18.01.1945
Efri deild: 105. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (4570)

256. mál, gjald af söluverði fisks erlendis

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Eins og form. fjhn. tók fram, hefur fjhn. þessarar hv. d. flutt þetta frv. og einnig það frv., sem er hér næsta mál á dagskrá, eftir beiðni ríkisstj. Fyrir hv. Nd. liggur þriðja tekjuöflunarfrv. frá ríkisstj., er var til 1. umr. þar í gær. — Áður en ég minnist á efni þessa frv., vildi ég fara örfáum orðum um þessar tekjuöflunaraðferðir ríkisstj. í heild sinni.

Ætlazt er til, að þessi þrjú frv., er ég hef minnzt á, frv. til l. um gjald af söluverði fisks erlendis, frv. til l. um veltuskatt og hið þriðja, sem nú er fyrir hv. Nd., frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld 1945 með viðauka, auki tekjur ríkissjóðs um 14–15 millj. kr., ef þau ná samþykki hv. Alþ. Ég tel, að ekki sé ástæða til að fara að ræða hina almennu fjárþörf ríkissjóðs við þessa umr., það mál hefur verið allmikið rætt við fjárl.-umr., og munu allir hv. þm. hafa verið sammála um það, að óhjákvæmilegt væri að afla ríkissjóði allmikilla tekna fram yfir þá tekjuliði, sem teknir voru upp á fjárhagsáætlunina. Hitt er svo nokkur ágreiningur um, hversu mikil tekjuþörfin muni vera. Það eru sjálfsagt margir, sem telja, að þær tekjur, sem hér um ræðir með þessum frv., 14–15 millj. kr., muni ekki líklegar til þess að hrökkva fyrir óhjákvæmilegum útgjöldum ársins 1945. Eins og ég gat um í gær við umr. um tekjuöflunarfrv. það, sem lá fyrir hv. Nd., er vitanlega erfitt, bæði fyrir ríkisstjórnina og einstaka hv. þm., að gera nokkrar fullyrðingar um þetta fyrir fram, — það veltur svo mjög á, hvernig fram vindur í atvinnulífi þjóðarinnar á þessu yfirstandandi ári, — en ef atvinnulífið helzt í svipuðu horfi og undanfarið og ef svo verður um viðskipti, bæði innflutning og útflutning, tel ég ekki verulega ástæðu til að óttast, að þær tekjur, sem inn ættu að koma í ríkissjóð, ef þessi þrjú frv. verða samþ., hrökkvi ekki nokkurn veginn fyrir útgjöldum ríkissjóðs. Það er að vísu svo, að ef fullar uppbætur verða greiddar á allar landbúnaðarafurðir, sem eru framleiddar á þessu ári, þá nemur sú fjárhæð töluvert meiru en ætlazt er til, að þessi þrjú frv. gefi í tekjur, og er ekki óhætt að reikna með, að sú fjárhæð nemi minna en 25 millj. kr., ef allar þessar afurðir yrðu fluttar út á yfirstandandi ári.

Ég skal láta þess getið, að ríkisstjórnin hefur orðið sammála um að bera ekki fram till. um frekari skattaálögur á þessu þingi. Ef einhver tekjustofn brygðist, væri hægt að koma því í lag, er Alþ. kemur saman í haust.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að frv. því, sem hér liggur fyrir.

Frv. á þskj. 852 gerir ráð fyrir því, að á útfluttan fisk á árinu 1944 skuli leggja 2% gjald, þ.e. á brúttósölu. Þess skal getið, að nokkurt ósamræmi er milli þessa frv. og frv. um veltuskatt. Hér er um að ræða skatt á útfluttan fisk 1944, en veltuskattinn á að leggja á atvinnureksturinn í heild 1945.

Ástæðan til þess er sú, að það er kunnugt, að veiðiskip hafa haft mjög góðan tekjuafgang árið 1944, en óvíst er um það á næsta ári, 1945. Mörg skip hafa og skipt um eigendur, og þess vegna þótti varhugavert að leggja veltuskatt á þau, því að óvíst þótti, hvernig innheimta slíks skatts mundi ganga þar, sem svo var ástatt.

Að öðru leyti má segja, að þetta frv. miði að því að taka tekjur þar, sem féð er fyrir, þ.e.a.s. af stríðsgróðanum, og hann er ekki annars staðar frekar en hjá útgerðinni.