13.10.1944
Sameinað þing: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (5129)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Á þskj. 343 er þess getið, hvaða þm. úr Sjálfstfl. hafi ekki skráð nöfn sín á það skjal, sem á að tryggja ábyrgð ríkissjóðs fyrir byggingu síldarverksmiðju á Siglufirði. Meðal þeirra er ekki mitt nafn, og með því að hv. þm. S.-Þ. hefur ekki leiðrétt það, að ég væri ekki meðal þeirra manna, sem hefðu undirskrifað þetta tryggingarskjal, um leið og hann leiðrétti m.a. nafn Péturs Magnússonar, þykir mér ástæða til að skýra frá því, að ég hef ekki átt neinn þátt í því, sem gerzt hefur í máli þessu á bak við tjöldin, áður en þing kom saman.

En ég vil, úr því að ég stóð upp, minna hv. þm. á, að áður en gengið er til atkv. um afgreiðslu þessa máls, er mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þremur mikilvægum atriðum í sambandi við það, þar sem hér er farið inn á nýja braut; ef till. verður samþ., — að ríkissjóði er ætlað að ábyrgjast stórkostlegt lán fyrir byggingu síldarverksmiðju, auk þess sem hér er höfð í frammi alveg sérstök aðferð við undirbúning og afgreiðslu málsins.

Hið fyrsta atriði er, hvort þess sé þörf vegna almenningsheilla, að þessi verksmiðja sé byggð. Reynist það rétt, er sjálfsagt, að til komi ábyrgð ríkissjóðs, ef aðrar leiðir þykja ekki færar, svo að hægt sé að framkvæma verkið. Nú heldur hv. þm. Borgf. því fram, að nauðsynlegt sé vegna almenningsheilla að koma verksmiðjunni þannig upp og veita ábyrgðina og þess vegna sé hann samþykkur ábyrgðinni. Þessi niðurstaða hans í málinu sé á engan hátt í tengslum við undirbúning málsins, enda hafi undirskriftirnar á skjalinu engin áhrif haft á skoðun sína um nauðsyn ábyrgðarinnar. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að sú stefna hefur ríkt í þessum málum undanfarin ár, að það ætti ekki að fjölga síldarverksmiðjum í landinu fram yfir það, sem ríkið gerði sjálft. Fyrir þessa meginástæðu er það sett í 1. gr. l. um síldarverksmiðjur, að heimild rn. þurfi til að byggja síldarverksmiðjur. Þessari heimild hefur á undanförnum árum verið beitt þannig, að hér eru nú miklu færri verksmiðjur en annars væru, ef þessi lagaákvæði hefðu ekki verið til og þeim beitt skefjalaust til synjunar þeim, sem hug hafa haft á því að fjölga slíkum verksmiðjum. Ég tel því, að eðlilegra væri að greiða úr þessum verksmiðjuskorti á þann hátt að afnema 1. og 2. gr. fyrrnefndra l. og gefa þetta mál þar með alveg frjálst fyrir einstaklinga. Væri þetta miklu ódýrara og áhættuminna fyrir ríkissjóð.

Það hefur líka sýnt sig, að rekstur síldarverksmiðja er engu heppilegri fyrir það opinbera en einstaklingana. Ríkisverksmiðjurnar hafa ávallt ráðið síldarverðinu til útgerðarmanna og sjómanna. Hefur nýlega orðið um það atriði hörð barátta milli þeirra og ríkisstjórnarinnar, sem þó endaði þannig, að stjórnin varð að láta í minni pokann, vegna þess að einstaklingarnir, sem áttu og starfræktu síldarverksmiðjur, gátu boðið hærra verð en atvmrh. taldi á þeim tíma, að ríkisverksmiðjurnar gætu borgað. Það hefur enn fremur sýnt sig, að verksmiðjur einstaklinga hafa grætt talsvert meira fé en ríkisverksmiðjurnar, þótt síldarverðið á hverjum tíma sé sama hjá báðum, og það þótt ríkisverksmiðjurnar greiði minni gjöld til bæjar- og sveitarfélaga en ef þær hefðu verið eign einstaklinga. Mér finnst því, að þetta atriði sé mjög veigamikið og rétt fyrir hv. þm. að gera sér þetta vel ljóst, áður en gengið er til atkv. um málið, og hvort því ekki sé réttara að breyta núgildandi l. um síldarverksmiðjur þannig, að leyft sé að stækka verksmiðjurnar af frjálsum vilja og stuðla þannig að því, að sjómenn fái þar með hærri laun, eins og reynslan hefur sýnt, heldur en að ríkið sé að byggja sjálft eða standa bak við bæjarfélögin með milljónaábyrgðir.

Hið annað atriðið er, hvort þetta sé þörf fyrir Siglufjörð. Hv. þm. Seyðf. hefur haldið fram, að svo sé. Skal ég ekki deila um það við hann, því að ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér, hversu arðvænlegt fyrirtæki er hér um að ræða. Hitt er mér ljóst, að það er tvíbent, að bæjarfélag, sem þarf að kalla að taka allt til láns til að byggja upp stóra verksmiðju á mjög dýrum tíma, muni hafa af því fjárhagslegan ávinning, auk þess sem á því er enginn vafi, að ef Siglufjarðarbæ væri heimilt að taka sömu gjöld af ríkisverksmiðjunum og hann mætti taka af sams konar fyrirtækjum, er væru í eigu einstakra manna, mundi hann verða í framtíðinni betur stæður en verið hefur hingað til. Og með því að ekki hafa verið lögð fram þau gögn í þessu máli, sem fullvissa hlutlausa athugendur um nauðsyn þess fyrir bæjarfélagið að hleypa sér í þann kostnað nú, sem samfara er þessari byggingu, get ég ekki greitt atkv. með till. eins og hún liggur fyrir.

