04.12.1944
Sameinað þing: 69. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

143. mál, fjárlög 1945

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti, háttvirtu hlustendur. Þá hafa menn hlýtt á sanngjarnan, rólegan og velviljaðan dóm stjórnarandstöðunnar.

Hv. þm. Str. kvartar yfir því, að stj. hafi verið ófáanleg til þess að fresta þessum umr., og taldi, að það væri vegna þess, að stj. vildi komast hjá því að ræða gerðir sínar, þegar þær væru kunnar orðnar. Við þessu er það að segja, að auðvitað getur Framsfl., hvenær sem hann óskar þess, látið fara fram útvarpsumr., en auk þess taldi stj., að Framsfl. mundi ekki verða skotaskuld úr því að ráðast á stj. nú, eftir að hún þó hefur setið í sex vikur, úr því að flokkurinn taldi sig þess megnugan að rjúka af þingi og út um byggðir landsins til þess að ófrægja stj. viku áður en hún var mynduð.

Hv. þm. spáði miklum hrakspám fyrir stj. Enginn, sem hann þekkir, undrast þessi ummæli. Í hans augum eru allar stj. feigar, sem hann sjálfur hefur ekki forsæti fyrir. Það er eins og fyrrv. formaður Framsfl. sagði í Ófeigi nýlega, að „fyrir atbeina og úrræði samflokksmanna sinna hefur Hermann Jónasson setið samfellt átta ár í stj. landsins. Þessi óvanalega langa stjórnarseta hefur haft áhrif á dómgreind þessa tiltölulega líttreynda manns. Hann hefur komizt á þá skoðun, að honum væri svo að segja áskapað að vera ráðherra á Íslandi.“ í þessu ljósi verða menn að dæma þá ræðu, er hv. þm. Str. flutti áðan.

Við á Alþ. þekkjum þetta vel. Við skiljum hugarfar mannsins, sem gengið hefur milli okkar síðustu missirin og sagt okkur, að við gætum valið á milli þess að taka við honum sem forsrh. eða fullkomins hruns í atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar. Það væri sjálfsagt óviðfelldið fyrir mann með hans sjálfstrausti; ef hvorugt skyldi verða, enda heyrðu menn óskir hans, spár og vonir um nýsköpunina, þ.e.a.s. velferð og heill Íslendinga.

Hv. þm. sagði, að ég hefði 1942 keypt völdin því fyrirheiti, að stj. vekti ekki ágreining og allra sízt um dýrtíðarmálin. Þess vegna hefðu gerðardómsl. orðið undir. Þetta sýnir vel baráttuaðferð Framsfl., því að hv. þm. sleppti því meginatriði, að stj. lýsti yfir því, að hún mundi halda uppi gerðardómsl., meðan þess væri nokkur kostur. Þetta fyrirheit efndi hún, og það var ekki fyrr en sjálfur höfundur gerðardómsl., nefnilega þessi sami hv. þm., réðst aftan að sínu eigin afkvæmi í útvarpsræðu fyrir júlí-kosningarnar, að gerðardómsl. voru dauðadæmd.

Hv. þm. sagði, að fjármál ríkisins væru í öngþveiti vegna þess, að Sjálfstfl. hefði farið með þau frá 1939–1942. Það er nú öllum kunnugt, að fjárhagur ríkisins stóð með blóma í árslok 1942, en annars væri þessi dómur, ef sannur væri, þungur áfellisdómur um þann mann, sem stjórnarforystuna hafði lengst af þetta tímabil, en það var einmitt þessi hv. þm. sjálfur. Annars lýstu þessi ummæli, að ekki er af miklu að taka varðandi árásarefni á stj., og sama má segja, þegar hann var að leitast við að kenna núv. stj. um, hversu nú er komið um fjárhaginn. Allir hljóta þó að sjá, að stj., sem aðeins hefur setið í sex vikur, getur ekki borið á því neina ábyrgð, en að öðru leyti er það sannmæli, að þeir örðugleikar, sem nú verður við að etja, eru ef til vill meira að kenna þessum hv. þm. en nokkrum einstökum stjórnmálamanni þjóðarinnar.

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. muni víkja nánar að fjármálunum, áður en þessum umr. lýkur. Ég læt því nægja að spyrja nú: Ef það er skoðun hv. þm. Str., að komið sé í annað eins ógurlegt öngþveiti og hann lýsti, hvernig í ósköpunum stendur þá á því, að hann hefur þagað gersamlega við þessu undanfarin tvö ár, meðan sú stj. fór með völd, sem hann raunverulega studdi?

Hv. þm. fjargviðraðist mikið yfir því sundurlyndi, er hann taldi ríkja í Sjálfstfl., og kvað hann þann ágreining mjög alvarlegan vegna þess, að hann væri um „málefni“, eins og hann komst að orði.

Já, ágreiningur — og það um málefni — fannst þessum hv. þm. nokkuð óvenjulegt fyrirbrigði. En um hvað skyldi þá ágreiningurinn vera í Framsfl., úr því að hann er ekki um „málefni“? Er hann eingöngu um það, hver á að kallast formaður í flokknum, og annað því um líkt ytra form? Ég get svo sem vel svarað þeirri spurningu, því að sá ágreiningur er sannarlega málefnalegur. Hann er meira að segja svo málefnalegur, að skapari þessa flokks og raunar valdaferils hv. þm. Str. einnig er nú farinn að gefa út tímarit til þess að deila á stefnu hv. þm. Str. og samherja hans í Framsfl., sem hann telur vera hreina glæfra, sem stefna muni öllu atvinnulífi þjóðarinnar til gjaldþrots. Þegar því þessi hv. þm. talar um sundurlyndi og ágreining, held ég honum væri nær að líta sér nær. Það er þá líka vitað, að Framsfl. um land allt er gersamlega klofinn, og mun þessi þm. hafa sannprófað það nú nýverið, er hann var að hendast um landið til að ófrægja stjórnina.

Að öðru leyti vil ég í beinu tilefni af ræðu hv. þm. Str. og sem svar við henni nota þetta fyrsta tækifæri, sem mér hefur gefizt til þess að tala í áheyrn þjóðarinnar eftir myndun hinnar nýju stjórnar, til að rekja þau tvö höfuðatriði, sem stjórnarandstaðan hefur mest haldið á loft. Mun ég gera grein fyrir, hvernig á því stendur, að Framsfl. varð,utan við stj., og einnig svara þeirri gagnrýni, er stefnt hefur verið að nýsköpunarfyrirætlunum stjórnarflokkanna.

Þegar Sjálfstfl. vorið 1942 neyddist til að taka við stjórnartaumunum, vegna þess að allir aðrir skoruðust undan því, sat flokkurinn við völd, eingöngu meðan hann var að binda endi á þau mál, sem fyrir lágu og nauður rak til að koma áleiðis: kjördæmamálið, sem leitt var til farsælla lykta, og sjálfstæðismálið, sem komið var áleiðis um mjög merkan áfanga, raunar miklu merkari áfanga en flestir Íslendingar enn gera sér ljóst. En að þessu loknu tók Sjálfstæðisflokkurinn eðlilegri afleiðingu af því, að hann réð ekki við vaxandi dýrtíð í landinu, sem ekki var þá heldur að vænta, þegar andstæðingar hans tóku höndum saman um að berjast gegn föstu verðlagi. En Sjálfstfl. réð þá aðeins yfir 16 þm. (sá 17. var farinn af landi burt) — af 49 þm.

