16.12.1944
Efri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (4622)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. ( Kristinn Andrésson):

Þetta er svo mikið mál, að ekki verður hjá því komizt, að framsöguræðan taki nokkuð langan tíma. N. hefur haft það lengi til athugunar; því var vísað til hennar 22. sept. s.l. Hún hefur haldið um það marga fundi, sérstaklega hefur hún þó unnið að því að heita má daglega, eftir að lokið var því hléi, sem varð á störfum Alþ. eftir myndun hinnar nýju ríkisstj. Fram að þeim tíma hafði að vísu talsvert verið unnið að frv., en sú breyting varð á n. við stjórnarskiptin, að tveir nm., þeir Brynjólfur Bjarnason og Pétur Magnússon, tóku sæti í ríkisstj. og urðu því að hverfa frá nefndarstörfum og tveir nýir menn komu í þeirra stað. Það tafði talsvert störf n. og afgreiðslu málsins.

Nm. flestir munu hafa haldið, þegar þeir tóku við frv., að þeir gætu afgr. það án þess að gera á því mjög miklar breyt., en það kom fljótt í ljós, að frv. var í mjög mörgu ábótavant og óhjákvæmilegt mundi vera fyrir n. að gera á því allmiklar breyt. Enda bárust n. fjöldamörg erindi frá ýmsum stofnunum og starfshópum, sem fluttu fram margs konar aðfinnslur og óskir um breyt. Einnig hefur komið fram mjög eindregin ósk um ákveðnar breyt. frá stjórn starfsmannafélags ríkis og bæja. Öll þessi erindi, sem n. bárust, varð hún að taka til mjög rækilegrar athugunar, og tók það hana langan tíma að vinna úr því, en n. voru vitanlega sett ákveðin tímamörk. Það varð að hraða afgreiðslu málsins, og vili n. því viðurkenna, að í raun og veru hefði frv. þurft miklu meiri athugunar við en hún átti kost á að gera. Það fylgir hér alllangt nál. á þskj. 691 frá fjhn., svo að ég get þess vegna verið stuttorður um ýmis atriði. Þó kemst ég ekki hjá því að víkja allnákvæmlega að flestum eða öllum brtt., sem n. hefur gert.

Í heild má segja, að n. hafi ekki raskað neitt sjálfum grundvelli frv., ekki neitt skipun launaflokkanna sjálfra, heldur aðeins hækkað hámark lægstu launanna. Það má telja til aðalbreyt., sem n. hefur gert á frv., að hún hefur fellt úr nokkrar greinar, t.d. 30.–36. gr. frv., og þar með tekið út úr launal. sjö stofnanir. Um þessar stofnanir stendur sérstaklega á. Þær hafa allar sérstakan fjárhag, og hvorki reikningar þeirra né reikningslegar niðurstöður koma inn í ríkisreikninginn. Þessar stofnanir eru: Landsbanki Íslands, Búnaðarbankinn, Tryggingastofnun ríkisins, Samábyrgð Íslands, Brunabótafélag Íslands, Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands. — N. barst strax frá sumum þessara stofnana eindregin ósk um, að þær væru ekki hafðar með, þegar laun starfsmanna þeirra væru ákveðin. Sérstaklega voru það bankarnir, sem sóttu eindregið eftir að vera ekki með, ekki aðeins bankastjórnirnar, heldur starfsmannafélög beggja bankanna.

Þá skrifaði n. öllum þeim stofnunum, sem eins stóð á um, og leitaði álits þeirra, hvort þær vildu vera með í launal. eða ekki: Þær svöruðu allar neitandi nema Brunabótafélag Íslands — og Tryggingastofnun ríkisins að því leyti, að hún taldi, ef aðrar stofnanir yrðu teknar með, að þá vildi hún einnig vera með. N. ræddi þetta atriði allmikið, og það varð síðan ofan á í n., að allar þessar sjö stofnanir skyldu teknar út úr.

Önnur breyt. frá frv., sem miklu varðar, er sú, að eftir till. n. þá ætlast hún til, að sveitar- og bæjarsjóðir greiði — eins og áður — nokkurn hluta af launum forstöðumanna barnaskóla í kaupstöðum og kennara þeirra og eins laun forstöðumanna og kennara við barnaskóla utan kaupstaða. Eins og hv. þm. mun vera kunnugt, þá hafa þau verið l. fram að þessu, að af launum þessara starfsmanna hefur bæjarsjóður greitt 2/3, en ríkissjóður 1/3, varðandi skóla í kaupstöðum, en utan kaupstaða sveitarsjóðir helming, en ríkissjóður helming á móti. Um farkennara hafa þær reglur gilt, að ríkissjóður hefur greitt 350 kr. af launum þeirra, en sveitarsjóðir 150 kr. yfir starfstímann. Allt þetta, sem ég hef nefnt, er miðað við stofnlaun kennaranna. Eftir frv., eins og það kom til n., er til þess ætlazt, að ríkissjóður greiði þessa upphæð alla og taki þannig á sig það framlag, sem bæjar- og sveitarsjóðir hafa hingað til haft.

