21.10.1944
Sameinað þing: 60. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (5618)

Stjórnarskipti

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Það var einstaka ónákvæmni í skýrslu formanns Framsfl., sem ég tel ekki ástæðu til að gera frekar að umræðuefni á þessum fundi, heldur vil ég vísa til þess, sem segir í skýrslu minni. Þó er það tvennt, sem ég verð að minnast á. Annað er það, að samningan. flokksins neitaði þann 3. okt. á milli kl. 6 og 7 á fundi með Jakob Möller, Bjarna Benediktssyni og mér að ganga í stjórn, sem Sjálfstfl. myndaði, og bar fram till. um stjórn undir forustu utanþingsmanns, og frá Framsfl. kom aldrei nein till. um forustu neins annars utanþingsmanns en þessa eina, sem Sjálfstfl. hafði með öllum atkv. fellt að ganga til stjórnarmyndunar með, því að hann hafði haft forustu ríkisstj., sem Sjálfstfl. gat ekki stutt.

Ég læt þetta nægja, en vil leyfa mér að þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir hlýleg orð hans í garð ríkisstj. Hún veit, að hún á eðlilegri andstöðu að mæta á Alþ., en vonar, að sú andstaða verði málefnaleg. Hún veit líka, að hún á að fagna skilningi a.m.k. þrjátíu og tveggja beinna stuðningsmanna, og út frá þeirra huga hefur hinn mæti 3. þm. Reykv. mælt. Ríkisstj. þakkar það hugarfar.