28.02.1945
Sameinað þing: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (5903)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mér finnst hámarkið af þeim glundroða, sem ríkt hefur í fjármálum á þessu þingi, koma fram á þskj. 1180. Þar liggur fyrir að ákveða um lagafyrirmæli, sem eru ekki eldri en frá 10. marz 1944, hvernig þau skuli skýrð og hvernig því fé skuli varið. En svo þegar þeir, sem hafa fengið umboð eða vald til að ráðstafa fénu samkv. ákvæðum þessara l., vilja úthluta fénu út í allt annað en l. ákveða, þá koma nokkrir hv. þm. og bera fram þáltill. um, hvernig beri að skilja þessi l., sem þingið er búið að samþ.

Ég vil fyrst og fremst leyfa mér að minna á, að það er ekki ýkjalangt síðan samþ. var hér á þingi þáltill., sem fór í nokkuð svipaða átt, þannig að hún átti að ákveða, hvernig skyldi fara með ákveðið mál gegn landslögum, sem voru í gildi. Þá var á það bent, m. a. af mér, að svona málsmeðferð mætti ekki eiga sér stað, en því var ekki neitt sinnt, og svo hefur gengið um það hæstaréttardómur, og hann féll vitanlega þannig, að lagafyrirmælin voru látin gilda fram fyrir þál., og hér mun eins fara, að þótt þessi merkilega þáltill. verði samþ., þá mun n. ekki láta sér detta í hug að taka það til greina, þó að þar standi ákvæði þvert ofan í fyrirmæli l. (EystJ: Vill hv. þm. færa rök að þessu?) Já, ég er að gera það, ég á hér við Bifreiðaeinkasölu ríkisins. Það var ákveðið að taka valdið af ráðh. með þál., en það var dómur hæstaréttar, að sú þál. gæti ekki haft eins mikið gildi og ákvæði bifreiðasölulaganna, sem gáfu ráðh. fullt vald yfir því máli. Eins er hér. Þessi till. getur ekki, þó að hún verði samþ., undir neinum kringumstæðum afnumið ákvæði l.

Ég held, að hv. flm. þessarar till. hljóti að sjá, að ef þeir vilja gera hér einhverja breyt., þá eiga þeir að bera fram breyt. á l. sjálfum, en ekki fara þessa leið.

Annars vil ég leyfa mér að upplýsa, af því að ég sit í þessari n. og þekki nokkuð, hvaða kröfur hafa komið fram, að aðeins frá einum manni af fimm hafa komið kröfur um, að styrkir og lán úr þessum sjóði skuli einnig ná til trillubáta eða opinna smábáta, og það er frá fulltrúa framsóknarmanna, en hinir eru sammála um, að það sé ekki hægt, nema l. sé breytt, og þess vegna hefur n. ekki séð sér fært að fara inn á að veita styrk eða lán til byggingar slíkra báta. Og ég fyrir mína parta mun ekki sjá mér fært að veita fé úr sjóðnum, meðan ég er í n., þó að þessi till. verði samþ., því að ég tel, að hún mundi ekki hafa sama gildi og l. sjálf.

Nú vil ég benda hv. flm. á, að samkv. 2. gr. getur enginn fengið styrk eða lán samkvæmt l., nema skip séu smíðuð samkvæmt teikningu, er atvmrn. hefur samþ. Ég hugsa, að aldrei hafi verið lagðar teikningar af trillubátum fyrir atvmrn. til samþykktar, því að ég hygg, að allt að því 100% af þeim trillubátum, sem smíðaðir hafa verið hér á landi, hafi verið smíðaðir án þess að nokkrar teikningar hafi verið gerðar af þeim. L. ákveða einnig, að sama gildi um vél skipsins og atvmrn. verði að samþ. vél skips, sem á að fá styrk eða lán úr þessum sjóði. Nú er það vitað, að langflestir af þessum trillubátum hafa benzínvélar, sem er ekki æskilegt, að sé hjálpað til að auka í landinu. Þær eru dýrar í rekstri, mjög endingarlitlar o. s. frv. Ég er algerlega á móti því, að fé ríkissjóðs sé notað til að styðja byggingu slíkra báta, og ef farið er inn á þá braut, þá er ómögulegt að vita, hvar verður staðar numið.