N. barst frá fræðslumálastjóra ósk um, að þessu yrði breytt aftur og látið haldast eins og áður, að bæjar- og sveitarfélögin greiddu nokkurn hluta af launum kennaranna. Í raun og veru má segja, að þetta skipti þjóðina mjög litlu máli, hvort það eru bæjar- og sveitarfélögin annars vegar og ríkissjóður hins vegar, sem greiða það. Auðvitað kemur kostnaðurinn á þjóðina, hvor aðilinn sem að nafninu til greiðir hann. Þetta er í raun og veru ekki annað en tilfærsla á launagreiðslum, hvort það eru bæjarfélögin eða ríkissjóður, sem greiðir. En fræðslumálastjóri færði ýmis rök fyrir því, að rétt mundi vera að láta bæjar- og sveitarsjóði greiða nokkurn hluta af þessum stofnlaunum kennaranna eins og áður, og hann bar fram alveg sérstakar till. þess efnis, að bæjarsjóðirnir væru látnir greiða 1/3 og sveitarsjóðirnir 1/4 af grunnlaunum. En með því að reikna hlutföllin þannig þá kemur í raun og veru í peningagreiðslu sama upphæð í hlut bæjar- og sveitarfélaganna og áður. (BBen: Kemur það sama? — GJ: Eru ekki hlutföllin þau sömu, 2/3 og 1/3?) Hlutföllin eru breytt. N. breytti því þannig, að bæirnir greiða 1/4 og sveitirnar 1/4. Það hefur verið reiknað út hjá fræðslumálastjóra, hverju muni frá því, sem áður var, þegar hlutföllin breytast þannig, og kemur út nærri sama upphæð. Þessar launagreiðslur frá bæjar- og sveitarfélögum námu 640 þús. kr., eftir því sem launamálan. hefur reiknað það, en eftir nýjum reikningum frá fræðslumálastjóra nemur þessi upphæð í föstum skólum 620 þús. kr. og farkennaralaun að auki, sem má fullyrða, að séu — eftir þeim till., sem n. gerir viðvíkjandi launum þeirra, — 70 þús. kr.

Ef till. n. verða samþ., ættu bæjar- og sveitarfélögin að greiða til samans 700 þús. kr. eða nánar tiltekið 690 þús. kr. í stað 644 þús. kr. eftir útreikningi launamálan. (en eftir nýjum útreikningi.619 þús. kr.). Sem sagt, þetta er hér um bil sama upphæð. En hins vegar hafa bæjar- og sveitarsjóðir í rauninni greitt miklu meira en þetta, því að hér eru ótalin bæði hlunnindi öll og staðaruppbót, sem greidd er í sumum bæjum, og nemur þetta mjög mikilli fjárhæð. (BBen: Á það þá að falla niður?) Eftir till. launamálan. er ætlazt til, að það falli niður. Kennarar fá ákveðin laun greidd úr ríkissjóði, en síðan er ætlazt til, að hlunnindi þeirra (húsnæði, ljós, hiti o.fl.) séu metin og þeir greiði þau sjálfir, en þau komi svo aftur til frádráttar frá launum þeirra.

Eftir skýrslum, sem fylgja fjárl. 1944, þá eru hlunnindi kennara metin á 255 þús. kr., en staðaruppbót er talin eftir útreikningi frá fræðslumálastjóra nema 164 þús. kr. N. hefur ekki gert aðrar till. en þær, að bæjar- og sveitarsjóðirnir greiði aðeins sams konar hluta og þeir greiddu áður í fjárframlögum. En ég vil taka það strax fram, að um það geta verið allskiptar skoðanir, hvernig haga eigi þessum greiðslum. Fræðslumálastjóri hefur komið með þær till. til n., að t.d. skólastjórar við barnaskóla yrðu látnir halda hlunnindum sínum. Bæjar- og sveitarfélögin yrðu þá skyldug til að sjá þeim fyrir ókeypis húsnæði, ljósi og hita. Þetta yrði að meta af n. og laun þeirra þá lækkuð, sem því svarar. Var fræðslumálastjóri með till. um, að grunnlaun skólastjóra lækkuðu um 1200 krónur, en þar á móti fengju þeir ókeypis húsnæði, ljós og hita. (BBen: Og átti það að samsvara hvort öðru?) Það á að hans skoðun að geta. samsvarað hvort öðru, en þetta er í raun og veru mesta vandamál og verður eflaust, ef frv. verður samþ., eins og það nú liggur fyrir, t.d. fyrir ýmsa bæi. Það er t.d. svo ástatt í Reykjavík, að sumir skólastjórar barnaskólanna búa í gömlum íbúðum, sem metnar eru á gömlu verðlagi. Aðrir búa í nýjum íbúðum, sem metnar eru miklu hærra.

Ég hef aðeins viljað víkja að þessu atriði hér, en n. hefur haldið sér að því að láta þetta vera óbreytt, eins og launamálan. gekk frá því, og er eftir hennar till. ætlazt til, að yfirskattan. meti hlunnindin til peningaverðs og kennarar og skólastjórar greiði þau af launum sínum. Till. fjhn. í þessu efni eru sem sagt þær, að það sé látið gilda, sem verið hefur, að bæjar- og sveitarsjóðir greiði hluta af launum kennaranna, og eftir till. n. er það svo, að í peningum verður bæjar- og sveitarsjóðshlutinn hér um bil nákvæmlega jafnhá upphæð og áður var.

Meginbreyt. aðrar, sem n. hefur gert, er hækkun á launum nokkurra starfshópa. Þær breyt. eru flestar gerðar eftir eindreginni ósk frá stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og hefur hún rætt við n. um þær breyt., og eru þær nauðsynlegar, vegna þess að þessir starfshópar, sem hér eru hækkaðir skv. till. n., hafa beinlínis verið lækkaðir í launum af launamn., flestir, ef ekki allir. Þessir starfshópar eru aðallega talsímakonur, póstafgreiðslumenn, lögregluþjónar, tollverðir, bréfberar, póst-aðstoðarmenn, og einnig hefur verið leiðréttur misskilningur, sem var um svo nefnda ritara 2. flokks hjá Landssímanum, en eru ritarar 1. flokks.

