06.02.1945
Sameinað þing: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (5738)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. minni hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. — Ég skal ekki vera langorður að þessu sinni.

Hv. frsm. meiri hl. fjvn. vildi láta skína í það, að minni hl. væri andvígur þeirri stofnun, sem hér um ræðir, vinnuheimili S.Í.B.S., en það er alls kostar rangt, að svo sé.

Ágreiningurinn er einungis um það, í hvaða formi ríkið skuli styrkja þessa stofnun. Við álítum, að Alþ. ætti ekki að fara inn á þá braut að launa starfsmenn við þær stofnanir, sem ríkið hefur engin umráð yfir. Við vildum hins vegar ganga inn á þá braut, að ríkið legði til fjárhæð, sem svaraði launum eins starfsmanns. En í till. er þessi upphæð bundin við ákveðinn starfsmann, og því erum við á móti.

Þá virtist frsm. meiri hl. hneykslaður á því, að við tökum tillit til landlæknis í þessu efni. Það mun þó vera venja, að Alþ. leiti álits hans á svipuðum málum, og það ætla ég, að þá hafi miður farið, þegar ekki hefur verið farið eftir tillögum landlæknis varðandi heilþrigðismál. Er þess skemmst að minnast, þegar rokið var til í fyrra og stofnuð læknishéruð þvert ofan í till. landlæknis, en nú flytja sömu þm. till. um að fresta framkvæmd þeirra l. Það má vera, að launakjör þess manns, sem hér um ræðir, séu aukaatriði, en það er þó dálítið undarlegt, að nú, þegar mest er talað um að samræma laun, þá skuli hinir sömu þm., sem hyggjast setja reglur þar um, leggja til, að þær reglur verði þverbrotnar.

Mér þykir það undarlegt, að þessi maður, sem vafalaust er ágætur, skuli eiga að fá nú þegar sömu laun og læknar, sem búnir eru að starfa í 25 ár, en þetta má kannske lagfæra með því að hækka þá; það er hinn venjulegi gangur. (JJós: Hann kemur nú ekki frá prófborðinu.) Nei, hann hefur að vísu verið læknir um skeið, en ég hygg þó, að hv. þm. sjái, að hér er ekki um samræmi að ræða, og þar mun koma, að aðrir yfirlæknar munu krefjast hækkunar.

Það er nokkur bót, að fellt er úr till. þetta „árlega“, en samt mæli ég með, að till. minni hl. verði samþ. Sérstaklega vil ég undirstrika það, að verði till. meiri hl. samþ., er gefið alvarlegt fordæmi, sem getur leitt út í hinar mestu ógöngur.