14.01.1944
Sameinað þing: 4. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (4032)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Samkvæmt ósk þriggja flokka þingsins, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Sósíalistaflokksins, er þetta þing, sem er hið reglulega þing ársins 1944, kvatt saman rúmum mánuði fyrir lögmæltan dag, til þess að það geti afgreitt hæfilega snemma á árinu ályktun um dansk-íslenzka sambandslagasamninginn og stjórnskipunarlög sökum áformaðrar breytingar á stjórnarformi ríkisins úr konungdæmi til lýðveldis, er ráðgert er, að taki gildi á fyrra missiri þessa árs, að undangenginni þjóðaratkvgr. um bæði málin.

Mþn., skipuð átta mönnum, tveimur frá hverjum þingflokki, sem þeir höfðu sjálfir valið, hefur undirbúið málin. N. lauk starfi 7. apríl s. l. og lét prenta nál. ásamt till. sínum, er útbýtt var hér í þinginu á s. l. vori, en frumritið var samtímis sent ríkisstj. til geymslu, án þess að n. eða þingið óskaði þá neinna aðgerða af stj. hálfu í málunum, enda var þeim ekki hreyft, er þingið kom aftur saman til funda s. l. haust.

Með yfirlýsingu hér í þinginu 1. nóv. s. l. lýsti stj. í meginatriðum afstöðu sinni til þessara mála, ef til hennar kasta kynni að koma að sýsla um þau. Í samræmi við þessa yfirlýsingu og í samráði við áðurnefnda þingfl. ber stj. fram till. þá til þál., sem hér liggur fyrir, óbreytta frá því, sem mþn. gekk frá henni, enda þótt stj. telji ekki æskilegt, að till. verði samþ. óbreytt.

Um till. hafa verið ákveðnar tvær umr., og stj. óskar, að þingið skipi sérstaka n. til þess að fara með málið og íhuga till. Þegar n. hefur tekið til starfa, mun stj. koma athugasemdum sínum og till. til breyt. á framfæri. Tel ég því óþarft á þessu stigi málsins að vekja umr. um þau atriði, sem stj. telur æskilegt, að breytt væri í till. Enn fremur tel ég ekki nauðsynlegt að rekja nú aðdraganda þessa máls, því að hann er þingheimi og öllum almenningi kunnur.