Eftir því, sem launamálan. hefur reiknað út, hafa talsímakonur ekki lækkað í launum, en launagreiðslur við Landssímann eru mjög flókið mál, og við nánari athugun kom á daginn, að þessar starfsstúlkur höfðu ekki verið hækkaðar, heldur jafnvel lækkaðar. Í öðru lagi er starf þessara kvenna mjög erilsamt og slæmt. Það er krafizt af þessum stúlkum, að þær hafi talsverða menntun, ekki teknar lengur talsímakonur, nema þær hafi gagnfræðaprófsmenntun eða aðra álíka. Þetta starf slítur þeim mjög; þær endast illa í þessu starfi. Eftir till. launamálan. hafa þær haft í byrjunarlaun 3 þús. kr. og komizt hæst upp í 4800 kr. N. hefur orðið sammála um að hækka þær um einn flokk, eins og segir í 60. brtt. n., en brtt. hennar eru allar á þskj. 692. Þá byrja þær með 4200 kr. og komast upp í 5400 kr.

Póstafgreiðslumenn lækka eftir till. launamálan., enda þótt þeir hefðu áður verið hækkaðir um einn flokk eftir till. fjhn. Sama er að segja um lögregluþjóna. Þeir fóru fram á að verða hækkaðir um tvo flokka, en voru hækkaðir um einn. Sama er og að segja um tollverði. Þessir flokkar áttu að hækka eftir áskorun BSRB.

Þá eru tilmæli um að hækka bréfbera. En eins og kunnugt er, er starf þeirra erfitt og þreytandi. — Enn þá er einn starfsmannahópur, en það eru 2. flokks símritarar. Ég hygg, að hér sé um misskilning að ræða hjá launamálan. Þeir eru 1. flokks ritarar. Þessi hækkunarákvæði starfshópa er hið helzta til hækkunar á frv.

Þá vík ég að till. n. um laun farkennara. — N. átti tal um þetta atriði .við fræðslumálastjóra. Nokkur hluti farkennara er án kennaraprófs, óráðið fólk frá ýmsum skólum og óvíst um margt af því, hvort það ætlar sér að stunda kennslu framvegis. Þykir ekki ósanngjarnt, að gerður sé munur á launum þess og kennara með fullum réttindum. Till. n. er á þá leið, að laun þessara farkennara séu 3/4 af launum þeirra, er full réttindi hafa miðað við sama starfstíma. Nú munu þessir farkennarar vera um 70, og er því hér um talsverða fjárupphæð að ræða til sparnaðar fyrir ríkissjóð.

N. hefur gert till. um laun kennara í heimavistarbarnaskólum, þannig að árslaun þeirra séu miðuð við 9 mánaða kennslu eins og annarra kennara, í stað sjö mánaða eftir frumvarpinu, en þessir kennarar eru jafnframt hækkaðir um einn flokk. Ég hef ekki reiknað út, hvort þessi breyt. felur í sér launalækkun, en fræðslumálastjóri telur, að svo muni ekki vera, sem neinu nemur. Starfstími þessara skóla er allmisjafn, allt frá fjórum og upp í átta mánuði, og það eru allsterk rök, sem fræðslumálastjóri færir fram fyrir því, að hæglega geti skapazt metingur út af því, að laun skuli miðuð við misjafnan starfstíma hjá kennurum. Bendir hann t.d. á, að væru laun umreiknuð skv. frv., væru kennarar heimavistarskólanna komnir í hámarkslaunum upp fyrir skólastjóra stærstu barnaskólanna.

Meiri hluti n. hefur orðið sammála um að flytja hér brtt. á sérstöku þskj., og er gerð grein fyrir ástæðum í nál.

Þá leggur fjhn. til, að laun þess flokks, sem byrjar með lægst laun, verði hækkuð, en í þessum flokki eru nær eingöngu konur. Þegar farið var að athuga þetta frv., kom í ljós, að laun kvenna voru mjög óeðlilega lág, svo að sumt kvenfólk átti jafnvel að lækka frá því, sem nú er. N. átti tal við konur úr Kvenréttindafélagi Íslands, og fóru þær fram á að fella niður þrjá launaflokkana, þar sem þeir væru einungis til þess settir í frv. að halda niðri launum kvenna. Eftir þessum l. ætti að láta sumar konur, er vinna við sama borð og karlmenn, við sama starf, hafa helmingi lægri laun en þá. N. taldi ekki fært að raska frv. svo að fella þessa flokka niður, en gerði hins vegar þær lagfæringar, sem hún taldi sér fært, sem eru aðallega í því fólgnar að bæta inn í frv. starfsflokkum ritara og bókara 2. og 1. flokks við nokkrar stofnanir og hækka hámarkslaun 3. flokks ritara.

Það, sem sérstaklega er ranglátt í frv. og gæti orðið til að halda launum kvenfólks niðri, er það, að víða er einungis gert ráð fyrir 3. flokks riturum, en engum 2, né 1. flokks. Á hagstofunni t.d. eru eingöngu 3. flokks ritarar skv. frv., en þar eru konur, sem hafa árum saman unnið sömu störf og karlmenn, sem eru í bókaraflokki í frv. N. taldi því rétt að hafa a.m.k. alla ritaraflokkana til og gefa stofnuninni þar með bendingu um að setja konurnar í hærri flokk. Og þetta á ekki eingöngu við um hagstofuna, heldur flestar stofnanirnar.

Nú held ég, að ég hafi vikið að helztu brtt., sem varða heila starfsflokka og skipta verulegu máli. En eftir eru till. um einstaka starfsmenn til að leiðrétta ýmiss konar óréttlæti. sem átt hefur sér stað. Annars hafði n. tilhneigingu til að breyta frv. sem minnst.

Ég sný mér þá að brtt. á þskj. 692 um þau atriði, sem ég hef ekki áður minnzt á.

Brtt. við 8. gr. — á þá leið, að í stað sex ára starfs komi fjögurra ára starf, — er leiðrétting varðandi útvarpsvirkja og símavirkja. Skv. frv. verða þeir tólf ár að ná hámarkslaunum, og getur það hvorki verið tilgangurinn né réttlætanlegt, enda eru þeir nú aðeins sjö ár að vinna sig upp. Þá þótti n. sjálfsagt, að ríkisféhirðir og ríkisbókari væru ekki lægri en aðalbókari og aðalféhirðir Landsbankans.

