19.01.1944
Sameinað þing: 7. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (4054)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Hv. 4. þm. Reykv. mælti nokkur orð til mín í sinni stóru þingræðu, einni af hans „stóru“ ræðum, eins og hans blað kallar þær, sem „geymast munu í þingsögunni“ — einni af þessum ræðum, sem líklega munu geymast, þegar orð Jóns Sigurðssonar eða Benedikts Sveinssonar eða annarra slíkra eru gleymd, eftir því, sem hans blað virðist hugsa. — Það þýðir nú kannske lítið fyrir eins litla karla og mig og mína líka að ætla að fara að tala við þessa stóru menn, sem þeirra eigin blöð lyfta svona til skýjanna.

En ég vildi leiðrétta þann misskilning, að spjótalög til hv. 4. þm. Reykv. hafi verið hvössust frá mér. Ég held, að þau spjótalög, sem hann hefur sviðið mest undan, hafi komið frá honum sjálfum. Það er nú einu sinni svo, þegar menn eru að berjast við sína eigin fortíð og jafnvel þegar það bezta úr þeirra eigin fortíð rís upp úr gröfinni til þess að ásaka þá, þá svíður menn meir undan því heldur en mörgu af hinu, sem frá okkur kemur, þegar við erum að kljást við þá frá okkar sjónarmiði. Hv. 4. þm. Reykv. sýndi nokkra viðleitni í þá átt að bera af sér þessi spjótalög, sem honum fundust hvössust. Og sérstaklega var það viðtalið við danska blaðið Social-Demokraten og yfirlýsingar Alþýðublaðsins, sem hann vildi gera sem minnst úr í þessu sambandi. Ég vil rétt ítreka það aftur, til þess að hans útúrsnúningar í því sambandi standi ekki ómótmæltir, að þáv. hæstv. utanrrh. Íslands, Stefán Jóh. Stefánsson, var samferða forsætisráðherra Dana, Stauning, til Kaupmannahafnar. Og í viðtali við þetta blað sagði núv. hv. 4. þm. Reykv., að hann ætti erfitt með að segja um sambandsmálið, vegna þess að flokkurinn hefði ekki tekið afstöðu í því máli. Þetta segir hann eftir að hann er búinn að lýsa því yfir við hlið Staunings — eins og þeir herma í dönskum blöðum — að hann óski þess, að sambandið milli Íslands og Danmerkur haldi áfram, sambandslagasáttmálinn verði framlengdur, og honum virðist, að margir Íslendingar séu á sömu skoðun. Þetta segir formaður Alþfl., þegar hann veit um þær yfirlýsingar, sem Stauning er að gefa og koma í dönskum blöðum og brjóta algerlega í bága við yfirlýsingar, sem Alþfl. er í 12 ár búinn að gefa í blöðum. Hv. 4. þm. Reykv. vildi svo nú skjóta sér á bak við það, að ekki væri allt sem réttast haft eftir í blöðum, og blaðaviðtöl væri ekki vel að marka, og að hann myndi ekki sérstaklega vel eftir þessu. Bágt á ég með að trúa því, að þessi foringi, Stefán Jóh. Stefánsson, hafi gleymt allri þeirri baráttu, sem Alþfl. háði allt þetta langa skeið, að hann hafi allt í einu ekki munað eftir baráttu Alþfl., en munað samt eftir því, að það þurfti að semja um handritin í Árna Magnússonar safninu og annað slíkt, þegar hann sagði, að Alþfl. væri ekki búinn að taka afstöðu í þessu máli. Og jafnvel þótt það væri eins og dauður punktur allt þetta, sem skeði næstu dagana eftir að „Dronning Alexandrine“ í ágústbyrjun 1939 kom til Kaupmannahafnar, þá eru þó yfirlýsingar Alþýðublaðsins