Þriðja atriðið, er, — og er það e.t.v. ekki hið ómerkasta, — hvort það sé sæmandi af Alþ. samþ. nokkra ábyrgð, sem undirbúin hefur verið á þann hátt, sem hér hefur átt sér stað, hvort sem það eru fimm milljónir eða einhver önnur upphæð. Það er þegar upplýst í umr., að hér hefur tvímælalaust verið smalað saman bak við tjöldin ákveðnum mönnum til að tryggja ákveðið mál. Ef þetta er þingleg meðferð á máli, hvers vegna er þá verið að ákveða tvær umr. um það og láta þess utan virðingarmestu n. þingsins athuga það og skila um það áliti? Hvers vegna er það þá ekki afgreitt umræðulaust, nefndarlaust og álitalaust með einfaldri atkvæðagreiðslu? Sé ætlazt til þess, að þessi háttur verði hafður á afgreiðslu mála í framtíðinni, er óhætt að breyta þingsköpum, breyta þeim þannig, að þegar um auðsæ hrossakaupamál sé að ræða, eins og hér virðist vera, þá skuli halda þeim fyrir utan almenna þingfundi, nema ef vera skyldi til endanlegrar atkvæðagreiðslu. Því að ég hygg, að þeir, sem sömdu þingsköpin, hafi ákveðið þau með það fyrir augum, að málin yrðu athuguð gaumgæfilega á þingi og komið í veg fyrir meðferð slíka sem þessa, svo að það komi ekki fyrir, að mál yrðu afgreidd á þann hátt, sem hér er til stofnað. Hversu mikil nauðsyn það er að byggja verksmiðjur í landinu og hvort sem það er á Siglufirði eða einhvers staðar annars staðar, þá gæti ég aldrei fengið mig til að samþ. ábyrgð, sem væri undirbúin eins og hér hefur verið gert. Ég mundi telja, að ég hefði þá rofið þingmannseið minn, sem ég hef gefið með undirskrift minni, um að halda stjórnarskrána og rækja þingmannsstörfin eftir beztu sannfæringu á allan hátt og í samræmi við gildandi þingsköp um meðferð mála. Hv. þm. Seyðf. gat þess áðan, að enginn af þeim mönnum, sem hann hefði snúið sér til, hefði bent sér á, að nokkuð væri athugavert við þessa meðferð málsins. En þetta er ekki rétt. Þegar þetta mál var nefnt við mig, benti ég einmitt á þetta sem aðalrökin fyrir því, að ég neitaði að undirrita skjalið, bæði við þann mann, sem sendur var með skjalið til mín, og síðar í síma við hv. þm. Seyðf., er hann ítrekaði beiðni um undirskrift mína. Það er því alveg rangt, að hann hafi ekki fengið slíka ábendingu.

Ég hygg, að hv. þm. sé nú ljóst, að hann er hér ekki að taka ákveðna fjárupphæð fyrir að útvega ákveðið lán, því að það er viðurkennt í umr., að lánið hefði fengizt í hvaða peningastofnun, sem var, ef nægar tryggingar hefðu verið fyrir hendi. Og því má honum vera ljóst, að hann er ekki að taka ákveðið fé fyrir að útvega lán, heldur fyrir að útvega atkvæði. Málið er komið á það stig, að ekki þurfti lengur að leita að lánveitendum, heldur þurfti að leita að tryggingum, sem þessir lánveitendur tækju gildar, og þær tryggingar voru hvergi til nema hjá Alþ., eftir því sem hv. þm. Seyðf. hefur sjálfur upplýst. Þess vegna átti honum að vera ljóst, að hann var að bendla þingmannsheiður sinn við það fé, sem hann á að fá fyrir þetta verk.

Ég get ekki tekið það til mín eða viðurkennt, að hægt sé að skipa mér í neina afturhaldsdeild eða flokk fyrir þá ástæðu eina, að ég hafi ekki viljað undirskrifa þetta skjal eða rétta upp höndina tillögunni til samþykktar. Ég tel það ekki tákn afturhalds, þó að menn vilji halda sig innan takmarka þess, sem er þinglegt og heiðarlegt, við afgreiðslu mála. En eigi hér að koma á fastri hrossakaupaafgreiðslu, svo sem hrossakaupum um framlög til vega, hrossakaupum um framlög til hafnargerða og hrossakaupum um ríkisábyrgð í stórum stíl, eins og hér virðist eiga að verða, og ákveða síðan allt slíkt bak við tjöldin og utan þingsins, þá er ég ekki viss um, að það lýsi fremur frjálslyndi en afturhaldi. Slík aðferð er svo langt fyrir utan öll takmörk, svo langt fyrir utan og neðan allt, sem þinglegt má teljast, að ég trúi því ekki fyrr en í síðustu lög, að hv. þm. Seyðf. verði ekki fyrsti maðurinn til að rétta upp höndina gegn þessari þáltill., eins og málið er undirbúið. Með því eina móti getur hann þvegið af sér þann blett, sem hann hefur sett á sjálfan sig með þessu máli hér í þinginu. Og ég vænti þess fyllilega, að hann geri það, ef hann hugsar sér, að þingmannsganga hans eigi að verða honum til gleði og sóma í framtíðinni.