Ég vil enn fremur benda á, að í 3. gr. er ákvæði um, að umsókn skuli fylgja efnahagsreikningur umsækjanda. Það segir sig sjálft, að þegar þetta ákvæði var sett í l., var ætlazt til, að hér væri um að ræða fyrirtæki, sem hefðu sjávarútveg fyrir sína aðalatvinnugrein, en ekki menn, sem stunduðu vinnu eða rækjubúskap sem aðalatvinnugrein, en stunduðu sjó á trillu við og við til hjálpar við annan atvinnurekstur og hafa engan efnahagsreikning í sambandi við bátinn. (EystJ: Er ekki hægt að semja efnahagsreikning fyrir þennan mann, sem á trilluna?) Nei, það er ekki hægt að búa til efnahagsreikning fyrir þennan trillubát. Þessi bátur, sem hann fengi styrk til, er ekki til annars en að hjálpa honum í hans aðalatvinnugrein. Hv. 2. þm. S.-M. getur t. d. sent efnahags- og rekstrarreikning fyrir að sitja á þingi, en það kemur ekki málinu við, ef hann ætti að gera efnahagsreikning fyrir trillubát, sem hann ætti og notaði til að stunda sjó við og við.

Þá vil ég benda hv. þm. á það, sem hann virðist hafa gleymt, því að hann færði það fram sem rök fyrir máli sínu, að ekki væri hægt að lána úr fiskveiðasjóði, að ekki væri hægt að innheimta það aftur, ef það væri óhagstætt fyrir atvinnurekandann, en þetta er einnig í þessum l. Það stendur í 5. gr., að ef veitt hefur verið vaxtalaust lán, þá skuli innheimtu þess hagað þannig, að hennar vegna þurfi ekki að verða stöðvun á rekstri hjá hlutaðeigandi skuldunaut. (EystJ: Hvaða l. eru þetta?) Það eru l. um stuðning við nýbyggingu fiskiskipa. (EystJ: Það voru þau, sem ég vitnaði til.) Nei, og það er ekki hægt að veita til svona atvinnurekstrar, af því að það hefur aldrei verið ætlazt til þess, að svona atvinnurekstur kæmi undir þessi ákvæði. Ég mun því að sjálfsögðu greiða atkv. á móti till., og ég vænti þess fullkomlega, að hv. flm. till. taki hana aftur, því að þeir hljóta að sjá, að hún getur enga þýðingu haft fyrir málið sjálft m. a. af því, að hún getur ekki afnumið ákvæði l., sem í gildi eru og n. verður að halda sér að, svo lengi sem hún veitir þetta fé.

Ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að það fé, sem n. hefur þegar fengið til umráða, hefur þegar að miklu leyti verið ákveðið í sænsku bátana, og er því ekki mikið eftir í þennan atvinnuveg eða annan. Það getur að vísu verið, að n. fái til ráðstöfunar þær 5 millj., sem nú eru í fjárl. ætlaðar til hjálpar útveginum, en þó að það verði, þá breytir það engu um lagaákvæðin.

Þá vil ég leyfa mér að upplýsa, að forstjóri fiskveiðasjóðs var á fundi hjá n., og var málið ýtarlega rætt við hann. Hann upplýsti, að reynsla sín væri sú, að þegar trillubátaeigendur vildu fá lán, þá hyrfu þeir venjulega frá því aftur, ef það skilyrði væri sett, að þeir yrðu að vátryggja þessa báta til tryggingar láninu, af því að vátryggingin væri svo þung, þegar hún legðist ofan á vextina af fiskveiðasjóðsláninu, að þeir vildu heldur reyna að fá sér lán á annan hátt, en það er að sjálfsögðu frumskilyrði fyrir þessum lánum, að bátarnir séu vátryggðir. Og þá er spursmálið, hvaða greiði er gerður viðkomandi aðila að lána honum, þó að það sé vaxtalaust, ef á að skylda hann til að vátryggja eignina, sem kostar kannske allt að 12–15%. Þess vegna hefur forstjóri fiskveiðasjóðs reynt að fara aðra leið, enda hefur hann upplýst fyrir n., að hann muni nota áhættuféð úr fiskveiðasjóði til að mæta þörfum þessara manna, sem venjulega þurfa lánsfé eins og aðrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta, en ég mun greiða atkv. á móti till.