á sama tíma hér, sem eftir er að athuga. Alþfl. hafði áður, sem sagt, marglýst því yfir, að hann vildi ekki endurnýja sambandslagasáttmálann. En 15. ágúst sama ár birtir Alþýðublaðið leiðara undir fyrirsögninni „Sambandsmálið“. Þar segir fyrst, að allir flokkar hafi ákveðið að vera með því að segja upp sambandslagasáttmálanum, og síðan kemur orðrétt: „En hitt mun óhætt að segja, að enginn þessara flokka mun enn út af fyrir sig hafa tekið neina endanlega ákvörðun um það, hvort stefna beri að því að slíta því sambandi, sem verið hefur við Danmörku samkvæmt sambandslagasamningnum frá 1918, til fulls eða gera samning um það á öðrum grundvelli.“ Sem sé Alþýðublaðið lýsir því skýrt og skorinort yfir, að Alþfl. sé alveg reiðubúinn jafnt til þess að gera sáttmálann á nýjum grundvelli eins og að slíta honum. Eftir að Alþfl. er í 12 ár búinn að lýsa því yfir og taka það árið 1938 á stefnuskrá sína, að sambandinu við Dani skuli slitið til fulls, þá lýsir Alþýðublaðið yfir því, að Alþfl. geti alveg eins verið með því að endurnýja sáttmálann. Þetta er óþægileg staðreynd, sem Alþýðublaðið getur ekki losað sig frá. Það er sannað mál, að haustið 1939 er Alþfl. búinn að gera algerða stefnubreyt. í sambandsmálinu frá því, sem áður var, frá því að vera skeleggasti flokkurinn um það, að sambandslagasáttmálanum væri sagt upp og lýðveldi stofnað á Íslandi, og yfir í hitt, að ætla sér jafnvel að endurnýja sáttmálann.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði allmikið um Stauning, hinn látna forsrh. Dana, í þessu sambandi. Ég hef ekki verið að reyna að kasta neinni rýrð á þann mann. En hitt vil ég segja í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. var að tala um, að mér þykir hann hafa breytt í afstöðu sinni gagnvart þjóðfrelsi Íslands á þessum tíma mjög miklu öðruvísi en forustumaður sænsku sósíalistanna gerði á sínum tíma í afstöðu hans til þjóðfrelsis Norðmanna. Það var vitað, að 1905, þegar Norðmenn börðust fyrir því að fá þjóðfrelsi og sjálfstæði sér til handa, þá barðist Hjalmar Branting, formaður sænska sósíalistaflokksins, svo skarplega fyrir rétti Norðmanna til þess að skilja að fullu við Svía, að hann var a. m. k. einu sinni dæmdur fyrir landráð af sænskum rétti fyrir þessar sakir. Branting hélt því fram, að norska þjóðin hefði fullan rétt til þess, þótt ekki væri í neinum sáttmála, að ákveða að koma á fullum skilnaði við Svíþjóð. Og fyrir þessu barðist sænska verkalýðshreyfingin. Og þegar því var lýst yfir í Noregi einn góðan veðurdag, að sænski konungurinn sé ekki lengur konungur Noregs, þá barðist sænski verkalýðsflokkurinn, undir forustu Brantings, fyrir því, að Norðmenn fengju þennan rétt. Og sænska yfirstéttin lét Branting afskiptalausan, og fengu svo Norðmenn að ráða sér sjálfir. Og það er ekki sízt fyrir baráttu Brantings, að Noregur skildi við Svíþjóð þá. — En Staunings síðustu orð um sambandið milli Íslands og Danmerkur voru: „Jeg lægger skam ikke Skjul paa, að jeg haaber, að den bliver fortsat, og jeg véd, að mange Islændinge har det paa samme Maade ... saa nu faar vi se.“

