17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. ( Gísli Jónsson):

Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að hann hefur alls ekki kynnt sér þessi mál. Mig undraði ræða hans. Það kemur mér einkennilega fyrir sjónir, ef hæstv. stj. hefur óskað eftir þessu, og svo mikið er víst, að til n. hefur ekki komið slík ósk frá stj. En það var upplýst í Sþ., að þessi hæstv. ráðh. taldi sig alla stj. í líku máli og hér er um að ræða, og þess vegna tek ég því með varfærni, þegar hann segist vera með tilmæli frá stj. Og þó að svo væri, þá ber okkur að hafa vit fyrir stj., ef þessi hæstv. ráðh. hefur leitt hana út í þetta.

Hér er að skapast það öngþveiti, sem verður að laga. Hvernig á að fara að, þegar þarf að fara að sigla þessum bátum til útlanda og enginn er til, sem hefur réttindi til að sigla þeim yfir hafið? Það verður auðvitað að laga með því að gefa þessum mönnum tækifæri til að afla sér þessa réttar, áður en Svíþjóðarbátarnir koma, og það verður gert, ef frv. er samþ. eins og n. leggur til.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé verið að taka rétt af mönnum. Hann veit, að þessir menn hafa rétt til að sigla 75 tonna bátum, og þann rétt eiga þeir að hafa áfram, og er því enginn réttur af þeim tekinn. En till. okkar fer fram á að veita þeim meiri rétt með ofurlítið meira námi, og það er undir ráðh. komið, hve þungar kröfur þar á að gera. Ef hann hefði verið við, þegar ég skýrði þetta mál, þá hefði hann aldrei flutt þessa ræðu, ef hann hefði aðeins hlustað á þau rök.

Ég vil benda hv. þm. Str. á, að hér fór hann alveg með rangt mál, þegar hann las dæmi upp úr frv. Þessi ákvæði hafa lengi verið í l. og alltaf skapað öngþveiti. Þó hafa þær skorður verið settar, að ráðh. verði að leita til Vélstjórafélags Íslands og forstjóra skipaskoðunarinnar, áður en hann veitir undanþáguna, og ég veit ekki til, — og ég ætla, að ég þekki það eins vel og hv. þm. Str.. — að nokkur ráðh. hafi nokkru sinni leyft sér að veita undanþágu, nema til komi samþykki þessara tveggja aðila, því að það var full trygging fyrir, að mann vantaði, og hins vegar, að sá, sem verið var að sækja um undanþáguna fyrir, hefði að þeirra dómi eitthvert vit á málunum. Þessu er kippt burt hér, og ég veit, að hv. þm. Str. hefur borið þetta fram til einhvers annars en sýna réttlæti í þessu máli. Hvernig fann hann þann mikla mismun, sem er á þessum tveimur atriðum, ef reyna á að bjarga því, að skip, sem vantar fólk, komist út með því að veita því undanþágur, þangað til hægt er að fá menn, sem hafa þessi réttindi, og stofna þessum mönnum í lífshættu?

Ég skal ekki deila um það við hæstv. atvmrh., hvernig hann eða aðrir ráðh. misbeita valdi sínu sem ráðh., en aðeins fullyrða það, að með því að samþ. þetta er ekki aðeins verið að minnka öryggi manna á þessum bátum, heldur er líka verið að gera þessum mönnum bjarnargreiða með því að veita þeim réttindi, sem þeir hafa ekki unnið fyrir. Það er hægt fyrir hæstv. ráðh. í samráði við skólastjóra sjómannaskólans að ganga svo frá þessum málum, að þeir, sem hafa langa lífsreynslu og álit á sér sem skipstjórar, geti auðveldlega með nokkru bóklegu námi, ekki í skóla, heldur á námsskeiðum, fengið þau réttindi, sem þeir óska eftir. Þess vegna vænti ég, að till. verði felld, en frv. samþ. eins og það liggur fyrir og n. hefur gert till. um.