02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (4901)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Mér hefur skilizt, að þetta frv. hafi upphaflega verið flutt í tilefni lýðveldisstofnunarinnar og það hafi verið ætlun hv. flm., að þeir, sem hefðu misst borgararéttindi eða atvinnuréttindi með dómi eða vegna afleiðinga refsidóms fyrir afbrot framin fyrri 17. júní 1944, fengju þessi réttindi aftur, þó að ekki væri liðinn sá frestur. sem venja er til að endurveita slík réttindi eftir.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, er heimild í l. um að endurveita atvinnu- og borgararéttindi. T.d. er í bifreiðal. heimild til þess að veita þeim, sem hafa verið sviptir ökuleyfi ævilangt, ökuleyfið aftur að þremur árum liðnum. ef þeir hafa verið reglusamir þann tíma og sanna það með vottorði. Þessi heimild veit ég ekki annað en sé notuð, þegar fullnægjandi sannanir eru fyrir því. að þessi skilyrði séu fyrir hendi til þess að endurveita ökuleyfi.

Þá er í hegningarl., í 84. og 85. gr., forseta gefið vald til þess að veita mönnum uppreisn æru að tveimur eða fimm árum liðnum, eftir því, hverri refsingu brotið hefur varðað. Eftir þeim upplýsingum. sem ég hef, eru þessar heimildir einnig venjulega notaðar.

Nú hefur mér skilizt, að hæstv. Alþ. hafi viljað sýna nokkurn stórhug í sambandi við lýðveldisstofnunina á þann hátt að veita mönnum fyrst og fremst almenna uppgjöf saka og síðan aftur almenn borgararéttindi, þeim sem þau hafa misst. Þetta er nokkuð óvenjuleg athöfn og liggur eiginlega fyrir utan hin venjulegu embættisstörf dómsmrh. Ég hefði þess vegna talið rétt, að Alþ. tæki sjálft á sig ábyrgð á þessari framkvæmd að öllu leyti.

Nú mætti e.t.v. skilja þetta frv., eins og það fór héðan frá hv. Ed., þannig, að þessi heimild væri mjög almenn, sem þarna er tekin fram í frv., þannig að endurveita ætti borgararéttindi án umsókna. Hv. Nd. hefur nú breytt þessu þannig, að gert er ráð fyrir, að venjuleg umsókn liggi fyrir, og enn fremur, að ekki hafi hlotizt heilsutjón af verknaði þeim, sem dæmt hefur verið fyrir, og málsbætur séu fyrir hendi.

Ef það hefði verið ætlun hæstv. Alþ. að sýna þann stórhug að veita þessi réttindi aftur í tilefni af lýðveldisstofnuninni, þá virðist þetta frv. með þeirri breyt., sem það hefur fengið í hv. Nd., vera komið inn á nokkuð nýja braut, þar sem í stað þess, að Alþ. taki raunverulega á sig ábyrgð þá, sem samþykkt frv. fylgir, sem eðlilegt væri, er nú sett inn í frv. sú breyt. í hv. Nd., að það er sett í vald dómsmrh. í raun og veru að fara að dæma menn upp að nýju. Og ég tel, að þetta sé meiri ábyrgðarhluti en hæstv. Alþ. getur í raun og veru ætlazt til, að nokkur maður taki að sér. Það er með frv., ef samþ. verður í því formi, sem það nú er í, farið út fyrir þær reglur, sem gilda bæði í hegningarlöggjöf og öðrum l. um endurveitingu borgararéttinda, og dómsmrh. falið að meta það. hvort heilsutjón hafi hlotizt af verknaði þeim. sem dæmdur hefur í hverju tilfeili framið og hann hefur verið dæmdur fyrir, og einnig, hvort málsbætur séu fyrir hendi.

Ég tel, að þessi afgreiðsla á þessu máli, sem hér er stefnt að með frv. eins og það er nú, eftir að því hefur verið breytt í hv. Nd., — ef það hefur verið ætlunin að sýna sérstakan stórhug í sambandi við lýðveldisstofnunina, — sé tæplega verjandi af hæstv. Alþ., ef frv. verður samþ. óbreytt. Og af þeim ástæðum, sem ég hef nú greint, verð ég að lýsa yfir, að ég tel mjög vafasamt, að ég sjái mér fært að nota heimild þá, sem gefin yrði í þessu frv., ef að l. yrði, umfram það, sem heimilt er samkv. núgildandi l. Það er því vissara fyrir þá, sem áhuga hafa á að útvega mönnum borgararéttindi að nýju á skemmri tíma en nú er leyfilegt, að færa frv. þetta í annað form en það nú liggur fyrir í. Og á ég þá sérstaklega við það, að Alþ. sjálft taki ábyrgðina á þessari óvenjulegu ráðstöfun, sem ætlazt er til, að frv. hafi í för með sér.