Hann óskar, sem sagt, og reynir að hafa áhrif í þá átt, að sambandslagasáttmálinn haldi áfram. Það var ólíkt því að berjast fyrir því, að Íslendingar hefðu rétt til þess að vera alveg óháðir öðrum og að ekkert væri sjálfsagðara en að Íslendingar réðu sér sjálfir.

Hitt er svo mál, sem sagan á sínum tíma leiðir í ljós, hvað það var, sem breytti skoðun Alþfl. í júlí og ágúst 1939. Það er ekki undarlegt, þó að það sé sett í samband við heimsókn Staunings.

Og þegar sambandið við Norðurlönd svo slitnar og Alþfl. verður svo skeleggur í skilnaðarmálinu eins og lesið hefur verið hér upp, hvað hefur þá breytt afstöðu flokksins aftur? Og enn kemur svo afstaða flokksins nú. Sumir vilja kannske dæma um þessa nýju afstöðu flokksins eftir reynslunni 1939, en sannanirnar liggja ekki fyrir um það efni. Þær eru kannske í þessum leynilegu skjölum, sem einhvern tíma verða birt og koma í ljós.

Þá minntist hv. 4. þm. Reykv. á það, hvaðan Sósfl. kæmi það, að hann væri allt í einu farinn að slást, og nokkuð skelegglega, fyrir réttindum þjóðar sinnar. Hann minntist í því sambandi á það, sem gerðist 1931. Ég skal segja hv. 4. þm. Reykv., hvaðan sósíalistar og íslenzka verklýðshreyfingin yfirleitt hefur það. Þetta er arfur frá sósíalistum. Það er eitt af inntakinu í því að berjast fyrir mannréttindum með hverri þjóð, að hún fái að stjórna sér sjálf. Eitt af því, sem sósíalistahreyfingin hefur starfað að, meira og minna undir merkjum marxismans, hefur verið að koma slíkum málum í höfn. Og þetta var eitt af erfðunum frá Alþfl. 1928 er það Alþfl., sem gengur fram fyrir skjöldu á Alþ. Íslendinga til þess að sýna fram á, hvernig íslenzka þjóðin eigi að berjast í þjóðfélagsmálum sínum, og skorar á aðra flokka að fylgja sér. Og 1931 er það Alþfl., sem reynir að sýna í framkvæmd, hvernig verkalýðurinn á úrslitastundum eigi að taka forustuna frá þeim, sem þeir þá kölluðu íhaldsmenn. Og vegna þess, hvað hv. 4. þm. Reykv. talaði mikið um þetta, skal ég gjarnan rifja þetta ofurlítið upp fyrir honum, til þess að hann sjái, hvernig Alþfl. hefur barizt stundum hér áður fyrr og ekki sérstaklega verið með neitt íburðarmikla kurteisi við kónginn sinn, heldur verið flokka skeleggastur í að taka forustuna í þjóðfrelsisbaráttunni.

Um miðjan apríl 1931 gerðist atburður, sem menn kannast við. Af hálfu Sjálfstfl. og Alþfl. var ekki tekið mjög vægilega á þeim málum, sem þá voru á döfinni í sambandi við það, sem þá gerðist. Þá voru kallaðir saman fjöldafundir til þess að mótmæla því þingrofi, sem þá fór fram með tilstyrk konungs. Og m. a. var kallaður saman einn slíkur fjöldafundur í húsi hér við hliðina á þessu húsi, sem við erum í. Og Alþýðublaðið 15. apríl segir frá þessum fundi og vitnaði í ályktun, sem gerð var þar og stóð í blaðinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn telur, að þau tíðindi, sem nú hafa gerzt, hafi sýnt og sannað, að krafa Alþýðuflokksins um íslenzkt lýðveldi nái fram að ganga nú þegar.“ Þá var ekki verið að skera utan af því, þegar Alþfl. var að sýna, hversu skeleggur hann væri í þessari baráttu. Svo var haldið áfram. Það átti nú ekki alveg að gefast upp. 18. apríl segir Alþýðublaðið: „Krafa Alþýðuflokksins um að gera Ísland að lýðveldi svo fljótt sem auðið er er nú rædd um land allt. Hefur valdaránstilraun Framsóknarflokksstjórnarinnar með tilstyrk konungs gert nauðsyn þessarar kröfu miklu skýrari fyrir mönnum. Berast nú hingað fregnir bæði frá verklýðsfélögum og mönnum utan þeirra um land allt, að land vort verði gert að lýðveldi nú þegar. Síðustu atburðir hafa gert það mjög ljóst, hversu hættulegt það er, að erlendur konungur hafi áhrif á mál vor.“

Þá var ekki verið að tala um skort á drengskap eða því um líkt. Þá var ekki verið að tala um nauðsyn þess að ræða við konung. Þeir voru ekki myrkir í máli í Alþýðublaðinu í garð konungs dagana þá.

Þá sagði Alþýðublaðið frá ræðu, sem þáv. þm. Ísaf., en núv. hv. 3. landsk., Haraldur Guðmundsson, hafði haldið á fundi þessa dagana. Þar segir svo:

„Sagði hann, að svo hefði heitið, að hér ætti að vera þingbundin konungsstjórn. En það, sem Alþýðuflokkurinn vildi, væri, að hér væri konunglaus þingstjórn, þ. e. lýðveldi.“

Og það var ekki látið sitja við blaðaskrifin ein. Sjálf stjórn Alþfl. tekur málið í sínar hendur. Hún sendir Sjálfstfl. bréf. Í því bréfi er Sjálfstfl. boðið samstarf um að halda þingi áfram og stofna lýðveldi. Að halda þinginu áfram og stofna lýðveldi er það, sem Alþfl. býður Sjálfstfl. upp á að framkvæma.

