11.10.1944
Neðri deild: 63. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (4224)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Aðeins nokkrar athugasemdir við ræðu hv. 2. þm. N.-M., sem hann flutti hér í dag.

Það kom fram hjá þessum hv. þm., eins og svo oft áður hjá honum og verða vill hjá bændafulltrúunum hér á Alþ., að hann lagaði til orð mín, til þess að geta betur ráðið við þau í ræðu sinni. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að allt væri í afturför hjá landbúnaðinum. Þetta er ekki rétt. Ég sagði, að framfarirnar hjá landbúnaðinum hefðu verið svo litlar í hlutfalli við aðra atvinnuvegi þjóðarinnar, að þar væri næstum því um afturför að ræða. Að vísu er um nokkrar framfarir að ræða í landbúnaðinum, en þær eru hlutfallslega minni en í öðrum atvinnugreinum þjóðarinnar, ef við miðum t.d. við það, sem var fyrir 20 árum. Afköst manna, sem vinna að landbúnaði, eru orðin óhagstæðari, borið saman við sjávarútveginn, heldur en þá var. Þetta er töluverð breyting frá því sem hv. þm. hafði þetta eftir mér og rök hans því úr lausu lofti gripin, og hann hefur áður verið staðinn að því að fara mjög rangt með tölur og grípa þær úr lausu lofti.

Þessi hv. þm. hélt því fram, að einu upplýsingarnar um það, hve margir taka þátt í íslenzka sjávarútveginum, sé að hafa í manntalinu, sem fram fór 1940. En þetta er ekki .rétt. Fiskifélag Íslands heldur nákvæma skýrslu um báta og skip, sem eru á veiðum, og hve margir menn eru á hverjum bát og hverju skipi. Þessa skýrslu er hægt að fá hjá Fiskifélaginu, og samkvæmt henni voru hér starfandi sjómenn um 5 þús. á s.l. ári. Þessir sjómenn vinna við ýmsar fiskveiðar, línufiskirí á bátum og á trollbátum á vertið á Suðurlandi og siglingum til útlanda, en aðra tíma á síldveiðum. Og þar að auki eru svo togarasjómenn. Þetta eru um 5 þús. menn, samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hjá Fiskifélagi Íslands, og þær upplýsingar eru öruggari en þær upplýsingar, sem hægt er að fá hjá manntalinu. Við vitum, hvernig manntalið er framkvæmt, þannig að menn ganga í hús og taka skýrslu af mönnunum sjálfum, en Fiskifélagið getur fengið miklu öruggari skýrslur um þessa hluti heldur en manntalið.

Ef við tökum til dæmis fiskimagnið 1923, þá var það 70 þús. tonn, og berum það saman við fiskimagnið eins og það er nú, sem er 200 þús. tonn, þá sjáum við, að sjávarútvegurinn hefur um það bil þrefaldað magn sitt á þessum árum samkvæmt skýrslum Hagstofunnar. En hv. þm. sagði, að fiskveiðarnar hefðu hækkað um 97%. Þarna hef ég þó ekki reiknað með síld, en það magn er um 200 þús. tonn. Þannig hefur sjávarútvegurinn í raun og veru aukizt úr 70 þús. tonnum upp í 400 þús. tonn, því að það er engin ástæða til að undanskilja hér síldveiðarnar.

