07.02.1945
Sameinað þing: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (5709)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Ég hef ekki hugsað mér að fara langt út í umr. um þetta mál, þar sem hv. fyrri þm. Árn. hefur þegar gert grein fyrir aðstöðu okkar.

Ég vil ítreka það, að eins og till. liggur fyrir, fær hún engan veginn staðizt. Í því sambandi vil ég benda á, að það er alveg nýbúið að kjósa yfirskoðunarmenn til að endurskoða reikninginn fyrir árið 1943, en það eru engir yfirskoðunarmenn til fyrir árið 1944. Og þeir verða ekki kosnir fyrr en eftir næstu áramót, vegna þess að engar líkur eru til, að reikningurinn verði búinn til endurskoðunar fyrr en eftir lok þessa árs. Við höfum margfundið að þessu fyrirkomulagi, og nú er ákveðið að loka reikningnum fyrr en verið hefur. Og það er framför.

Nú er það augljóst mál, að þeir, sem þessa till. flytja, og aðrir, sem um þetta mál hugsa, telja ástandið, eins og það er nú, ekki viðunandi og því verði að breyta til batnaðar á einhvern hátt. Ég fyrir mitt leyti vil, að því sé breytt á þann veg að afnema yfirskoðunina, eins og hún er nú rekin, en þegar stjórnarskránni verður breytt næst, verði þar ákveðið að haga yfirskoðuninni á allt annan hátt.

En eins og lokun og frágangi reikninganna hefur verið háttað á undanförnum árum, þá er það útilokað, að það hafi nokkra þýðingu að samþ. slíka till. eins og þessa, sem hér liggur fyrir frá allshn. Það rekur sig náttúrlega ekkert á, þótt till.samþ. eins og hún kom frá flm. í upphafi. Hún er bara einföld áskorun.