08.03.1944
Sameinað þing: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (4300)

58. mál, launauppbót til embættis- og starfsmanna ríkisins vegna barna á framfærslualdri

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég sat hjá við fyrri afgreiðslu þessa máls, en það var þó ekki af því, að mér fyndist ekki sjálfsagt, að fjölskyldumönnum væru greiddar þessar uppbætur. En þegar ég fór að athuga málið betur, fannst mér kippt burt þeim grundvelli, sem 1942 lá til þessara greiðslna, því að þegar þetta mál var fyrst borið fram á Alþ., þá var farið fram á grunnkaupshækkun, en í stað þess var þeim þá veitt þessi uppbót eða barnameðlag, en ekki orðið við þeim óskum, sem þeir báru fram þá, heldur síðar. Hins vegar vitum við, að von er á nýjum launal. og að mþn. er að undirbúa þau, og þá finnst mér að sjálfsögðu, að ákveða verði starfsmönnum ríkisins viss þurftarlaun. Ég get ekki búizt við, að miðað verði við þurftarlaun hvers einstaks þegns, og þá er ég samþykkur því, að eitthvað svipað barnameðlögunum verði tekið upp, þannig að þeir, sem mörg börn eiga, fái raunverulega uppbót. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti því, að till. þessi nái fram að ganga.