Svo skýrir Alþýðublaðið frá 22. apríl, hvernig farið hafi með þetta mál og tilboð flokksstjórnarinnar. Þar segir svo: „Þegar Kristján konungur hafði svarað því, að hann vildi ekki fara eftir því, sem meiri hluti Alþingis lagði til, . . . lá ekki annað fyrir en að meiri hluti þingsins, þ. e. a. s. fimm Alþýðuflokksmenn og 17 íhaldsmenn, settust inn í þingsalinn, settu þing, tilnefndu bráðabirgðastjórn og gerðu síðan ráðstafanir, sem nauðsynlegar væru í samræmi við það, að konungur hafði neitað því að fara að vilja meiri hluta þings, en fyrsta ráðstöfun hlaut auðvitað að vera að lýsa yfir, að Ísland væri lýðveldi. En þegar til kom, brast Sjálfstæðisflokkinn áræði.“

Svo hljóða orð Alþýðublaðsins. Það vantaði ekki. Nú átti með mikilli röggsemi og skörungsskap að taka forustuna úr hendi borgaraflokkanna. Nú átti að sýna, hver átti þjóðfrelsishetjurnar. En það var eins og vant var. Íhaldið rann, uppi stóðu fimm Alþýðuflokksþingmenn, sem nú bjóðast til þess að setja konung af í hvelli og mynda lýðveldi. En þótt sjálfstæðismenn brygðust, átti samt enn ekki að gefast upp. Daginn eftir, 23. apríl, kemur grein í Alþýðublaðinu undir stórri fyrirsögn: „Lifi lýðveldið. Niður með íhaldið og konunginn!“

Ég veit ekki, hvort hv. 4. þm. Reykv. hefur munað eftir þessu, þegar hann talaði um, að það væri sjálfsögð drengskaparskylda að tala við konung, áður en ákveðið væri að stofna lýðveldi á Íslandi, hvort hann hefur munað eftir því, sem Alþfl. ætlaðist fyrir árið 1931, drepa íhaldið, setja konunginn af og stofna lýðveldi.

Hins vegar held ég eins og nú er komið málum, að enginn flokkur ætli sér að gera það, sem Alþfl. ætlaði sér 1931. Ég held, að enginn af þeim flokkum, sem standa nú að stofnun lýðveldis, geri kröfu til að hafa heiðurinn af forustu í þessu máli. Þeir gera ráð fyrir, að það sé forusta Alþ., sem þar kemur til greina. En Sósfl. vill vinna sitt til þess, að verkalýðshreyfingin láti ekki sitt eftir liggja og að þeim skildi, sem Alþfl. talar um, að sé haldið hreinum, verði haldið hreinum áfram, og það vænti ég, að muni takast.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á í ræðu sinni, að sú þjóðfrelsisbarátta, sem áður var, en aðrir vildu kalla chauvinisma, væri það hættulegasta, sem hægt væri að hugsa sér. Ég hef aldrei fundið betur, hversu gersamlega hann misskilur inntak alls þjóðfrelsis, en þegar hann útlagði það íslenzka orð „þjóðfrelsi“ með útlenda orðinu „chauvinisma“, sem er notað til að marka á soramark verstu yfirgangsstefnu, sem ekkert á skylt við þjóðfrelsisstefnu þjóðanna, því að hún er algerð andstæða chauvinismans, sem afneitar rétti þjóðanna til að ráða sér sjálfum.

