02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í D-deild Alþingistíðinda. (5953)

288. mál, starfskerfi og rekstrargjöld ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Þar eð hæstv. fjmrh. er lasinn í dag og getur ekki lýst áliti sínu, vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum um þessa till. Það var eitt af því fyrsta, sem stjórnin ræddi, eftir að hún settist á laggirnar, að nauður ræki til að freista þess að draga eitthvað úr rekstrarútgjöldum ríkisins. Þau eru orðin óhóflega há, og það er öllum athugulum mönnum áhyggjuefni, hvernig ríkið muni í framtíðinni fá risið undir þeim. Auk heldur þótti stjórninni nauður reka til, að hún hæfist handa um einhverjar aðgerðir í þessu efni, sem hún hafði gefið fyrirheit um að tryggja að að l. yrði frv., sem lagt hafði verið fram í Alþ. um launakjör opinberra starfsmanna, en það frv. fól í sér verulega hækkun á launakjörum þessara manna og þar af leiðandi aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Það hefur lengi verið vitað, að hjá því yrði ekki til langframa komizt að leiðrétta misræmi mikið, sem verið hefur í greiðslum ríkissjóðs fyrir vinnu þeirra starfsmanna, sem á vegum ríkisins vinna, og það hefur eðlilega einnig oft komið fram, að þegar sú leiðrétting yrði gerð og þau hækkuð útgjöld ákveðin, þá væri eðlilegt, að jafnframt væri leitazt við að hagnýta starfsorku þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, á hagkvæmari og tryggari hátt ríkinu til handa en verið hefur. Hitt er svo öllum ljóst, sem eitthvað hafa um þetta hugsað, að þetta er hægara sagt en gert, og það hlýtur því að vera gleðiefni fyrir ríkisstj., þegar hv. fjvn. hefur nú, án þess að ríkisstj. hafi sérstaklega óskað eftir því, lagzt á sveif með ríkisstjórninni í þessu veigamikla máli og lýst yfir skoðunum sínum um nauðsyn þess. Ef svo fer, sem ég vænti, að hv. Alþ. samþykki þessa till., þá fagnar ríkisstj. því að sjálfsögðu og telur, að Alþ., bæði einstakir alþm. og Alþ. sem slíkt, muni þá líka betur sætta sig við, þó að högg fyki nærri einhverjum með þeim till., sem ríkisstjórnin sæi sér fært að bera fram um hagnýtingu vinnuorkunnar og framkvæmd starfsins. Það er náttúrlega áreiðanlegt, að það verður ekki gert án þess að einhver missi einhver hlunnindi, og við þekkjum það í landi kunningsskaparins, að slíkt er allt orðið, en eins og ég sagði áður, er það siðferðislegur styrkur ríkisstj. til handa um þetta áhugamál hennar að fá samþykki Alþ., eins og nú væntanlega mun fást.

Hv. form. fjvn. gat þess, að það sama Alþ., sem nú ætti að samþ. heimild til ríkisstj. og hvatningu um samfærslu embætta og niðurlagningu einstakra starfa í sparnaðarskyni, hefði átt frumkvæði að því að fjölga hér embættum og auka nefndarstörf, og gengur það að sönnu í aðra átt en hér er farið fram á, en eftir að slík till. sem þessi hefur verið samþykkt, ætti að mega vænta, að það væri stefnuyfirlýsing Alþ. um, að það bæri að hafa meiri varkárni í frammi í þessu efni en þetta Alþ., sem nú situr, hefur sýnt. Það er að sjálfsögðu jafnframt áminning til okkar allra um, að þó að nokkur vandkvæði þyki á um framkvæmdirnar, þá verði menn að sætta sig við það.

Ég vil aðeins skýra frá því, að þegar ríkisstjórnin ræddi um þetta nokkru eftir að hún tók við völdum, voru í frammi uppástungur um að reyna að fá ákveðinn mann, sem er gerkunnugur öllu starfskerfi ríkisins, til þess að hafa þetta vandasama og ekki vinsæla verk með höndum, og ég hygg, að allir ráðh. hafi verið nokkuð sammála um, hver væri sérstaklega hæfur til þess verks, en ég tel því miður ekki mikla ástæðu til að halda í bili, að hann muni ljá sig til þess, en að sjálfsögðu verður nú ekki látið stranda á því, því að það kunna að finnast fleiri menn, sem gætu gefið stjórninni þær leiðbeiningar, sem hún helzt þyrfti að fá í þessu efni, og að öðru leyti mundi hún sjálf verða að vinna verkið. Án þess er hæpið, að henni vinnist tími til að gera það, eins og þörf væri á.

Út af 2. lið till. vek ég athygli á, að enda þótt hann sé að því leyti eðlilegur, að slík notkun véla á skrifstofum, sem þar er getið um, er að sjálfsögðu til vinnusparnaðar, þá kann að vera, að nokkrir örðugleikar séu í bili um öflun þeirra véla, og hefur það þegar komið í ljós að nokkru leyti, en verður nú reynt að verða sér úti um það. Að öðru leyti en þessu skal ég ekki ræða um till. né þær einstöku upplýsingar, sem þar koma fram, og lýk þessum fáu orðum með því að endurtaka það, sem ég hef þegar sagt, að stj. er það kært, ef Alþ. vill styðja þann tilgang, sem fyrir henni vakti og vakir, með því að samþykkja slíka till.