22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (4532)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Ég vildi vænta þess, að hv. 6. þm. Reykv. segði nokkuð ýtarlegar frá því, sem skort hefur á hans röksemdafærslu, af því að ég treysti því , að hann hafi svo góðan málstað, að hann geti úr því bætt, áður en umr. er lokið.

Ég heyrði á hv. 6. þm. Reykv., að hann hefur aðra skoðun heldur en hv. þm. Str. á stjórnarmyndunarmöguleikum frá því í sumar, og þar sem þessir tveir menn voru báðir lengi í samstarfi í þessum málum, tólffótungnum svonefnda,, þá þætti mér vel við eiga, að hann skýrði málið nokkuð nánar, þar sem þetta er mjög mikilsvert atriði og hann hefur minnst á það, að málið hafi ekki verið fullskýrt frá sinni hlið. Ég vildi þá spyrja hv. 6. þm. Reykv. um það, hvernig stóð á því, að það leit út fyrir nokkra daga í haust, að Sjálfstfl. og Framsfl. mynduðu stj. saman. Ég boðaði til pólitísks fundar við Ölfusá í haust og bauð þangað tveim þm. þessara flokka með ágætum fundarkjörum. En í stað þess, að þetta boð væri þegið, komu hátíðlegar yfirlýsingar frá Sjálfstfl. og Framsfl. um það, að þeir boðuðu saman til þriggja funda austur í Árnessýslu, og það var ekki látið við það sitja, heldur voru sendir 10 vöskustu menn þingsins á þessa fundi, og eftir því sem mér skildist, var ekkert annað eftir heldur en að nokkrir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn settust í ráðherrastólana saman. En einhver furðulegasti þátturinn í þessari trúlofun var það, þegar hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. S.-M. fóru saman austur á Skeið. En þessir hv. þm. fundu það tiltölulega fljótt á eftir, að það var margt, sem aðgreindi þá og kannske líka hv. 2. þm. Árn., því að hann hafði með einhverjum dularfullum hætti horfið á þessum fundi. Svo mikið var víst, að bændurnir á Skeiðunum voru vissir um það eftir fundinn, að þarna hefðu komið fulltrúar tilvonandi stj. og þessi stjórn væri búin að lofa því að gera það sama sem búnaðarþing hafði gert. Það var búið að biðja bændur að gefa fé í dýrtíðarsjóðinn, og ég vil spyrja hv. 2. þm. Árn., hvort þetta er ekki rétt. Ég treysti því, að hv. 2. þm. Árn. geti upplýst það hér, hvort hann hafi ekki haft fullkomið umboð frá sínum flokki til þess að láta fara fram þær orðræður á Skeiðunum, sem hér hefur verið skýrt frá. En trúlofanir eru ekki alltaf alvara, og það kom fram í þessu sambandi, og nú finnst mér vel við eiga, að hv. 6. þm. Reykv., sem er mikill forustumaður í sínum fl., skýrði frá því, hvað það var, sem sleit þessari trúlofun. Þá vil ég svara hv. þm. Barð. nokkrum orðum. Hann gerði Framsfl. þann heiður að eigna flokknum dr. Björn Þórðarson. En því er þannig farið, að þegar Bændaflokkurinn var stofnaður, yfirgaf Björn Framsfl. og fór í Bændafl. og hefur ekki sézt síðan í Framsfl. En nú vildi ég minnast á það, sem hv. þm. Barð. sagði, að það hefði verið búið að viðurkenna fórn bænda og búnaðarþings. En ég vil bæta því við, að það lítur út fyrir, að þeir pólitísku leiðtogar bænda hafi lofað bændum landsstjórn hvar í ekki fyndust kommúnistar og tæplega kratar, og í öðru lagi yrði að lækka kaup og laun í samræmi við þá eftirgjöf, sem bændur gerðu. En eins og hv. þm. veit, hefur hvorugt þetta orðið, heldur hefur allt kaup í landinu hækkað stórkostlega, og mér finnst, að hv. þm. Barð., sem viðurkennir, að bændur hafi tekið á sig siðferðilega ábyrgð með eftirgjöfinni, telji það mikils virði, og það er rétt; þótt á því séu fleiri hliðar. En ef það er rétt, sem hv. þm. Barð. hélt fram, að það hefðu orðið miklir erfiðleikar fyrir atvinnulífið í landinu, ef staðið hefði verið við sex manna n. samninginn, þá er erfitt að skilja þau fáheyrðu tíðindi, sem gerðust hér á þinginu fyrir skömmu, þegar lagt var til; að bændur söfnuðu nokkru fé í sjóð, þá gerðist það, að stjórnarmeirihl., sem á sína tilveru því að þakka, að bændur slógu undan, samþ., að Búnaðarfélagið skyldi ekki fá að hafa í sínum höndum úthlutun úr þeim sjóði, heldur skyldi hún vera í höndum ráðh. Annars fyndist mér vel víð eigandi, að hv. þm. Barð., sem er framleiðandi til sjávar og einnig þm., vildi benda á það, hvaða vit er í því að hafa farið fram á þessa fórn við bændur, og hvers vegna þeir eiga að gefa af sínum tekjum, þegar verkamenn hækkuðu sitt kaup í fyrra um 16%. Ég vil benda hv. þm. Barð. á, að í Morgunblaðinu og eins í Tímanum var sagt, að þetta væri ágætt og það mætti vel við þetta una. Mun það þá hafa verið meiningin að lokka bændur til þess að lækka sínar vörur, á meðan allir aðrir hækkuðu. Það er náttúrlega gott að úthella þakklæti sínu í þessu sambandi, en það er ekki nóg. Mér finnst vel til fundið, að hv. þm. Barð., sem er bæði framleiðandi og þingmaður, geri grein fyrir, hvernig á því stendur, að mönnum hefur dottið þetta í hug. Mér sýnist þess vegna eins og nú er komið, að menn eins og hv. þm. Barð. ættu að vera með því, að þetta frv. sé fellt, því að það hefur farið fram stórkostleg launahækkun og svik við rændur, síðan þetta frv. var hér fyrst til meðferðar.