Brtt. nr. 7–14 eru bornar fram eftir ósk hæstv. utanrrh. Ráðuneytið er að vinna að undirbúningi starfsreglna fyrir starfsmenn utanrrn., bæði þá embættismenn, sem starfa í rn. hér heima og erlendis, sendiherra, ræðismenn, sendiráðsritara o.s.frv. Er nauðsynlegt, að um þetta gildi fastar reglur, þegar ætlazt er til, að þessir starfsmenn vinni til skiptis heima fyrir og erlendis. Þessi till. felur ekki í sér neina launahækkun, heldur gerð til samræmis, enda er hv. þm. kunnugt, að þetta er minnsti hlutinn af þeim launum, sem sendiherrar þurfa erlendis. En í till. er þó gert ráð fyrir a.m.k. einu nýju starfi í utanrrn. Það er deildarstjóri. Staða hans hefur ekki verið ákveðin eftir frv., en þar sem svo stendur á, að menn starfa á víxl erlendis og hér heima, kemur vitanlega ekki til mála, að menn, sem búnir eru að starfa í utanríkisþjónustu erlendis og eru setztir að í utanrrn. hér heima, hafi lægri laun, þegar þeir koma heim. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till.

Um 15. brtt. þarf ekki að orðlengja. Skrifstofustj. Alþ. er látinn vera jafnhár skrifstofustjórunum í stjórnarráðinu.

17. brtt. er um hæstaréttarritara. Laun hans eru í frv. mjög óeðlilega lág, þegar við lítum á, að fulltrúar í stjórnarráðinu, 1. flokks, hafa 72009600 kr., og svo framarlega sem þessi maður hefur fullt starf, sem okkur er sagt, að hann hafi, er óeðlilegt, að hann hafi lægri laun en þeir, einkum þar sem hann var fulltrúi fyrir. Þó er n. ekki sammála um þessa brtt.

18.–19. brtt. eru gerðar eftir ósk frá tollstjóra og eru lítið annað en orðalagsbreyt. Þó skilur það frá frv., að eftir þessum till. koma tollritarar allir í einn flokk, hærri flokk, þar sem skattritarar og tollritarar skiptust áður í tvo flokka.

21., 22. og 23. brtt. hef ég rætt áður.

Þá er það 26. brtt. Þessi nýi liður, sem kemur: „Ráðskonur í ríkisspítölum og yfirljósmóðir Landsspítala“, — er ekkert annað en leiðrétting. Það hefur fallið niður af vangá að setja ráðskonur ríkisspítalanna inn í frv. á þann stað, sem þær áttu heima, í sama flokk og aðstoðarhjúkrunarkonur.

Í brtt. 27 er umsjónarmaður Landsspítala hækkaður í launum. Þótti n. það sanngjarnt, þar sem hann hefur mjög vandasamt verk með höndum og hefur eftir frv. lægri laun en hjúkrunarkonur.

Varðandi 29. brtt., um hækkun launa biskupsins yfir Íslandi, þótti a.m.k. sumum nm. ekki sæma, að þetta gamla og veglega embætti væri ekki í hæsta launaflokki.

30. brtt. er gerð eftir ósk frá biskupi, þar sem talið var rétt að hafa sér í flokki vígslubiskup og dómprófastinn í Reykjavík.

31. brtt. er í rauninni aðeins leiðrétting. Forstöðumaður rannsóknarstofu háskólans er á tveim stöðum í frv., á einum stað sem prófessor í læknisfræði og á öðrum sem forstöðumaður rannsóknarstofu háskólans. Þótti n. rétt, að hann væri í sama launaflokki og prófessorar í læknisfræði, sem jafnframt eru yfirlæknar við Landsspítalann, en felldi niður 1. lið í 15. gr., þar sem hann er talinn sérstaklega sem forstöðumaður rannsóknarstofu háskólans, og í sama málslið er enn fremur forstöðumaður atvinnudeildarinnar, sem er ekki heldur til sérstæður, því að forstaða deildarinnar er í raun og veru í höndum framkvæmdastjóra rannsóknaráðsins. Aftur á móti eru fleiri en einn deildarstjóri í atvinnudeild, og höfum við sett í staðinn fyrir „deildarstjóri í atvinnudeild“: deildarstjórar í atvinnudeild.

32. brtt. er um hækkun á dósentum við háskólann. Það er alls staðar venja, að dósentar séu í næsta launaflokki við prófessora. Töldum við sjálfsagt, að svo væri, enda er, eins og komið hefur fram í umr. um breyt., á háskólalögunum, sjálfsagt, að þessir menn séu vel launaðir, svo að þeir geti gefið sig alfarið að sínu starfi.

Eftir frv. hefur háskólaritari lækkað mjög mikið í launum. Töldum við sízt ástæðu til þess og flytjum því brtt. 33 um hækkun á honum.

Þá er það 36. brtt. Það hefur stafað af algerum misgáningi þeirra, er sömdu frv., að setja þessar hjálparstúlkur inn á þessum stað. Þær stúlkur, sem þarna vinna, framkvæma ýmis teknisk störf, sem útheimta mikla nákvæmni, og getur verið mjög hættulegt að skipta þarna um fólk, sem hefur aflað sér mikillar þekkingar og reynslu. Hér er líka um stúlkur með stúdentsmenntun að ræða.

37. brtt. er um bóka- og skjalaverði, sem eru hækkaðir, en verða allir jafnir að launum. N. þótti ófært, að þeir væru lægri í launum en menntaskólakennarar, því að þetta eru menn, sem hafa fengið a.m.k. eins mikla menntun, og verður að tryggja þeim svo góð laun, að þeir geti gefið sig óskiptir að störfum sínum.

Að 38. brtt. hef ég vikið áður.