Hv. þm. var að tala um, að hér væri um þjóðréttarlega samninga að ræða. Það er eins og þessi hv. þm. vilji aldrei skilja, hvað eru grundvallaratriði og hvað eru smærri atriði. Grundvallaratriðið í öllum rétti manna til að ráða sér sjálfum er réttur hverrar þjóðar til að ráða sér sjálf. Það, sem er um að ræða, er, að þessi réttur verður aldrei af þjóðunum tekinn. Hvaða ofbeldisráðstöfunum sem beitt er til að taka frelsið af þjóðunum, þá eiga þær alltaf þennan rétt, og hann verður aldrei af þeim tekinn. Það er hægt að gera slæma verzlunarlega samninga, en það heimilar ekki að brjóta þá eða rifta þeim. En hitt er ekki hægt að gera samninga um að hefta eða afnema frelsi þjóðanna og halda fram á eftir, að þeir samningar eigi að hafa gildi. Það væri í mótsetningu við það, sem við byggjum okkar nútíma mannfélag á. Þegar Norðmenn tóku frelsi sitt 1905, gerðu þeir það á grundvelli réttar norsku þjóðarinnar að ráða sér sjálf. Stórþingið lýsti yfir, að þaðan í frá væri sænski konungurinn ekki lengur konungur Norðmanna. Þetta var ekki gert út frá neinum sáttmála, — það var gert út frá þessum helga rétti, sem hv. 4. þm. Reykv. er að gera gys að, og á þeim grundvelli stendur þjóðfrelsi hverrar þjóðar.

Ég verð að segja, að ég er alveg hissa á, hvað þessi hv. þm. getur gengið langt, þegar hann er að reyna að verja það, sem Íslendingar hafa verið óánægðastir með í þeim samningi, sem þeir hafa gert. Hann fer að verja það ákvæði, að það skuli þurfa 3/4 hluta kjósenda til að greiða atkv. með uppsögn samningsins og 3/4 hluta greiddra atkv. að vera með uppsögninni. Hann lýsir því yfir, að Íslendingar hafi verið ánægðir með þetta 1918. Íslendingar voru óánægðir með gagnkvæma borgaralega réttinn og sérstaklega óánægðir með þann meiri hluta, sem heimtaður var til uppsagnar. En þeir gengu samt inn á samninginn vegna þeirrar viðurkenningar, sem í honum fólst. Ég skil ekki, hvernig sá maður, sem vill halda fram, að lýðræði eigi að gilda, leyfir sér að halda fram, að atkv. eins Íslendings, sem vil halda við samningnum við Dani um að láta þá fara með utanríkismál okkar, á að gilda á við atkv. þriggja Íslendinga, sem vilja, að Ísland sé sjálfstætt ríki. Ég skil ekki, hvernig hægt er að halda því fram, að slíkt geti samræmzt nokkru lýðræðishugtaki. Það er ómögulegt að gera það. Þetta er mótsetning í sjálfu sér. Þetta er ennþá kyndugra, þegar athugað er, að til að samþ. stjskr., sem gerir Ísland að lýðveldi, þarf ekki nema einfaldan meiri hl. þjóðarinnar, kannske tvennar kosningar, en til þess að mega skilja við Dani, taka utanríkismálin í okkar hendur, þarf 3/4. Eins og þetta sé nokkurt samræmi. Eins og þetta sé nokkuð annað en kúgunarákvæði, sem Íslendingar neyddust til að ganga að 1918.