Eftir að Sjálfstfl. baðst lausnar, gerði hann þá till. við þáv. ríkisstjóra Íslands, að reynd yrði myndun fjögra flokka stjórnar í landinu í því skyni að koma á allsherjarsamstarfi með allri þjóðinni. Þessi tilraun stóð lengi yfir, sem kunnugt er. Sjálfstfl. fór þá á fremsta hlunn um tilboð í áttina til óska hinna, vegna þess, hversu honum var ljóst mikilvægi samstarfs til úrlausnar þeim verkefnum, sem þá lágu fram undan, — og þá fyrst og fremst lokasporið í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þessar tilraunir mistókust, sem kunnugt er.

Þá tóku við tilraunir undir forystu Framsfl. við hina tvo þingflokkana, Alþfl. og Sósfl., til samstarfs milli þessara þriggja flokka. Þær tilraunir stóðu yfir í fimm mánuði, lauk hvatskeytslega með kveðjusendingum, sem stóðu yfir í aðra fimm mánuði og löngu eru alþjóð kunnar.

Á landsfundi Sjálfstfl., sem haldinn var í júní 1943 á Þingvöllum, var samþ. eftirfarandi ályktun: „Landsfundur sjálfstæðismanna, haldinn á Þingvöllum 18. og 19. júní 1943, lítur svo á, að þingflokkur sjálfstæðismanna hafi gert allt, sem í hans valdi stóð, til þess að mynduð yrði þingræðisstjórn á síðastliðnu þingi.

Telur landsfundurinn æskilegt, að Sjálfstfl. vinni að því að koma á sem viðtækastri stjórnmálasamvinnu í landinu og að mynduð verði þingræðisstjórn, er njóti stuðnings meiri hluta Alþingis.“

Þingflokkur og miðstjórn Sjálfstfl. hafa síðan sleitulaust unnið í samræmi við þessa ályktun. En þó taldi flokkurinn vonlaust að hreyfa málinu, fyrr en svo langt var dregið að stofnun lýðveldisins, að öllu Alþ. var orðið ljóst, að það var höfuðsmán, að þjóð, sem í nafni þingræðis og lýðræðis var að endurreisa fullt frelsi og endurreisa lýðveldi sitt, reyndist ófær um að inna af hendi frumskyldu slíkrar smáþjóðar, það er að segja að mynda þingræðisstjórn í landinu. Á grundvelli þessa skilnings, sem þannig var vakinn í huga allra — eða allflestra — þm., vogaði Sjálfstfl. sér að reyna að tengja saman hin sundurleitu öfl til stjórnarmyndunar, sem átti að verða með þeim hætti, að stj. yrði komið á í landinu um 20. júní, en þó þannig, að hægt væri að gefa þjóðinni það í morgungjöf lýðveldisins, að Alþ. hefði haft sig undan ámælinu og komið sér saman um stofnun allsherjarstjórnar. Þessi tilraun mistókst því miður, eins og allir menn vita.

Sjálfstfl. lét þá kyrrt liggja þar til seint í júlímánuði. Þá hófumst við handa, Jakob Möller, Bjarni Benediktsson og ég, eftir fyrirmælum flokksfundar í þingflokki sjálfstæðismanna um að halda áfram slíkum tilraunum.

Frá byrjun ágústmánaðar og fram í byrjun októbermánaðar voru fundir haldnir stundum daglega, stundum annan hvern dag milli allra fjögurra flokka þingsins. Þar voru málin þrautrædd fram og aftur. Þannig stóð, þar til Sjálfstfl. hinn 14. sept. s.l. tók af skarið og skrifaði hinum flokkunum bréf, þar sem hann dró upp mynd af ástandinu og horfunum fram undan og lagði til, að flokkarnir gengju til stjórnarmyndunar á grundvelli málefnasamnings, sem flokkurinn varpaði fram í þessu sama bréfi. Málefnasamningur þessi varð síðar megingrundvöllur þess tilboðs, sem ég gerði Alþfl. og Sósfl., eftir að forseti Íslands hafði falið mér að mynda stj. Þessu bréfi okkar var vel tekið af öllum flokkum, og fljótlega fengum við svör. Héldu svo umr. áfram þar til 2. okt. s.l., að formaður þingflokks framsóknarmanna, Eysteinn Jónsson, lýsti yfir á fundi í 12 manna n., þ.e.a.s. samninganefnd allra fjögurra þingflokka, að hann líti svo á, að þessum umr. væri lokið, og kvað Framsfl. ekki reiðubúinn til að taka frekari þátt í þeim að óbreyttum kringumstæðum.

Eftir að ríkisstj. Björns Þórðarsonar sagði af sér, hafði forseti Íslands kvatt formenn flokkanna á sinn fund og tekið af okkur skýrslur um horfur til stjórnarmyndunar. Honum var eins og öðrum kunnugt, að samningstilraunir stóðu yfir milli allra þingflokka. Á þeim fundi tók ég að mér samkv. beiðni forsetans að láta hann vita, hversu stæði um horfur í þessum samningsumleitunum. Og þegar nú formaður Framsfl. gaf þessa yfirlýsingu, tilkynnti ég forseta það og óskaði eftir, að forsetinn kallaði formenn flokkanna á nýjan fund til þess þar að fá staðfest ummæli formanns Framsfl. Forsetinn gerði þetta, og formennirnir komu á fund til hans 3. okt. s.l. kl. 11 f.h. Á þessum fundi staðfesti form. Framsfl. yfirlýsingu sína. Þar með var formlega lokið tilraunum til myndunar fjögurra flokka stjórnar. Eins og allir menn skilja, er ekki hægt að mynda fjögurra flokka stjórn með þremur flokkum. Einn hafði skýrt tekið fram, að hann teldi þeim umr. lokið.

