22.02.1944
Sameinað þing: 20. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (4369)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Hv. fyrri þm. Árn. hefur í sinni ræðu rætt ýmislegt af því, sem ég ætlaði að minnast á í sambandi við þá þáltill., sem hér liggur fyrir, en ég vil þó enn frekar bæta við nokkrum orðum um þetta mál.

Það stendur svo í grg. till., með leyfi hæstv. forseta: „Ekkert hinna stærri málefna, er varða verklegar framkvæmdir, hafa sætt jafnharkalegri vanrækslu“, þ. e. a. s. eins og samgönguvandamálin við héruðin austan Hellisheiðar. Enn fremur segir í grg. þessarar till. um hinar ýmsu till., sem fram hafa komið í þessu efni, og verð ég að telja það nokkuð táknrænt.

Ég vil taka það strax fram, að mér virðist, að með þessari till. sé í raun og veru verið að stuðla að því að halda við þeirri togstreitu, sem ríkt hefur í þessu máli. Víst er um það, að hv. flm. hafa ekki haft ástæðu til að bera þessa till. fram, þar sem búið er að leggja fé fram í þessu efni. Og það verkefni, sem n. þeirri er ætlað, sem ætlazt er til eftir till., að kosin verði, það segir til um, hvort hægt er að ljúka því á þrem mánuðum, og aðrar mótsagnir í grg. þessarar till., sem ég mun koma að síðar.

Það segir svo í þessari þáltill., að n. eigi að athuga og gera rökstuddar till. um, hverjar aðferðir skuli hafa í þessu efni, en rökstuddar till. er ekki hægt að gera, nema með mælingum og nákvæmri rannsókn.

Í grg. till. er vikið að ýmsum þeim leiðum, sem till. hafa komið um og rannsaka þarf, og skal ég lauslega telja þær upp hér. Það hefur í fyrsta lagi verið komið með till. um að endurbæta Hellisheiðarveginn, og í rauninni tvöfalt framlag í þeim efnum, hækka veginn upp og gera hann steinsteyptan. Í öðru lagi, eins og flm. minnast á í grg. till., þá eru til l. frá 1932 um að leggja veg gegnum „Þrengslin“ og að leysa málið á þann hátt. Þá er uppi till. um það að endurbæta Þingvallaleiðina með því að leggja veginn neðar. Í fjórða lagi er svo till. um að yfirbyggja alla leiðina frá Lækjarbotnum og austur á Kamba, að því er mér skilst. Í fimmta lagi, þá sá ég í einu blaði nú nýverið um þetta efni, að nefndur var sá möguleiki að bora jarðgöng í gegnum Bláfell. Í sjötta lagi er svo Krýsuvíkurleiðin. Í sjöunda lagi hefur verið rætt um járnbraut, og þá er tekið fram í grg. þessarar till. í áttunda lagi, að það eigi að vera rafknúin járnbraut. Í níunda lagi hefur verið rætt um að leysa málið, ekki með því að leggja veg, heldur með því að nota tæki ofan á snjónum, og er þar um tvær leiðir að velja, að nota vélknúinn sleða eða snjóbíl.

Þarna eru komnar tíu leiðir, sem þarf að afla rækilegra upplýsinga um, að minnsta kosti um tækin, hvaða reynsla er fengin fyrir þeim í fólksfleiri löndum. (BÁ: Og svo er flugleiðin). Flugleiðin er svo ellefta hugsanlega leiðin, sem minnzt hefur verið á í þessu sambandi.

