20.11.1944
Sameinað þing: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (5178)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Í þessum umr. hefur það komið glöggt fram, sem raunar var vitað, að mikill skortur er á sjúkrahúsrými fyrir geðveikt fólk. Stafar af því margfaldur kostnaður oft og tíðum, vegna sjúklinga, sem komast ekki á spítala, og mikil óþægindi. Þingn. er orðið ljóst, að Kleppur tekur ekki nema nokkurn hluta þessa fólks, í öðru lagi að svo miklar athafnir eru fyrirhugaðar rétt hjá Kleppi, að vafi leikur á, hve staðurinn henti geðveikraspítala til frambúðar. Ástandið er svo alvarlegt, að ætla mætti, að menn legðust á eitt að reyna að kippa þessu í eitthvert lag. Hvað sem líður framtíðarlausn málanna, megum við ekki bíða eftir henni með brýnustu aðgerðir.

Sérstaklega hefur verið bent á tvær leiðir, bráðabirgðahúsnæði í hermannaskálum eða kjallara stýrimannaskólans nýja. Vel má vera, að önnur hvor þessara leiða sýnist fær, og mun ég taka það til nánari athugunar í samráði við yfirmann heilbrigðismálanna, landlækni, og ráðfæra mig við n. þingsins. Út af till. n. vil ég benda á, að hún virðist ekki vel framkvæmanleg, nema eitthvað meira komi þar til. Í nál. segir n., að hún vænti, að ríkisstj. geri það, sem fært sé, án þess að fara í kapphlaup við önnur sjúkrahús um hjúkrunarlið. Ef það er svo, sem ég ætla, að of lítið sé af hjálparfólki, sem nokkur sjúkrahússtörf kann og er fáanlegt, er þá útilokað, að ríkisstj. megi ráða nokkra manneskju frá öðrum sjúkrahúsum? Hvaða ráð á hún þá að hafa um útvegun hjúkrunarkvenna? Mér finnst aths. n. geta orðið þrándur í götu framkvæmda. Ég á ekki við, að farið yrði í stórum stíl að ráða fólk frá sjúkrahúsum, sem hafa helzt til fátt starfslið, en einhver miðlun og tilfærslur verða að vera leyfilegar.

Hv. frsm. (GJ) áleit nóg fé veitt til þessara framkvæmda, af því að á 22. gr. fjárl. 1944, 33. lið, er gert ráð fyrir ótiltekinni greiðslu ríkisfjár til aukningar Kleppsspítala og rekstrarkostnaðar vegna aukningarinnar. En sú heimild er þýðingarlaus, ef ekkert fé er afgangs af ríkistekjum þessa árs til að greiða þann kostnað, og það er ég hræddur um, að verði. Heimildin er ekki takmörkuð, það er satt, en féleysi takmarkar hana og ónýtir. Ef snúið verður að framkvæmdum, tel ég fulla nauðsyn á, að Alþ. bregðist vel við varðandi kostnað, og mun ríkisstj. þá leita þess. Ég hef hug á að taka þetta mál til bráðrar meðferðar.