Forseti Íslands bað mig að verða eftir, þegar formenn hinna flokkanna gengu af fundi. Mæltist hann til, að ég tæki að mér að gera tilraunir til stjórnarmyndunar. Ég svaraði því til, að ég myndi bera þessa ósk forseta undir þingflokk sjálfstæðismanna og gera annað tveggja að gera tilraunina sjálfur eða benda forsetanum á mann til þess. Á fundi Sjálfstfl. þennan sama dag kl. 5 e.h. var svo samþ. að fela mér að gera þessa tilraun, enda þótt ég sjálfur væri í nokkrum vafa um, hvort ekki væri réttara, að aðrir gerðu hana þá þegar. En hvort tveggja var, að þeir, er ég taldi líklegasta, færðust eindregið undan því við mig, sem og hitt, að flokknum þótti réttast að byrja með því, að formaður flokksins gerði tilraunina. Flokksfundi sjálfstæðismanna var lokið kl. 6 síðdegis þennan þriðjudag. Þá óskuðum við í samninganefnd Sjálfstfl., Bjarni Benediktsson, Jakob Möller og ég, eftir samtali við Framsfl. Samninganefnd kom þegar, þeir Hermann Jónasson, Eysteinn Jónsson og Sveinbjörn Högnason. En við þá Hermann og Eystein ásamt Steingrími Steinþórssyni, er fram að þessu var þriðji maður í samninganefnd Framsfl., höfðum við áður átt viðræður og stungið upp á, að Sjálfstfl. og Framsfl. mynduðu stj. einir, ef allt annað reyndist ómögulegt, fremur en una við það ástand, sem verið hefur undanfarin tvö ár. Á þessum fundi spurði ég framsóknarmennina, hvort Framsfl. vildi ganga til stjórnarmyndunar undir forystu Sjálfstfl., sem nú hefði verið falið að mynda stj. En ég vil taka skýrt fram og kem nánar að því síðar, að þó að mér bæri samkv. umboði, sem forseti Íslands hafði falið mér, að spyrja um, hvort framsóknarmenn vildu ganga í stj., sem Ólafur Thors myndaði, þá spurði ég ekki um það, heldur, hvort þeir vildu ganga inn í stj., sem Sjálfstfl. myndaði. Framsfl. svaraði skýrt og ákveðið neitandi. Hann gerði hins vegar aðra till., þá, að endurreist yrði stjórn Björns Þórðarsonar með því að gera hann að forsrh. Skyldi svo Framsfl. og Sjálfstfl. leggja tvo menn hvor í þá stj. Framsfl. orðaði það, þó að hann gerði það aldrei að skriflegu skilyrði, að annað ,ráðherraembættið yrði skipað fyrrv. utanrrh. Vilhjálmi Þór, þannig að tveir rh. úr stj. Björns Þórðarsonar yrðu áfram. Sjálfstfl. hafnaði þessu og hafði raunar áður gert það. Vík ég að því síðar.

Ég tilkynnti þá samningan. Framsfl., að ég mundi nú snúa mér til Alþfl. og Sósfl. a.m.k. jöfnum höndum, þar eð ég liti svo á, að æskilegt væri að ljúka þessu starfi hið skjótasta. Ætlaði ég mér að skila af mér strax daginn eftir og datt þá alls ekki í hug, að mér mundi takast að mynda stj. Hvort flokkurinn léti síðan aðra reyna, ætlaði ég að gera till. um, þegar ég sæi, hvað þessar umleitanir mínar leiddu í ljós, þ.e.a.s., hvort það kæmi fram, að aðrir innan flokksins væru líklegri til að geta myndað stjórn.

Daginn eftir sneri ég mér til Alþfl. og Sósfl. og lagði fyrir báða flokkana drög að málefnasamningi, sem ég taldi, að væru líkur til, að þeir af sjálfstæðismönnum, sem á annað borð vildu ganga til samstarfs við verkalýðsflokkana, vildu aðhyllast. En ég tók þá skýrt fram, eins og í öllum þessum samningum síðar, að allt, sem boðið var fram, var boðið fram af mér persónulega og þurfti að samþykkjast að lokum af mínum flokki, áður en ég gæti myndað stj. í nafni Sjálfstfl. á grundvelli þessara málefna. Ég sagði hins vegar umboðsmönnum þessara flokka, að þeir mættu treysta því, að yfirleitt mundi ég ekki bjóða annað en það sem ég teldi sterkar líkur fyrir að fá samþ. Sem kunnugt er, leiddu þessar samningsumleitanir til stjórnarmyndunar hinn 21. október s.l., og hygg ég, að fæstir hafi búizt við, að svo mundi fara.

Í rauninni gæti ég látið hér staðar numið. Þó vil ég að marggefnu tilefni víkja lítið eitt nánar að Framsfl. og sýna fram á, að ekki er við mig eða okkur sjálfstæðismenn að sakast út af því, að hann er utan við stjórnina.

Ég vil þá fyrst endurtaka, að það vorum við sjálfstæðismenn, sem frá öndverðu höfðum forystuna um tilraunir til myndunar fjögurra flokka stj. Við héldum þeim áfram svo lengi og með svo mikilli þrautseigju, að við lá, að framsóknarmenn hefðu okkur að athlægi fyrir. Og það vorum ekki við, sem þolinmæðina brast að lokum, heldur var það, eins og áður er greint, formaður þingflokks Framsfl., sem tilkynnti, að hann mundi ekki lengur taka þátt í þessum fundahöldum. Þegar hér var komið og forseti Íslands hafði falið mér að mynda stj., þá sneri ég mér ekki, eins og ég gat áðan um, til Alþfl. og Sósfl. fyrst, sem þó var eðlilegt og þinglegt, vegna þess að það var Framsfl., sem hafði lýst yfir, að hann teldi ekki hægt að mynda fjögurra flokka stj. Ég snéri mér fyrst til Framsfl.

Vík ég þá aftur að því, er ég gat áður, að meðan stóð á fjögurra flokka tilraununum og svo óvænlega horfði, að okkur sjálfstæðismönnum sýndist sem útilokað mundi, að takast mætti fjögurra flokka samstarf, snerum við okkur til Framsfl. og spurðumst fyrir um, hvort hann væri reiðubúinn að ganga til samstarfs við Sjálfstfl. einan, ef allt um þryti, fremur en una því ástandi, er verið hefði. Tóku framsóknarmenn þessu fjarri í öndverðu og allt þar til hinn 27. sept., að þeir Eysteinn Jónsson og Hermann Jónasson tjáðu Bjarna Benediktssyni og mér, að þeir teldu, að eftir samstarf framsóknarmanna og sjálfstæðismanna á búnaðarþinginu væri eðlilegast, að þessir flokkar mynduðu stj. saman. Hétu þeir Hermann og Eysteinn að ræða það mál nánar við okkur daginn eftir. Eigi komu þeir þó til fundar á tilsettum tíma og eigi fyrr en 29. sept. Voru þeir nú horfnir frá fyrri skoðun sinni og vildu nú það eitt, að endurreist yrði stj. Björns Þórðarsonar, og skyldu Sjálfstfl. og Framsfl. leggja í þá stj. tvo menn hvor. Ekki töldum við Bjarni, að slík uppástunga mundi hljóta byr hjá sjálfstæðismönnum, enda litum við svo á, að eftir allt, sem sagt hafði verið um stj. Björns Þórðarsonar, — með fyllstu virðingu fyrir hinum einstaka heiðursmanni, Birni Þórðarsyni, persónulega, — væri alls ekki kleift að gera tilraun til að bjarga leifunum af æru þingsins með því að krjúpa aftur á kné og leita á náðardyr þeirrar stj., sem við fram að þessu höfum ekki talið viðunandi. Lauk svo þeim fundi. En einum eða tveimur dögum síðar var till. þessi borin upp á fundi í þingflokki sjálfstæðismanna og felld þar með atkvæðum allra 20 þm. flokksins. Var það tafarlaust tilkynnt Framsfl.