Í 39. brtt. höfum við eins og víðar, þar sem við höfum talið það nauðsynlegt, sett inn ritara II. flokks, þar sem áður voru aðeins ritarar III. flokks skv. frv.

Að 40. brtt. hef ég vikið áður.

Með 41. brtt. hefur n. gert þá breyt. að færa garðyrkjuskólann í flokk með húsmæðrakennaraskólanum, íþróttaskólanum og daufdumbraskólanum, sökum þess að þessi skóli hefur færri nemendur en hinir skólarnir, sem taldir eru í þessari brtt. við 16. gr. Hins vegar hefur n. hækkað laun skólastjóra við þá skóla. Gætu það talizt næg rök fyrir því, að tveir þeir fyrr töldu eru skólar, sem útskrifa kennara og eiga kröfu til að vera metnir jafnt og kennaraskólinn. En n. gekk ekki svo langt að hækka þá til jafns við hann. Að því er snertir daufdumbraskólann, verða kennarar og skólastjórar þar að vera mjög vel menntaðir, vegna þess, hve vandasamt er að kenna daufdumbum. Aðrar breyt. eru ekki við þessa grein.

Brtt. 43–48 varða útvarpið. N. þótti frv. ekki taka nógu mikið tillit til þess, hvers konar stofnun útvarpið er. Það þarf nú ekki að lýsa því fyrir hv. þm., að þessi stofnun hefur víðtækari viðskipti og skattheimtu en nokkur önnur ríkisstofnun að landssímanum undanteknum og andleg viðskipti við allan þorra landsmanna. Hún verður að fullnægja margs konar þörfum og auk þess viðskiptum við stóran hóp auglýsenda og koma fram fyrir hönd þjóðarinnar á margs konar hátt út á við. En eftir frv. var útvarpsstjóri settur á bekk með forstöðumönnum einstakra skóla. Þótti n. þetta mjög óeðlilegt og flytur því brtt. um, að laun hans hækki upp í 12.000 kr. Laun hans eru nú, að mig minnir, 11.995 kr., svo að þau ættu að hækka um 5 kr. eftir þessari brtt. En skrifstofustj. útvarpsins hefur lækkað samanborið við aðra, hefur t.d. 3000 kr. lægri laun en skrifstofustj. landssímans. En þetta lagfærist, því að n. hefur hækkað hann um einn flokk.

Aðrar breyt. eru til samræmis við þetta. N. hefur ekki tekið til greina annað en það, sem beinlínis hefur verið hægt að sýna fram á, að menn lækkuðu mikið í launum samkv. frv.

Í 49. brtt. er bætt inn skipulagsstjóra. N. leggur til, að þetta starf verði gert hliðstætt störfum vegamálastjóra, vitamálastjóra og húsameistara ríkisins. Það er enginn vafi á því, að þetta verður mjög mikið starf og engu minna en starf húsameistara ríkisins. Með tilliti til þess taldi n. rétt að skipa honum í sama flokk og þeim.

50.–51. brtt. eru gerðar samkv. ósk vegamálastjóra, enda má benda á, að þessir menn lækka í launum frá því, sem er, bæði kortagerðarmaðurinn og kafarinn. Kafarinn t.d. innir af hendi mjög vandasamt starf, sem er afar erfitt að fá menn til að gegna.

54. brtt. er sjálfsögð leiðrétting. Aftan við liðinn „Póstmálafulltrúi“ o.s.frv. bætist: póstmeistari á Akureyri.

Um 56., 57., 58., 59. og 60. brtt. hef ég rætt áður. Þá er það varðandi 23. gr., um Skipaútgerð ríkisins. Það var nú allmikið vandamál fyrir n. Skipaútgerð ríkisins skrifaði n. mótmælabréf og heimtaði í rauninni, að starfsmenn hennar yrðu ekki teknir með í launal. Færði hún fyrir því mörg rök, m.a. þau, að starfsmannalaunin, sem greiða ætti samkv. frv., væru aðeins 5% af heildarlaunagreiðslum til allra starfsmanna við stofnunina. Taldi hún mikla fjarstæðu að taka inn á launalög ríkisins aðeins þetta litla brot af launagreiðslum stofnunarinnar. Enn fremur taldi hún launin samkvæmt frumvarpinu í mjög miklu ósamræmi við aðrar launagreiðslur við stofnunina og benti á, að forstjóri hennar hefði lægri laun en stýrimenn á strandferðaskipunum, — og enn fremur, að hjá Eimskipafélagi Íslands, hliðstæðri stofnun, væru launagreiðslur til starfsmanna í landi í samræmi við laun starfsmanna á skipum. Mæltist hún því til, að frestað yrði að taka áður nefnd 5% af launagreiðslunum inn á launal. Fjhn. taldi sig þó ekki geta fellt þessa stofnun úr launal. með tilliti til þess, að í raun og veru ætti að gilda sama regla um Skipaútgerð ríkisins og aðrar stofnanir, sem í launal. eru, en viðurkenndi hins vegar, að þetta ósamræmi á launum innan stofnunarinnar væri mjög óeðlilegt, t.d. varðandi forstjórann. er áður var skipstjóri, en hefur eftir frv. lægri laun en 2. stýrimaður. Taldi því n. ekki óeðlilegt, að hann yrði settur á hæstu laun.

Um skrifstofustjórann gildir það sama, að hann lækkar eftir frv. allmikið. (BBen: Hvað hefur skrifstofustjórinn við þessa stofnun?) Hann hafði 1051,66 kr. í grunnlaun á mánuði. Það er reiknað út. að hann lækkar eftir frv. um ca. 10 kr. á dag. Þetta eru nokkuð há laun. En það stendur nokkuð sérstaklega á um þessa menn. Þeir geta aldrei farið úr bænum, forstjórinn og skrifstofustjórinn, báðir í senn. (GJ: Var skrifstofustjórinn líka skipstjóri áður eða stýrimaður?) Það held ég ekki, en hins vegar má telja, að hann sé þarna aðstoðarforstjóri. Og vinna við þessa stofnun er áreiðanlega geysilega mikil.

