09.01.1945
Sameinað þing: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (5302)

118. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h.f.

Sigurður Kristjánsson:

Þetta mál er orðið nokkuð gamalt á þingi. Náttúrlega er rétt frá skýrt í nál., að þrír þm. í fjvn. gátu ekki tekið þátt í samþ. meiri hl. n. né mælt með brtt. á þskj. 767. Ég vil gera grein fyrir minni afstöðu, en rifja um leið upp nokkur atriði.

Samþykkt sú, sem gerð var í fyrra um kaup á hlutabréfum, átti svo örðugt uppdráttar, að hún bar þeirrar meðferðar merki og var hvergi nærri viðunandi, hún var vandræðaúrlausn á þessu viðkvæma máli. Það var t.d. ekki réttmætt að binda þetta við upphaflega eigendur bréfanna eina. Erfingjar höfðu eignazt bréfin með fullum rétti, og líkt má segja um nýrri eigendur bréfanna í mörgum tilfellum öðrum, þótt tvímælis orki um hlutabréf, sem menn hafa keypt litlu sem engu verði af upphaflegum eigendum. Þeim eigendum þarf engan skaða að bæta, allra sízt ef talið væri, að bréfin væru meir en nafnverðs virði. Ég hefði talið réttmætt að greiða fyrri eigendum einhverja litla vexti af inneign þessari, sem þeir lögðu fram á sínum tíma til að styrkja stofnunina. Þótt því hafi að vísu ekki enn verið hreyft, tel ég ekki um seinan að minnast á það og taka það til athugunar.

Mér finnst, að hlutur þeirra manna, sem átt hafa allan þennan tíma þetta bundna fé, sé yfrið þungur orðinn, þótt þeir fengju nokkra vexti, en féð var bundið fyrir þeim með þeim hætti, sem menn mega muna. Íslandsbanki varð fyrir þeirri ógæfu að verða pólitískt bitbein og þoldi grimma ofsókn pólitískra fjandmanna, sem loks tókst að leggja hann að velli, þótt miðlunarmenn sneru því máli dálítið á aðra leið en til var ætlazt og sú ríka andúð, sem kom í þessari ofsókn fram gegn sjávarútveginum og öðrum þeim atvinnugreinum, sem bankinn hafði stutt, fengi ekki að hrósa algerum sigri. Meðan á þessu slátrunarstarfi stóð, kom það til tals, að þeir, sem inni ættu í bankanum, legðu fram helming þess fjár til að bjarga hag hans og gerðu það að hlutafé hans. Mikill hluti sparifjáreigenda varð við þessum tilmælum af þegnskap og velvilja. Það var fólk, sem safnað hafði þessum upphæðum á löngum tíma með ráðdeild og sparsemi og þurfti þeirra mjög til elliáranna eða annarra brýnna þarfa, en fékk ekki, fyrr en þá nú, vaxtalaust fé, rýrnað að verðgildi. Þjóðfélaginu sæmir ekki að verðlauna þegnskapinn þannig.

Þetta fé var lagt fram til að reisa Íslandsbanka við. Það var ekki lagt fram af eigendum til að stofna hinn nýja banka, sem við tók af hinum, Útvegsbanka Íslands, en forstöðumenn hans tóku það með valdi og slepptu ekki. Ég er viss um, að menn hefðu getað náð þessu fé af bankanum með því að leita hjálpar dómstólanna. En mönnum þykir ávallt ísjárvert að standa í málaferlum við bankana, sem þeir eiga aðra hluti til að sækja, svo að úr því varð ekki. Nú, þegar vitað er, að bréfin væru yfir nafnverði, ef ríkið sæi sér ekki hag í að hafa arðgreiðslur sem lægstar, er engin ástæða til að ræna þetta fólk rétti.

Ég vildi ekki vera með brtt. fjvn. af því, að ég áleit, að núv. eigendur hlutabréfanna séu mjög misvel að þeim komnir. En viðkunnanlegra hefði mér þótt, að till. væri orðuð sem heimild. Eftir þeirri skýringu, sem hæstv. fjmrh. gaf, og ummælum hans um sína afstöðu til heimildar, vildi ég segja, að ég hef talið, ef ekki er vitað um beina andstöðu ríkisstj. gegn slíku máli, að þá ætti Alþingi að láta vilja sinn í því í ljós í heimildarformi, — ríkisstj. mundi þá ekki þrjózkast gegn þeim þingvilja, heldur framkvæma hann, svo framarlega sem ekkert kæmi síðar í ljós, sem gerði framkvæmdina varhugaverða. Nú þegar hæstv. fjmrh. lætur í ljós, að heimildin muni ekki verða notuð, ætti að vera hættulaust að greiða atkv. með brtt., en um það kann þó enn að sýnast sitt hverjum. Hitt skiptir meira máli að mínum dómi, að sú venja skapist, að þingvilji, sem í heimildarformi er sýndur, skuli jafnan framkvæmdur, ef ekkert sérstakt verður til fyrirstöðu.