10.11.1944
Sameinað þing: 63. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (5036)

107. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Allshn. hefur orðið sammála um sína till. viðvíkjandi þessu máli, en aðalbreytingin er sú, að engin föst n. skuli sett til að endurskoða vinnulöggjöfina. Við leggjum hins vegar til, að hæstv. ríkisstj. láti fram fara þessa endurskoðun, og hvort sem hún setur í það fleiri eða færri menn, þá hafi þeir menn samstarf við þá, sem helzt eru kunnugir framkvæmd vinnulöggjafarinnar og þeirri reynslu, sem á er komin. Hún hafi einnig samstarf við fulltrúa þeirra félaga, sem hlut eiga að máli, bæði vinnuveitenda og atvinnuþiggjenda.

Í frumtill. er talað um verkfallsbann embættismanna og að ákvæði þar að lútandi verði endurskoðuð í sambandi við þetta mál. Á þetta atriði er ekki minnzt í okkar till., en þar fyrir til þess ætlazt, að það sé athugað að svo miklu leyti sem það snertir almenna vinnulöggjöf. Í almennri vinnulöggjöf eru ákvæði um embættismenn, og á Norðurlöndum munu líka ákvæði, er snerta starfsmenn ríkis og bæja, vera í almennri vinnulöggjöf. Þetta tek ég fram, vegna þess að þetta atriði er fellt niður í till., en samt liggur í hlutarins eðli, að það verður sett inn, þegar fullkomin vinnulöggjöf verður sett eða endurskoðuð.

Ég hygg, að samkomulag hafi verið það gott um þetta mál í n., að það muni ekki kosta miklar umr. og reyni aðeins á framkvæmd hæstv. ríkisstj.