Þá eru 64. og 65. brtt. Fjhn. leggur til til samræmis, að forstjórar landssmiðjunnar og ríkisprentsmiðjunnar Gutenbergs hækki úr 10200 kr. í 11100 kr. Einnig þótti nm. í fjhn. óviðkunnanlegt, að stofnanir, sem velta jafnmiklum fjárhæðum og áfengisverzlun og tóbaksverzlun ríkisins, láti forstjóra sína í á lægri laun en lagt er til í till. n. Hefur fjhn. gert till. um að hækka þá og lyfsölustjóra úr 10200 kr. í 11100 kr. Þessir menn munu áreiðanlega hafa hærri laun nú. Þessi brtt. mun ekki hafa verið gerð eftir till. frá þessum mönnum sjálfum, heldur mun n. hafa tekið þetta upp hjá sjálfri sér að breyta þessu til samræmingar.

66. brtt. er leiðrétting. Það hafði fallið úr að setja þarna bókara III. flokks í tóbakseinkasölu. Þeir eru þar fyrir, konur, sem vinna bókarastörf og eiga að hafa laun í þeim flokki. En hins vegar tel ég rétt, að n. taki aftur 67. brtt. sína: „Ritarar III. flokks í tóbakseinkasölu“ falla niður, — þar sem bent hefur verið á með réttu, að þessi flokkur eigi að vera til við þessa stofnun eins og aðrar, þó að nú muni ekki starfa þar nema ein stúlka, sem ætti að taka laun þess flokks.

Þá er 70. brtt. Þar vill n. einnig til samræmingar hækka laun forstjóra áburðar- og grænmetisverzlunar ríkisins. sérstaklega með tilliti til þess, að. hann er forstjóri fyrir tveim stofnunum.

Þá munu vera sjálfsagðar brtt. við 27. gr., sem 72. brtt. er um, um hækkun á launum fiskimatsstjóra, yfirfiskimatsmanna. síldarmatsstjóra og freðfisksmatsstjóra. Þegar launamálanefnd samdi þetta frv., lágu þessi störf a.n.l. niðri. En nú er svo komið, að þessir menn hafa full störf og verða að fá full laun.

Svo er næsta brtt., um skógræktarstjóra. Hann er óeðlilega lágt launaður eftir frv., og leggur n. til, að laun hans hækki úr 9600 kr. í 10200 kr.

74. brtt. er um, að 30.–36. gr. frv. falli niður. 75. brtt. er í raun og veru smávægileg. Fjhn. þótti eðlilegt, að skólastjórar gagnfræðaskóla með yfir 200 nemendur yrðu settir sér í flokk.

Þá hef ég nú aðeins farið yfir flestar brtt., sem varða launin. Aðrar gr. frv. eru meira varðandi réttindi og skyldur starfsmanna. — Í 40. gr. frv. segir svo: „Við opinberar stofnanir, sem settar eru á fót til bráðabirgða, skal haga launaflokkum í samræmi við lög þessi, en launagreiðslur skulu vera a.m.k. 15% hærri.“ N. leggur til, að grein þessi falli niður. Hjá launamálan. mun þessi gr. vera til komin vegna þess, að þegar settar eru stofnanir á fót, eins og t.d. viðskiptaráð, þá séu teknir til þeirra menn, sem fá óeðlilega há laun. En meiri hl. fjhn: taldi, að þegar svona stofnanir væru settar á fót til bráðabirgða, væri ekki hægt að spyrja um launin, heldur yrði að fá til þeirra starfa ákveðna menn með sérstaka hæfileika, og þess vegna væri í raun og veru engin leið að setja ákveðnar reglur um það, hver laun þessara manna skyldu vera. Varð það því ofan á, að lagt skyldi til, að þessi 40. grein yrði felld niður.

Þá hefur fjhn. gert till. um, að felld verði niður 43. gr. frv. og sömuleiðis 45. gr., en sett verði í stað þeirra gr. beggja bráðabirgðaákvæði í frv. 43. gr. er varðandi vikulegan starfstíma hjá ákveðnum starfsmönnum, og fannst sumum nm. sem það væri mjög óviðeigandi í slíku frv. að setja fram ákveðinn starfstíma, sem frekar ætti að hafa ákvæði um í reglugerð. N. ræddi allmikið um þetta og var ekki á einu máli um það. En síðan varð þó ofan á að setja í stað gr. bráðabirgðaákvæði, þegar séð var, að með því væri tryggt, að ríkisstjórnin setti reglugerð um þetta í fullu samræmi við þann starfstíma, sem nú er í þessum stofnunum, og mun BSRB hafa fengið loforð um það hjá ráðh., að starfstími viðkomandi starfsfólks skuli ekki breytast frá því, sem stendur í frv. Með þessu bráðabirgðaákvæði og þessu loforði frá ráðh. gátu nm. fallizt á það, að gr. félli niður, en bráðabirgðaákvæði kæmi í staðinn (84. brtt.).

Þá leggur fjhn. einnig til, eins og ég gat um, að 45. gr. frv. verði felld burt, en í staðinn sé sett bráðabirgðaákvæði, sem er í 84. brtt., b-lið, sem er svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðningu starfsmanna skal einnig þennan tíma hagað á sama hátt og verið hefur hjá hlutaðeigandi stofnunum.“ N., vildi fella þessa 45. gr. niður af þeim ástæðum, að réttmætt væri, að fram færi endurskoðun á öllu ríkiskerfinu og fyrirkomulagi og rekstri þess, áður en starfsmenn og embættismenn yrðu fastráðnir, og væri því rétt að bíða með að setja þetta í lög, þangað til ákveðnar reglur eða l. hefðu verið sett um réttindi og skyldur embættismanna almennt.

