06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (6061)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal nú ekki fara að lengja svo mjög þær umr., er áttu sér stað um þessa till. um daginn.

Ég var búinn að gera þær athugasemdir við ræður manna, sem ég taldi ástæðu til, og þarf því ekki að ræða það frekar. Nú hefur mér borizt bréf frá útvarpsstjóra, dagsett 4. des., varðandi þessar umr., og hann fer fram á, að ég minnist þessa bréfs hér í umr., og þykir mér sjálfsagt að verða við þeirri ósk, og þá ekki síður vegna þess, að útvarpsstjóri hefur einnig skrifað Alþ. varðandi þessar umr. og getur þess þar, að hann hafi komið fram með vissa ósk til mín og hv. þm. Borgf. í þessu sambandi.

Útvarpsstjóri ræðir um það í þessu bréfi, að ég hafi gagnrýnt það í umr., að útvarpið flutti á plötu ræðu hæstv. forsrh., sem hann flutti hér við stjórnarskiptin, og ég hafi þá um leið gagnrýnt það, að útvarpið hafi fellt niður að minnast þess, að aðrir hafi við sama tækifæri gert athugasemdir af sinni hálfu.

Þetta er það, sem útvarpsstjóri telur, að komið hafi fram í umr. af minni hálfu, og fer fram á, að ég leiðrétti þetta, þar sem hann hafi látið geta þess, að eftir ræðu hæstv. forsrh. hafi komið yfirlýsing af hendi 5 þm., og enn fremur hafi þess verið getið, að ég hafi látið falla aths. eða kvatt mér hljóðs við það tækifæri.

Útvarpsstjóri hefði alveg getað sparað sér þessar bréfaskriftir, af þeirri einföldu ástæðu, að ég tók mjög greinilega fram í þessum umr., að það hefði verið getið um það í sambandi við flutning ræðu hæstv. forsrh., að aðrir hafi gert aths., en gagnrýndi hitt um leið, að þeirra aths. og þeirra skýrslur hafi ekki verið fluttar orðrétt eins og þær komu fram, eins og ræða hæstv. forsrh.

Það er þetta, sem ég gagnrýndi við umr., og hefði því útvarpsstjóri getað sparað sér þessar bréfaskriftir. Ég hef aldrei mótmælt því, heldur tekið greinilega fram, að getið hafi verið um þessar aths. og skýrslur, en aðeins mjög lauslega. Það er þannig sagt frá minni skýrslu um þetta efni um leið og ræða hæstv. forsrh. hafði verið flutt orðrétt: „Því næst kvaddi form. þingflokks framsóknarmanna sér hljóðs og lýsti því yfir f. h. Framsfl., að hann vantreysti því, að stjórninni tækist að leysa þau verkefni, sem hún hefði tekið á stefnuskrá sína.“ Með öðrum orðum, það er aðeins getið um eitt atriði af þeim, sem ég minntist á við þetta tækifæri, en þar rakti ég afskipti Framsfl. af stjórnarmynduninni og ýmsu öðru, sem hæstv. forsrh. drap á í ræðu sinni, sem hann flutti við þetta tækifæri og spiluð var í útvarpið orði til orðs.

Satt að segja fannst mér þannig haldið á þessum málum af minni hálfu í garð útvarpsstjóra, að hann hafi síður en svo haft ástæðu til þess að gera aths. við það; hefði miklu fremur mátt gagnrýna mig fyrir það að skella skuldinni á ríkisstj. að of miklu leyti við umr., og hefði mátt með réttu leggja meiri áherzlu á þann þátt, sem útvarpsstjóri sjálfur hefur átt í þeim yfirtroðslum á reglum útvarpsins, sem hér hafa átt sér stað. Vitanlega átti útvarpsstjóri að gagnrýna það efni, sem hann fékk frá skrifstofu forsrh., eins og annað efni, en svo virðist sem útvarpsstjóri hafi látið undir höfuð leggjast að gera því sömu skil og öðru, sem til fréttaskoðunar berst af því tagi.

Varðandi till. hv. 3. þm. Reykv. um að vísa þessu máli til stj., þá tel ég, að sú till. sé í mesta máta óviðeigandi, og ég er satt að segja undrandi yfir því, að hv. þm. skuli leggja þetta til, því að það þarf sterka heilsu til þess að neita því, að þeir atburðir, sem hér hafa gerzt í sambandi við fréttaflutning útvarpsins, eru þess eðlis, að full ástæða er fyrir Alþ. að athuga vel, hvort það á ekki einmitt nú að lýsa yfir stefnu sinni í þessum málum. Mér finnst tæplega hægt að mæla þessu í mót með fullum rökum. Og mér finnst það væri að bæta gráu ofan á svart í því, sem hér hefur gerzt, ef hv. Alþ. færi nú að gæla við þessa starfsaðferð og jafnvel ýta undir hana með því að vísa þeirri hógværu gagnrýni, sem hér hefur komið fram, til þeirrar ríkisstj., sem ámælunum hefur sætt, og a. m. k, að margra dómi með fullum rökum.

Ég vil því álíta, að það sé óþingleg meðferð í mesta máta að vísa málinu til ríkisstj., en eina þinglega meðferðin sé að vísa því til n. og það komi þar til athugunar, hvað n. vill gera í málinu.