Um þessar tíu, ellefu leiðir, sem allar hafa verið ræddar manna á milli í fullkominni alvöru, eiga nú fimm menn, fjórir tilnefndir af Alþ. og svo vegamálastjóri, sem hefur haft allar þessar till. til úrlausnar um mörg ár, að gera till. um á þrem mánuðum og skila um þær rökstuddu áliti. Ég tel ósennilegt, að nokkur maður leiki sér að þessum hlutum, en menn, sem hafa starfað að alvörumálum hér á Alþingi undanfarin ár, ættu að vita, að þetta er ekkert annað en orðaleikur. Í bezta tilfelli get ég hugsað mér, að það gæti verið búið að gera till. um eina leið eftir þrjá mánuði. Mér kæmi það að minnsta kosti ekki mjög á óvart, að það tæki ekki þrjá mánuði eða þrjú ár, heldur þrjátíu ár, ef það ætti að koma að gagni og allir að vera sammála um ódýrustu, stytztu og öruggustu leiðina. Nú hygg ég, að erfitt sé, þótt fé væri fyrir hendi, að finna þá leið, sem í senn er ódýrust, stytzt og öruggust. Og ég er sannfærður um það, að engin ein leið er til, sem fullnægir öllum þessum skilyrðum, eins og nú standa sakir. Hv. 1. flm. þessarar þáltill. gerði sér samt vonir um, að n. gæti gert skil öllu þessu verkefni á rúmum þremur mánuðum og skilað áliti þegar að þeim tíma liðnum, sem þá væri þannig, að allir nm. væru á eitt sáttir. Og sá, sem eftir till. flm. á að hafa forustu þessa mikilvæga verks, að rannsaka 10 eða 12 leiðir til samgöngubóta austur, sem geta kostað milljónir króna hver leið fyrir sig — og til þeirra rannsókna þarf margvíslegar athuganir, t. d. að athuga snjóalög, hvað kostar að byggja yfir veg eða járnbraut og kannske athuga flugvallastæði, — þá á sá maður, sem hafa skal forustu í þessu máli, að vera vegamálastjóri, maður, sem hefur haft þessi mál í höndum í áratugi og ekki er vitað, að hafi með höndum áætlun um eina einustu leið austur. Meira að segja er það svo um leiðirnar um Þrengslin og um Krýsuvík, að það er ekki vitað, að vegamálastjóri hafi skilað áætlun um þessar leiðir enn sem komið er, sem hann vilji standa við. Hann ætti þó að hafa mestan áhuga fyrir því, þar sem honum er af ríkisvaldinu og Alþingi falið að vera vakandi í þessu efni. Mér er kunnugt um það viðvíkjandi Krýsuvíkurleiðinni, sem hann hefur áætlað að mundi kosta 5 millj. kr. að leggja, að þá vill hann ekki standa við þá áætlun, þegar á herðir. Þegar talað hefur verið um að taka þessa vegarlagningu í ákvæðisvinnu, þá hefur hann látið svo um mælt, að þessi áætlun sé ekki svo nákvæm, að það sé rétt að láta framkvæma verkið í ákvæðisvinnu samkv. þeirri áætlun. Hann býst við, að þessi framkvæmd kosti ekki svo mikið fé, enda er vitað, að frá upphafi hefur hann reynt að torvelda það, að vegarlagningin um Krýsuvík verði framkvæmd. Og svo að ég tali frekar um forustu hans í þessu efni, þá ætti hv. 1. flm. þáltill. að vera því kunnugur, að þegar til hans var leitað af Alþ. um álit um Krýsuvíkurleiðina, þá hélt vegamálastjóri því fram skilyrðislaust eins og heilögum sannleika, að það væri óframkvæmanlegt að leggja þennan veg. Nú veit hvert mannsbarn, án þess að hafa nokkra verkfræðilega þekkingu, að það er ekkert því til fyrirstöðu að leggja veginn. Ekkert frá náttúrunnar hendi er því til fyrirstöðu að framkvæma þessa vegarlagningu, heldur eru það einstakir menn, sem toga í spottann um, að þetta verði ekki gert. Erfiðleikarnir við framkvæmdina á þessu verki eru því aðeins frá mönnum, sem reyna að torvelda hana. Það getur verið, að vegamálastjóri segi, að það sé ekki hægt að leggja veginn þarna vegna þess, að hann sé á móti því og fleiri voldugir menn í þjóðfélaginu séu á móti því. En það er þá náttúrufyrirbrigði út af fyrir sig, sem venjulegir menn reikna ekki með fremur en stormsveipum og öðru slíku, sem geta eyðilagt mannvirki. En menn byggja nú mannvirki fyrir því, þó að það hafi komið fyrir, að stormsveipir og annað hafi skemmt þau eða eyðilagt, og byggja í skörðin, þar sem skemmdir hafa orðið af þeim og öðrum slíkum orsökum. Og slík náttúrufyrirbrigði hafa aldrei ráðið gangi mála og úrslitum um ákvarðanir um framkvæmd á þeim.