Það er eitt, sem nauðsynlegt er að nefna. Það er kannske allveigamikið atriði, að n. leggur til, að bráðabirgðaákvæi3i frv. falli niður. En það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú á fastráðinn starfsmaður að lækka í launum samkvæmt launastiga þessara laga, og haldast þá laun hans óskert, meðan hann gegnir starfinu.“ (BBen: Er það nokkur, sem á að lækka?) Já, það er um talsverðar lækkanir að ræða eftir frumvarpinu. og fer það þó eftir því, hvernig þessi grein er skilin. Og n. var ekki á einu máli um það, hvernig hún skyldi túlkuð, hvort enginn skyldi lækkaður frá grunnlaunum eða hvort miða ætti við grunnlaun með 20–25 % grunnkaupshækkun. Ef skilja ætti þetta svo, að laun ættu ekki að lækka frá grunnlaunum, þá mundi enginn lækka eftir frv. En ef miða ætti við grunnlaun með grunnkaupshækkun, munu einstaka starfsmenn og starfsmannahópar lækka, því að eftir frv. voru lækkanir ekki nema eitthvað á þriðja hundrað þús. kr. samtals. En nú hefur enn ekki verið reiknað út, hve mikið hækkunartill. n, vega upp á móti þessu. En um flestar hækkunartill. fjhn. er það svo, að með þeim er lagt til að hækka þá, sem lækka eftir frv. En tala þeirra, sem lækka eftir frv., er minni en hinna, sem hækka samkv. því. En ég hef strax heyrt óánægjuraddir um það, að gert hefur verið ráð fyrir, að laun lækki, því að menn höfðu búizt við því, að laun einstaklinga, sem nú hafa ákveðin laun, lækkuðu ekki samkv. frv., þótt starfið sjálft væri ákveðið lægra. Ég býst við, að gera megi ráð fyrir því, að fjhn. og Alþ. berist mótmæli út af því að fella niður þetta bráðabirgðaákvæði. En það, sem n. hafði til síns máls, er það, að það væri svo til ætlazt eftir þessum nýju launal., að menn fengju eftir þeim sæmileg laun, laun, sem þeir mættu vel við una, og þess vegna væri ástæðulaust að láta einstaklinga halda hærri launum en ákveðin eru samkv. frv. En þetta mál er nú sennilega rétt að taka til nýrrar athugunar, því að ég fullyrði ekki, að það geti ekki verið, að einstakir menn eða starfsmannahópar lækki eitthvað samanborið við aðra.

Þá er hér ein brtt., nr. 85, um það, að við skipun í starfsflokka og flutning milli launaflokka skuli konur að öðru jöfnu hafa sama rétt og karlar. Nm. voru ekki sammála um það, að þetta væri réttmætt. Þeir voru sammála um það, að ákvæði frv. sjálfs gæfu náttúrlega ekki nokkurt tilefni til þess, að konur væru eftir þeim í lægri launaflokki en karlar og nytu ekki sama réttar og töldu þar jafnrétti svo sjálfsagðan hlut, að ekki þyrfti um það þetta ákvæði. En reynslan sýnir, að konum. sem eru við sömu störf og karlmenn, er í stofnunum skipað yfirleitt í lægri launaflokka en þeim af óréttlátum ástæðum. Og þess vegna er þetta ákvæði sett í brtt. n. sem bending til stofnana um það, að l. ætlast til þess, að ekki sé gerður munur í launum karla og kvenna, sem vinna sömu störf.

Nú held ég, að ég hafi farið yfir flestar brtt. n. En þó er kannske það eftir, sem menn mundu spyrja fyrst og fremst að, þ.e., hvað þessi launal. kosti ríkissjóð, hver yrðu útgjöld ríkissjóðs eftir þessum nýju launal. Það er satt bezt að segja, að n. hefur ekki enn getað fengið um það nógu nákvæma útreikninga. En þegar nokkuð var liðið á starf n., þá komst hún þó að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera rétt að endurskoða alla útreikninga í sambandi við launal. Og var það sérstaklega varðandi launagreiðslur til kennara, sem ýmsir vildu véfengja, að væru rétt túlkaðar hækkanir á í grg. frv. Var það því fyrsta verkið við þessa útreikninga að taka fyrir alla kennara og reikna nákvæmlega út að nýju, hver laun hvers kennara á landinu yrðu samkv. frv., ef samþ. yrði. Þessir útreikningar sýndu, að útreikningar launamálan. höfðu að vissu leyti verið réttir og það rétt, sem stendur í grg. frv. Það eru algerlega tvær hliðar á þessu máli. Annars vegar það, sem launagreiðslur til kennara hækka samkv. frv., og hafði launamálan. reiknað það út. Sú upphæð var 625556 kr.

Þetta lét fjhn. reikna út af nýju, og niðurstaðan varð sú, að eftir þessum nýja útreikningi varð hækkunin um 655 þús. kr. Þetta munar því aðeins um 30 þús, kr., og það sýnir, að útreikningar launamálan. hafa verið réttir að þessu leyti. Þessi 30 þús. kr. munur getur stafað af því, að breyt. hafi orðið á launum kennara á því tímabili. sem liðið er, síðan launamálan. reiknaði þetta út. Þetta er aðeins hækkun á grunnlaunum til kennaranna.

