20.10.1944
Sameinað þing: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (5459)

169. mál, kaup á efni í Reykjanesrafveituna

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Út af þeim orðum, sem féllu hjá hv. 2. þm. Eyf. um, hvað ríkissjóður hafi greitt í sambandi við Keflavíkurrafveituna, þá hef ég ekki tölur hjá mér í augnablikinu og get því ekki gefið upplýsingar um það. Ég vil benda á, að skv. þál. 12. nóv. 1943 er ríkisstj. heimilað að verja úr ríkissjóði allt að einni millj. kr. til að kaupa efni í Keflavíkurveituna. Nú er svo komið, að til þess að hægt sé að halda þessu áfram, hefur orðið að leggja fram frv., sem er komið fram í Ed., þar sem ríkisstj. er heimilað að taka lán allt að átján hundruð þús. kr. til að standast straum af þessu fyrirtæki, og ekki eingöngu það, heldur að ríkisstj. er heimilað að koma upp þessari rafveitu og ríkissjóður annist rekstur hennar eða feli opinberum aðilum, bæjar- eða hreppsfélögum, að gera það.

Þetta virðist mér benda ótvírætt á, að óhyggilegt væri að ráðast í slíkt mál með einfaldri þál. Fyrst og fremst vegna þess, að svo getur farið, að þessi mál lendi í fullri óreiðu, þegar til lengdar lætur, og í öðru lagi er engin trygging fyrir því, að ríkissjóður geti lagt út það fé, sem nauðsynlegt er til að hægt sé að halda þessu gangandi. Þess vegna gæti nægt, til að þetta geti komizt á heilbrigðan grundvöll, að fyrir lægi heimild til að taka nauðsynleg lán til að standast straum af þessu.

Þó að þessi till. verði samþ., þá getur vel komið að því, að nauðsynlegt verði skömmu síðar að leggja fram frv., sem fæli í sér heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán í þessu skyni. Ég hygg því, að málið verði á miklu traustari grundvelli, ef fyrir þessu verður séð þegar í byrjun.