Ég verð því að segja það, að sú staðreynd, að vegamálastjóri hefur ekki enn lagt fram áætlun um þetta verk, sem hann vill standa við, gefur til kynna, að ekki muni auðið að fá áætlun svo mjög bráðlega um þessa vegarlagningu og ekki á þeim tíma, sem til er tekinn í þessari þáltill. Án þess að ég tortryggi hans góða vilja, þá hefur ekki komið í ljós það mikill áhugi hans fyrir málinu, að maður geti talið frá því sjónarmiði heppilegt að hafa hans forustu í rannsókn málsins, — þar sem það er líka vitað, að hann hefur gert ýmislegt í málinu til þess að torvelda, að þessi leið verði farin, að leggja veginn um Krýsuvík, þrátt fyrir það, að menn, sem kunnugir eru, álíta, að það sé rétta leiðin. Mér er kunnugt um það af viðtölum við þá menn, sem eiga í stríði við að koma vörum yfir Hellisheiði austur, að þeir eru allir á einu máli um það, að lagning Krýsuvíkurvegarins sé sú eina lausn á þessu samgöngumáli, sem hægt sé að framkvæma á næstunni og að haldi gæti komið. Og þó að ég beri mikla virðingu fyrir sérfróðum mönnum, sem sitja á skrifstofum sínum og koma sjaldan út til þess að stríða við samgönguörðugleikana sjálfir, þá treysti ég líka góðum og gegnum mönnum, þó ekki hafi þeir svo kallaða sérþekkingu, en hafa barizt við það bæði dag og nótt að halda samgöngum uppi á leiðinni austur. Enda hefur það sýnt sig, að þeir hafa ekki síður séð úrræði í samgöngumálum okkar heldur en þeir, sem hafa haft verkfræðilega þekkingu. Það er líka þannig, að ég hygg, að það sleifarlag, sem á því hefur verið að halda í horfinu þeim leiðum, sem fyrir eru nú, eftir því sem unnt væri, og það einmitt undir stjórn vegamálastjóra, það bendir ekki til þess frekar, að hann sé sérstaklega sjálfkjörinn af Alþ. til þess að hafa forustu um lausn á þessu máli. Og til þess að menn haldi ekki, að ég fari með fleipur í þessu efni, þá skal ég segja sögu, sem kom fyrir, þegar ég fór síðast yfir heiðina.

