17.06.1944
Sameinað þing: 34. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (5452)

Gildistaka lýðveldisstjórnarskrár og forsetakjör

forseti (GSv):

Verður þá tekið fyrir síðara málið á dagskránni, sem er:

Kosning forseta Íslands fyrir tímabilið frá 17. júní 1944 til 31. júlí 1945.

Verður nú gengið til forsetakjörs, en samkvæmt ákvæði um stundarsakir í stjórnarskránni fer það fram eftir reglum um kjör forseta sameinaðs Alþingis. Verður útbýtt seðlum meðal þingmanna. [ Þingskrifarar útbýttu alls 50 seðlum, eða til allra viðstaddra þm., og skiluðu þeim aftur í hendur forseta.]

Atkvæði verða lesin, þar eð seðlum hefur verið skilað réttri tölu. [Forseti las upp atkvæðin.] Atkvæði hafa fallið þannig, að Sveinn Björnsson ríkisstjóri hefur hlotið 30 atkv., Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi 5 atkv., en 15 seðlar auðir.

Kosning er gild, — og lýsist yfir því, að

Sveinn Björnsson

er rétt kjörinn forseti Íslands tilskilið tímabil. Herra forseti Íslands, Sveinn Björnsson! Þér hafið nú verið kjörinn fyrsti forseti hins íslenzka lýðveldis. Ber yður að fullnægja 10. gr. stjórnarskrárinnar, er hljóðar þannig:

„Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.“

Eiðstafur þessi er svo hljóðandi:

„Ég undirritaður, sem kosinn er forseti Íslands, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá ríkisins.“

[Hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, gekk fram og tók sæti það, sem ætlað var forseta Íslands. Lagði skrifstofustjóri Alþingis fyrir hann til undirskriftar drengskaparheitið í tveim eintökum. Forseti undirritaði bæði eintökin, en þingmenn risu úr sætum og stóðu á meðan. Að því loknu afhenti skrifstofustjóri forseta sameinaðs Alþingis bæði hin undirrituðu eintök.]

Heitvinningu forseta er lokið.