Þegar ég nú sneri mér til Framsfl. þriðjudaginn 3. okt. og ég gat áðan um, lagði Framsfl. fram skriflega yfirlýsingu. Þar segir m.a.:

„Fyrir því gerir Framsóknarflokkurinn það að tillögu sinni, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn standi saman um ríkisstjórn, er þannig sé mynduð, að núverandi forsætisráðherra, dr. Birni Þórðarsyni, sé falið forsæti í henni, ef hann er fáanlegur til þess, en flokkarnir tilnefni sína tvo ráðherrana hvor til viðbótar.“

Af þessu sést, að Framsfl. neitaði að ganga í stj., sem Sjálfstfl. myndaði. Af þessu sést enn fremur, að eina sáttatilboðið, sem Framsfl. bar fram, var, að Sjálfstfl. renndi niður þessari till. framsóknarmanna, sem allir vissu, að hver einasti þm. Sjálfstfl. var nýbúinn að hafna. — Slíka kosti er kannske reynandi að setja gersigruðum mönnum, — öðrum ekki.

Í þessu sambandi vil ég alveg sérstaklega geta þess, að við sjálfstæðismenn vorum alls ekki óviðmælanlegir um utanþings-forsrh., — þvert á móti. Við stungum sjálfir upp á fleirum en einum. En framsóknarmenn höfnuðu öllum slíkum tillögum.

Ég tel nú ekki, að frekari vitna þurfi við varðandi viðleitni okkar sjálfstæðismanna til að ná samstarfi við Framsfl. Þó vil ég að gefnu tilefni bæta því við, að Framsfl. var af margítrekuðum ummælum mínum vel ljóst, að enda þótt ég teldi eðlilegt, að Sjálfstfl. hefði forystu slíkrar stj., kom mér ekki til hugar að ætla sjálfum mér þá stjórnarforystu. Frá þessu skýrði ég bæði samningan. flokksins og mörgum þm. hans. Ég sagði meira. Ég sagði, að ég kærði mig ekkert um að vera í stj. fremur en verkast vildi. Ég sagði meira: að mér væri nákvæmlega sama, þótt, Eysteinn Jónsson væri í stjórninni, en ég ekki. Ég sagði meira. Ég lét berast til Hermanns Jónassona~r, að mér væri nákvæmlega sama, þótt hann væri í stj., en ég ekki.

Ég viðurkenni fúslega, að ég var alltaf veiktrúaður á ágæti stj. Framsfl. og Sjálfstfl. einna. Ég óttaðist, að þótt hún hefði mikið þingfylgi, yrði hún svo veik út á við, að hún fengi við ekkert ráðið, með verkalýðsflokkana í harðvítugri andstöðu. Ég kaus þó fremur slíka stj. en þá, sem var, og reyndi því að koma henni á, þar sem ég var þá vonlaus um víðtækara samstarf. Eftir á fagna ég því, að Framsfl. taldi sér fært að setja svo þrönga kosti, að sú stjórnarmyndun fór út um þúfur.

En, — spyrja menn, — hvað var það þá, sem fyrir Framsfl. vakti? — Ég held, að sú gáta sé ekki mjög torráðin. Framsfl. ætlaði sér til lengstra laga að halda dauðahaldi í stj. Björns Þórðarsonar. Sú von bliknaði, þegar stj. Björns Þórðarsonar sagði af sér. Eftir það sóttist Framsfl. eftir sem blæminnstri stj. með sem allra veigaminnstum málefnasamningi. — En hvers vegna? Það var vegna þess, að þessi veika stjórn átti að standa til vorsins. Þá átti að kjósa. Þá átti að segja kjósendum: „Meðan við framsóknarmenn vorum stærsti flokkurinn, þá var landinu stjórnað. Þegar Sjálfstfl. er orðinn stærsti flokkurinn hefst stjórnleysið.“ Þetta er það, sem átti að segja. Síðan átti að berjast við okkur í kosningunum um mál, sem við vorum fúsir til að semja um nú, og biðja svo kjósendur um hreinan meiri hluta handa Framsfl. Ég græt þurrum tárum yfir, að þetta skyldi ekki takast. Hitt harma ég, að ekki tókst að skapa þann allsherjarfrið, sem þjóðin svo lengi hafði þráð. „En fátt er svo illt, að einugi dugi“. Það er einn kostur á því, að Framsóknarhlekkurinn brást. Hann er sá, að nú er loks sýnt, — í fyrsta . skipti í 17 ár —, að hægt er að koma á sterkri stj. í landinu, þótt Framsókn sé utan gátta. Og sjálfstæðismönnum til sjávar og sveita vil ég sérstaklega segja það, að þeir verða að gera sér ljóst, að Framsfl. er ævinlega reiðubúinn að ganga til samstarfs við verkalýðsflokkana eina án Sjálfstfl.

Þori Sjálfstfl. ekki að ganga til slíks samstarfs án Framsfl., hefur hann með því lóghelgað þá stjórnarforystu Framsfl., sem sjálfstæðismenn um land allt hafa í nær tvo áratugi háð einbeitta og markvissa baráttu til að hnekkja.

Ég skal þá víkja að þeirri gagnrýni, er beint hefur verið gegn ríkisstj. og stefnu hennar.

Í ræðu þeirri, er ég flutti f.h. ríkisstj. hér á Alþ., er hún tók við völdum hinn 21. okt. s.l., las ég upp þann málefnasamning, er þeir flokkar, er að stj. standa, hafa gert með sér, og skýrði jafnframt stefnu stj. Í þeim samningi segir m.a.:

„Það er meginstefna stjórnarinnar að tryggja það, að allir landsmenn geti haft atvinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur. Þessu markmiði leitast stjórnin við að ná með þessu:

Af erlendum gjaldeyri bankanna í Bretlandi og Bandaríkjunum sé jafnvirði eigi minna en 300 millj. ísl. króna sett á sérstakan reikning. Má eigi ráðstafa þessum gjaldeyri án samþykkis ríkisstjórnarinnar og eingöngu til kaupa á eftirtöldum framleiðslutækjum:“ —

Er síðan gerð nánari grein fyrir, á hvers konar tækjum ætlunin sé að festa kaup til nýsköpunar atvinnulífsins.

Þennan meginþátt í málefnasamningi stj. skýrði ég síðan allnákvæmlega. Gat ég þess, að gjaldeyri þessum mætti eigi verja til annars en nýsköpunar atvinnulífsins, en hann væri öllum frjáls, er hann vildu kaupa til þeirra framkvæmda, er féllu undir nýsköpunina. Væri stj. fús til að greiða götu allra í þeim efnum, en ætlað væri, að einstaklingar og félög, þar með talin bæjar- og sveitarfélög, eignuðust framleiðslutæki. Þá gat ég þess, að kæmi til kasta ríkisins í þessum efnum, væri ætlað að afla þess fjár með lántökum. Til mála kæmi og að skylda menn til að taka þátt í þeim lánum eða jafnvel í þeim fyrirtækjum, er tækin keyptu og starfræktu.

Þessi ummæli lýsa vel því, er fyrir stj. vakir, og tel ég óþarft að skýra þau frekar.

