10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (4470)

72. mál, læknishéruð

Pétur Ottesen:

Það var allmikið um það rætt í gær í sambandi við breyt. á læknaskipuninni, að ekki væri einhlítt, þótt stofnuð væru ný læknishéruð, ef lækna vantaði í mörg héruð landsins, þess vegna þyrfti að gera ráðstafanir til að tryggja fólki í sveitum læknisþjónustu, og styðst það við reynslu margra undanfarinna ára. Ég vil þess vegna leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. á þann veg, að á eftir orðunum „viðunandi læknishjálp“ í fyrri málsl. till. komi: „Skal n. einnig taka til athugunar, hverjar aðrar ráðstafanir virðast tækilegar til þess að tryggja sveitahéruðum læknisþjónustu.“ — Þar á ég aðallega við, að athugað verði, hvort eigi sé fært að leggja þá skyldu á lækna, áður en þeir fá rétt til að starfa sem fullgildir læknar hvar sem er, að þeir gegni um hríð læknisþjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins.