10.01.1945
Efri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (4632)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Það hefur viljað svo slysalega til, að frsm. þessa frv. hefur forfallazt og það svo á síðustu stundu, að ég vissi það ekki, fyrr en komið var langt fram á þennan fund. Þetta er sérstaklega bagalegt, þar sem n. hefur hagað svo störfum sínum, að hún kaus sér frsm. í upphafi málsins, og vegna þess, hversu málið er umfangsmikið, er ómögulegt að hafa framsögu í því öðruvísi en að hafa skrifað hjá sér og halda til skila þeim margvíslegu upplýsingum, útreikningum og öðru slíku. er fram kemur í umr. Ég vil leitast við að mótmæla ýmsu, sem fram hefur komið við þessa umr., þótt ég hafi það ekki allt í höfðinu eins og ef ég hefði skrifað niður hjá mér aths., og vildi ég — meira í gamni en alvöru — mótmæla þeim ummælum hv. þm. Barð., að fjhn. hefði afhent einum manni þetta mál, því að mér er kunnugt um, að nm: störfuðu þar ákaflega vel og sóttu fundi mjög vel, þótt frsm. hafi að vísu lagt meira á sig en við hinir við að afla gagna og nótéra ýmislegt hjá sér.

Vildi ég þá segja nokkur orð út af ræðu minni hl. fjhn., hv. 1. þm. Eyf. Hann ber fram brtt. um lækkun á launastiganum og segir, að hún komi ekki mikið við starfsmennina, en að hún muni ríkissjóð mjög miklu, og álítur eftir útreikningum sínum, að þetta muni ca. 2 millj. kr. Mér finnst þetta tal um, að það muni engu fyrir starfsmennina. en miklu fyrir þann, sem á að borga, minna mig á skrítluna um skóinn, sem var svo lítill að utan, en stór að innan, að minnsta kosti býst ég við því. að það þætti nokkuð djúpt í tekið árinni, ef tveggja millj. kr. skattur væri lagður á starfsmenn ríkisins, sem þeir einir ættu að greiða, og býst ég við, að ýmsar stéttir mundu kvarta undan minna en því. Mér virðist það þykja mikið að leggja nokkurra millj. kr. skatt á alla þjóðina, en þetta væri miklu stór kostlegri skattur, og það þýðir því ekki að leysa þetta mál með því að lækka launastigann tilfinnanlega fyrir einn flokkinn. Hitt er annað mál, — eins og annað í þessum málum, — að það er álitamál, hvernig á að ákveða þessi atriði. Hann lét svo skína í það, að yrði till. hans samþ., sem er heldur ólíklegt, af því að þetta mál er samningum bundið, sem geta ekki samrýmzt till. hans, — að hann mundi bera fram við 3. umr. till. um nokkra uppbót til fjölskyldumanna, og mundi það þá draga nokkuð úr lækkuninni. En af því að óvíst er, að þessar till. komi fram, mun ég ekki eyða miklum tíma í að ræða þær eða um það, hvort ríkið eigi að borga sama kaup fyrir sömu vinnu eða hvort miða eigi við sérstakan hag þeirra manna, sem vinna störfin.

Þá talaði hv. þm. um, að það væri mjög óheppilegt og í raun og veru ómögulegt að samþ. frv., vegna þess að nauðsynlegt væri að endurskoða fullkomlega embættismannakerfi landsins. Það má vel vera, að þetta sé nauðsynlegt, en ég sé ekki, að þetta komi þessu máli við frekar en ýmsum öðrum, þótt skipuð væri n. í þessu skyni, sem tæki að sér athugun á því, hvort unnt væri að fækka starfsmönnum við ýmsar stofnanir. Ég held, að taka megi undir skoðun hv. 6. þm. Reykv., að það sé á valdi Alþ. að sýna þeim mönnum, sem eru misrétti beittir í þessum efnum, fulla sanngirni og að það yrði að gera það, þótt ekki væri búið að setja þessi l. nú. Ég vil einmitt taka undir þetta, að um leið og sett eru l., sem ákveða sæmileg laun, þá er full ástæða til þess að athuga, hvort óþarfa starfsmenn eru við ríkisstofnanir, en ég sé ekki, að þetta ætti að þurfa að standa í vegi fyrir þessu frv. á neinn hátt.