Þegar er stj. tók við völdum, byrjaði hún fyrir sitt leyti að undirbúa, svo sem auðið er, framkvæmdir á þessu meginatriði í stefnuskrá sinni, og þegar eftir þinghléið bar hún fram það frv. um nýbyggingarráð, sem nú er orðið að lögum. Mun nýbyggingarráðið bráðlega hefja störf sín og þá að sjálfsögðu taka við málunum eins og þau standa nú í höndum ríkisstj.

Þótt undarlegt megi virðast, er það einmitt þessi þáttur í málefnasamningi stj., fyrirheitið um að breyta gömlum tækjum í ný og taka í þjónustu atvinnulífsins þau fullkomnustu tæki, sem völ er á, , sem sætt hefur mestri gagnrýni, að ég segi ekki andúð, af hendi stjórnarandstöðunnar. Fyrst í stað var af sumum reynt að breiða út þann orðróm, að með þessu væri einkaframtakinu tekin gröf, þjóðnýtingin væri sett í öndvegið, ríki sósíalismans væri stofnsett á Íslandi. Róleg athugun almennings hefur nú löngu blásið burt þessum tyllirökum, og þjóðnýtingarskrafið er þagnað. En stjórnarandstaðan er ekki þögnuð. Hún heldur enn áfram leynt og ljóst að auðvirða fyrirætlanir stj. og reyna að vekja tortryggni í hennar garð og beitir í því skyni öllum vopnum, svo líklegum sem ólíklegum. Annan daginn eru haldnar um það ræður og skrifaðar blaðagreinar, að Íslendingar eigi þess alls engan kost að fá nein tæki keypt erlendis. Fyrirheit stj. séu því gaspur eitt, nýsköpunin sé „nýju fötin keisarans“ og það sé áreiðanlegt, að stj. verði farin frá, löngu áður en nokkur nýsköpun hefjist. Hinn daginn kveður við allt annan tón frá sömu mönnum og blöðum. Þá er sagt, að fyrirætlanir stj. séu skelfilegt glæfrafyrirtæki; stj. sé að stefna ríkissjóði og fjármunum einstaklinga beint út í fen gjaldþrotsins, það sé glapræði hið mesta, ef nokkur láti ginnast til að afla nýrra tækja, fyrr en búið sé að stórlækka allt kaupgjald í landinu. Nú er hið nýja kjörorð: Allt á að bera sig. Fyrr en búið sé að draga þann fána stjórnarandstöðunnar við hún, — fyrr en búið sé að tryggja með stórfelldum kauplækkunum, að „allt beri sig“, sé það ekkert nema „þjóðlygi“ að ætla sér að hefja nýsköpun eða afla nokkurra nýrra tækja til, landsins, eins og formaður þingflokks Framsfl. orðaði það hér á Alþ. á dögunum.

Þessum og þvílíkum rökum, ef rök skyldi kalla, er reynt að dreifa út meðal almennings með fundahöldum, blaðaskrifum og einkaviðtölum. Á þessum grundvelli hefur verið borið fram vantraust á ríkisstj., sem náði þó ekki samþ. Alþ., eins og kunnugt er. Ég verð nú að hryggja stjórnarandstöðuna með því að segja frá, að enda þótt enn hafi eigi tekizt að afla samþykkis brezkra stjórnarvalda til skipasmíða í Englandi, er síður en svo vonlaust um, að Íslendingum gefist kostur á að smíða þau skip, er þeir þurfa, annars staðar. Og enn fremur þykir mér rétt að segja frá því, að stj. hefur nokkra ástæðu til að vona, að áður en langt um líður, verði einnig mögulegt að afla landsmönnum margra þeirra tækja, er þá vanhagar um. Það er því varlegra fyrir stjórnarandstæðinga að herða róðurinn, ef þeir ætla að koma stj. fyrir kattarnef, áður en tækin koma til landsins.

Í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál að undanförnu hér í höfuðstaðnum, utan þings og innan, hefur mér virzt sem heldur hafi reynzt skjóllítið síðasta virki stjórnarandstöðunnar, að „allt verði að bera sig“. Ekki vegna þess, að nokkur maður véfengi, að þegar til lengdar lætur, verður atvinnurekstur landsmanna að bera sig, heldur af hinu, að stjórnarandstæðingum hefur orðið nokkuð stirt um að svara þeim spurningum, sem fyrir þá hafa verið lagðar, svo sem:

Hvort þeir telji líkur fyrir, að hin nýju tæki taki til starfa fyrr en eftir svo sem ár?

Hvort nokkur þeirra geti sagt, hve mikið þurfi að lækka kaupið nú til þess að tækin beri sig þá? Hvort einhver þeirra viti kannske, hvað afurðaverðið muni þá verða?

Eða afkastaaukning tækjanna?

Hvernig yfirleitt sé hægt með kauplækkun í dag að tryggja hag af atvinnurekstrinum á árinu 1946?

Hvort íslenzkir atvinnurekendur hafi fram að þessu heimtað slíkar tryggingar, áður en þeir ákváðu að smíða skip eða reisa verksmiðju?

Eða hvernig þeir ætla að koma þessum kauplækkunum fram? — O.s.frv.

Skynsamleg svör við þessu hafa að vonum enn ekki heyrzt.

Stjórnarandstæðingar vita líka vel, að nú þegar er hafið kapphlaup um pantanir framleiðslutækja frá þeim, er þau selja. Af því leiðir, að ef við Íslendingar sætum ekki færi, heldur hikum og bíðum í von um kauplækkanir, svo að allt fari „að bera sig“, er meira en líklegt, að þegar við loks ákveðum .okkur, fáum við engin tæki, vegna þess að búið sé að selja öðrum þau.

Væri slíkt örlagaríkt sjálfskaparvíti.

Það er þá líka svo um Framsfl., a.m.k. að því er viðkemur báðum núv. formönnum flokksins, að það var ekki fyrr en eftir, að hin nýja stj. var mynduð, þ.e.a.s. eftir, að séð varð, að þeir áttu ekki sjálfir að vera í henni, að þeir gerðust leigjendur í hinu nýja vígi „allt á að bera sig“, og skal ég síðan sanna það. En á þessu stigi málsins vil ég leiða athygli hlustenda að því, að eins og málið liggur fyrir, er um tvær stefnur að ræða. Stjórnarandstaðan segir: „Við krefjumst stórfelldra kauplækkana. Ef verkalýðurinn hlýðir ekki þeirri kröfu, verða engin tæki keypt til landsins“. Stjórnarliðar segja hins vegar: „Slík krafa er hvorki skynsamleg né sanngjörn. Að sönnu er það svo, að verkalýðurinn hefur borið talsvert úr býtum hin síðari ár og býr nú við betri kjör en nokkru sinni fyrr. Samt sem áður er það fásinna að ætla, að hann láti bjóða sér baráttulaust að skerða að verulegu leyti lífskjör sín, fyrr en búið er að þrautreyna allar eðlilegar leiðir, sem fyrir hendi kunna að verða og að því miða, að komizt verði hjá þessu óyndisúrræði.“

