25.01.1945
Neðri deild: 112. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (5013)

254. mál, fasteignamat

Skúli Guðmundsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér þá aðalbreytingu á l. um fasteignamat, að mat skuli verða framkvæmt á 25 ára fresti framvegis, í stað þess, að samkvæmt núgildandi l. á það að gerast tíunda hvert ár. Um þetta aðalatriði frv. var ekki ágreiningur í fjhn., sem hafði það til athugunar. Þykir sýnt, að af þessu muni verða töluverður fjársparnaður fyrir ríkissjóð. Ég skrifaði hins vegar undir nál. fjhn. með fyrirvara, vegna þess að ég tel, að gera þurfi nokkrar smábreytingar á frv. auk þeirra, sem samþ. voru hér við 2. umr., og sú breyting, sem ég tel, að gera þurfi frá því, sem nú er, snertir millimatið, sem svo er kallað, þ.e. matsgerðir, sem fram fara á milli þess, sem aðalmat fer fram.

Samkv. gildandi l. eru úttektarmenn í hverri sveit, sem eiga að framkvæma þessi aukamöt. En samkv. 6. gr. þessa frv. er ætlazt til þess, að úttektarmenn í sveitum meti aðeins eftirleiðis á 5 ára fresti þær húseignir, sem ekki eru brunatryggðar. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því í þessari 6. gr., að fjmrn. ákveði mat húsa og annarra mannvirkja milli þess, að aðalmat fer fram. Það er sjálfsagt, að sú breyting, sem hér er lagt til, að gerð verði, að úttektarmenn meti ekki þau hús, sem eru brunatryggð, mun eiga að hafa í för með sér allmikinn sparnað. En ég tel, að ákvæði 6. gr. frv. um aukamat séu ekki viðunandi eins og þau nú eru. Fjmrn. á að ákveða þetta mat, en í 9. gr. frv., upphafi hennar, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fjármálaráðuneytið leggur úrskurð á kærur út af aukamati.“ Það er því, eins og frv. er nú, aðeins um eitt stig að ræða, fjármálaráðuneytið, sem á að framkvæma mat, og sami aðili, sem á að úrskurða um kærur út af aukamati. Ég býst ekki við, að það sé hægt að finna nokkurt hliðstætt ákvæði í íslenzkum l., þar sem á arinað borð er gert ráð fyrir, að hægt sé að áfrýja úrskurði, að áfrýjað sé til sama aðila, er fyrst úrskurðar. Ég hugsa, að þetta sé algert nýmæli í íslenzkri löggjöf, og mér finnst það ákaflega hæpið að hafa þetta þannig.

Ég hef því leyft mér að leggja til í brtt. á þskj. 934, að það verði nokkur breyting gerð á þessari 6. gr. og hún færð í það horf, að það verði yfirfasteignamatsn., sem framkvæmi matið, þ.e. þessi aukamöt. Þótt talað sé þar um yfirfasteignamatsn., gæti ég vel hugsað mér, að n. þyrfti ekki ætíð öll að starfa að þessu, heldur væri fullnægjandi, að það væri formaður n., sem gerði þetta, en jafnvel þótt þurfi að kalla yfirfasteignamatsn. til funda nokkrum sinnum út af þessum aukamötum, geri ég ekki ráð fyrir, að það þyrfti að vera kostnaðarsamara fyrir ríkissjóð en að hafa fastan starfsmann í stjórnarráðinu til þess að annast um þetta. Ég vil vekja athygli á því, viðvíkjandi launum yfirfasteignamatsn., að í núgildandi l. er gert ráð fyrir því, að form. hennar hafi föst laun, en hinir nm. fái aðeins þóknun fyrir starfið eftir því, hve miklum tíma þeir eyða til þess, en í þessu frv., eins og það nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að enginn þessara manna, ekki formaður frekar en hinir, verði á föstum launum, heldur fái þeir aðeins þóknun, sem ráðh. ákveði, og þá væntanlega miðað við, hve löngum tíma þeir þurfa að verja til þessa starfs. Ég tel því, að þarna geti ekki verið um neitt fjárhagsmál að ræða. Það verður aldrei neitt, sem neinu nemur, og ef til vill engu dýrara með því fyrirkomulagi, sem ég sting upp á, en í frv., eins og það er nú. Hins vegar tel ég, að í þessu sé miklu meiri trygging fyrir því, að þessi millimöt verði í samræmi við aðalmat, og það er það, sem vitanlega er stórt atriði, einmitt fyrir það, að nú á ekki að fara fram aðalmat á fasteignum nema á 25 ára fresti í stað þess, að það hefur verið tíunda hvert ár, þá er það meira áríðandi en áður, að þessi aukamöt verði þannig framkvæmd, að þau séu í eðlilegu samræmi við aðalmatið.

Í 9. gr. frv., þar sem talað er um kærur út af aukamati, segir, að slíkar kærur skuli komnar í hendur ráðuneytisins áður en 2 m án. eru liðnir frá dagsetningu matsgerðar. Hins vegar er ekkert um það í frv., að það skuli tilkynna eigendum fasteigna þessar matsgerðir. Það er því mjög óvíst, að menn geti yfirleitt notað sér þetta ákvæði, þótt þeir séu óánægðir með úrskurð ráðuneytisins. Engin vissa er fyrir því, að þeir fái vitneskju um það, fyrr en löngu síðar, hvernig matið var framkvæmt. Þess vegna er ein brtt. mín, undir d-lið, um það, að niðurstöður matsgerða, sem framkvæmdar eru samkv. 6. gr., skuli þegar í stað tilkynna eigendum fasteigna.

Það er mjög auðvelt að gera þetta, en verði það gert, þá hafa þessir menn, sem hlut eiga að máli, möguleika til að koma kærum á framfæri, ef þeir eru óánægðir með úrskurð eða matið, sem framkvæmt hefur verið.

Önnur brtt. mín, við 10. gr., er í framhaldi af þessari. (Forseti: Hún mun eiga við 9. gr.) Já, það er rétt. Ég vil biðja hæstv. forseta að taka það til leiðréttingar. Það var ein gr. felld úr við 2. umr., og hafði ég ekki athugað það, þegar ég samdi brtt. Vænti ég, að það geti orðið leiðrétt an sérstakrar brtt. (Forseti: Já, já.) Þannig á að miða við það, hvenær mat er tilkynnt eigendum fasteignanna, en ekki miða við dagsetningu matsins. Er þá víst, að eigendum fasteignar munu kunnar niðurstöður matsins.