Hv. þm. kastaði fram þeirri spurningu, hvort þessi laun væru há eða lág. Hann vildi miða við verkamannakaup og svo í sambandi við það við tekjur bænda. En það má einnig fara út í annan samanburð. Hvers vegna mætti ekki miða við tekjur kaupsýslumanna, iðnaðarmanna, iðnrekenda og margra annarra stétta? Allur þorri þessara manna hefur varið miklum tíma og fjármunum til undirbúnings undir starf sitt, og eru þeir að því leyti í sama hópi og embættismenn, og ég býst við því, að ef laun þessara manna eru borin saman við laun þeirra manna, sem eru hliðstæðir að þessu leyti, þá geti launin ekki talizt há. Ég gæti kastað því fram til hv. þm. Barð., sem var að tala um of há laun í 10. fl., hvort hann vildi lifa í eitt ár á þeim launum, en í þessum flokki eru menn, sem hafa varið álíka miklum undirbúningi undir starf sitt og hann. — Það er alltaf ákaflega erfitt að segja um. við hvað eigi að miða, en í þessum flokkum er allur þorri þeirra manna, sem varið hafa miklum tíma og fjármunum til undirbúnings starfs síns. og ef miða á við það, ættu þessir menn að fá há laun. Eins má taka þetta mál frá því sjónarmiði, að mörg af þessum störfum eru þjóðfélaginu mjög nauðsynleg og oft engin önnur nauðsynlegri.

Skal ég svo aðeins minnast á eitt atriði í ræðu minni hl. Ég kemst ekki hjá að mótmæla því, er hann sagði, að sá samningur, sem gerður hefði verið milli stjórnarflokkanna og leiddi til stjórnarmyndunar, væri í raun og veru þess efnis, að starfsmennirnir ættu sjálfir að ráða launum sínum og það væri erfitt að benda á, hvar annars staðar í veröldinni það ætti sér stað, að þeir, sem tækju launin, ættu sjálfir að ákveða þau. Það er ákaflega fjarri sanni og hinn mesti útúrsnúningur að halda því fram, að afgr. launal. sé byggð á þessum grundvelli, þótt grundvöllur þessa frv. hafi verið einn líður í því samkomulagi. sem leiddi til stjórnarmyndunar. Það var ekki samið eftir því, sem þessir viðkomandi menn sögðu fyrir, og verð ég í þessu sambandi að segja þær fréttir úr fjhn., að menn hafa ekki alltaf fengið þau laun, sem þeir hafa óskað eftir að fá.

Skal ég þá víkja að ræðu hv. þm. Barð., sem var nokkuð harðorður í garð fjhn. og lagði nokkuð mikla vinnu í að sýna fram á, að n. hefði svikið bæði þing og þjóð með brtt. sínum. Ég tel þetta nokkuð þungar ásakanir, en til þess ber n. fram till., að þær séu gagnrýndar og ræddar og komi síðan til ákvörðunar. Ég veit ekki til þess. að n. hafi framið nein föðurlandssvik né viljað dylja neitt fyrir Alþ. Hitt er svo annað mál, að ýmsum útreikningum og athugunum er ekki lokið, og getur því n. ekki látið í té ýmsar upplýsingar við þessa umr., sem von er á, að unnt verði að gefa við 3. umr. N. óskaði eftir því við fjmrn., að það léti gera nýja útreikninga á launagreiðslum ríkissjóðs samkv. frv. og þeim hækkunum á útgjöldum, sem samþykkt þess hefur í för með sér. Eru þær tölur birtar í nál., sem n. hafa borizt af þessum átreikningum, sem sé samanburður á launagreiðslum til kennara. Hv. 1. þm. Eyf. taldi þessa hækkun mundu nema 6–7 millj. kr., og má vel vera, að það sé ekki fjarri sanni, en þegar ég frétti síðast til, var ekki búið að reikna þetta út, enda þótt ske kynni, að frsm. sé búinn að fá nánari upplýsingar um þetta. Annars finnst mér líkt um þessar till. fjhn. og oft vill verða um till. fjvn., að mönnum ofbýður oft, hversu till. eru mikið til hækkunar, þrátt fyrir það að n. hafi enga aðra sögu að segja en hún hafi þurft að neita mörgum till. og skorið niður eins og henni var unnt. — Og þetta er sama sagan og við höfum að segja, því að ólíkur finnst, að við höfum staðið allan tímann með hnífinn og ýmist ekki tekið till. til greina eða lækkað þær. Víst er um það, að allar brtt. fjhn. eru meintar þannig, að við komumst nær hinu rétta heldur en var í frv. Hækkun á launagreiðslum eftir till. n., frá því sem er í frv., er tilgreind í nál. og nemur að frádregnum lækkunum, ef miðað er við lágmark hvers launaflokks, nálægt 90 þús. kr., en um 180 þús. kr., ef miðað er við hámark.

