07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

71. mál, Hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég vildi, um leið og ég þakka hv. heilbr.- og félmn. góðar undirtektir undir þetta mál, lýsa því yfir, að þegar búið verður að samþ. þetta frv., þá verður þegar hafinn undirbúningur að þessari byggingu. Það er að vísu ekki sennilegt, að hún verði framkvæmd á þessu ári, þó að væntanlega verði byrjað á hinni fyrirhuguðu fæðingardeild við Landsspítalann. En samhliða því, að hún kemst upp, þarf hjúkrunarkvennaskólinn að komast í framkvæmd, og þó að ekki sé á fjárl. tekin upp sérstök fjárveiting til þessa, þá liggur fyrir till. um að auka fjárveitingu til viðbótarbyggingar við sjúkrahús ríkisins úr 1 millj. upp í 2 millj., og það er meðal annars gert til þess, að mögulegt væri á næsta ári að koma þessu eitthvað áleiðis. Það eru hér síðar á dagskránni tvö mál, sem hafa verið lögð fyrir þessa hv. d., og vildi ég beina því til hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært að afgr. þau úr d. til hv. Nd. Það er full ástæða til þess, að þessi mál yrðu afgr. á þessu þingi, og því vildi ég biðja hæstv. forseta að afgr. þau á aukafundi á eftir þessum.