Við skulum láta Dani sjálfa dæma um þetta. Dönum hefur verið sjálfum boðið upp á að gera dálítið líkan samning við Þjóðverja eins og Íslendingar gerðu við Dani 1918. Við vitum, hvernig Danir hafa lýst skoðun sinni á því tilboði. Þeir hafa kallað það örgustu kúgun, sem það og var. Nei, við skulum ekki fara út í að verja slíkt. Ég er hissa á, að hv. 4. þm. Reykv. skuli láta fá sig til að verja annað eins ákvæði. Hitt er allt annað mál, hvort Íslendingar geta með þjóðaratkvgr. skilað til atkvgr. 3/4 hlutum kjósenda og 3/4 atkv. verði með skilnaðinum, eins og heimtað er í sambandslagasamningnum. En að viðurkenna, að okkur beri að heimta 3/4 hluta, nær engri átt.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara langt út í að deila um þjóðfrelsisrétt annarra þjóða við hv. 4. þm. Reykv., sem virðist ekki meta þjóðfrelsi sinnar eigin þjóðar meira en hann hefur sýnt í þessari afstöðu sinni, en ég er til í að gera það, hvenær sem vera skal. Ég hef ekki neitt á móti því að koma inn á það í sambandi við þetta mál, af því að hann gerði það að fyrra bragði. Ég ætla að rifja upp við hann, af því að hann minntist á Eystrasaltsríkin. Árið 1918 voru litlu ríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, og Ukraina og Hvíta-Rússland og önnur slík, búin að taka sér þjóðfrelsi í krafti þess valds, sem bjó hjá fólkinu sjálfu, hrista af sér kúgun rússnesku keisarastjórnarinnar og skapa með sér bandalag, þar sem hvert af þessum ríkjum hafði rétt til að fara úr því, þegar því þóknaðist. Eitt af þessum ríkjum notaði sér það, Finnland. Lýðræðisflokkarnir, sem kölluðu sig svo, sem réðu Rússlandi fram í nóvember 1917, neituðu Finnum um þann rétt að mega mynda sitt ríki sjálfir. Kerenskistjórnin neitaði um það. Það var fyrst, þegar bolsevikastjórnin kom, þegar rússneskir bændur og verkamenn gerðu byltinguna og komu á þjóðfrelsi og sósíalisma, að þessi réttur var viðurkenndur. Finnar ákváðu strax að nota sér þennan rétt og sendu menn til Pétursborgar, sem þá hét svo, til að þakka bolsevikastjórninni fyrir þennan rétt. Hins vegar áttu þjóðirnar, sem voru að mynda með sér þetta bandalag, um sárt að binda. Þýzku hervaldi tókst að brjóta nokkuð af þessum löndum undir sig. Í Lettlandi, Litháen og Eistlandi var stjórnum, sem þá höfðu verið myndaðar þar, sem höfðu stundum kannske 90% þjóðarinnar á bak við sig í venjulegum kosningum, steypt af þýzku hervaldi og stofnaðar þar fasistastjórnir, sem síðan sátu þar allt fram til 1940. Árið eftir að þetta gerðist, tókst pólska hernum að sigrast á her bænda og verkamanna og lagði undir sig hluta af Ukrainu og Hvíta-Rússlandi og innlimaði í sitt ríki þvert ofan í þjóðréttarákvæði, þvert ofan í þau ákvæði, sem samþ. voru í Versalasamningunum. Eftir því, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur haldið fram, ættu þessi ríki, sem þannig hafa verið rænd frelsi sínu, ekki að mega fá það aftur, fyrr en búið væri að semja um það við fasistana, sem tóku frelsið af þeim. Annars er þetta allt miklu lengra mál en svo, að tími sé til að fara út í það nú, en ef hv. þm. óskar þess, þá er ég reiðubúinn til að fara út í þá sálma.

Þá er annað, sem hv. þm. sagði, sem ég má til að minnast á. Hann sagði hér skemmtilega lygasögu, og ég má nú til að segja honum aðra miklu betri. Hann sagði, að þessir kommúnistafl. væru voðalegir flokkar, þeirra innstu hringir sætu á leynifundum og legðu á ráð um að sprengja mannvirki, kveikja í húsum og eyðileggja verðmæti o. þ. h. Nú skal ég segja honum aðra lygasögu. Það var einu sinni kommúnistafl. í Þýzkalandi. Innsti hringur hans sat á rökstólum og kom sér saman um að gera byltingu í landinu, en til þess að fá fólkið til þess, þyrftu þeir að gera eitthvert skammarstrik til þess að láta fólkið taka eftir sér, og því væri um að gera að gera nú eitthvað stórt. Þeir sátu á rökstólum um þetta dag eftir dag og fengu auðvitað boð og fyrirmæli erlendis frá. Loks komst innsti hringur þeirra að þeirri niðurstöðu, að það væri alveg tilvalið að kveikja í þinghúsinu. Og þá fór ekki eins hrapallega og í kommúnistalygasögunni, sem hv. 4. þm. Reykv. var að segja, að till. væri felld. Nei, hún var samþ. Síðan kveiktu þeir í þinghúsinu. En það skemmtilega við þessa lygasögu er, að henni hefur verið trúað.

Hún er ekki eins og lygasagan, sem hv. 4. þm. Reykv. var að segja, sem engum manni dettur í hug að trúa. Nei, þegar þessir honum snjallari lygasöguhöfundar fundu upp þessa lygasögu, trúði fólkið henni. Og í krafti þess var tækifærið notað í Þýzkalandi að banna verkalýðsflokkinn og smám saman alla flokka aðra en nazistaflokkinn. Verkið var framkvæmt af nazistunum sjálfum til þess að reyna að koma því á kommúnista. En þau blöð voru til á Íslandi, sem trúðu þessari lygasögu. Þau sögðu sem svo: Hvernig er það, er ekki ástæða til að fara að athuga málin hér? Ætli það fari ekki bráðum að loga hér við Austurvöll? — Svo vítt náði þessi lygasaga. Svo víða var henni trúað þessari lygasögu, sem fundin var upp, þegar nazistarnir þurftu að beita einræði og ofbeldi við andstæðinga sína.