Vegamálastjóri er búinn að kaupa einhverjar snjóýtur, ég held a. m. k. tvær, en ófullnægjandi eru þær til þess að halda opinni leiðinni austur. Nú ætlaði ég á föstudegi, og mjólkurbílarnir austur yfir Hellisheiði fóru af stað kl. 6 að morgni, og þegar upp á Heiðina kom, ætluðu bílstjórarnir að halda áfram, þótt ófærð væri. Snjóýturnar stóðu þar, en enginn maður sjáanlegur. Urðu bílstjórarnir þá að snúa við, þar sem þeir vissu líka, að bílar, sem voru að stríða við að komast austur um nóttina, urðu úti og mennirnir urðu að snúa við. Þegar mennirnir sneru aftur, var kl. orðin 10 að morgni, en þá fyrst eru mennirnir að koma, sem eiga að sjá um að halda veginum opnum með snjóýtunum. Og nú skyldi maður halda, að það hefði verið fyrsta verk þessara manna, sem stjórna áttu snjóýtunum, að gera eitthvað með þeim til að greiða fyrir bifreiðunum. Nei, þeirra fyrsta verk er að fara í síma, því að þeir mega ekkert gera nema tala fyrst við yfirmann. Bílarnir bíða nú þarna upp frá, sem austur ætla, og mjólkin situr upp á Kárastöðum, sem til bæjarins átti að fara. Eftir langa leit er svo sagt, að vegamálastjóri sé ekki í bænum. Þá er reynt að ná í mann, sem vegamálastjóri hefur að einhverju leyti falið að hafa umsjón með þessu þarna upp frá. Sá maður var þá í Reykjavík. Þá er reynt að ná í skrifstofumann hjá vegamálastjóra. Eftir nokkuð langa leit kemur það svar, að hann finnist ekki. Og þeir, sem eiga að vinna á ýtunum og nú bíða hjá símanum, segjast ekki mega vinna á þessum ýtum, nema hafa áður náð sambandi við vegamálastjóra. En vegamálastjóri finnst ekki, ekki fulltrúi hans og ekki skrifstofumaður hans. Allir þeir bílar, sem ætluðu að fara yfir heiðina þann daginn, urðu að snúa heim, bæði bílarnir úr Reykjavík og mjólkurbílarnir að austan. — Þegar ég fór að segja þeim þessa sögu, sem sjá um flutninga yfir heiðina, sögðu þeir: Þetta er ekkert nýtt; svona er stjórnin á þessu í hvert einasta skipti. — Og ég segi fyrir mig, að þeirri stjórn á opinberum framkvæmdum, sem lýsir sér á þennan hátt, þegar við er að etja þá örðugleika, sem ég nú hef lýst, á flutningunum austur, treysti ég heldur illa til þess að rannsaka, og það á stuttum tíma, hvað gera ber í samgöngumálunum milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, og gera það vel. Og búendur á Suðurlandsundirlendinu eru búnir að fá nóg af slíkri forsjá sem þeirri, er ég nú hef lýst, þó að ekki sé, eins og þó lagt er til í þessari þáltill., að sú rannsókn, sem þáltill. gerir ráð fyrir, sé ákveðin undir slíkri forustu og slíku verklagi, sem komið hefur á daginn undir þeirri forustu. Þeir geta varla vænzt svo mikillar einingar og samhugar, að undir slíkri forustu verði í þessari fyrirhuguðu n. komizt að samkomulagi á einum 3 mánuðum í þessu efni, því að það er hreint ekkert annað en orðaleikur að gera ráð fyrir slíku, það veit hver einasti maður.

Þá segir í grg. þessarar þáltill., með leyfi forseta: „Æskilegast hefði verið, að nú þegar hefði verið ákveðin fjárhæð til framkvæmda vegabótunum á næsta sumri, en slíkt er varla gerlegt, eins og á stendur. Hitt verður að hafa hugfast, að á júníþinginu verður fé að veitast þegar í stað....“ Búizt er við því, að júní-þingið verði ekki nema nokkra daga. Og ég sé ekki, hvað er mætara að veita fé til þessara framkvæmda á þeim þinghluta heldur en nú þegar á þessum þinghluta. Þessi ummæli gefa því aðeins til kynna, að það sé a. m. k. einhver vilji fyrir því að draga á langinn að veita fé til þessara framkvæmda, sem allir vita þó, að eru bráðnauðsynlegar og að bráðnauðsynlegt er að leggja hina mestu áherzlu á, að verði gerðar sem fyrst.