Krafa stjórnarandstöðunnar nær því aldrei fram að ganga án mikillar, örlagaríkrar og óheillavænlegrar baráttu. Hvernig sú barátta endar, veit enginn fyrir fram. En hitt vita allir, að hún verður ekki háð án stórkostlegra fjárfórna, sem færðar verða á kostnað alls almennings í landinu. Þegar af þessum ástæðum er sýnt, að stjórnarandstaðan er á villigötum. — Við þetta bætist, að eins og öllum er ljóst, hafa á margar hendur safnazt miklir og óvæntir fjármunir og oft bæði skjótfengnir og auðfengnir. Það er fullkomlega réttmætt, að hið opinbera tryggi það eftir því, sem föng eru á, að þessum fjármunum verði varið til þess að afla þjóðinni nýrra og fullkominna tækja og það jafnvel þótt fyrir fram væri vitað, að með þessu móti væri lögð á eigendur þessara fjármuna nokkur áhætta á verðfalli framleiðslutækjanna, frá því að þau eru pöntuð og þar til að þau taka til starfa. Um þetta veit þó enginn, og það er a.m.k. hugsanlegt, að hið gagnstæða yrði ofan á, að þessi framleiðslutæki hækkuðu í verði, á meðan þau eru í smíðum. En hvað sem þessu líður, þá verður að viðurkenna, að það er engin sanngirni að ráðast á þá lægstlaunuðu og heimta, að þeir lækki kaup og kjör sín, meðan aðalframleiðsla þjóðarinnar ber sig sæmilega og áður en hin nýja tækni hefur tekið til starfa og reynslan hefur fellt um það sinn dóm, hvort með henni verði ekki auðið að halda uppi óbreyttu kaupi, enda þótt verðlag framleiðsluvörunnar falli. Krafan um kauplækkun, áður en hin nýja tækni er reynd, er fyrir það bæði ósanngjarnari og óskynsamlegri, að sú kynslóð, sem nú byggir Ísland, hefur sjálf hvað eftir annað reynt, að bætt tækni í framleiðsluháttum þjóðarinnar hefur reynzt fær um að gjalda verkalýðnum ekki aðeins hærra, heldur tvöfalt og jafnvel margfalt dagkaup. Hver einasti bóndi veit, að meðan kaupamaðurinn hjakkaði kargaþýfið með orfinu og ljánum, var afrakstur dagsverksins ekki nema lítill partur af því, sem nú er, þegar sláttuvélin fer yfir véltæk tún eða engi. Og alveg söm og enn mikilvirkari hefur breytingin orðið, hvað sjómanninn áhrærir, frá því er hann hélt um árina og dorgaði með handfærinu, þar til hann neytir orku sinnar og þekkingar á vélknúnum nýtízku fleytum með fullkomnustu veiðarfærum. Það er sjálfsagt of mikil bjartsýni að búast við einhverjum jafnmikilvirkum, nýjum gerbreytingum á atvinnulífi þjóðarinnar. En þess er þá ekki heldur þörf til þess að standa undir óbreyttu kaupi, þótt afurðaverðið falli eitthvað talsvert. Og hitt er engin goðgá að láta sér detta í hug, að mannsandinn hafi nú enn á ný unnið einhverja sigra á sviði þeirrar tækni, er við Íslendingar njótum góðs af í atvinnulífi okkar, og er raunar þegar vitað, að svo er. Skal ég ekki fara langt út í þá sálma, en þó benda á nærtækt dæmi frá okkur sjálfum.

Íslenzka ríkið hefur nýverið keypt af herstjórnum þeirra setuliða, sem hér dveljast, tæki, sem vel má vera, að séu nú orðin úrelt í þeirra augum, en fyrir okkur eru ný. Með þessum tækjum hafa afköst aukizt svo mikið í vegavinnunni, að nú vinnum við það verk fyrir 2 kr., er áður, meðan við höfðum eingöngu okkar gömlu verkfæri, kostaði okkur 12 til 15 kr. Þetta er lítill, en þó nokkuð talandi vottur um ágæti tækninnar. Og það er alveg áreiðanlegt, að svona verður ávöxtur hinnar nýju tækni á mörgum sviðum. Og fyrr en sannprófað er, hversu mikið framleiðslan eykst með henni frá því, sem nú er, þegar Íslendingar búa við gömul og úrelt tæki á flestum sviðum, verður ekki úr því skorið, hvað hægt verður að borga fyrir mannaflið. Það er eftir þeim úrskurði, sem við stjórnarliðar viljum bíða, áður en við gerum kröfur á hendur verkalýðnum um kauplækkun, því að fyrr er ekki heldur hægt að sjá, hvort yfirleitt er óhjákvæmilegt að gera slíkar kröfur.

Hitt er svo auðvitað stj. og stuðningsmönnum hennar ljóst eins og öllum öðrum, að ef dómur reynslunnar verður sá, að hin nýja tækni fái ekki risið undir óbreyttu kaupi, verður ekki hjá því komizt, að allir, — ekki bara þeir lágtlaunuðu, — heldur allir, sem framfæri hafa af framleiðslunni, verði að lækka kröfur sínar, því að til langframa getur engin þjóð búið við hallarekstur. En þá — og þá fyrst — er frambærilegt að gera þessa kröfu, og þá — og þá fyrst —, eftir að verkalýðurinn hefur séð, að í orði og á borði hefur allt verið gert, sem hugsanlegt er, til þess að halda uppi lífskjörum hans, mun verkalýðurinn vera reiðubúinn til að hlusta á og fara eftir slíkum óskum. Þetta er jafnaugljós sannleikur sem hitt er augljós firra að vera nú að hefja illvígar deilur um kauplækkanir, meðan engin veit, hvort kaupið þarf að lækka, og þá enn síður, hversu mikil lækkunin þyrfti að vera.

Það eru þessar tvær stefnur, sem nú er barizt um. Stjórnarandstæðingar segja: Niður með kaupið, — stríð við verkalýðinn. Stjórnarliðar segja: Peningana í nýsköpunina, — frið við verkalýðinn. Stjórnarandstæðingar vilja berjast við verkalýðinn, stjórnarliðar vilja berjast fyrir verkalýðinn.

Ég vil ljúka hugleiðingum um þessa hlið málsins með því að segja, að enda þótt svo kynni að fara, að ekki reyndist kleift að halda uppi óbreyttum lífskjörum í landinu, þá má enginn af því álykta, að stj. hafi fatazt tökin. Því fer mjög fjarri. Ef stefna stjórnarandstæðinganna hefði ráðið, hefðu hér, eins og ég sagði áður, hafizt illvígar deilur. Fjármunir þjóðarinnar hefðu þá eyðzt í þennan herkostnað. Hinir efnuðu yrðu snauðir, m.a. vegna þess, að ríkið mundi þá neyðast til að sjúga efni þeirra til sinna þarfa. Verkalýðurinn yrði lágt launaður við stopula vinnu.

Stefna stj. miðar hins vegar að því tvennu, að þegnum þjóðfélagsins haldist sem bezt á því, sem þeir hafa eignazt, og almenningi verði tryggð þau beztu lífskjör, sem auðið er með réttri hagnýtingu hins skjótfengna þjóðarauðs til nýsköpunar.