En svo er hin hliðin á málinu, sem er aukning á útgjöldum ríkissjóðs til kennaranna eftir frv. Og þá kemur allt önnur tala en ef manni dettur í hug að vilja reikna bara verðlagsuppbót á grunnlaunin og athuga, hver sú hækkun verður miðað eingöngu við launahækkun kennaranna, sem sé 656 þús. kr. grunnlaunahækkun, því að þá verður að taka með þá tilfærslu. sem í frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði að öllu leyti laun barnakennara, en bæjar- og sveitarsjóðir ekki að neinu leyti. Og þó að samþ. yrðu brtt. n., að bæjarsjóðir greiði 1/3 og sveitarsjóðir 1/4 af grunnlaununum og farkennarar, sem ekki hafa kennararéttindi, fái 3/4 hluta af launum annarra barnakennara, nemur útgjaldaaukning ríkissjóðs á grunnlaunum kr. 893641,90, en heildarhækkun með verðlagsuppbót 171% kr. 3320893,09, þar sem ríkissjóður greiðir einnig verðlagsuppbót á framlag bæjar- og sveitarsjóða. Hér eru sem sagt tölur, sem miklu munar á, og það var það, sem n. setti sér að komast alveg til botns í, hvernig á þessu stæði: Og hvort sem ég get skýrt það greinilega fyrir ykkur eða ekki, þá erum við komnir til botns í þessu. En í stuttu máli felst þessi munur í staðaruppbótum, sem bæirnir greiða, 164 þús. kr., og svo í öðrum útreikningi, sérstaklega launauppbótum. En kennarar fengu sérstaka launauppbót, skólastjórar 1000 kr. og kennarar 500 kr. Og sérstaka launauppbótin nam, án verðlagsuppbótar, 425 þús. kr. En með þeirri verðlagsuppbót, sem nú er greidd, nemur hún 726750 kr., svo að þarna munar 300 þúsund kr. — Og annar munur var staðaruppbótin, sem var nærri 170 þúsund krónur. Og svo í þriðja lagi til þess að skýra þennan mun er svo sá hluti, sem bæjar- og sveitarsjóðir hafa greitt, og þeir hafa aðeins greitt hluta af grunnlaununum, en ekki verðlagsuppbót. Svo að til þess að skýra muninn, þá kemur samkv. frv., en við viljum fella það niður, — að sá hluti, sem bæjar- og sveitarsjóðir hafa greitt, greiðist alveg af ríkissjóði. En nú hefur fjhn. gert till. um, að bæir og sveitir greiði þetta áfram, svo að samkv. till. n. fellur þetta atriði niður. En munurinn felst þá í þessu tvennu: fyrst staðaruppbótinni, sem nú er reiknað með í grunnlaunum kennaranna, en bæirnir greiddu áður, og í öðru lagi, að á þennan hluta launanna kemur full verðlagsuppbót, þegar ríkissjóður greiðir hann og hann er tekinn inn í grunnlaun kennaranna. Þannig kemur nú hlutfallslega miklu meira á ríkissjóð að greiða í þessum launum en áður, sem nemur þessum fjárhæðum, er ég nefndi áðan. Kemur því þar fram allt önnur tala en ef maður leggur aðeins verðlagsuppbót við 656 þús., sem er raunveruleg grunnlaunahækkun til kennaranna. — Það má náttúrlega segja, að það skipti ekki miklu máli, hverjir borga laun kennaranna. En létt verður allmikið á bæjum, einkum Reykjavík, ef staðaruppbótin verður greidd af ríkissjóði sem grunnlaun. — Heildarhækkunin á útgjöldum ríkissjóðs með verðlagsvísitölunni 171 er því til kennaranna einna 3320893,09 kr. En aðrir útreikningar eru ekki fyllilega gerðir. En ég hef ásamt fulltrúa í fjármálaráðuneytinu farið lauslega yfir aðrar hækkanir, og samkv. frv. — einnig reiknað með vísitölunni 171 — eru þær 2560243,00 kr.

Fulltrúi fjmrn., sem mest hefur haft með þessa útreikninga að gera, vill taka þetta allt fyrir á ný og gera sams konar nýja útreikninga á þessu frá grunni, eins og búið er að gera með kennarana, en eftir þessu er heildartalan 5881136,00 kr., og er þá ekki reiknað með brtt. n., en eftir því, sem ég hef komizt næst, þá er hámarkið af þeim hækkunum um 180 þús. kr., en lágmarkið 90 þús. kr. Fjmrn. er nú að reikna út hvern mann fyrir sig, og býst ég við, er það er gert, að þá komi í ljós, að hækkunin sé mjög lítil. Þó skal ég geta þess, að hér er ekki reiknað með hækkunum, sem gætu orðið af brtt., sem gerðar eru eftir ósk utanrrn., sem engin leið er að segja um, hverju mundu nema, því að það fer eftir fjölda starfsmanna á hverjum tíma.

Þetta er allt svo flókið og yfirgripsmikið mál, að það er ekki víst, að ég hafi gert nógu vel grein fyrir öllum einstökum atriðum. En það, sem skiptir mestu máli með allan útreikninginn, er það, að hann er ekki nógu vel gerður. Fulltrúinn í fjmrn. á bágt með að trúa því, að hækkunin sé svona mikil. Ég þykist skilja, að þetta sé sem næst réttri upphæð, því að eftir útreikningi stjórnarráðsins er hækkun ríkissjóðs 4900 þús. kr., en eftir þessum nýja útreikningi er hann ekki það, heldur rúmar 6 millj., en út úr þessum útreikningi þarf að gera nákvæmar niðurstöður.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi upphæð komi hv. þdm. á óvart, því að það var fyrir löngu farið að kvisast, að útgjöld eftir frv. væru ekki 4 millj., heldur nálægt 6 millj. kr. Þess er líka að gæta, að nokkuð af þessu endurgreiðist aftur til ríkissjóðs, þ.e.a.s. hlunnindin. En það, sem fæst með þessu frv., er, að réttlátari verða greiðslur til starfsmanna ríkisins. Mest af þessu er launahækkun til kennara. sem hafa verið smánarlega lágt launaðir fram að þessu.

Tel ég svo ekki þörf að ræða þetta meir að svo stöddu.