Hv. þm. gagnrýndi mjög, að n. hefur lagt til að taka úr frv. nokkrar stofnanir og hafa þær utan við launal. Hv. 6. þm. Reykv. gagnrýndi þetta atriði einnig í sinni ræðu, og var það aðalaths., sem hann hafði fram að færa og vildi eyða tíma í að ræða um. Ég skal fullkomlega játa, að þetta er auðvitað álitamál. Það, sem réð því, að þessi skoðun varð ofan á í n., var það, að hún gerði skriflega fyrirspurn til þeirra stofnana, sem taldar eru í 30.–36. gr. frv., á þá leið, hvort þær væru samþykkar því eða ekki, að laun til starfsmanna þeirra væru ákveðin í launal., enda höfðu n. borizt óskir um það frá nokkrum ríkisstofnunum og starfsmannafélögum að fá að vera utan við þessi l. Þessar sex stofnanir hafa algera sérstöðu að því leyti, að þær hafa allar sérstakan fjárhag og hvorki reikningar þeirra né reikningsleg niðurstaða koma inn í ríkisreikninginn. Það verður einhvers staðar að finna mörkin, og má því segja, að það séu eðlileg rök, að þessar stofnanir komi ekki undir launal. starfsmanna ríkisins, þar sem þær eru ekki reknar sem ríkisfyrirtæki og snerta ekki fjárhag ríkisins. Það má taka undir það með hv. 6. þm. Reykv., að það er í sjálfu sér lítil ástæða, ef starfsmenn þessara stofnana hafa óskað þess að vera ekki undir launal., en það hefur hins vegar komið fram, að starfsmenn þessara stofnana vilja heldur sækja laun sín og bera mál sín undir kunnuga aðila og kjósa heldur, að ákvörðunarheimildin sé hjá viðkomandi stjórn þessara stofnana, en að fara til Alþ. Ég vil í þessu sambandi nefna Landsbanka Íslands, en þar er svo búið um þessi mál, að þar er það bankaráðið, sem setur launareglugerð, — ekki þannig, að einstakir bankastjórar geti hækkað einstaka menn í launum, — heldur ákveður launareglugerðin þetta. Ég vil svo benda á það, að að minnsta kosti bankarnir verða að sækja starfskrafta sína inn á dálítið annað svið en ríkið og verða að haga sér í þeim efnum eins og önnur fyrirtæki í landi og verða miklu frekar að miða við þau launakjör, sem ríkja á hverjum tíma. Þeir sækjast t.d. ekki eftir guðfræðingum, málfræðingum né læknum. (BBen: Eru guðfræðingar svo eftirsóttir?) Guðfræðingar eru eftirsóttir, og lögfræðingar koma líka til greina. Þessar ástæður, sem ég hef nú nefnt, urðu því til þess, að fjhn. ber fram þessar till., og ég held naumast, að meiri hl. falli frá þessu.

Hv. þm. Barð. segir, að grundvelli frv. sé raskað með till. n., en það er alls ekki rétt. (GJ: Það er ætlazt til þess, að grunnlaun séu hækkuð og fært á milli flokka.) Það mætti frekar segja, að hv. 1. þm. Eyf. vilji raska grundvelli frv. með sínum till. Frv. er byggt upp eins og mþn. gekk frá því, og verð ég að segja það, að byggingu frv. í heild er haldið með till. n., nema í því tilfelli, að hún hefur hækkað hámarkið í lægsta flokknum og að n. ber fram till. um tilfærslu einstakra starfsmanna milli flokka, er færa mátti sönnur á, að lækkuðu óeðlilega í launum eftir frv. eða ætluð væru laun í ósamræmi við aðra starfsmenn í hliðstæðum störfum.

Mér fannst hv. þm. Barð. vilja kenna n. um þessi 7 millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð, sem launal. mundu hafa í för með sér, en þetta er auðvitað hin mesta fjarstæða, þar sem frv. mþn. felur þetta í sér, en hækkunin eftir till. n., frá því sem er í frv., nemur ekki nema rúmum 100 þús. kr. (BSt: Þetta rengi ég.), og fer þetta eftir því, við hvaða stiga miðað er, hvort miðað er við hámark, lágmark eða meðallag.

