05.01.1945
Sameinað þing: 81. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (5277)

206. mál, herzla síldarlýsis

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Ég var mjög fáorður um þetta mál við fyrri umr. Ástæðan til þess er sú, að þetta er í raun og veru till. um að fela ríkisstj. að taka mál þetta til framkvæmda, þegar ástæður leyfa, og þess vegna þurfti ekki neinar sérstakar skýringar í málinu. Ég skal líka taka það fram, að það er talsvert erfitt að fara út í þetta mál, bæði fjárhagshlið þess og þá menningarlegu, sökum þess að tímar þeir, sem nú eru yfir okkur, hafa skapað svo mikinn glundroða í þessu efni, að það hefur raskað fyrri áætlunum, sem gerðar hafa verið. Fjvn. komst þó að þeirri niðurstöðu og var algerlega sammála um að leggja til, að till. yrði samþ. Ég ætla mér að láta það að mestu leyti nægja að vísa til þessa sameiginlega álits, en vil aðeins til áherzlu þó minna á það, að fyrir þessu máli hefur jafnan verið eindreginn vilji í þ., þó að Alþ. hafi að sönnu ekki lagt mikið út í það að kryfja það til mergjar frá fjárhags- og hagfræðilegum sjónarmiðum. Það, sem gerzt hefur í málinu áður og ég lítils háttar drap á við fyrri umr. málsins, er það, að ríkisstj. sneri sér til atvinnudeildar Háskólans, ég held á árinu 1939, og óskaði eftir rannsókn á þessu máli, hvort hagkvæmt mundi og framkvæmanlegt að reisa verksmiðju til herzlu lýsis eða fituefna. Fyrir liggur í málinu bæði bréf ríkisstj. og einnig bréf frá Trausta Ólafssyni efnafræðingi til ríkisins um þetta mál, og þar vísar hann aðallega til skýrslu í tímariti verkfræðingafélagsins, en sú skýrsla er erindi, sem hann sjálfur hefur flutt í verkfræðingafélaginu, og þar er náttúrlega farið afar nákvæmlega út í teknisku hliðina, og ég sé ekki ástæðu til þess, bæði sökum þekkingarskorts sjálfs mín og væntanlega einnig hv. þm., að fara út í þá hlið málsins, enda skiptir hin hagfræðilega og fjárhagslega hlið málsins mestu. Í þessu erindi kemst efnafræðingurinn að þeirri niðurstöðu, að þá, á árinu 1942, séu fullkomin skilyrði til þess að reisa verksmiðju til herzlu fituefna á tveimur stöðum í landinu, sem sé á Siglufirði og Hjalteyri, að því einu undanskildu, að það var þá og er enn rafmagnslaust á þeim stöðum, en að sönnu telur efnafræðingurinn, að lýsismagnið á Djúpuvík og Ströndum sé einnig nægilegt til þess að reisa verksmiðju, sem reka mætti með góðum árangri, en telur hins vegar þar svo erfið skilyrði til rafvirkjunar, að ekki þurfi að gera ráð fyrir því í bráð. Sjálfsagt er nú nægilegt lýsismagn á Raufarhöfn, „til þess að það borgi sig að reka þar herzlustöð, en það mun vera eins um þann stað og Djúpuvík, að erfitt mun um rafmagn. Nú var það samþ. hér á Alþ. 1942, þegar gerð var breyt. á l. um síldarverksmiðjur ríkisins, að fela stj. einnig að reisa verksmiðju til lýsisherzlu, og það er sjálfsagt engum vafa bundið, að ríkisstj. hefði þegar gert það, ef ekki hefði enn skort þetta nauðsynlega skilyrði, rafmagnið. Nú er búizt við, að á þessu ári og innan örstutts tíma taki til starfa rafveita Siglufjarðar, og þá virðast þeir erfiðleikar yfirstignir. Annars skal ég taka