Það er rætt um það í sambandi við þáltill., sem ég ásamt nokkrum hv. þm. öðrum hef flutt um framlag til Krýsuvíkurvegarins, að slík rannsókn eins og hér er um að ræða þurfi að fara fram áður. En til hvers? Hv. flm. þessarar þáltill. lýsir því yfir, að hann geti verið með þeirri þáltill. um Krýsuvíkurveginn, sem ég hef flutt með fleirum. Og það er vitað, að hv. þm., sem eru á því máli um að leysa þetta mál, geta verið með Krýsuvíkurleiðinni, hvað sem þessari þáltill. líður, sem hér liggur fyrir nú til umr. Hvers vegna? Vegna þess, að það er búið að leggja einn þriðja hluta vegarins Krýsuvíkurleiðina og að hann verður allur lagður, hvenær svo sem það verður gert. Það er ekki nema að eyða tíma og fé að vera að moka snjó á heiðum, sem vegur austur liggur um, en leggja ekki veginn heldur um Krýsuvíkurleiðina, sem er oftast fær snjóa vegna. En til dæmis um það, hversu peningum er fleygt til ónýtis með því að moka heiðina og halda sig við að fara hana, hvernig sem snjóalög eru, má benda á, að í fyrsta lagi eru menn hafðir við snjóýturnar, sem þó oft standa óhreyfðar, þegar virðist að ætti að nota þær, á meðan haldið er við þessa leið. Svo eru í öðru lagi bílarnir, sem daglega eru brotnir í þessum flutningum í ófærðinni. Þá er í þriðja lagi talað um að hafa traktora uppi á heiði til þess að draga sleða. — Hve lengi ætla ráðamenn þjóðarinnar að láta fleygja þannig daglega tugþúsundum króna í verk og framkvæmdir, sem koma að engu gagni fyrir framtíðina, þegar menn jafnframt vita, að fyrir hendi er leið til samgöngubóta milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, sem verið er að framkvæma og verður framkvæmd, sem leysir þetta samgönguvandamál að langmestu leyti? Mér þykir það einkennileg ráðsmennska að láta ekki fullgera þessa vegarlagningu sem fyrst. Og ég er sannfærður um, að enginn einstaklingur, sem ætti yfir þessu að ráða og ætti við það að gæta sinna eigin hagsmuna, mundi sýna slíka ráðsmennsku.

Hv. 1. flm. þessarar þáltill. talaði um það, að þessi till. ætti ekki að verða til skemmda fyrir Krýsuvíkurvegarlagninguna, það væri hreinasta fjarstæða, að hún væri hugsuð á þann veg. Hvað sem er um það, þá er það víst, að hv. flm. þessarar þáltill. hafa ekki fengizt til að standa að og fylgja á þinginu framlagi til Krýsuvíkurvegarins. Og fyrst eftir að till. um framlag til Krýsuvíkurvegarins er komin fram nú á þ., þá koma þeir með þessa þáltill., sem hér liggur fyrir. Og ef þessi till., sem hér liggur fyrir, er skilin á bezta veg, þá er það þó a. m. k. víst, að hún vill slá á frest framlagi til Krýsuvíkurvegarins, þangað til búið er að rannsaka þetta. Og það er víst, að hún verður til þess að fleyga mjög fylgið við till. um framlagið til Krýsuvíkurvegarins, með því að fá menn til fylgis við það að slá á frest að leggja fram fé til Krýsuvíkurvegarins með því að leggja til, að nú verði kosin nefnd í málið til rannsóknar, — þó að milliþn. hafi starfað að þessu og ekkert hafi verið gert eins og sú n. hefur lagt til, — eins og hv. flm. líka segja í grg. þessarar þáltill., með leyfi hæstv. forseta: „Þannig samþykkti þingið nú fyrir fáum missirum tillögu um að fela ríkisstjórninni að láta rannsaka vegarstæði austur í sveitir, þar sem valin yrði hin skemmsta og öruggasta leið til nota á öllum árstíðum. Eigi verður séð, að neitt hafi verið gert til að fylgja þeirri ályktun eftir.“

Hver trygging er nú fyrir því, að þessari ályktun, sem hér liggur fyrir, ef samþ. verður, verði fremur framfylgt?

Enn fremur stendur í grg. þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir: „Nú hefur Alþingi á síðasta hausti samþykkt ályktun, er margir þingmenn fluttu, um undirbúning steinsteypuvegar austur um Hellisheiði með breyttu vegarstæði, þar sem þurfa þætti. Eru áhrif þeirrar samþykktar enn ókunn.“

Hér lýsa hv. flm. tveimur samþykktum, sem gerðar hafa verið um þetta efni á Alþ. Og þeir lýsa jafnframt yfir því alveg eindregið, að ekkert hafi verið gert til þess að framfylgja þessum samþykktum. Er þá ekki tími til þess kominn fyrir hið háa Alþ. að láta framfylgja samþykktum þeim, sem það sjálft hefur gert?