Þá er komið að því, sem hv. þm. Barð. telur aðalfölsun, en það eru hækkanir til skóla og fræðslu. Þessi hækkun er ekki reiknuð út, en svo er það einnig um flest þessu viðkomandi, enda illkleift. Þetta er hækkun, sem leiðir af frv. En það er vitanlega ekki hægt að tala um neina fölsun í þessu sambandi. Þá mætti alveg eins telja það fölsun hjá hv. þm. Barð., að hann telur ekki, hvað mikið af þessu kemur í ríkissjóð aftur í beinum sköttum.

Ég skal ekki fjölyrða um þá brtt. að láta ríkið greiða öll laun kennara, en n. taldi heppilegt að halda þessu eins og verið hefur.

Hv. þm. Barð. taldi það óréttlátt að lækka farkennara. En það er rangt, að farkennarar í heild séu lækkaðir. Það eru einungis þeir farkennarar, sem hafa ekki sérmenntun. Strax og eitthvað er lækkað, þá er talað um óréttlæti. Það má auðvitað segja um alla, að þeir séu eins góðir og sérmenntaðir menn, en við hljótum að reikna með því almenna hér sem annars staðar, að sérmenntaðir menn séu hæfari, enda þótt benda megi á einstakar undantekningar.

Þá sagði hv. þm., að barnakennarar hefðu allt að hálft árið frí. Það er miðað við 9 mánaða kennslu, og það má sannarlega ekki gera of mikið úr því, sem kennararnir geta unnið sér inn á þessum frítíma. Þetta er þreytandi innandyrastarf, og veitir ekki af að lyfta sér upp á milli.

Till. viðvíkjandi sýslumönnum og læknum munu ekki vera að öllu tilbúnar enn þá, en þar er eitt erfiðasta vandamálið í þessu sambandi. Sumir þessara embættismanna hafa meiri laun en nokkrir aðrir embættismenn ríkisins, en aðrir hafa lág laun, og er mjög erfitt að fá samræmi hér á.

Um húsaleiguna er það að segja, að hún hlýtur yfirleitt að reiknast til launa, þar sem hún er ókeypis, þótt ég telji hins vegar ekki líklegt, að unnt sé að setja alls kostar bindandi ákvæði um það atriði.

Ég skal ekki fara út í einstakar brtt. Varðandi skipaútgerðina skal ég ekki heldur segja annað en það, að starf hennar er í rauninni þannig, að ekki er hægt að meta það eftir því, hvort það ber sig. Hér er um þjóðnytjastarf að ræða, sem verður að halda uppi, hvort sem það ber sig eða ekki. Og skipaútgerðin veltir það miklu fé, að mér virðist það hreint aukaatriði, hvort forstjórinn hefur 12 eða 14 þús. kr. laun. Þá hættu ber þó að athuga, hve ríkið á erfitt með að fá hæfa starfsmenn, séu laun þeirra mjög skorin við nögl. — Ég vil aðeins bæta því við, að það má gera of mikið úr því ósamræmi, sem l. fela í sér. Þau munu þó vera stórfelld bót frá því, sem var.

Hv. 6, þm. Reykv. fannst till. n. ekki miða til samræmis, en þær voru þó gerðar í þeim tilgangi. — Ég vil einnig taka það fram viðvíkjandi ummælum hv. þm. Barð. um, að þessar breyt. væru svik við samningsgrundvöll ríkisstj., að þar er einmitt sagt, að frv. skuli lagt til grundvallar, en jafnframt komið til móts við óskir BSRB. Og ég verð að segja það, að ég get borið stjórn þessa bandalags vel söguna. Hún lagði einungis áherzlu á fjóra liði af öllum þeim kröfum, sem fyrir lágu, og má segja, að þeir væru allir réttmætir. Ráðherrar ættu að minni hyggju að hafa alveg sérstök laun. Þeir eru einatt teknir úr störfum sér til mikilla óþæginda, og þetta eru hin allra erfiðustu störf. Þeir eru settir upp sem skotspónn fyrir alþjóð og sæta einatt hinni ómildustu og óréttlátustu gagnrýni. Ég vil setja þá á annan bekk en hæstaréttardómara. Ég álít, að laun ráðherra eigi að vera hærri en allra annarra embættismanna. Bent hefur verið á, að forstjóri skipaútgerðarinnar hafi nú ráðherralaun, en þá vil ég benda á, að það er þó bót frá því, sem áður var, því að þá var hann með hærri laun.

Fleira mun það ekki vera, sem ég vildi taka fram. Það var auðvitað vel gert af bændum að falla frá kröfum sínum um uppbætur, en auðvitað voru það að nokkru leyti hagkvæm viðskipti fyrir þá og kemur engan veginn í veg fyrir nauðsyn þess að setja launalög.