Ég vil að síðustu ræða nokkuð við þennan hv. þm., af því að hann gaf tilefni til þess, um, hvernig á því mundi standa, að hann heldur fram öðrum eins skoðunum og hann heldur fram hér. Hann minntist á það sjálfur í ræðu sinni, að hann væri engu lakari Íslendingur en hver okkar hinna. Nú vil ég segja honum, og ég segi það af fullri hreinskilni, ekki sízt vegna þess, í hversu hörðum deilum ég hef áður átt við hann, að ég er honum fyllilega sammála. Ég álít hann engu lakari Íslending en hvern okkar hinna. Ég tala þar ekki út í bláinn. Ég held sjálfur, að ég hafi reynt það. Ég álít, að ég hafi reynt það 1941, að þegar eitthvað mikið gekk á, þegar á þurfti að herða og á reyndi, þá væri Stefán Jóh. Stefánsson, sem þá var utanrrh., ekki lakari Íslendingur en hver og einn okkar hinna. Það getur verið, að það hafi þurft að ganga nokkuð mikið á, til þess að það kæmi í ljós, en þá kom það líka í ljós, og ég vil gjarnan unna honum þess sannmælis. En það, sem gildir afstöðu hans í máli eins og þessu, er að því er mér virðist sumpart flokksofstæki, vil ég helzt segja, og stundum virðist mér hann vera undir annarlegum áhrifum, og það verður til þess, að þótt hann stundum taki ágæta afstöðu í svona málum, þá umsnýst hann, þegar hann kemst undir áhrif sérstakra flokksbræðra sinna, og tekur afstöðu, sem er í algerðu ósamræmi við allt, sem flokkur hans hefur oft og tíðum vel gert, og í andstöðu við það, sem ég get bezt trúað, að vilji hans sé inni við beinið. Það, sem styður þetta, er það, að hann virðist vera svo fastur í einhvers konar bókstafstrú og einhvers konar deyfandi formalisma. Það er hugmyndakerfi hans, sem orsakar þetta, sem stendur í sambandi við flokksviljann, sem hann tilheyrir í „teoriunni“. Það er það, sem villir hann hvað eftir annað, er hann á að taka afstöðu í öðrum eins stórmálum og þessu. Hann sér ekki aðalatriðið fyrir aukaatriðum, sér ekki skóginn fyrir tómum trjám, sér ekki grundvallaratriðin í rétti Íslendinga til fullkomins frelsis og sjálfstæðis fyrir nokkrum lagagreinum. Öðru hverju virðist hann hafa séð eins og sjá á. Hann er ekki verri Íslendingur fyrir þetta, en það gæti orðið til að fella frelsi Íslands að halda svona fast í lagakrókana. Það gæti orðið til þess, að eina tækifærið, sem við fengjum til að endurheimta fullt frelsi Íslandi til handa, félli á eintómum formalisma. En hv. þm. er svona gerður, og þetta er honum kannske meira og minna óafvitandi. Það er skortur á skilningi í sambandi við þetta mál, sem verður til þess, að hann hengir sig í aukaatriði og lagakróka, og þegar hann er kominn undir annarleg áhrif, fer svo, að hann sér að lokum ekki, hvað aðalatriðið er. Þetta er það, sem hefur leitt lýðfrelsi og þjóðfrelsi margra þjóða í gröfina á síðustu árum. Þjóðfrelsi og lýðræði hverrar þjóðar skapast með því valdi og viljakrafti, sem þjóðin hefur til að taka sér það þvert ofan í þau lög og form, sem fyrir eru. Það var þessi trú og þessi kraftur, sem stóð á bak við frönsku stjórnarbyltinguna 1789 og amerísku byltinguna, þar sem þessar þjóðir risu upp móti kúgun og harðstjórn. Þær hefðu seint öðlazt frelsi sitt, ef þær hefðu trúað á bókstaf og hengt sig í lagakróka, sem drottnararnir höfðu sett. Einmitt sá flokkur, sem hv. 4. þm. Reykv. tilheyrir, gerir sig sekan í þessari bókstafstrú, sem felldi lýðræðið í Þýzkalandi. Þegar stj. í Prússlandi var sett af með valdboði, vildi meiri hl. alþýðunnar vernda lýðræðið og gera verkfall. En flokksbræður hv. 4. þm. Reykv. sögðu: „Nei, við höldum okkur við lögin og skírskotum til þýzka ríkisréttarins.“ En þá mundi bara enginn ríkisréttur vera til í Þýzkalandi. Tækifærinu var sleppt, þýzka lýðræðinu var sleppt. Þýzka lýðræðinu var grafin gröf. Það var hengt í einum af þessum lagakrókum, sem flokksbræður þessa hv. þm. héldu, að væru aðalatriðið. Þess vegna skil ég svo vel, að honum finnist það bylting, þegar ákveðið var af íslenzku þjóðinni 1940 og 1941, að hún skyldi sjálf ráða því, hvaða stjórnskipun hún hefði, án tillits til lagabókstafs og án tillits til konungs. Það er þetta hugmyndakerfi, sem veldur því, að afstaða hans er þannig, að hann hengir sig og flokk sinn á þeim lagakróki. Til allrar hamingju verður það ekki til þess, að Íslendingar afsali sér sjálfstæði sínu. Viljalýsing Íslendinga um sjálfstæði sitt er svo ótvíræð, að ekki verður um villzt. Árið 1908 var í raun og veru gert út um það. Árið 1918 var samið bráðabirgðaskipulag um tilhögun þess. Árið 1928 og aftur árið 1937 var gefin út yfirlýsing af hálfu Alþ. um, að þjóðin mundi nota sér ákvæði sambandslaganna um sambandsslit. Árin 1940 og 1941 var tekið að móta það fyrir alvöru og nákvæmlega hugsað, hvernig stjórnskipulagið skyldi vera. Vilji þjóðarinnar hefur því alltaf verið jafnákveðinn í þessu máli og réttur hennar. Það hefur verið talað um það, hvernig við munum standa að vígi, ef erlendar þjóðir eða erlend þjóð grípi inn í og banni okkur að nota okkur þennan rétt. Það kom fyrir 1942, að slíkt var gert, og því hefur verið haldið fram, að það megi ekki leggja okkur í þá hneisu að verða að hætta við það í annað sinn. Það var ekki hneisa 1942 að verða að láta undan — fyrir Íslendinga —, heldur fyrir viðkomandi ríki. Og ef við verðum að gera það aftur, þá verður það hneisa fyrir viðkomandi ríki, en ekki okkur. Að það skuli koma fram, að það sé notað sem rök á móti því, að við tökum sjálfstæði okkar, að það kunni að geta verið, að aðrar þjóðir vilji banna það, er neðan við allar hellur. Það hefur engin þjóð í heimi fengið réttindi sín að gjöf frá öðrum, heldur bara af því, að hún hefur viljað það sjálf og að sú þjóð, sem hún hefur þurft að krefja um það, hefur látið það í té.

