23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (4713)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég er einn af þeim mörgu þm., sem tel. að launalagafrv. geri ráð fyrir launagreiðslum. sem vafasamt má telja, að séu í samræmi við gjaldþol ríkisins. En þetta mál er komið svo langt, að það þýðir ekki að sakast um það. En hitt mætti þykja líklegt, að koma mætti að nokkrum leiðréttingum þar, sem ósamræmi virðist vera á millí launagreiðslna.

Ég hef ekki séð mér fært samt sem áður að styðja að neinu verulegu leyti till., sem horfa til hækkunar. Ég er að sönnu meðflm. að þremur till. um mjög smávægilega breyt. til hækkunar, sem ég tel til samræmis. En aðalflm. þeirra till. hafa gert grein fyrir þeim, og þarf ég því ekki að minnast á þær sérstaklega. Hins vegar er ég aðalflm. að brtt. á þskj. 1227, sem er brtt. við brtt. hv. fjhn. á þskj. 1206. Þessar till. eru þó ekki til hækkunar á launagreiðslum, en til leiðréttingar, og skal ég leyfa mér að minnast á þær í þeirri röð, sem þær eru á þskj.

1. brtt. er við 5. brtt. á þskj. 1206. Þetta er um birgðastjóra landssímans í Reykjavík. Samkv. þessari brtt. hv. n. eiga að vera í þessum flokki birgðastjóri landssímans í Reykjavík og efnisvörður landssímans í Reykjavík. Ég held, að það hljóti að liggja bak við þetta misskilningur. Birgðir og efni landssímans er það sama, og það getur ekki verið, að það þurfi tvö embætti til þess að sjá um þessi efni landssímans. Það getur ekki verið, að þar eigi að vera nema einn maður. En anni hann því ekki, er það skylda landssímastjórans að fá honum aðstoð. 1. till. mín er því sú, að orðin „birgðastjóri landssímans í Reykjavík“ falli niður, og er þá aðeins eftir efnisvörður. Það er sérstakt starf, og mér er kunnugt um, að því hefur um langan aldur gegnt sami maður, sem að sönnu er sjálfsagt kominn á þann aldur, að starfstími hans verður skammur hér eftir, en þá liggur fyrir að skipa mann í hans stað, en þetta þarf ekki. á meðan þessa manns nýtur við. Þetta er náttúrlega til þess að lækka. en ekki hækka útgjöld stofnunarinnar.

Næsta brtt. er við 6. tölul. 7. brtt. fjhn., og hún er aðallega fólgin í formsbreyt. En ég hlýt að gefa nokkra skýringu á því. Með henni er farið fram á, að niður falli orðin „1. fl.“ um símritara, loftskeytamenn og símvirkja. En þannig standa sakir, að eftir brtt. fjhn. eiga að vera tveir fl. þessara manna og raunar fleiri, sem brtt. eru fluttar um af öðrum hv. þm. En í eðli sínu virðist ekki vera hér um neina flokkaskiptingu að ræða. Símritari er símritari, þegar hann hefur lært og tekið próf í því. Og loftskeytamaður er loftskeytamaður, þegar hann hefur lært og tekið próf og staðizt það. Og þar er hvorki um 1. flokks né 2. flokks próf að ræða. Reglan fyrir því að geta orðið loftskeytamaður, símvirki eða símritari er sú, að þess er krafizt. að þessir menn hafi gagnfræðapróf, þ.e.a.s. þriggja ára bóklegt nám. (JakM: Tveggja ára.) Venjulega eru menn þrjú ár að ná þessu gagnfræðaprófi, en það fer náttúrlega eftir því, hvað menn eru duglegir. Síðan eru þeir við nám hjá símanum, sem er eins konar verklegt nám, í þrjú ár. Þá er ætlazt til þess, að þessir menn geti tekið próf. Venjan mun hafa verið sú, að þeir væru reynslutíma hjá símanum, áður en þeir væru fastráðnir, og að þeir tækju í einhverri grein annað próf til. En venjulega virðist gangur málsins sá, að mennirnir uppfylla skilyrðin um undirbúningsmenntun sína og hafi síðan verið tilskilið nám hjá símanum, hvort sem það eru þrjú eða fjögur ár eða fleiri, og tækju síðan próf og væru eftir það loftskeytamenn, símvirkjar eða símritarar. Og að eftir að þeir eru ráðnir hjá símanum, séu þeir hvorki 1. né 2. fl., heldur það, sem nafn þeirra bendir til. Nú hvílir að sjálfsögðu engin skylda á símanum að ráða alla þá menn í þjónustu sina, sem tekið hafa þessi próf. En ráði landssíminn þessa menn, sem uppfylla þessi skilyrði, sem krafizt er, þá eiga þeir að sjálfsögðu að komast í þann fl., sem tiltekinn er í launal. Ef þessi regla er ekki höfð, er hægt að láta mann ljúka öllum þessum skilyrðum og láta hann svo hafa starf 2. fl. manns, ef landssímastjóranum þóknast það. Og ef hann þraukar og fer ekki, verður hann að vinna fyrir þetta lægra kaup, enda þótt hann uppfylli þau skilyrði, sem sett eru fyrir þessum réttindum og hann búinn að leysa af hendi með það fyrir augum að taka þetta sér fyrir ævistarf.