Stjórnarliðar vona, að með þessu takist að halda óbreyttum kjörum almennings. En þótt einhver afföll verði á þeim vonum, mun þjóðin vafalaust taka því með skynsemi. Og allir skilja, hversu þessi barátta stjórnarliða fyrir að halda uppi sem beztum kjörum almennings er miklu glæsilegri en baráttan, sem stjórnarandstæðingar vilja nú hefja við almenning og mun aðeins ryðja brautina fyrir fátækt og atvinnuleysi og þeim stórfelldu kauplækkunum, sem í það kjölfar sigla.

Hér í bænum er stefna stjórnarandstæðinganna manna á meðal oftast nefnd helstefna. Þetta er að sönnu ekki fagurt heiti, en þó sennilega því miður réttnefni, og er því gleðiefni, hversu fáa fylgjendur hún á. Hitt er einnig vitað, að hvað Framsfl. áhrærir, þá hefur hann villzt út á þá braut af nokkuð annarlegum ástæðum. Það er nefnilega ekki aðeins satt, heldur einnig sannanlegt, að til skamms tíma, þ.e.a.s., meðan Framsfl. gerði ráð fyrir að eiga sjálfur að taka þátt í stj. landsins, var hann á allt öðru máli. Þá var hann sannarlega framsækinn nýsköpunarflokkur og mjög ákafur að komast í það, sem hann nú kallar „keisarans nýju föt“, og gerast þá þar með eftir hinni nýju Framsóknarkenningu fjárhættuspilari og glæframaður, svo að notuð séu þeirra eigin orð um nýsköpunina.

Ég skal nú færa þessum orðum mínum stað. Eftir að umboðsmenn allra þingflokkanna höfðu í margar vikur setið að samningum um málefnagrundvöll fyrir myndun nýrrar ríkisstj., skrifaði Sjálfstfl. hinn 14. sept. s.l. hinum flokkunum bréf. Var þar dregin upp mynd af ástandi og horfum í þjóðfélaginu og lögð fram frumdrög að málefnasamningi fyrir myndun slíkrar stj. Varðandi nýsköpunina er svo að orði kveðið:

„Kappkostað verði, að innistæður landsmanna erlendis verði notaðar til að byggja upp atvinnuvegina, en eigi sem eyðslueyrir. Áætlun skal gerð um, hver atvinnutæki þurfi að fá, til þess að allir landsmenn geti, á venjulegum tímum, haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur. Ríkisvaldið skal hlutast til um, að nauðsynleg atvinnutæki verði keypt utan lands eða gerð innan lands svo fljótt sem fært þykir og með hliðsjón af því, að atvinnuleysi skapist ekki í landinu. Skulu tækin seld einstaklingum eða félögum, og skulu slík félög m.a. stofnuð að opinberri tilhlutun, ef þörf reynist. Að svo miklu leyti sem kostnaður við þessa ráðstöfun fæst ekki greiddur af venjulegum sköttum skal hann greiddur með lántökum, e.t.v. skyldulánum eða eftir atvikum skylduhluttöku í atvinnutækjum, miðað við fjáreign.“

Hér eru eins og menn sjá, dregnir frumdrættir að nýsköpuninni, sem nú hefur verið lögfest með l. um nýbyggingarráð. Hér er mörkuð skýrt og ákveðið sú stefna, sem stj. er mynduð um og Framsfl. ræðst nú gegn. Það er því einkar fróðlegt að fá að vita, hvernig Framsfl. svaraði þessu, meðan hann ætlaði sjálfur í ríkisstj. Það svar kom viðstöðulitið og hljóðaði þannig:

„Gerð sé áætlun um, hvaða atvinnutæki þurfi að fá, til þess að sem flestir landsmanna geti á venjulegum tíma haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, og enn fremur, hvaða framkvæmdir aðrar skuli gerðar með hliðsjón af því, að atvinnuleysi skapist ekki í landinu.

Ríkisvaldið hlutist til um, að nauðsynleg atvinnutæki verði keypt utan lands eða gerð innan lands svo fljótt sem fært þykir. Skulu atvinnutæki þessi seld einstaklingum, félögum eða rekin af ríkinu, ef starfsemi þeirra er þýðingarmikil fyrir þjóðarheildina eða mikinn hluta hennar. Skulu félög til þess að reka atvinnutækin stofnuð að tilhlutun hins opinbera, ef þörf reynist.

Að svo miklu leyti sem fjármagn til þeirra framkvæmda fæst ekki með venjulegum sköttum og eðlilegri eignajöfnun skal það fengið með lántökum, ef til vill skyldulánum eða eftir atvikum skylduhluttöku í atvinnutækjum.“

Svo mörg eru þau orð, og geta menn nú reynt að átta sig á, hvað það er, sem ber á milli ríkisstj. og þess Framsfl., sem á þessum tíma ætlaði sér að vera þátttakandi í ríkisstj. Ég skal reyna að sjá um, að þessi ummæli komist á prent, svo að menn geti borið þetta saman. En ég held, að það sé glöggur maður, sem finnur nokkurn mun á þessu, enda tók Framsfl. víðast hvar upp orðrétt orðalag Sjálfstfl.

En nú er öldin önnur, enda eru nú góð ráð dýr, því að Framsfl. hefur orðið utan við stj. Nú er það kallað þjóðlygi, sem þá var þjóðráð, og fjárglæfrar, sem áður hét fyrirhyggja.

Að sjálfsögðu reynir Framsfl. að finna eitthvað til þess að hylja nekt sína, eftir að hann hefur klætt sig úr því, sem hann kallar nú „nýju fötin keisarans“. En svo raunalega hefur tekizt fyrir Framsfl., að slæðan er nokkuð gagnsæ.

Vörn Framsfl. fyrir þessum snöggu, óvæntu og óverjandi sinnaskiptum er nú sú, að þó að nýsköpunin út af fyrir sig sé virðingarverð — og það meira að segja svo virðingarverð, að Framsfl. hefur verið að gera sig broslegan á þingi með því að reyna að gera yfirboð og heimta, að tafarlaust séu teknar nær 500 millj. kr. til nýsköpunarinnar í stað 300 millj., — þá sé þessi sama nýsköpun þó fjárhættuspil og glæfrar vegna þess, að ekki sé búið að tryggja nægilega kauplækkanir. En einnig í þessu efni rekur Framsfl. sig á óbilugan múrvegg sinnar eigin fortíðar. í nefndu bréfi Sjálfstfl. segir nefnilega um kaupgjaldið:

„Unnið verði. að því að koma á allsherjarsamningum um kaupgjaldið um land allt. Samið verði um núgildandi kaupgjald óbreytt. Þó verði einstakar breytingar gerðar til samræmingar, en þó hvergi svo, að vísitöluhækkun leiði þar af.“

Við þetta hafði Framsfl. ekkert að athuga, enda veit hann eins og allir aðrir, sem að samningunum stóðu, að í allar þær vikur, sem samningsumleitanirnar stóðu yfir, krafðist hvorki Framsfl. né neinir aðrir kauplækkana, heldur aðeins vinnufriðar, sem átti að vera keyptur fyrir kauphækkanir. Eina skilyrðið, sem sett var af hendi Framsfl. og annarra, var, að þessar kauphækkanir yrðu ekki svo miklar, að af þeim leiddi. vísitöluhækkun.

