16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (5006)

142. mál, rafveitulán fyrir Keflavíkurhrepp, Njarðvíkurhrepp og Grenjaðarstaða- og Múlahverfi

Jónas Jónsson:

Ég vil aðeins bæta því við, að ég hef tekið þetta litla mál af því að ég álít, að þarna standi alveg sérstaklega á. Það er hins vegar fjöldi sveita í mínu kjördæmi, sem ég hef hugsað mér að fengju rafmagn, en þar sem framkvæmdir virðast svo langt framundan, sé ég ekki ástæðu til að ræða það frekar. En ég vil taka það fram, að það, sem mælir nokkuð með þessari litlu tilraun, er ekki aðeins það, að það yrði í fyrsta skipti, sem reynt yrði að koma rafmagni inn á mörg heimili í sveit, heldur líka hitt, að þarna á sveitin kraftinn. Laxárvirkjunin er sem sé tekin í landi einnar af þessum jörðum, sem er eign ríkisins, rafmagnið á Akureyri er tekið frá þessari jörð, þannig að það hefði átt að muna eftir þessum bæjum fyrr. Þetta er ekki nein allsherjar sókn, heldur aðeins undantekning.