16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (5140)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Frsm 2. minni hl. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. — Ég get náttúrlega ekki um það sagt, hvað menn segja um þann söng, sem ég mun hefja hér. En ég skal verða við þeim tilmælum hæstv. forseta, hvað því viðvíkur að blanda mér ekki í þær umr., sem hér hafa farið fram og lotið hafa að því, sem hv. síðasti ræðumaður gerði sérstaklega að umræðuefni.

Í tilefni af yfirlýsingu, sem hv. þm. Siglf. gaf í síðustu ræðu sinni, vil ég segja nokkur orð. Svo er mál með vexti, eins og kunnugt er, að hv. 2. þm. S.-M. hefur flutt hér brtt., sem hann nú að vísu stílaði við brtt. annars minni hl. fjvn., þ.e. þá brtt., sem ég flutti, en hann hefur nú óskað eftir við hæstv. forseta, að hann beri upp brtt. sína við brtt. hv. meiri hl. fjvn. Þessi brtt., sem hv. þm. S.-M. flytur, er í raun og veru alveg samhljóða þeirri brtt., sem ég flyt, að öðru leyti en því, að þar er gert ráð fyrir í brtt. hans, að á 1. og 2. veðrétti hvíli ekki nema 3½ millj. kr., í stað þess, að í hinum till. er gert ráð fyrir því, að á þessum veðréttum megi hvíla 4 millj. kr. Að öðru leyti er brtt. hv. 2. þm. S.-M. efnislega alveg eins og sú brtt., sem ég flyt. En ef hún hins vegar er borin saman við brtt. meiri hl. fjvn., þá skilur þar á um, auk þess sem ég áður nefndi (þ.e., að ekki megi hvíla á 1. og 2. veðrétti nema 3½ millj. kr.), að í brtt. hv. meiri hl. fjvn. er það látið óbundið, hvaða veðrétt ríkið fær fyrir sinni ábyrgð. Og þetta kom til af því, að í fjvn. var því haldið fram af þeim mönnum, sem fluttu málið þar fyrir Siglufjarðarkaupstað, að það gæti valdið stöðvun á þessu verki, ef þessi 4 millj. kr. lántaka væri bundin við 1. og 2. veðrétt, heldur gæti komið til, að það þyrfti að nota frekari veðrétti til þess að afla þessa 4 millj. kr. láns. Þannig lá málið fyrir í fjvn. Og yfirleitt var lögð á það mjög mikil áherzla í n., að till. yrði að samþ. með þessum hætti, að upphæðin, sem hvíla mætti á veðréttum á undan veðrétti ríkisins, væri ekki lægri en 4 millj. kr., og í annan stað gæti það valdið erfiðleikum við lánsútvegunina, ef 3. veðréttur væri ætlaður ríkinu.

Nú þykir mér þess vegna bregða nokkuð undarlega við, þegar hv. þm. Siglf. lýsir nú yfir, að það sé nú fullnægjandi til þess að afla þessara lána og til þess að koma því verki í framkvæmd, sem hér er um að ræða, að samþ. brtt. hv. 2. þm. S.-M., sem lækkar upphæðina, er áður mátti hvíla á þessum veðréttum, um 500 þús. kr., en auk þess bindur 3. veðrétt til handa ríkissjóði. Mér þykir þetta hálfundarlegt, af því að menn veltu dálítið vöngum við samþykkt þessarar till. í fjvn., og hefði sjálfsagt verið með þökkum þegið frá upphafi í n., ef hægt væri að draga úr þeirri áhættu, sem óneitanlega getur fylgt því, að ríkið gangi í svo háa ábyrgð fyrir Siglufjarðarkaupstað. Þetta mál stóð þannig, þegar það var rætt í n., að það var ekki einasta álitið ófært að draga úr þeim upphæðum, sem hvíldu á 1. og 2. veðrétti, heldur þótti ótækt að ætla að binda 3. veðrétt til handa ríkissjóði.

Ég lýsi yfir því sem form. fjvn., að mér þykir þetta miður góð framkoma gagnvart n., því að það má fullkomlega líta svo á, að þarna hafi verið gerð tilraun til að blekkja fjvn. í sambandi við afgreiðslu þessa máls og í raun og veru með tvenns konar hætti, með því, að nú er hægt að komast af með lægri upphæð, sem hvíli á 1. og 2. veðrétti, og auk þess þykir nú fært að binda 3. veðrétt til handa ríkissjóði. Svona framkoma þykir mér miður góð og ég vil segja miður sæmileg gagnvart fjvn. og ekki síður gagnvart hæstv. Alþ. Það kann að vera, að eitthvað hafi komið fram í þessu máli síðan, sem útskýri þessa framkomu, og skil ég það þó ekki, því að við gengum í n. allríkt eftir því að fá að kynna okkur þessar lántökur og lántökumöguleika í þessu efni. Ég verð sem sagt að láta í ljós óánægju mína yfir því, sem fram hefur komið að þessu leyti í þessu máli, því að framhaldið af þessu gæti alveg eins orðið það við lengri meðferð þessa máls, að Siglufjarðarkaupstaður þyrfti ekki einu sinni á þeirri aðstoð að halda, sem í brtt. hv. þm. S.-M. felst, og e.t.v. mætti færa þetta enn þá niður. Og máske hefði Siglufjarðarkaupstaður ekki þörf fyrir neinn slíkan stuðning, sem hér um ræðir.

Ég vildi aðeins segja þetta í sambandi við þá brtt., sem hér liggur fyrir, að ég kann illa við þessa framkomu, — svo framarlega sem ekki sé eitthvað alveg nýtt til komið í þessu máli, sem gefi tilefni til þeirra breyt., sem hér er um að ræða. Það er vitanlega alveg sjálfsagt fyrir hæstv. Alþ. samþ. þá brtt. í þessu efni, sem felur í sér minnsta fjárhagsábyrgð fyrir ríkið. En mér hefði fundizt miklu eðlilegra, að það hefði komið strax fram á fyrri stigum þessa máls, að álitið er, að Siglufjarðarkaupstaður þarfnist ekki meiri aðstoðar í þessu efni en gert er ráð fyrir eftir brtt. 2. þm. S.-M., þar sem mér virðist, að litlar líkur séu til þess, að aðstaða til lánsútvegunar í þessu sambandi hafi breytzt, síðan málið var borið fram, er gefi tilefni til þessara brtt.