Þá verður að gera leiðréttingu við 7. lið, um næturvörð á landssímastöðinni í Reykjavík. þetta er starf, sem sami maður hefur gegnt um eða yfir 20 ár, og það er starf, sem er í gildi nú og allar líkur til að verði, á meðan landssímastöðin er til, því að það verður að vera næturvörður á landssímastöðinni í Reykjavík. En vel má vera, að það séu einhverjar ráðagerðir um það, að þessi starfræksla verði framkvæmd með vaktaskiptum. En það er sjálfsagt eigum erfiðleikum bundið að semja um slíkt innan símans. En þetta starf er til og hefur verið það um áratugi og ekki ástæða til þess að fella það niður. Við gerðum þess vegna till. um, að upp yrði tekið sem sérstakur liður á eftir liðnum eins og hann er nú, þannig: Næturvörður við landssímastöðina í Reykjavík 5400–7200 kr. laun. Þetta er að sjálfsögðu engin hækkun á útgjöldum, því að þetta starf verður rækt hvort sem er, þótt það yrði sett undir annað nafn.

3. brtt. er aðeins um, að orðin „símritarar 2. fl., símvirkjar 2. fl., loftskeytamenn 2. fl.“ og orðin „1. flokks“ á eftir „línumenn“ falli niður, þannig, að hér sé ekki um neina flokkaskiptingu að ræða.

Þá höfum við undir b-lið í þessari 3. till. leyft okkur að leggja til, að teknir verði upp í launal. umsjónarmenn með skeytaútsendingu. Það er dálítið einkennilegt, að þetta hefur gleymzt. Þetta starf er til og hlýtur alltaf að vera það. Það er þannig, að ég held, að hér í Reykjavík eru tveir menn, sem ábyrgð bera á skeytaútsendingum og sjá um þær. Landssímastjórinn hefur skrifað um þetta og beðið, að þetta yrði tekið upp í frv., af því að það hafi gleymzt. Þetta starf er til og hlýtur að verða í framtíðinni, svo að það er nauðsynlegt að taka þetta upp í launalagafrv. Aftur á móti er ekki ætlazt til þess, að bréfberar verði teknir upp í launal., og er það ekki heldur gert eftir till. nefndarinnar.

4. brtt. er aðeins afleiðing af brtt. um, a,ð 1. og 2. flokks línumenn séu ekki til., og er um það, að orðin „línumenn 2. flokks“ falli niður. Þetta er bara til samræmis.

Þessar brtt. horfa ekki til hækkunar á launal., en eru aðeins til skýringar og leiðréttingar, og vona ég, að hv. þm. geti fallizt á þær.