Ég vil í sjálfu sér ekki gefa tilefni til þess að fara út í meting milli sjávarútvegsins og landbúnaðarins, en ég vildi aðeins leiðrétta þessar röngu tölur, sem hér hefur verið farið með. Við höfum tölur landbúnaðarins í sex manna nefndar álitinu, og þær sýna okkur, að framleiðsluhættir landbúnaðarins samrýmast ekki nútíma tækni, en eru orðnir úreltir og aftur úr. Það er líka svo. Og ef ekki tekst að lækka verð framleiðslunnar, þá er fyrirsjáanlegt, að illa muni ganga að selja okkar vörur á erlendum markaði. Tölurnar í sex manna nefndar álitinu sýna okkur betur en nokkuð annað, að þetta ástand er með öllu óhæfilegt. Það er t.d. að taka verð á smjöri, sem kemur hingað frá Suður-Ameríku, og íslenzku bændasmjöri. Við getum selt Ameríkusmjörið á 7,00 kr. kg, en íslenzka smjörið verður að selja á 20,00 kr. hvert kg. Þó er ameríska smjörið flutt hingað með stríðsfrakt, og sjálfsagt hefur Eimskipafélagið fengið sæmilegan hagnað þar af. (SvbH: Hvað er kaupið í Suður-Ameríku? ) Já, hvað er kaupið í Suður-Ameríku? Ég hygg, að þessi munur byggist á því, að þar eru notuð önnur tæki og framleiðsluaðferðir. Það þýðir ekki heldur að horfa aftur í tímann til þess, er fólk bauð vinnu sína fyrir léleg föt og fæði. Það eru framfarir, að fólk vill fá að lifa almennilegu lífi, og það þarf að skaffa því verkfæri til þess að geta lifað almennilegu lífi. Það þýðir ekki að einblína alltaf á kaupið og krefjast þess, að það verði lækkað. Það er engu líkara en bændafulltrúarnir telji, að ef kaupið sé lækkað um helming, þá sé þjóðinni borgið með öll sín mál. En þetta er bara misskilningur, málin eru ekki svona einföld. Þó að slíkt væri gert, væru vandræðin engu síður, en þá væri líf fólksins, íslenzku þjóðarinnar, á lægra menningarstigi, af því að menning þjóðarinnar stendur í hlutfalli við tekjur almennings. Nei, það þýðir ekki fyrir bændafulltrúana að berja höfðinu við steininn. Það er ekki hægt að fá fólkið til þess að vinna í sveitunum fyrir sama kaup og kjör og fyrir 40–50 árum, og það væri böl, ef nokkur maður gæfi sig til þess. Það verður að leysa málin eins og við sósíalistar höfum bent á, að kenna bændum að hagnýta sér nýtízku vélar til þess að gera framleiðsluna ódýrari.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að ég hefði borið það á bændur, að þeir notuðu alls konar klæki til þess að fá greiðslur úr ríkissjóði. (PZ: Tekið orðrétt upp.) Ég sagði það aldrei, að þeir hefðu notað klæki. Ég sagði, að þannig væri þetta útbúið, að auðvelt væri fyrir þá að kaupa sama smjörkílóið og leggja það inn aftur og aftur og fá á það uppbótagreiðslur úr ríkissjóði.

Hv. 2. þm. N.-M. vildi halda því fram, að það væru eingöngu verkamenn, sem mundu gera þetta, en ég er hræddur um, að það mundu fleiri gera það. Það versta er, að þetta skuli vera hægt. Það kom hér fram í fyrirsp. frá Jónasi Jónssyni, að hann taldi það eðlilegt, að bændur legðu inn kjöt sitt og tækju það út aftur til þess að fá uppbætur greiddar á það, og virtist honum það vera sjálfsagður hlutur. Það er afskorið mál, að hægt sé að fá kjöt beint frá bændum. Ég veit um bónda, sem vildi kaupa kjöt hjá nágranna sínum, en fékk það ekki, vegna þess að hann gat fengið miklu hærra verð fyrir það hjá sláturhúsinu. Ég álasa þeim, sem búa til svona skipulag, en ekki þeim mönnum, sem kynnu að hagnýta sér svona vitlaust skipulag. Hv. þm. nefndi nokkur dæmi frá Norðfirði. Ég er ókunnugur á Norðfirði, en ég veit, að menn nota sér þetta víða. Ef einhverja nóttina væri dreift hundraðkrónuseðlum um Austurstræti, ætli það yrði ekki nokkrum á af þeim, sem um götuna færu, að taka einn og einn seðil? Það, að við erum komnir út í svona vitleysu, sýnir, í hvílíkt öngþveiti þessir vesalings bændafulltrúar eru komnir. Já, engir sjá það betur en þeir sjálfir, og svo reyna þeir að skella skuldinni á verkamenn og segja, að þeir eigi alla sökina. Ég er orðlaus yfir slíkri málfærslu.

Hv. 2. þm. N.-M. vildi skilja það, sem ég minntist á karakúlhrútana frægu, þannig, að það væri meint til sín. Nei, hann er að vísu mikil stoð til þess að lyfta upp íslenzkum landbúnaði, en hann á þó ekki alla sök á því, hvernig komið er. En þetta með karakúlhrútana er lítið dæmi um mistökin í íslenzkum landbúnaði. Það eru fluttir hingað 6–10 hrútar til kynbóta, en þá þarf að haga framkvæmdum þannig, að við höfum nú af því þrjár landbúnaðarpestir, sem kosta landið milljónir króna á hverju ári. Féð hefur verið skorið niður, og þó halda pestirnar áfram að breiðast út um landið, og enginn ræður við neitt. Það eru alltaf sömu vettlingatökin, sem höfð eru við að reyna að hefta útbreiðslu pestarinnar og hér hafa einkennt bændafulltrúana á Alþingi.