á það, að hann hefur sjálfur mælt með því, að skipaskoðunarstjóri skuli annast einkaeftirlit og hafa aukastörf með aðalstarfi sínu, því að það er ákveðið í fjárl., að þessi sami maður skuli hafa eftirlit með skipum ríkisins, en þar kemst hann í nákvæmlega sömu aðstöðu og hann kemst í með eftirliti fyrir Eimskipafélagið, því að það er alveg sama, hvort hér er um að ræða aukastörf fyrir Skipaútgerð ríkisins eða Eimskipafélagið. Hvort tveggja setur hann í þá aðstöðu, að hann á verra með að halda sér að settum reglum í aðalstarfi sínu, einkum ef hart væri sótt á hann um tilslakanir af hendi annarra húsbænda. Ég vil þó í sambandi við þetta upplýsa, að núv. skipaskoðunarstjóri hefur leyst þetta verk af hendi, án þess að árekstrar hafi orðið. En þetta er ekki til frambúðar, og þess vegna álít ég, að það ætti nú að taka það fullkomlega til athugunar, hvort ekki ætti að skilja þetta algerlega að.