17.02.1945
Neðri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (4953)

257. mál, veltuskattur

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi leyfa mér að segja örfá orð út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, sem annars gæti gefið tilefni til margra orða, en mun ræða það síðar.

Hæstv. fjmrh. var ekki ánægður með það, sem ég sagði varðandi það, að þetta mál væri þrotabúsyfirlýsing um fjármálastefnu hæstv. ríkisstj., sem ég mun rökstyðja nánar við síðari umr. Hæstv. ráðh. sagði að hér væri ráðgerður skattur á stríðsgróðann. Ég vildi benda hæstv. ráðh. á, að það fer ekki alls kostar vel saman af hans hendi, þegar hann kallar þetta skatt á stríðsgróðann, en lýsir því yfir hitt veifið, að sé neyðarúrræði til þess að afla ríkissjóði tekna, en gæti komið ranglátlega niður með því móti, sem hér er ráðgert, og þar sem þessi skattur gæti jafnvel orðið að eignarskatti, sem yrði lagður á í hlutfalli við eignir manna. Það mun sönnu nær, að vart mun hægt að komast lengra á rangri braut en að halda því fram, að skattur, sem lagður er á almenna vöruumsetningu og jafnhátt á alla vöru, sé skattaálagning á stríðsgróðann. Það er tæplega hægt að komast lengra í öfugmælum en að halda slíku fram. — Hæstv. fjmrh. minntist á það, að ég ætti ekki að vera svo viðkvæmur fyrir þessari skattaálagningu, því að í rauninni væri hér farið eftir ráðum flokksblaðs míns. Ég veit ekki, hvort það er meining hæstv. ráðh., ef hann vill bæta því ofan á allt annað, að það sé eftir ráðleggingum flokks míns, að þessi veltuskattur verði lagður á. (Fjmrh.: Þetta er skattur á stríðsgróðann.) Ef þetta er meining hæstv. ráðh., þá þykir mér of litið leggjast fyrir hann að gefa slíkt til kynna, því að ekki má blanda því saman, að skattur á stríðsgróðann er allt annað en sá skattur, sem hér er til meðferðar.