12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (5803)

Fjarvistir þingmanna

Forseti (JörB):

Það hefur nú að vísu ekki nýlega borið á góma meðal forseta að gera neinar sérstakar ráðstafanir út af þessu, sem hv. þm. minntist á, enda eiga þeir ekki hægt um vik, nema að minna þm. á að fullnægja þingmannsskyldu sinni. En þó virðist mér ástundun þeirra hvað fundi snertir nú í seinni tíð með nokkuð öðrum hætti en tíðkazt hefur lengst af hér á Alþingi. Því að eins og hv. þm. N.-Ísf. benti á, vill oft við brenna, að menn sæki illa fundi, og þó að mætt sé á fundum, þá er varla hægt að halda mönnum þar, og ekki einu sinni við atkvgr. Ef ekki nægir að minna þm. á að fullnægja þingmannsskyldu sinni um að rækja störf hér í d., þá á forseti ekki annars úrkosta en að slíta fundi, þegar sýnt er, að ekki er hægt að koma málum áleiðis. (EOI: Það eru mörg störf, sem þarf að rækja.) En ein af þingmannsskyldum er að tilkynna forseta, ef menn eru forfallaðir frá að mæta á fundi. (EOl: Ég vildi leyfa mér að æskja þess, að hæstv. forseti vildi slíta fundi.) Það væri æskilegt, að borin væri fram ástæða fyrir þeirri beiðni, svo að maður viti deili á, hvað er svo aðkailandi, að þingfundir þurfi að falla niður. Því miður get ég ekki tekið slíka ósk til greina og vita ekki tilefni hennar.