10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (4311)

67. mál, norræn samvinna

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. — Alþ. hefur nú af sinni hálfu — og eins og það verður gert á þessu stigi málanna — gengið frá þeim tveim stórmálum, sem eru ástæða þess, að þessi till. til þál. er fram borin, en það er ályktun Alþ. um sambandsslit við Danmörku og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Mál þessi fara nú undir dóm þjóðarinnar, og munu þm. allir, sem sameinazt hafa fullkomlega um það að afgreiða málin frá Alþ., vona, að sá dómur verði eindreginn og tvímælalaus, — enda er till. þessi við það miðuð, að þau tvö mál, sem hér um ræðir, verði afgreidd til fullnustu og Íslendingar sjái nú í vor, eins og það er orðað í till., „aldagamla frelsishugsjón þjóðarinnar um stofnun íslenzks lýðveldis rætast“.

Þetta er rétt orðað og felur í raun og veru í sér rökin fyrir þessari till. Það er hin aldagamla frelsishugsjón, sem rætist. Það er eðlilegur réttur vor, byggður á sérstöku þjóðerni, sérstakri tungu, sérstakri menningu, sérstakri sögu, sem hefur borið þetta mál fram til sigurs, og vil ég þar með ekki varpa nokkurri rýrð á lagalegan rétt vorn eða .... þetta mál blandast. En það er ekki kali til annarra, sem því veldur, að vér tökum nú fullt sjálfstæði vort, frekar en það er af kala til stórþjóðanna, að smáþjóðir yfirleitt, t. d. Norðurlandaþjóðirnar hinar, þrá sjálfstæði. Íslendingar eru sérstök þjóð, og hún þráir að lifa sem sjálfstæð þjóð.

En slík mál sem þessi eru jafnan viðkvæm mál. Sérstaklega er þess að vænta, að þetta sé tilfinningamál fyrir þá þjóð, sem vér nú slítum samvistum við, og vil ég næstum því segja, að það væri leitt, ef svo væri ekki. En það er einnig tilfinningamál fyrir hinar Norðurlandaþjóðirnar. Á undanförnum árum fyrir ófriðinn jókst sífellt samvinna vor við Norðurlönd, og mér er óhætt að segja, að allir eða flestir muni hafa fundið, að þetta er eðlilegt. Þarf ekki annað en minna á þau atriði, sem ég nefndi áðan og valda því, að vér þráum nú sjálfstæði vort. Einmitt þessi sömu atriði skapa oss eðlilega samvinnu við Norðurlöndin. Þjóðerni, tunga, menning og saga Norðurlandaþjóðanna er allt oss miklu nær og skyldara en nokkurra annarra þjóða. Vér erum ættaðir af Norðurlöndum, tunga þeirra er oss auðlærðari en aðrar tungur, menning vor hefur ávallt verið í nánum tengslum, og sagan hefur myndazt í samvinnu við þessar þjóðir, misjafnlega ánægjulegri eins og gerist og gengur, — og hefur svo verið um allar Norðurlandaþjóðirnar, að þær hafa barizt, sameinazt, skilið, unnið saman og hver gegn annarri. En þær hafa átt sína sameiginlegu menningu engu að síður, upprunalega að nokkru og skapaða í samvinnu að öðru leytinu.

Ég tel vel fallið, að Alþ. geri sitt til þess að eyða hverjum þeim misskilningi, er leitt gæti af sjálfstæðismáli voru, og lýsi ljóst og ótvírætt yfir ekki aðeins þeim vilja, heldur samkvæmt því, er ég hef nú sagt, þeirri nauðsyn, að Íslendingar haldi áfram að vera í norrænu fjölskyldunni, rækja sínar skyldur þar og njóta sinna réttinda. Vér lýsum því einungis yfir, að vér viljum fara í þessu máli öllu saman að eðlilegum háttum, taka eðlilegt sjálfstæði og einstaklingsrétt og halda okkar eðlilegu frændsemis- og vináttusamböndum.

En vér getum ekki komizt hjá því að minnast þess, hvernig högum er háttað nú á þessum miklu tímamótum. Öll hin friðsömu Norðurlönd eru nú herstöðvar, þótt nokkuð sé með mismunandi hætti. Vér höfum sjálfir verið hernumdir og erum nú undir hervernd og mikil vígstöð. Danmörk er hersetin. Noregur er í ófriði og hernumið land. Finnland er hvort tveggja í senn, í ófriði og með her hins aðilans innan landamæranna. Svíþjóð er eina landið, sem ekki hefur átt skipti við erlendan her, svo að verulegu nemi. En engum dettur í hug að segja, að Svíþjóð viti ekki af ófriðnum.

Það er því ekki óeðlilegt, þó að eitthvað sé vikið að þessu í till., og það verður að óska þess, að þessu ógurlega gerningaveðri megi slota og þjóðirnar öðlast frelsi sitt, sem nú er ýmist tapað um stund eða ógnað svo, að á hverri stund getur um skipt. Í óskinni felst það, að hver þessara þjóða megi að nýju fá að ráða sínum málum óskorað og án ótta, að af nýju megi upp renna sá friður, er þær nutu, áður en ófriðurinn skall á þeim. Af þessari einlægu og hugheilu ósk getur enginn móðgazt með réttu, meðan nokkur snefill er eftir í veröldinni af hugsanafrelsi og sjálfsákvörðunarrétti.

Það mætti náttúrlega segja margt fleira um þetta mál, en ég held naumast, að ég þurfi að gera grein fyrir þessari till. n. með fleiri orðum. Vænti ég þess fastlega, að hv. þm. geti sameinazt um brtt. okkar og veitt þáltill. í heild samróma fylgi sitt.