fram út af því, sem hv. þm. Barð. sagði í sambandi við annað mál, um þann ávinning að breyta fiskiolíunni í herta fitu, að það er alveg rétt, að eftir þeim áætlunum, sem gerðar voru fyrir stríðið, þá er þessi fjárhæð ekki mikil, og enn fremur það, að efnafræðingurinn hefur talið það vafasamt, að fituefnin þyldu langan flutning og þess vegna hagkvæmast að reisa verksmiðjuna þar, sem framleiðslan væri nægilega mikil, til þess að þar mætti verða herzlustöð fyrir þá einu framleiðslu. Þó er það álit efnafræðingsins, að vel geti borið sig að flytja hráefnin frá verksmiðjunum við Eyjafjörð, á Dagverðareyri og í Krossanesi til Hjalteyrar og nota eina herzlustöð á því svæði. Við þetta er náttúrlega það að athuga, að það hafa orðið svo miklar breytingar á síðustu tímum og ekki fullkunnugt um, hve markaðurinn hefur breytzt í þessu efni, en efnafræðingurinn getur þess einnig í sinni skýrslu, að þó að þessi verkmunur verði ekki mikill, þá komi enn til athugunar, að flutningskostnaðurinn á hertri fitu verður að sjálfsögðu mun minni en á lýsi. En þessi hlutföll geta líka vel hafa breytzt síðan, og að sjálfsögðu lætur hæstv. ríkisstj. rannsaka allt slíkt áður en hún leggur í byggingu verksmiðjunnar, en ég vil þó leggja áherzlu á það, að það er að sjálfsögðu mjög mikil nauðsyn fyrir Íslendinga, að framleiðslan verði sem mest fullunnin, áður en hún er flutt út úr landinu, því að þeir tímar eru ekki löngu um liðnir, þegar eitt mesta böl okkar var skortur á erlendum gjaldeyri, sem að sjálfsögðu stafaði svo að segja eingöngu af því, að okkur vantaði aukin útflutningsverðmæti, en ekki af því, sem margir misskildu, að það stafaði af of miklum innflutningi. Slíkir tímar geta einnig verið framundan og að sjálfsögðu mikils vert fyrir okkur að geta flutt út meir af vinnu landsmanna en verið hefur og breyta henni í erlendan gjaldeyri, sem þjóðin aftur getur fengið erlendan varning fyrir, sem gæti gert henni mögulegt að lifa meira menningarlífi en ella. Ég held þess vegna, að jafnvel þótt verðmunurinn á fiskiolíunni, sem nú er flutt út svona hálfunnin, og á hertri fitu yrði ekki geysimikill og kannske ekki meiri en tilkostnaðurinn, þá sé samt sem áður geysimikill óbeinn hagnaður að því að fullvinna þessa vöru í landinu sjálfu. Ég hef ástæðu til þess að álíta og veit með sanni, að hæstv. ríkisstj. er slíkum málum sem þessum mjög hlynnt, og ég hef ekki flutt þessa till. fyrir því, að ég hafi á nokkurn hátt efazt um það, að hæstv. ríkisstj. mundi hefjast handa um þetta mál í raun og veru, en mér finnst ekkert á móti því og haganlegra, bæði fyrir Alþ. og hæstv. ríkisstj., að hæstv. ríkisstj. hafi þann bakhjarl, ef hún hefst handa í þessu máli, að hún styðjist við ótvíræðan þingvilja. Má segja óbeinlínis, að sá þingvilji sé fyrir hendi í samþykkt Alþ. 1942, þegar breyt. var gerð á l. um síldarverksmiðjur ríkisins, og þar eru fyrirmæli um það, að ríkið skyldi láta reisa verksmiðju til lýsisherzlu, en þetta er endurtekið, að ég held, ekki með öllu að óþörfu, og get ég ekki hugsað mér, að hæstv. ríkisstj. hafi neitt á móti því að hafa nýjan þingvilja til að styðja sig við í þessu efni.