Það hefur verið samþ. að leggja veg um Krýsuvík, og fé hefur verið lagt fram til þess vegar í þrjú undanfarin ár, en ekkert hefur verið unnið. Það þarf þó ekki að búast við því, að verkamenn fáist síður til þess að vinna í þessum vegi heldur en annars staðar. Þvert á móti hygg ég, að verkamenn hér í Reykjavík og Hafnarfirði mundu fremur en annars staðar vilja vinna í vegagerð í Krýsuvíkurveginum, vegna þess öryggis, sem þeir fá með því. En það hefur verið vanrækt í þrjú undanfarin ár að láta vinna nokkurt handtak í þessum vegi.

Mér virðist nú einmitt, að sú aðferð, sem höfð hefur verið á þessu máli undanfarið, bendi til þess, að hæstv. Alþ. geti ekki látið sitja við ályktanir einar um þetta efni, heldur verði það að segja: Hér er fé fyrir hendi, og þetta skal framkvæmt. — Það er búið að ganga nógu lengi í strefi að fá lausn í þessum efnum, eins og rækilega er sýnt í greinargerð þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir, sem ég hef nokkuð lesið upp úr, þannig að það er frá mínu sjónarmiði mjög varhugavert fyrir þá, sem áhuga hafa á málinu, að tefja fyrir því með því að samþ. nú þessa þáltill., þar sem hæstv. Alþ. er þegar búið að samþ., að þetta verk skuli framkvæmt. Hvort sem einhver rannsókn fer fram um það á 3 mánuðum, 3 árum eða 30 árum, þá er Alþ. búið að samþ. að leggja veg um Krýsuvíkurleiðina. Og það er mál þeirra, sem eiga nú í mestu stríði við flutninga á þessum leiðum austur, að það sé mjög mikil bót og lausn á samgönguörðugleikunum, ef Krýsuvíkurvegurinn verður lagður. Og nú er komið mál fyrir hæstv. Alþ. að skera úr um það, að þeim töfum sé ekki haldið uppi lengur, sem hafa verið á því máli, heldur verði unnið að framkvæmd þessarar vegarlagningar og ekki sé átt á hættu, vegna þeirra torfærna og erfiðleika um flutninga, sem nú er við að etja, að fleygt verði hundruðum þús. kr. á ári í ekki neitt, eins og gert hefur verið undanfarið. — Ég hygg líka, að það sé mála sannast, að þeir, sem mest hafa átt að etja við erfiðleika í ferðalögum og flutningum á leiðinni austur undanfarið, séu nú orðnir meira og meira sammála um það, að það verði tvímælalaust, og það nú sem fyrst, að koma Krýsuvíkurleiðinni á sem samgönguleið, og það sé sú leið, sem verði að leggja veg um, hvað sem það kostar, á næstu árum. Það hafa sumir, eins og hv. flm. þessarar þáltill., verið í vafa um það, en mér er kunnugt um, að margir menn á Suðurlandi, sem hafa á undanförnum árum verið svipaðrar skoðunar um þetta efni og hv. flm. þessarar þáltill. eru nú, þeir eru nú ákveðnir í að álíta, að Krýsuvíkurleiðin eigi að koma sem fyrst, — og hv. 1. flm. þessarar þáltill. ætti að kynna sér, hvort ég segi hér of mikið.

Það er að mínum dómi mjög svo hæpin hagfræði af ríkisins hálfu að halda áfram á sömu braut eins og gert hefur verið undanfarið, að fleygja stórfé í tilraunir til þess að leysa úr samgönguvandræðunum, eins og gert hefur verið árlega í sambandi við þann heiðarveg, sem farinn hefur verið austur, og síðan eyða miklu fé í rannsóknir og aftur rannsóknir ár eftir ár, eins og gert hefur verið undanfarið í sambandi við þetta mál. Ég hygg, að þau vinnubrögð verði áreiðanlega eins dýr, jafnvel í byrjun, eins og að leggja þegar hönd að verkinu og leysa það á þann hátt, sem allir, sem til þekkja og kunnugastir eru málinu, álíta réttast vera. Það kák, sem hefur verið viðhaft í þessu máli, verður þjóðinni margfalt dýrara, þegar stundir líða, heldur en að ganga beint til verks. Og einhvern tíma kemur að því, að menn verða við völd hér í landinu, sem láta leggja veginn um Krýsuvíkurleiðina.