Ég vil segja að lokum, að það reynir ekki sérstaklega á Íslendinga sem þjóð við lýðveldisstofnun nú. Það hefði kannske reynt meira á undir öðrum kringumstæðum. Við eigum aðallega í baráttu við trúleysi innan þjóðarinnar sjálfrar, trúleysi og kjarkleysi þeirra, sem finnst við of fáir og smáir. Við erum í þeim átökum, sem nú fara fram, að binda enda á okkar gömlu sjálfstæðisbaráttu við Dani. Það þarf trú til þess og kjark að vinna það verk, sem liðnar kynslóðir hafa ætlað okkur.

Hitt er annað mál, að þó að við endurheimtum sjálfstæði okkar, þá er baráttunni ekki lokið. Það er enginn efi á því, að við eigum eftir að heyja hana þar, sem reynir meira á krafta okkar og manndóm en gerir nú. En við verðum illa búin undir þá baráttu, ef við stöndum ekki sameinaðri en við gerum nú um það, að Íslendingar hafa óvéfengjanlegan rétt til sjálfstæðis. Þess vegna er það, að samtök okkar núna verða prófsteinn á þjóðina. Það, hversu okkur tekst að sameina krafta okkar nú, hefur gildi fyrir alla framtíð. Þess vegna er það, að þær raddir, sem þarna eru að telja úr og reyna að sanna, að við höfum ekki þann rétt, sem við höfum hugsað að taka okkur, eru svo hættulegar, að þær ættu ekki að heyrast.