Ég hef nú leitazt við í sem fæstum orðum að gera tvennt í senn: skýra, hvað það er, sem fyrir stjórnarliðum vakir í þessum meginþætti málefnasamningsins, og jafnframt hrekja þær firrur, sem undir yfirskini gagnrýni hafa verið fram færðar til þess að reyna að telja kjarkinn úr þjóðinni og varpa skugga á stj. og stefnu hennar. Ég hef enn fremur sýnt fram á, að Framsfl. hefur skipt um stefnu í þessum mikilvægu málum, rétt eins og rjúpa skiptir um lit. Hér í bæ hefur enginn getað komið auga á nokkra frambærilega skýringu þessara óvæntu óhappafyrirbrigða aðra en þá, að Framsfl. felli dóma um málefnin út frá því eina fátæklega sjónarmiði, hvort hann á sjálfur að setjast í valdastólana eða ekki. Þessi dómur kann að þykja harður, en hann er réttur. Það vita allir þeir hv. alþm., sem hlustuðu á umr. um nýbyggingarráðið og heyrðu hv. 2. þm. S.-M., formann þingflokks Framsfl., neyðast til að játa það, sem skjallega lá fyrir og ég hef nú drepið á, nefnilega að Framsfl. aðhylltist nýsköpun án kauplækkana og með kauphækkunum, meðan hann sjálfur ætlaði í stj., þótt hann fordæmdi þetta nú niður fyrir allar hellur. Að sönnu gaf þessi virðulegi þm. þá skýringu, að ef Framsfl. hefði tekið þátt í stj., mundi hann hafa aðvarað þjóðina, í stað þess að vekja bjartsýni hennar. Er slíkt ekki vörn fyrir Framsfl., heldur, eins og allir sjá, hið mesta hallmæli, því að þótt reyndin kynni að sanna, að stjórnarliðar séu of bjartsýnir, er hitt þó miklu verra, sem formaður Framsfl. lýsir yfir, að flokkur hans háfi verið reiðubúinn til að kaupa ráðherrasætin því verði að aðhyllast stjórnarstefnu, sem hann trúði ekki sjálfur á.

Ég skal svo ljúka þessum þætti með því að segja, að ætti ég að lýsa núverandi stefnu Framsfl. í þessum málum í örfáum orðum, mundi ég gera það þannig:

Íslendingar eiga ekki að festa kaup á tækjum erlendis, meðan þeir eiga þess kost.

Síðar, þegar engin tæki eru fáanleg, eiga þeir að kaupa mikið af þeim.

Íslendingar eiga engin tæki að kaupa, meðan þeir eiga gnægð fjár.

Síðar, þegar þeim hafa eyðzt fjármunirnir í illvígar deilur og þeir eru orðnir snauðir, eiga þeir að kaupa mikið af tækjum.

— Það er þetta, sem Reykvíkingar kalla helstefnuna.

Mig langar að lokum að segja þetta við sjálfstæðismenn: Við höfum gert allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að koma á allsherjarfriði í þjóðfélaginu í því skyni að sameina alla í baráttunni fyrir framtíð íslenzku þjóðarinnar. Það tókst ekki. Framsfl. skarst úr leik.

Við hörmum, að ekki tókst að sameina þjóðina. En úr því að svo fór og svo er komið sem komið er, er bezt við séum þess minnugir, að við höfum ekki alltaf verið alls kostar ánægðir með baráttuaðferð Framsfl. og valdbeitingu hans. Má og vera, að með því að vera áhrifalaus nú um skeið, öðlist Framsfl. nokkurn þann vísdóm, er hann hefur því meira vanhagað um sem lengra leið á valdaferil hans. Gæti það reynzt íslenzkri stjórnmálabaráttu á komandi árum mikill ávinningur.

Við sjálfstæðismenn höfum nú gert bandalag við verkalýðsflokkana. Ég veit, að stöku maður í herbúðum okkar vantreystir einlægni þeirra. Sjálfur hef ég enga ástæðu til að taka undir þá tortryggni. Mér hefur reynzt vel að trúa því betra, þar til ég reyni hið verra. Ég held, að það sé góð regla og hollt ráð flokksbræðrum mínum og systrum til handa að leitast við að fylgja henni. Og þeir sjálfstæðismenn, sem telja, að með stefnuskrá stj. sé úr hófi tekinn upp málstaður verkalýðsins, skulu minntir á það tvennt, að hvort tveggja er, að stefna stj. miðar að því að tryggja hag allra þjóðfélagsþegnanna, og hitt, að sjálfstæðismönnum á að vera það fagnaðarefni að geta sýnt, að margra ára yfirlýsingar um umhyggju flokksins fyrir verkalýðnum voru ekki innantóm orð, heldur einlægni og alvara. Við höfum oft sýnt og munum enn sanna, að við skiljum og virðum lífsbaráttu bændanna. Okkur gefst nú betra færi en nokkru sinni fyrr til að sanna, að við metum einnig og virðum starf handarinnar við sjávarsíðuna.

Ég bið sjálfstæðismenn að gerast ekki sekir um þá höfuðfirru að láta glepjast af óheilindum þeirra, sem reyna að smeygja því inn, að Sjálfstfl. svíki stefnu sína með baráttunni fyrir sem beztum lífskjörum verkalýðsins. Sjálfstfl. er flokkur allra stétta. Það er frumskylda slíks flokks að berjast fyrst og fremst fyrir hagsmunum einmitt þeirra, sem verst eru settir í lífsbaráttunni. Hinir geta miklu fremur séð fyrir sér sjálfir. En fyrir það mega eigna- og athafnamenn treysta Sjálfstfl. öllum öðrum flokkum betur, að það er kjarni sjálfstæðisstefnunnar, að hagsmunum verkalýðsins og allrar þjóðarinnar sé bezt borgið með því, að eignarréttur og athafnafrelsi verði sem allra minnst skert.

Vera má, að örlagastund einkaframtaksins sé nú upp runnin hér á landi og hér í álfu. En stefnuskrá ríkisstj. setur því sjálfsvald.

Vilji einkaframtakið vera að verki, er því það frjálst. Stj. býður aðstoð sína. Dragi það sig í hlé, verður ríkið að sama skapi neytt til að taka skylduna á sig, ella er atvinna og velgengni almennings í húfi. Ég skora á einkaframtakið að velja rétt. Ég treysti því, að atvinnurekendur og aðrir eignamenn sýni nú og sanni, að það er ekki fyrst og fremst peningarnir sjálfir, sem þeir sækjast eftir og meta, heldur sá máttur, sem þeim fylgir til þeirra athafna og nýsköpunar, sem hinum sanna athafnamanni er í blóð borin.

Með þessu móti gerir efnamaðurinn skyldu sína við þjóðfélagið.

Með þessu móti og með þessu móti einu verndar eignamaðurinn sína eigin fjármuni.